„Nei, nei, þú ert ekkert búinn að tapa. Veðsettu Hlemm, gefðu mér svo allan peninginn þinn og gulu göturnar. Þannig getum við haldið áfram að spila“. Þessa setningu hefur hver sá sem hefur spilað vináttubrjótinn Monopoly heyrt eða sagt.
Venjulega fara setningar í þessum dúr að heyrast þegar andinn í kringum spilaborðið orðinn ansi slæmur. Eftir 10 mínútur af teningakasti eru örlögin í Monoploly venjulega ráðin. Allir við borðið vita hver vinnur og allir nema hann hefja hægt og smátt göngu sína í gröfina.
Hvað útskýrir það veit ég ekki. Kannski er það sjálfspíningarþörfin sem drífur þessar vinsældir. Eða mögulega er það einhverskonar ósamhverft gildisfall sem ræður ferð (það er að segja kannski fær fólk meira út úr því að pína aðra en það þjáist þegar það er pínt).
Mögulegt gildisfall Monopoly spilara |
Sama hvað því líður þá er það engin tilviljun að Monopoly er eins glatað og það er. Markmið Lizzie Magie, þegar hún hannaði spilið snemma á 20. áratug síðustu aldar, var að sýna fólki fram á það hvað einokun er ömurleg. Lizzie hannaði spilið eftir að hafa lesið bókina Progress and Poverty, eftir hagfræðinginn Henry George. Hún kallaði spilið reyndar Landlord´s Game en það var að mestu svipað og Monopoly eins og við þekkjum það í dag.
Monopoly var því aldrei hannað til a skemmta fólki. Heldur var það hannað til þess að kenna fólki um mikilvægasta þema hagfræðinnar: einokun. Lizzie langaði að sýna heiminum hversu ömurlega illa samfélagið fer út úr því þegar of mikið land (eða eignir) safnast á höndum örfárra einstaklinga.
Þegar þú lendir á gulri götu sem andstæðingur þinn á þá þarft þú að borga einhverja upphæð. Ef eigandinn á bara eina gula götu þá borgar þú einhverja þokkalega sanngjarna upphæð. Enda er eigandi götunnar ekki í einokunarstöðu. En um leið og einhver eignast heilan lit – og kemst þar með í einokunarstöðu – þarft allir að borga tvöfalt. Með tímanum fjárfestir svo einokarinn og aðlagar verðskránna sína með allskonar vafningum (sem flestir tengjast hótel framkvæmdum). Í hvert skipti sem einokarinn stækkar eignasafn sitt rukkar hann hina spilarana meira og meira fyrir aðgang og afnot af eignum sínum. Fljótlega er einn leikmanna kominn með slíka yfirburði að einn eftir öðrum við borðið missir lífsviljann.
Þessi kvöl. Þessi hjálparvana tilfinning sem þú upplifir þegar maki þinn neyðir þig til að veðsetja Lækjartorg og selja hús á hálfvirði er nákvæmlega það sem Lizzie ætlaði sér. Hún vildi að fólk sæi heiminn eins og hann er. Hún vildi að fólk vissi að án samkeppni verða ríkir ríkari og fátækir fátækari. Hún vildi vita að tilveran verður óþolandi þegar samkeppni deyr.