Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er að tapa vinsældum á methraða. Stuðningur við hana hefur hrunið úr 74,1 prósentum um síðustu áramót í 49,7 prósent. Í fyrsta sinn nýtur hún stuðnings minnihluta þjóðarinnar samkvæmt könnunum Gallup. Alls hafa 24,4 prósentustig af stuðningi horfið.
Það er töluvert meira en allar aðrar ríkisstjórnir sem setið hafa eftir hrun hafa misst á fyrstu mánuðum sínum eftir valdatöku. Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tapaði 18 prósentustigum á sambærilegu tímabili og var með svipaðan stuðning og sú sem nú situr að því loknu, eða 47 prósent. Sú ríkisstjórn skreið í gegnum kjörtímabilið, undir lokin sem minnihlutastjórn, og var refsað grimmilega í kosningunum 2013.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tapaði 14,7 prósentustigum á fyrstu mánuðum eftir að hún tók við og mældist með 47,7 prósent stuðning þegar hún hafði setið jafn lengi og ríkisstjórn Katrínar hefur nú. Sú ríkisstjórn náði ekki að sitja út heilt kjörtímabil. Við tók líklega óvinsælasta ríkisstjórn lýðveldistímans, ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem mældist minnst með 30,9 prósent stuðning. Hún sat einungis í um átta mánuði en stuðningur við hana minnkaði þó aðeins um 12,7 prósentustig á þeim tíma.
Fylgistap Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er hins vegar vel innan skekkjumarka. Það sést vart högg á vatni á fylgi þeirra frá síðustu kosningum samkvæmt könnunum, enda kjósendur flokkanna tveggja sem byggðu upp allt stjórnkerfi landsins, og mönnuðu það með sínu fólki, hæst ánægt ef sem minnst breytist. Báðir eru fyrst og síðast valdaflokkar sem hafa náð miklum árangri við að sníða samfélagið að því sem hentar þeim.
Það er augljóst hver er tapari þessa stjórnarsamstarfs. Það eru Vinstri græn.
Sá flokkur hefur nú tapað rúmlega þriðjungi fylgis síns á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá kosningum. Það mælist 10,7 prósent samkvæmt nýjustu könnun Gallup og hefur ekki mælst lægra frá því í lok árs 2015. Fylgið er auk þess komið niður fyrir það sem það var áður en að Panamaskjölin voru birt vorið 2016, en spillingin sem lak af þeim gerði það að verkum að Vinstri græn, þá með áru heiðarlega flokksins, fengu mikla fylgisaukningu. Sú ára virðist horfin.
Að fullorðnast og skipta um persónuleika
Úr efsta lagi Vinstri grænna heyrðist ítrekað, í kjölfar síðustu kosninga, að það væri nauðsynlegt fyrir flokkinn að komast í ríkisstjórn. Að eina leiðin til að hafa áhrif væri að komast að völdum. Til þess þyrfti að gera málamiðlanir. Sú stærsta var auðvitað að fara í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, sem stendur fyrir samfélagsáherslur sem stór hluti kjósenda Vinstri grænna er á algjörlega öndverðu meiði við og vildi alls ekki sjá í ríkisstjórn.
Framan af kjörtímabilinu lét áhrifafólk innan flokksins í einkasamtölum eins og að Vinstri græn væru með einhverskonar hald á ríkisstjórninni vegna þess að Katrín Jakobsdóttir situr í stóli forsætisráðherra. Að hún geti í krafti þess embættis haldið aftur af þeim öflum innan samstarfsflokkanna sem vinna að málum sem eru að fullu ósamrýmanlegar stefnu Vinstri grænna. Að hún geti spilað á kallanna.
Og í dag er líklega öllum sem á horfa ljóst að Katrín er ekki að spila á neinn, heldur er spilað á hana. Mennirnir sem sitja í hennar skjóli, og í krafti hennar pólitísku inneignar, vinna pólitískra sigra dag eftir dag. Sjálf hefur hvorki Katrín, né Vinstri græn, varla unnið neinn slíkan frá því að þau settust að völdum. Að minnsta kosti engan sem eftir er tekið. Þess í stað hefur meginþorri tímans farið í að verja aðgerðir, athafnir og orðræðu sem Vinstri græn hafa hingað til skilgreint sig andstæða.
Að kyngja sannfæringu sinni
Flokkurinn hefur þurfti að verja setu Sigríðar Andersen í ríkisstjórn þrátt fyrir að nánast allir forvígismenn hans hafi lýst því yfir að embættisfærsla hennar í Landsdómsmálinu hafi verið röng og níu af hverjum tíu kjósendum flokksins töldu að hún ætti að segja af sér. Þegar Vinstri græn vörðu Sigríði vantrausti gengu þingmenn flokksins fram og viðurkenndu fúslega að eina ástæða þess væri sú að halda ríkisstjórninni saman. Sannfæring fékk að víkja fyrir praktískri málamiðlun.
Tveir þingmenn Vinstri grænna tóku síðan þátt í því að leggja fram frumvarp rétt fyrir þinglok sem fól í sér verulega lækkun á veiðigjöldum sem útgerðir greiða fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni. Innihald þess var þvert á yfirlýsingar Vinstri grænna fyrir kosningar, sem snérust um að hækka veiðigjöldin. Það lenti fyrst og síðast á forystumönnum Vinstri grænna að verja hina fyrirhuguðu lækkun, enda hinir tveir stjórnarflokkarnir mjög fylgjandi lægri álögum á útgerðina, og þar af leiðandi fullkomlega samkvæmir sjálfum sér.
Þótt frumvarpið hafi ekki farið í gegn mun sambærilegt verða lagt aftur fram í haust. Það mun líka innihalda tillögu um lækkun veiðigjalda á útgerðarfyrirtæki sem eiga saman hundruð milljarða króna í eigið fé eftir fordæmalaust góðæri síðastliðinn áratug. Og Vinstri græn verða aftur sá flokkur sem mun þurfa að verja þann gerning.
Kalt pólitískt sumar
Sumarið var Vinstri grænum sannarlega ekki auðvelt. Þá spratt enn og aftur upp óánægja vegna hvalveiða. Þær eru fyrst og síðast dýrt tómstundagaman eins manns sem situr uppi með fryst margra ára gamalt hvalkjöt upp á marga milljarða króna. Engin þörf er á hvalveiðum, útflutningsverðmæti afurðarinnar er langt frá því að svara kostnaði og eftirspurnin á innanlandsmarkaði er engin. Þau skapa neikvæða ímynd af Íslandi og valda erfiðleikum í samskiptum á alþjóðavettvangi, líkt og sýndi sig bersýnilega þegar veiddur var blendingshvalur nú nýverið.
Stjórnmálaflokkurinn Vinstri græn er á móti hvalveiðum samkvæmt landsfundarályktunum.
Þegar forsætisráðherra var spurð út í hvalveiðar á nýlegum NATO-fundi sagði hún að áður en að „ný ákvörðun verður tekin um áframhald þessara veiða þarf að ráðast í mat á sjálfbærni veiðanna, það er að segja umhverfismat, efnahagsmat og samfélagslegt mat.“ Það svar er ekki í neinum takti við stefnu flokks hennar sem er búinn að fara í gegnum sitt mat, og leggjast eindregið gegn hvalveiðum.
Aftur lendir það á Vinstri grænum að svara fyrir stefnu sem þau eru á móti, en er samt stefna ríkisstjórnarinnar sem þau leiða. Og aftur er svarið moðkennd málamiðlun til að rugga ekki ríkisstjórnarbátnum.
Það var Vinstri grænum heldur ekki auðvelt þegar kvennastéttin ljósmæður háði harðvítuga kjarabaráttu sem mætt var af miklu mótlæti af stjórnvöldum. Fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið spiluðu þar stóra rullu með yfirlýsingum og fréttatilkynningum sem ljósmæður mótmæltu harðlega og sögðu beinlínis rangar eða afvegaleiðandi. Formaður samninganefndar þeirra sagði samskiptin við samninganefnd ríkisins „ljótustu samskipti sem ég hef átt“ og að innan stéttarinnar væri ofboðsleg reiði sem risti djúpt gagnvart ríkisvaldinu. En Vinstri græn, flokkurinn sem ber ábyrgð á því að femínismi er orðin meginstraumsáhersla í íslenskum stjórnmálum, spilaði með.
Vertu velkomin meginstraumsútlendingaandúð
Ekki verður séð að fullveldishátíðin á Þingvöllum þann 18. júlí, sem kostaði 80 óskiljanlegar milljónir króna, dró að sér örfáa forvitna ferðamenn sem voru staddir á svæðinu fyrir slysni í stað þeirra þúsunda landsmanna sem af einhverjum ástæðum hafði verið búist við, og bauð upp á helsta frumkvöðul og hugmyndafræðing meginstraumsútlendingaandúðar á Vesturlöndum sem fyrsta erlenda aðilann til að fá að ávarpa þjóðþing Íslendinga, hafi farið vel í fylgismenn Vinstri grænna. Fundurinn sjálfur var agaleg framkvæmd og einhverskonar tákngerving þeirrar gjáar sem orðin er milli þings og þjóðar.
Réttlátara skattkerfi fyrir einhvern
Helsta niðurlæging Vinstri grænna er þó líklega sú sem er yfirvofandi í skattamálum. Í kynningu á fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem leiðtogar þeirra flokka sem skipa ríkisstjórnina stóðu að, kom fram að tekjuskattur einstaklinga eigi að lækka í neðra skattþrepi og geti lækkað um eitt prósentustig í áföngum á áætlunartímanum. Orðrétt segir þar: „Gert er ráð fyrir eins prósentustigs lækkun á skatthlutfalli neðra þreps.“
Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti myndu minnka um 14 milljarða króna við þá lækkun. Slík skattabreyting mun skila fólki sem er með meira en 835 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði þrisvar sinnum fleiri krónum í vasann en fólki sem er á lágmarkslaunum.
Í kosningastefnu Vinstri grænna fyrir síðustu kosningar sagði um skattamál að flokkurinn ætlaði „að hliðra til innan skattkerfisins til að gera það réttlátara. Kjör almennings verða sett í forgang og um leið stöðvuð sú þróun að þeir ríku verði áfram ríkari á sama tíma og aðrir sitja eftir.“
Það er erfitt að sjá hvernig hún rímar við það loforð að gera skattkerfið réttlátara og að stöðva þá þróun að hinir ríku verði ríkari.
Þingmenn Vinstri grænna reyndu með veikum mætti að spinna málið með því að segja að í raun ætti ekki að lækka neðra þrep tekjuskattsins um eitt prósentustig heldur ætti að létta skattbyrði af almenningi sem muni kosta það sama og prósentustigs lækkun.
Bjarni Benediktsson ítrekað hins vegar þá stefnu sem unnið sé eftir, að lækka neðra skattþrepið, í viðtali við Morgunblaðið 31. júlí. Þessi ummæli leiddu til þess að Katrín Jakobsdóttir sá sig tilneydda til að fara í viðtal í sjónvarpsfréttum RÚV þá um kvöldið og lýsa því yfir að yfirvofandi breytingar á skattkerfinu fælu fyrst og fremst í sér að skattbyrði yrði létt af lægstu tekjuhópunum. Það er augljóst að í þessu lykilmáli er engin sátt milli stjórnarflokkanna. Þeir tala sitt á hvað. Og einungis önnur stefnan verður ofan á. Sagan sýnir að allar líkur séu á því að Sjálfstæðisflokkurinn fái sínu fram.
Tapist þessi barátta, í máli sem Vinstri græn hafa lengi sett á oddinn, er ljóst að framundan er enn meira fylgistap. Enda óljóst hvers konar erindi flokkur á sem styður nær einvörðungu aðgerðir sem eru í andstöðu við yfirlýsta stefnu hans.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru að fá nákvæmlega það sem þeir kusu. En kjósendur Vinstri grænna eru að fá eitthvað allt annað.