Nú þegar nýtt ár, 2019, er að hefjast er gott að minna á það að Ísland er í einstakri efnahagslegri stöðu meðal þróaðra ríkja í heiminum.
Rúmlega áratug eftir hrun fjármálakerfisins, beitingu neyðarlaga og setningu fjármagnshafta, stendur ríkissjóður traustum fótum, og stoðir hagkerfisins hafa aldrei verið sterkari í sögu landsins.
Skuldastaðan við útlönd hefur aldrei verið betri. Samkvæmt bráðabirgðayfirliti sem Seðlabanki Íslands birti 3. desember síðastliðinn námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.380 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.012 milljörðum króna. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 368 milljarða eða 13,3 prósent af vergri landsframleiðslu.
Skuldastaða ríkissjóðs hefur líka batnað hratt.
Á meðan, út í heimi
Nú þegar tjöldin eru fallin á erlendum mörkuðum, hvað varðar umfangsmiklar innspýtingaraðgerðir seðlabanka í Bandaríkjunum og Evrópu, þá er staða Íslands öfundsverð. Vextir hafa farið hækkandi í Bandaríkjunum, en það hefur vitaskuld víðtækar afleiðingar vítt og breitt um heiminn, enda yfir 60 prósent af gjaldeyrisforða heimsins í Bandaríkjadal.
Í upphafi nýs árs hættir síðan Seðlabanki Evrópu formlega með áætlun sína um kaup á skuldabréfum á markaði en umfangið hefur verið með ólíkindum, eða sem nemur um 60 milljörðum evra í hverjum mánuði. Allt hefur þetta miðað að því að örva hagvöxt og ýta undir betri efnahagsstöðu í álfunni.
Ekki er ólíklegt að vextir hækki, og verðbólgudraugurinn láti sjá sig í Evrópu, með tilheyrandi tjóni fyrir almenning.
Brexit er stór óvissuþáttur fyrir Ísland, enda með öllu óljóst hvernig staða mála verður í Bretlandi þegar stóri dagurinn kemur, 29. mars. Þá mun Bretland yfirgefa Evrópusambandið, lögum samkvæmt. Nema eitthvað nýtt óvænt útspil komi fram, eins og Wild Card í borðspili. Það er ekki hægt að útiloka það, miðað við það sem hefur gengið á að undanförnu.
En stóra myndin er sú að viðskiptahagsmunir Bretlands eru þeir, að halda sem bestum tengslum við innri markaðinn í Evrópu, og raska ekki um of gangverki og forsendum viðskipta við önnur ríki. Ísland er þar á meðal og á mikla hagsmuni undir því að það takist að viðhalda góðu viðskiptasambandi.
Markaðurinn fékk ekki að leiðrétta sig
Smátt og smátt er að koma í ljós hversu öfundsverð staða Íslands er, í alþjóðlegu samhengi. Þar munar mikið um að vera með „hreina“ efnahagsreikninga í fjármálakerfinu, í samanburði við alþjóðlega fjármálakerfið. Neyðarlögin og höftin, ríkisvaldsaðgerðir til að koma í veg fyrir að „markaðurinn“ fengi að leiðrétta sig, björguðu Íslandi og lögðu grunninn að bjartri framtíð.
Það er ekki ósanngjarnt að gera þá kröfu til þeirra, sem vilja ekki ríkisinngrip - í það minnsta í orði - að þeir viðurkenni auðmjúklega innistæðuleysi hugsjóna þeirra. Markaðurinn getur ekki án ríkisins verið og hann getur ekki stjórnað sér sjálfur. Hrunið á Íslandi er gott dæmi um það.
Áhrifin af þessum fyrrnefndu aðgerðum eru djúpstæð en þau mörkuðu einnig veginn fyrir endurskipulagningu fjármálakerfisins og afnám haftanna, eins og þekkt er.
Ef vel tekst til, ætti Ísland að geta byggt upp afar spennandi og bjarta framtíð. Allar forsendur eru fyrir því.
Í þeim efnum mætti meðal annars að horfa til Noregs og læra af því hvernig norsk þjóð tókst á við áskoranir í efnahagslífinu á árunum 1960 til 1980. Þá fannst olía í norskri lögsögu og framsýnum stjórnmálamönnum bar gæfa til þess að nýta það fyrir almannahag.
Sömu sögu má segja um hvernig Norðmenn hafa byggt upp markaðsbúskap, þar sem hið opinbera er stór þátttakandi með einkafjárfestum og skráður markaður hefur verið notaður til að styrkja umhverfi fyrir ávöxtun fjármuna, með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Ísland hefur ekki olíuauðlindir, en það er til marks um hversu umfangsmiklar aðgerðir íslenskra stjórnvalda og seðlabankans hafa verið, eftir hrunið, að Ísland er í hálfgerðri forréttindastöðu á meðal þjóða nú um stundir.
Spurning um kaup og kjör
Þá vakna upp siðferðislegar spurningar um hvernig best er að skipta þjóðarkökunni og móta samfélagsgerðina til framtíðar.
Kjaraviðræðurnar sem nú standa sem hæst, eru að fara fram í þessu samhengi. Það er algjör óþarfi að mála upp forystufólk verkalýðshreyfingarinnar sem róttæklinga og öfgafólk, þegar það fjallar um ítrustu kröfur fyrir þá sem verst standa. Forystufólk verkalýðsfélaga á að tala máli þess fólks.
Í þeim aðstæðum sem hafa skapast á Íslandi er þetta eðlilegt og atvinnurekendur ættu að bera virðingu fyrir þessum röddum og horfa á stóru myndina, og hvað leiddi til stöðunnar. Stórfelld ríkisinngrip, pólitískar aðgerðir, voru þar á meðal. Sumir hópar komu verr út úr þessum aðgerðum en aðrir og má nefna ungt fólk. Kaupmáttarþróun þess hefur ekki verið í takt við aðra hópa, svo dæmi sé tekið.
Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, hefur bent á kaldan veruleika hagkerfisins, þar sem takast á þeir sem geta farið úr krónunni og svo hinir sem komast hvergi. Sigurvegarinn í þeirri baráttu verður alltaf sá sem getur hreyft sig og þá á beinan kostnað hinna. Verkalýðsforystan getur ekki afneitað þessum veruleika eða gert lítið úr honum, og það geta atvinnurekendur ekki heldur.
Það er styrkleiki að geta sett sig í spor annarra og í kjaraviðræðunum nú, ætti það að vera algjör forsenda fyrir því að taka þátt í samtalinu. Einstök staða Íslands gefur færi á því að ná þjóðarsátt um bjarta framtíð. Vonandi ber verkalýðsforystunni og atvinnurekendum gæfu til að átta sig á því, og semja með ábyrgum hætti um kaup og kjör.