Það hefur farið líkt og spáð var á þessum vettvangi fyrir fyrir rúmum þremur mánuðum að ákveðin þjóðernisleg afturhalds- og einangrunaröfl hafa, með því að bera fyrir sig fullveldis- og sjálfstæðisrök, hafið skýra vegferð um að reyna að koma Íslandi út úr samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Leiðin sem þessi hópur hefur valið fyrir þessa vegferð er í gegnum innleiðingu hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Og taktíkin er sótt beint í handbækur forgöngumanna Brexit eða í glundroðastjórnmál Donald Trump, þar sem sannleikurinn er ekkert annað en truflun í vegferð að skilgreindu markmiði.
Nú skal tekið strax fram umræddur orkupakki hefur engin áhrif á Íslandi á meðan að landið er ekki hluti af evrópskum orkumarkaði, sem gerist ekki nema að héðan verði lagður stærsti sæstrengur í heimi. Og skyldi sá sæstrengur verða lagður, sem er í besta falli mjög ólíklegt, lægi hann til Bretlands, sem verður farið úr Evrópusambandinu næsta vor.
Í minnisblaði sem lögmaðurinn Ólafur Jóhannes Einarsson, áður framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), gerði fyrir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og birt var opinberlega 17. apríl, kom skýrt fram að þriðji orkupakkinn haggi enn fremur í engu heimildum íslenskra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum og rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar.
Misskilningur leiðréttur
Auk þess kom fram í minnisblaðinu að Samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila (ACER) myndi ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við fyrirkomulag leyfisveitinga og stjórnsýslu hér á landi, engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum hérlendis og að við upptökuna yrðu allar valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum ekki hjá ACER heldur ESA. Með öðrum orðum hefur þessi evrópska eftirlitsstofnun engin eiginleg áhrif á Ísland.
Nýverið hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagt sitt lóð á vogarskálarnar og bent á að misskilnings gæti hjá þeim sem telja að innleiðing orkupakkans geti opnað á að yfirráð yfir orkuauðlindum fari til Brussel. Hann hefur auk þess sagt að Eftirlitsstofnun EFTA hafi virkað sem svipa til að hjálpa til að fá hærra verð fyrir raforkusölu til stóriðju, sem kaupir um 80 prósent af öllu rafmagni sem framleitt er hér á landi, og í því tilliti haft mjög jákvæð áhrif á framlegð Íslands af þeirri sölu. Björn velti í kjölfarið upp þeirri spurningu „hvort talsmenn stóriðjufyrirtækja hafi skipað sér í fremstu röð í þessari deilu.“
Staðreyndir skipta litlu
En staðreyndir skipta oftast litlu þegar menn eru í vegferð. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hélt því til dæmis fram fullum fetum í norskum og íslenskum fjölmiðlum í upphafi árs að í orkupakkanum fælist framsal á fullveldi landsins til ACER. Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, hefur sagt að stjórnarskrárbrot gæti falist í mögulegri aðild Íslands að ACER. Og Sjálfstæðisflokkurinn fann tilefni til þess að setja eftirfarandi inn í landsfundarályktun sína orkumál: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“ Þess ber að geta að það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, áðurnefnd Þórdís Kolbrún og Guðlaugur Þór Þórðarson, sem bera ábyrgð á annars vegar málaflokknum sem er undir og hins vegar á innleiðingu orkupakkans.
Fleiri einangrunar- og þjóðernissinnar, hafa runnið á lyktina. Þar ber helst að nefna Miðflokkinn, sem samþykkti í landsfundarályktun sinni að fram ætti að fara „óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í EES samstarfinu og sækjast eftir breytingum á samningnum eða segja sig frá honum.“
Valhöll hertekin
Umræðan hefur fengið að stigmagnast í sumar og hún náði einhverskonar hámarki á fjölmennum fundi sem hverfafélög Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavíkur boðuðu til síðastliðið fimmtudagskvöld í aðalsal Valhallar, höfuðstöðva flokksins. Þar var komið saman gamla Ísland, hvítir karlar sem eru vanir að ráða því sem þeir vilja ráða og kjósa að hafa samfélagið þannig. Þessi hópur tók Valhöll í gíslingu, án þess að lýðræðislega kjörin forysta flokksins væri viðstödd.
Inntakið var fortakslaus hræðsluáróður sem á sér enga innstæðu og fundurinn samþykkti að lokum eftirfarandi ályktun: „Fundurinn skorar eindregið á forystu Sjálfstæðisflokksins að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þeim grunni að hann stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar, opnar Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækkar verð á raforku og afleiðingar til langs tíma eru óvissar.“
Runnið á lyktina til að skapa glundroða
Það er augljóst að tækifærissinnaðir stjórnmálamenn, og fyrrverandi valdamenn í tilvistarkreppu, ætla sér að reyna að færa Evrópuumræðu á Íslandi frá því að ræða um inngöngu í sambandið í átt að því að yfirgefa EES-samninginn. Í þessari vegferð ætla þeir að slá um sig með orðum eins og fullveldi, sjálfstæði, landráð og Icesave.
Valdir fjölmiðlar spila líka með. Þar ber helst að nefna Útvarp Sögu og svo áðurnefnt Morgunblað, sem hefur tapað rúmlega 1,8 milljarði króna af sérhagsmunapeningum hið minnsta frá því að nýir eigendur tóku við blaðinu snemma árs 2009, og völdu að beita því til að fá önnur tök á umræðunni. Meðal annars tök sem fela í sér stanslausan áróður gegn þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi.
En það felst ekkert fullveldi eða sjálfstæði í afturhaldi eða samþjöppun valds hjá fámennri og einsleitri valdaklíku. Þvert á móti.
Það er staðreynd að ekkert eitt hefur fært Íslandi og Íslendingum meiri lífskjarabata en aðildin að innri markaði Evrópu í gegnum EES-samninginn. Landsframleiðsla hefur sexfaldast, mannréttindasáttmáli var fullgiltur, frelsi til athafna, ferða og viðskipta tók stakkaskiptum og eðlisbreyting hefur orðið á rétti neytenda. Við værum ekki með 2,7 milljónir ferðamanna á ári ef ekki væri fyrir frjálst flæði fólks frá Evrópu, við værum ekki að flytja út allar þær vörur sem við erum að gera í sama mæli ef ekki væri fyrir aukaaðild okkar að Evrópusambandinu. Við værum ekki að fá rúmlega einn Kópavog af innflytjendum, að langmestu leyti frá Evrópu, til að koma hingað og vera undirstaðan í góðærinu okkar og lífskjarabata.
Í raun má segja að erfitt sé að telja upp eina einustu reglugerð sem Íslandi hefur verið verið gert að innleiða í íslensk lög sem hefur ekki gert líf almennings betra en það var áður.
Skjótasta leiðin til að draga úr lífsgæðum
Auðvitað erum við Íslendingar enn dálítið sér á báti með gjaldmiðil sem kostar okkur svimandi háa vexti í öllum alþjóðlegum samanburði og efnahagssveiflur sem heimila stjórnmálamönnum agaleysi við stýringu á þjóðarbúskapnum, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á venjulegt fólk. Við búum líka við ákveðinn lýðræðishalla vegna þess þess að Ísland situr ekki við ákvörðunartökuborðið í Evrópu, heldur er með aukaaðild að sambandinu, og stjórnarskránni okkar hefur ekki verið breytt í takti við vilja fólksins með þeim hætti að hún heimili það sjálfsagða en takmarkaða valdaframsal sem felst í þátttöku í markaðsvæddu alþjóðasamfélagi. Um þessa hluti ættum við að vera ræða þegar kemur að Evrópusamstarfi. Hvort við viljum auka það og efla þátttöku okkar í því, ekki hvort við ættum að draga okkur út úr því.
Ljóst er að stuðningsmenn þess að 353 þúsund manna Ísland sé frjálst, framsækið, alþjóðlegt, frjálslynt og markaðssinnað ríki sem leggur áherslu á jafnræði tækifæra og telur hag sínum betur borgið sem hluti af 500 milljón manna markaði án tollamúra ættu að geta tekið undir þau orð. Og hafnað því með skýrum rökum að við tökum skref til baka í átt að því að vera einangrað örríki sem hefur enga getu til að reka tvíhliðaviðskiptasamninga við öll okkar helstu viðskiptalönd sem gætu skilað okkur meiru en EES-samningurinn.
Áðurnefndur Björn Bjarnason leiðir nú starfshóp sem á að vinna skýrslu um kosti og galla EES-samningsins. Skynsamleg afstaða hans gagnvart hinni afvegaleiddu umræðu um innleiðingu orkupakkans gefa góð fyrirheit um þá nálgun sem sá hópur mun vonandi taka. Það blasir enda við að okkar eigin Brexit, Ísexit úr EES-samningnum, væri skjótasta leiðin til að draga úr lífsgæðum landsmanna sem hægt væri að fara.