Um aldamótin 2000 mótaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins stefnu um einkavæðingu ríkisbankanna, Landsbankans og Búnaðarbankans. I kjölfarið unnu bankarnir, ríkisstjórnin og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ötullega að Útrásinni svokölluðu. Bankarnir áttu að sækja markvisst inn á erlenda fjármálamarkaði og gera Ísland að einni af öflugustu miðstöðvum fjármálaumsvifa í heiminum. Í þessu skyni opnaði Landsbankinn til dæmis sérstaka innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi þar sem boðið var uppá betri kjör en almennt tíðkaðist. Reikningarnir þóttu skjótt vænlegir til ávöxtunar og bankinn var almennt talinn öruggur, enda um norrænan og þar með traustan banka að ræða. Þessir reikningar fengu síðar heitið Icesave-reikningar.
Í Hruninu í október 2008 urðu allir íslensku bankarnir gjaldþrota. Samanlagt var gjaldþrot þeirra hið þriðja mesta bankagjaldþrot í sögunni. Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi greiddu eigendum Icesave-reikninga innistæður þeirra og gerðu síðan kröfu á hendur íslenska tryggingarsjóðnum og íslenska ríkinu um endurgreiðslu. Samtals var krafan á gengi íslensku krónunnar á slitadegi Landsbankans, 22. apríl 2009, um 671 milljarður íslenskra króna.
Hrunið - Rof á Samfélagssáttmálanum
Íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir nær óleysanlegum verkefnum eftir Hrunið – ekki síst þeim að semja við Breta og Hollendinga um Icesave kröfur þeirra. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn gerði nánast að skilyrði fyrir lánveitingum að Íslendingar næðu slíkum samningum. Sama gerðu norrænu þjóðirnar. Traust nágrannaþjóðanna og Bandaríkjanna á Íslandi var við frostmark og torveldaði öll samskipti landsins við umheiminn.
Íslensk stjórnvöld milli steins og sleggju
Ríkisstjórn Samfylkingar og VG var í mjög þröngri stöðu til að semja um Icesave. Annars vegar var krafa Breta og Hollendinga um bætur vegna greiðslna þeirra til innistæðueigenda vegna Icesave. Samningsstaða þeirra gegn Íslendingum var sterk, ekki síst vegna stuðnings frá alþjóðlegum fjármálastofnunum. Hins vegar stóðu íslensk stjórnvöld gagnvart sundraðri og reiðri þjóð sem taldi sig svikna í tryggðum af eigin valdhöfum. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra naut að vísu víðtæks trausts almennings en varla til að semja um að Íslendingar greiddu, ofan á allt annað, skuldir sem íslenskir bankamenn höfðu stofnað til erlendis. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, var heldur ekki í neinni stöðu til að gegna forystuhlutverki í Icesave-samningum. „Guðfaðir útrásarinnar“ hafði til að mynda stuttu fyrir Hrun gert sér sérstaka ferð til Evrópu til að fullvissa umheiminn um að efasemdir um styrkleika íslensku bankanna væru algjörlega úr lausu lofti gripnar.
Forsetinn staðfestir Icesave-lög
Þrátt fyrir slæma samningsstöðu Íslands þurfti að ná samningum um Icesave. Í ársbyrjun 2009 var skipuð sérstök samninganefnd og var Svavar Gestsson, sendiherra, formaður; einnig sátu í nefndinni fimm aðrir íslenskir embættismenn. Í júní 2009 var undirritað samkomulag við Breta og Hollendinga. Til mótmæla kom á Austurvelli þjóðhátíðardaginn 17. júní og í skoðanakönnun sagðist einungis fimmtungur svarenda vera samþykkur samkomulagi ríkisstjórnarinnar en þrír af hverjum fimm sögðust á móti. Á Alþingi voru mjög skiptar skoðanir. Innan ríkisstjórnarinnar var meira að segja andstaða gegn samkomulaginu sem endaði með því að Ögmundur Jónasson sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra. Ljóst var að ekki yrði mögulegt að koma málinu óbreyttu í gegnum þingið. Var þá gripið til þess ráðs að Alþingi setti margvíslega fyrirvara við samþykkt sína við samningana. Þannig tókst að að fá meirihlutastuðning á Alþingi. Allir 34 stjórnarþingmennirnir greiddu atkvæði með en stjórnarandstaðan var klofin í andstöðu sinni; þingmenn Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar voru á móti en þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Bretar og Hollendingar höfnuðu fyrirvara Alþingis. Áfram var því ósamið í Icesave deilunni. Ríkisstjórnarflokkarnir voru að mestu samstíga um „sanngjarna“ samninga í málinu. Ljóst var að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins myndi ekki beita sér gegn slíkum samningi. Síðast en ekki síst lýsti forseti Íslands yfir að Íslendingar samþykktu „alþjóðlega samábyrgð“ að því gefnu að jafnframt yrði gætt að því að leggja ekki of miklar byrðar á herðar Íslendinga. Þannig var greiðsluskylda Íslendinga samþykkt með fyrirvara um að endurgreiðslurnar ógnuðu ekki lífsafkomu þjóðarinnar.
Forsetinn sem bjargvættur?
Svavarsnefndin hélt samningaviðræðum áfram og í október 2009 var undirritaður viðaukasamningur við fyrri samning við Breta og Hollendinga. Eins og áður þurfti Alþingi að samþykkja lagafrumvarp samningnum til staðfestingar.
Þingheimur og þjóðin öll skiptist í tvær fylkingar eftir afstöðu til „Svavarssamningsins“. Stuðningsmenn töldu samkomulagið ásættanlegt; leysa þyrfti deiluna til að endurreisn efnahagslífs og fjármálakerfisins gæti haldið áfram í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Andstæðingarnir sögðu aftur á móti að horfið væri frá fyrirvörum Alþingis og samkomulagið leggði takmarkalausar og íþyngjandi skuldbindingar á þjóðina. Virtir lögfræðingar töldu lög af þessu tagi ekki standast kröfur 40. grein stjórnarskrár „um skýra og afdráttarlausa lagaheimild”. Atkvæðagreiðslan í þinginu fór nánast algjörlega eftir afstöðu til ríkisstjórnarinnar: 33 þingmenn með en 30 á móti. Ríkisstjórnin stóð mjög löskuð eftir. Henni hafði mistekist að breikka stuðning við samkomulag út fyrir raðir stjórnarþingmanna. Einnig felldi Alþingi naumlega að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.
Samþykkt Alþingis var lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar eða synjunar. Ástandið í þjóðfélaginu var vægast sagt viðkvæmt - jafnvel eldfimt. Áfram ríkti mikið vantraust. Einungis 13 prósent þjóðarinnar treysti til dæmis Alþingi og fjögur prósent bankakerfinu. Búsáhaldabyltingin hafði hrakið ríkisstjórn frá völdum eftir Hrunið með kröftugum fjöldamótmælum. Staða Ólafs Ragnars var einnig orðin mjög veik. Um haustið 2009 treystu einungis um 20 prósent kjósenda forseta Íslands en tæplega helmingur vantreysti honum beinlínis. Opinberlega heyrðust raddir um afsögn „Útrásarforsetans“.
Hópur sem kallaði sig „InDefence“ tók upp mjög markvissa baráttu gegn samningnum. Farin var blysför að aðsetri forsetans á Bessastöðum og forsvarsmenn hópsins afhentu áskorun 58.000 einstaklinga – fjórðungs kjósenda - um að synja nýju Icesave-lögunum staðfestingar. Skoðanakannanir sýndu mikla andstöðu kjósenda við samninginn og mikill meirihluti vildi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ólafur Ragnar tilkynnti í sérstakri yfirlýsingu að hann hefði ákveðið að synja lögunum staðfestingar. Meginrök forsetans voru í fullu samræmi við röksemdir hans varðandi synjun hans á staðfestingu fjölmiðlalaganna frá 2004: Gjá hefði myndast milli þings og þjóðar. Þá væri stjórnarskrárbundið hlutverk forsetans að tryggja að þjóðin – ekki Alþingi – hefði lokaorðið.
Ýmsir fræðimenn – þar á meðal undirritaður – lýstu opinberlega yfir eindreginni andstöðu við ákvörðun forsetans; töldu fráleitt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárhagslegar skuldbindingar. Þar var meðal annars vísað til Kaliforníuríkis Bandaríkjanna þar sem kjósendur höfnuðu ítrekað tillögum um nauðsynlega skattahækkanir og færðu þar með ríkið á barm gjaldþrots þar sem ekki tókst að standa straum af lögbundnum opinberum útgjöldum.
Eftir á að hyggja tel ég að þessi afstaða fræðimanna hafi horft fram hjá víðtæku vantrausti almennings í garð stjórnvalda. Ólafur Ragnar hafði þarna einfaldlega ekki þá stöðu meðal þjóðarinnar að geta gengið gegn ákalli almennings um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnarflokkarnir – Samfylkingin og VG – gerðu afdrifarík mistök; fyrst með því skipa samninganefnd eingöngu skipaða íslenskum embættismönnum og þar að auki með formann án nokkurrar reynslu af flóknum þjóðarlánasamningum af þessu tagi. Í annan stað tókst ekki að koma á samvinnu við stjórnarandstöðuflokkana um tilhögun samningagerðar. Einnig má telja að innanfriði hefði beinlínis verið ógnað hefði forsetinn staðfest þessi Icesave-lög. Kveikiþráður almennings var mjög stuttur eftir Hrunið. Því sýnist mér óhætt að nefna Ólaf Ragnar Grímsson „bjargvætt þjóðar“ þegar hann vísaði þessum Icesave-samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lýðveldið tættist ekki í sundur.
Alþingi dró Icesave-lögin til baka. Þjóðaratkvæðagreiðsla fór engu að síður fram 6. mars 2010. Kosningaþátttaka var um 60 prósent; andvíg voru 98,2 prósent kjósenda en einungis 1,8 prósent vildu staðfesta lögin. Þjóðin talaði skýrt. Icesave-samningar voru aftur komnir á byrjunarreit.
Forsetinn sem skaðvaldur?
Allir stjórnmálaflokkar Alþingis samþykktu í janúar 2010 að leggja í viðræður við bresk og hollensk stjórnvöld um uppgjör vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Skipuð var fimm manna samninganefnd undir forystu Lee C. Buchheit lögmanns og sérfræðings í alþjóðlegum lánssamningum. Enginn úr fyrri samninganefnd, Svavarsnefndinni, átti þarna sæti. Standa skyldi að samningaviðræðum á nýjan hátt: Skapa samstöðu allra stjórnmálaflokka um samningsmarkmið og hafa þrautreyndan erlendan sérfræðing í forystu samninganefndar.
Skrifað var undir nýjan Icesave-samning þann 8. desember 2010 enda taldi samninganefnd Íslands að tekist hefði að ná fram þeim fyrirvörum sem Alþingi hafði sett fyrir samningum: Ábyrgð ríkisins var takmörkuð eins og kostur var og í raun eingöngu bundin við vaxtagreiðslur fram til til júní 2016 og þann hluta sem ekki hafði verið innheimtur úr búi Lannsbankans fram að þeim tíma. Næst var að leita samþykkis Alþingis – og forseta Íslands.
Þarna urðu kaflaskil í Icesave-deilunni. Samninganefnd Íslendinga hafði náð sameiginlegri niðurstöðu með Bretum og Hollendingum. Samkomulagið var lagt fyrir Alþingi og hlaut þar ítarlega umfjöllun. Niðurstaða þjóðþingsins var afdráttarlaus: nær 2/3 þingmanna greiddu atkvæði með samkomulaginu en aðeins þriðjungur var á móti. Einnig tókst að skapa nokkurn samhljóm milli meirihluta þings og þjóðar um lausn Icesave-deilunnar og væntanlega yrði þá hægt að snúa sér að öðrum verkefnum endureisnarinnar. Meðal þjóðarinnar voru sem fyrr mjög skiptar skoðanir um lausn deilunnar en talsverður meirihluti kjósenda var þó fylgjandi hinu nýja samkomulagi; um 57 prósent þeirra sem afstöðu tóku í skoðanakönnun voru fylgjandi því að Alþingi samþykkti samninginn en 43 prósent á móti.
Miðað við fyrri röksemdafærslu Ólafs Ragnars varðandi málskotsrétt forseta Íslands hefði mátt ætla að hann staðfesti hinn nýja Icesave-samning. Hann var efnislega í samræmi við fyrirvara þings og forseta frá 2009. Engin gjá var milli þing og meirihluta þjóðarinnar. Sátt var í sjónmáli í erfiðu deilumáli við nágrannaþjóðir.
Forsetinn gætti hins vegar ekki samkvæmni í embættisfærslu sinni heldur synjaði lögunum staðfestingar með sérstakri yfirlýsingu 20. febrúar 2011. Kjarninn í málflutningi hans var að þar sem forsetinn hefði áður vísað Icesave-samningi Alþingis í þjóðaratkvæðagreiðslu væri þjóðin orðin endanlegur löggjafi í málinu (sic!) Aftur skyldi því haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave-samning – sem var gert 9. apríl. Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar varð talsverður viðsnúningur á viðhorfum kjósenda og meirihlutinn (60 prósent) felldi hinn nýja samning úr gildi.
Af öllum málflutningi forsetans var ljóst að hann taldi að ríkisstjórn og meirihluti Alþingis hefði staðið sig illa í Icesave-deilunni; í milliríkjadeilum dygði engin linka. Í stað samninga ætti að skera úr ágreiningnum á vettvangi dómstóla.
Nú er ljóst af stjórnarskrá að málskotsréttur forseta Íslands er hvorki ætlaður til þess að tryggja framgang einkasjónarmiða hans né að minnihluti þings og þjóðar eigi rétt á þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg ágreiningsmál. Röksemdir Ólafs Ragnars um að forsetinn geti með réttu afhent þjóðinni löggjafarvald um úrlausn deilumáls í eitt skipti fyrir öll eru einnig – að mínu mati – rökleysa frá upphafi til enda.
Átök Ólafs Ragnars við ríkisstjórnina og meirihluta Alþingis styrktu stöðu hans en veiktu ríkisstjórnarflokkanna. Í maí 2010 treysti um fjórðungur kjósenda Ólafi Ragnari og endurkjör hans 2012 virtist vonlaust. Eftir seinni synjun hans á Icesave-samningum og þjóðaratkvæðagreiðsluna batnaði staða hans hins vegar mjög, einkum meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Þeir kjósendur tryggðu honum endurkjör eftir harða kosningabaráttu í forsetakosningum 2012, en um 65 prósent stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins kusu þá Ólaf Ragnar Grímsson. Til samanburðar má nefna að í maí 2010 aðeins um fimmtungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins lýst yfir stuðningi við hann.
Að minni hyggju má líkja þessari framgöngu Ólafs Ragnars í embætti forseti Íslands við atlögu að farsæld íslenskrar þjóðar. Hún olli viðvarandi skaða á uppbyggingu eftir Hrunið. Forsetinn sýndi engan vilja til að brúa bilið milli andstæðra sjónarmiða; þvert á móti lagði hann eld að þeirri brú sem ríkisstjórn og Alþingi reistu með sameiginlegu átaki. Fótunum var kippt undan málefnalegri afstöðu formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, en Davíð Oddsson - andstæðingur allra samninga um Icesave - reistur úr pólitísku niðurloti.
Í stað niðurstöðu í erfiðu og viðkvæmu deilumáli kom tímabil hatrammra átaka, vantrausts og svikabrigsla. Hvert hneykslismálið eftir annað hefur skekið þjóðfélagið. Um áratug eftir hrun telja enn nærri 70 prósent kjósenda að spilling sé algeng meðal íslenskra stjórnmálamanna.
Endurreisn íslenska lýðveldisins miðar lítið sem ekkert.
Forseti Íslands sem örlagavaldur þjóðarinnar
Eftir andlát Sveins Björnssonar árið 1952 höfðu forystumenn Sjálfstæðisflokksins áttað sig á því að forsetaembættið væri pólitísk staða og að á „örlagaríkustu augnablikum” fari forsetinn „með meira vald og getur því ráðið meiru um framtíðarheill þjóðarinnar en nokkru sinni hefur verið á eins manns færi að gera, allt frá því land byggðist“.
Ástæðan fyrir miklum völdum forsetans er einföld: Íslenska stjórnarskráin er í meginatriðum byggð á stjórnarskrá konungsríkisins Danmerkur frá árinu 1849. Forseti Íslands er að vísu þjóðkjörinn, ólíkt konungi, en vald hans er engu að síður konungsvald. Rétt eins og í konungsríki eru engin ákvæði í stjórnarskránni um ábyrgð forsetans – nema að hann er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum ráðherra. Um beitingu 26. greinar stjórnarskrárinnar hefur forseti Íslands sjálfdæmi; ákvörðun um synjun eða staðfesting lagafrumvarpa frá Alþingi er engum takmörkunum háð.
Ólafur Ragnar Grímsson synjaði Icesave-samningi tvisvar og vísaði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í bæði skiptin var samningi hafnað. Í bæði skiptin var forseti Íslands örlagavaldur íslenskrar þjóðar: að mínu mati í hið fyrra sinni þjóðinni til heilla en í hinu síðara til mikils skaða. Við búum við þann skaða enn í dag.
Ríkissjóður Íslands, íslenskir skattgreiðendur, borguðu ekki krónu upp í Icesave-skuldina því þrotabú bankanna og Tryggingasjóðurinn reyndust borgunarmenn fyrir því öllu saman, reyndar eins og hafði verið búist við þegar í upphafi.
„Sá hlær best sem síðast hlær”, segir máltækið. Víst er að Bretar og Hollendingar gátu hlegið dátt; þeir töpuðu engu á því hversu seint gekk að gera upp Icesave-reikninga heldur fengu allt sitt með vöxtum og kostnaði. Öðru máli gegndi um Íslendinga. Í stað þess að semja með sæmd og víðtækri sátt innanlands var haldið uppi hatrömmum innanlandsátökum. Þau átök hindra enn uppbyggingu íslenska lýðveldisins eftir Hrunið. Forseti Íslands, æðsti valdhafi landsins, kaus ófrið þótt viðunandi samningur í erfiðri deilu væri í boði. Þarflaus ófriður er aldrei til góðs – hvorki einstaklingum né þjóðum.
Heimildir:
Indriði H. Þorláksson. 2016. „Upgjörið vegna Icesave“. Kjarninn –www.kjarninn.is - 2. maí.
Matthías Johannessen. 1981. Ólafur Thors – Ævi og störf II.
Sigrún Ólafsdóttir. 2017. „Er spilling alls staðar? Viðhorf Íslendinga til stjórnmálamanna“. Kjarninn – www.kjarninn.is – 25. október.
Svanur Kristjánsson. 2015a. „Forseti fólksins verður guðfaðir útrásarinnar“. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar 2004-2008”. Skírnir (vor).
Svanur Kristjánsson 2015b. „Hið nýja Íslands eftir Hrunið eða geðþóttavald forseta Íslands? Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar 2008-2012“. Skirnir (haust).
Svanur Kristjánsson. 2016. „Varðmaður gamla Íslands. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar 2012-2016“. Skírnir (haust).
Þórður Snær Júlíusson. 2018. „Almenningur treystir ekki þeim sem vilja ekki axla ábyrgð“. Kjarninn- www.kjarninn.is – 15. október.
Höfundur er prófessor emeritus í stjórnmálafræði.