Í janúar á þessu ári, eftir 10 ára starf, fékk kvenkyns hagfræðingur sem ég þekki verðskuldaða stöðuhækkun. Ég veit það fyrir víst að ákvörðunin að veita henni stöðuhækkunina var byggð á getu hennar. Hún er einstaklega vel gefin, hefur feiknamikla reynslu í sínu starfi og er bæði samvinnu- og samviskusöm.
Venjulega tekur það fólk með hennar hæfileika ekki 10 ár að fá sambærilega stöðuhækkun. Til að mynda um svipað leyti fékk annar ungur maður, í sama fyrirtæki, sambærilega stöðuhækkun. Hann hafði þó aðeins fimm ára reynslu. Þekki ég manninn einnig og veit að, þrátt fyrir að hann sé harðduglegur og hæfileikaríkur, kemst hann ekki með tærnar þar sem konan hefur hælana.
Ungi maðurinn fékk þó ekki stöðuhækkunina bara af því að hann er karlmaður. Á þessum vinnustað virkar það þannig að fólk þarf sjálft að sækja um stöðuhækkun og ef maður gerir það ekki þá er enginn séns að fá hana. Og er ég nokkuð viss um það að ef konan hefði sótt um fyrir fimm árum þá hefði hún fengið stöðuhækkunina.
Áður en konan sótti um stöðuhækkun þá ræddi ég þetta oft við hana, og hvatti hana til þess að sækja um. En hún var alltaf hógvær og sagði að „hún væri ekki undir það búin“ eða að „hún þyrfti meiri reynslu“. Sem sagt, það hægði á ferli hennar af því að hún var hógvær, og ekki nógu ýtin.
En þetta er ekkert einsdæmi. Ég sé þessa tilhneigingu allt í kringum mig: Karlar eru líklegri til þess að þenja út brjóstkassann og heimta stöðuhækkun. Ég meina, Sigurður Ingi er tæknilega séð yfirmaður Lilju Alfreðs. Og sama hvaða flokk maður styður þá veit maður það að sú hlutverkaskipting getur ekki verið á getu byggð.
Karlar halda að þeir geti aflað meira fjár en konur – allavega þegar kemur að hlaupum
Þegar þetta er skrifað ætla um 10.000 manns að hlaupa ýmsar vegalengdir í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Þar af eru tæplega 6.000 einstaklingar frá Íslandi. Það er eitt og sér er að sjálfsögðu geggjað, en það sem er þó enn þá geggjaðra er það að um 2.000 þessara hlaupara hafa samanlagt safnað meira en 80 miljónum króna fyrir góðgerðafélög eins og Alzheimersamtökin og Ljósið. (Og getur maður skoðað (og heitið á þá) á http://www.hlaupastyrkur.is.) Bravó!
Hver og einn safnari hefur sína eigin síðu á hlaupastyrk.is. Þar kemur fram hvaða vegalengd þeir ætla að hlaupa, hversu miklu þeir hafa safnað og (sumir) setja sér fjármögnunarmarkmið (hversu miklum aur þeir ætla sér að safna). Og þar sem mér þótti þetta áhugavert ákvað ég að búa til smá forrit sem hlóð niður öllum þessum upplýsingum.
Það sem ég hafði helstan áhuga á voru markmiðin sem einstaklingar setja sér og hversu mikið þeir höfðu safnað. Markmiðin segja manni nefnilega eitthvað um það hversu öruggir um fjáröflunargetu sína einstaklingar eru; áheitin segja manni hversu mikil fjáröflunargetan raunverulega er.
Það fyrsta sem kom í ljós var ekkert sérstaklega sláandi: Meirihluti safnara (sem skrá markmið) virðast ofmeta fjáröflunargetu sína. En mismunurinn á getu og árangri er þó miklu meiri meðal karla: Þeir telja sig geta aflað um það bil 50% meira en konur (meðal markmið karla er um 119 þúsund) – en engin marktækur munur er á fjáröflunargetu kynjanna. Það er enginn munur er á fjáröflunargetu kynjanna, en karlar halda samt að þeir séu betri.
Hógværir einstaklingar gætu verið betri en þeir háværu
Konur eiga það til að fá ekki sömu tækifæri og karlar. Til dæmis eru aðeins 23 forstjórar 500 stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna konur, aðeins fleiri en forstjórar sem heita Jón (þeir eru 21). Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu, og eftir því hvaða sérfræðing þú spyrð þá færð þú mismunandi útskýringar: Sumir segja að þetta sé beint eða óbeint val; aðrir segja að þetta sé bein eða óbein mismunun; og einhverjir segja að barneignir spili stórt hlutverk. Og eflaust hafa allir eitthvað fyrir sér.
En ég held að það gæti líka verið, að öllu jöfnu, að konur séu einfaldlega ekki eins ýtnar og menn. Að sjálfsögðu eru til fullt af konum sem eru ýtnar og slatti af mönnum sem eru það ekki. En ef konur eru líklegri til þess að vera hógværari og ekki eins ýtnar og menn, þá gæti það haft einhver áhrif á ferðahraða þeirra upp metorðastigann – eins og var tilfellið með vinkonu mína.
Allavega vitum við það að þegar kemur að fjáröflun í Reykjavíkurmaraþoninu þá eru karlar bæði líklegri til þess að: Setja sér markmið; og ýkja þau, í samanburði við konur. En þótt markmiðin þeirra séu há, þá eru þeir ekki betri en konur í því að safna pening. Kynin eru bara jafn góð.
En þessi hugsunarháttur á sér eflaust ekki bara stað í söfnunum. Hann á sér, að öllum líkindum, einnig stað á vinnustaðnum. Því er það mikilvægt að atvinnurekendur séu varir um sig næst þegar útblásinn brjóstkassi kemur inn á kontór og heimtar stöðuhækkun, því það gæti verið hógværari, en hæfari, einstaklingur sem á sama tíma lemur á lyklaborðið sitt, samviskulega í hljóði, sé betri kostur en sá sem „tekur sitt“.