Hvalveiðiskýrsla Hagfræðistofnunar: Hvorki hinn heilagi sannleikur né samsæri Hvals hf.

Eikonomics rýnir í umdeilda hvalveiðiskýrslu. Og sest á grindverkið hvað varðar palladóma um hana.

Auglýsing

Í janúar gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út skýrslu varðandi þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Skýrslan, sem er rúmlega 50 blaðsíður og skrifuð á hagfræðsku, kemst að þeirri niðurstöðu að það sé eflaust þjóðhagslega hagkvæmt að veiða hval, að gefnum forsendum.

Móttökur skýrslunnar hafa verð blandaðar og vægast sagt ýktar. Stuðningsmenn hvalveiða hampa henni eins og nú sé komið vísindalegt plagg sem staðfesti nauðsyn greinarinnar geta hippar og önnur snjókorn hætta að ybba gogg. Andstæðingar hvalveiða urðu hins vegar öskuillir og láta eins og Hagfræðistofnun gangi eitthvað til og stofnunin sé í raun í fullri vinnu við að vernda sérhagsmuni Kristjáns Loftssonar.

Það er tvennt sem sameinar háværustu (oft sjálfskipaða) talsmenn þessara tveggja hópa: 1) oft hafa þeir greinilega bara lesið innganginn, og ekki alla skýrsluna; og 2) ef þeir hafa lesið hana hafa þeir ekki gert það af miklum skilningi (sem er eðlilegt þar sem hagfræðingar verða seint frægir fyrir aðgengileg skrif).

Auglýsing

Hvað er Hagfræðistofnun?

Hagfræðistofnun er eiginlega ekki stofnun, allavega ekki eins og við hugsum venjulega um stofnanir. Heldur er hún nokkur skrifborð á þriðju hæð í Odda þar sem fimm karlar vinna hagrannsóknir. Verkefnaval og rekstur stofnunarinnar er á herðum fimm manna stjórnar. Stjórnin er samansett af tveimur fræðimönnum við HÍ, einni fræðikonu við HÍ, fulltrúa hagfræðinema, og svo (af einhverjum ástæðum) framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga.

Markmið og tilgangur stofnunarinnar er nokkuð skýr en í meginmáli er hann að styðja við og byggja upp skilning okkar á hagkerfinu sem við köllum Ísland. Einnig ber þeim að sinna þjónustuverkefnum í hagfræði, sem skýrslan um hvalinn flokkast eflaust undir. Með öðrum orðum þá er hlutverk þeirra að vinna rannsóknir,  hjálpa öðrum með því að vinna rannsóknir og deila þessum rannsóknum með hinum og þessum.

Stofnunin reynir með besta móti að vinna faglegar rannsóknir, án utanaðkomandi áhrifa. Að sjálfsögðu er mannskepnan ófullkomin og þegar unnið er með ófullkomin vísindi er alltaf hætta á að eigin hugmyndir um heiminn liti rannsóknirnar. En Hagfræðistofnun reynir sitt besta – með ýmsum aðferðum, eins og ritrýningu – til að koma í veg fyrir það.

Því sama hvernig á það er litið, er starfsfólk stofnunarinnar ekki í lið með einni eða annarri fylkingunni. Þetta eru bara mannverur sem reyna bara að svara spurningum, sem oft er erfitt að svara.

Hvað segir þessi blessaða skýrsla?

Skýrslan er 50 blaðsíður af gröfum, töflum og texta á hagfræðsku. Ágrip skýrslunnar (samantekt í byrjun skjalsins), útskýrir ýkta hegðun stuðningsmanna hvalveiða. Þar stendur orðrétt að rök hnígi „til þess að hagkvæmt sé fyrir þjóðarhag að haldið verði áfram að veiða hvali“. Og það er vissulega rétt, en aðeins í því takmarkað samhengi sem skýrslan er skrifuð.

Ef skýrslan er aftur á móti öll lesin, þá kemur fljótt í ljós að þessi bati þjóðar veltur ekki á hvalveiðum sem slíkum, heldur frekar hvaladrápi. Það er að segja þessi mikli ábati á að verða til af því að: hvalur borðar fisk; minni fiskur er í sjónum; og útgerðin getur þar af leiðandi veitt og selt minni fisk. Og ef við drepum hvali verður meiri fiskur í sjónum fyrir útgerðina að veiða og selja svo til útlanda.

Einnig er það nokkuð skýrt í skýrslunni að hvalveiðar eru bæði áhættusamur og hálf (eða jafnvel full) glataður rekstur til að vera í. Til að mynda voru engar langreyðar veiddar árin 2016 og 2017 vegna veðurs. Árið þar á undan, sem var gósenár, veiddust 155 langreyðar, samt tapaði Hvalur hf. um það bil 100 miljónum. En Hagfræðistofnun er að sjálfsögðu fagleg og útskýrir þessa punkta í formi gagna og greiningar, en fara ekki leynt með staðreyndir.

Skýrslan hefur hlotið talsverða gagnrýni fyrir að taka hið flókna samband hvala og fiska út fyrir sviga. Stundum hljómar umræðan eins og Hagfræðistofnun sé að reyna að fela eitthvað. En svo er ekki. Í skýrslunni stendur skýrt að „erfitt [sé] að meta heildaráhrifin, vegna þess að vistfræðilegt samspil hvala- og fiskistofna er flókið.“ Að sjálfsögðu á gagnrýnin rétt á sér, en það rétt skal vera rétt: Hagfræðistofnun er ekki að reyna að blekkja einn eða neinn. Þeir eru bara að reyna að setja tölu á verðmæti hvalveiða.

Hvað hefði þessi skýrsla ekki átt að segja?

Á köflum á skýrslan til að sippa í gegnum mikilvægar forsendur sem hún gefur sér. Til að mynda er því haldið fram að gera megi „ráð fyrir því að stærðarhagkvæmni sé í hvalveiðum, þannig að arðsemi Hvals hf. aukist ef veiðar aukast.“ Það má vel vera, en engin tilraun er gerð í skýrslunni til þess að færa frekari rök eða sönnur á þessa ábendingu. Og er ef það er ekki gert er betra að sleppa því.

Einnig er stuttur kafli í skýrslunni, sem hefur heldur betur valdið fjaðurfoki, sem er erfitt að skilja hvaða tilgangi þjónar. Kaflinn fjallar um náttúruverndarhryðjuverkaógnina. Þó erfitt sé að segja, þá virðist tilgangur kaflans vera að gera grein fyrir þeim kostnaði sem fylgir því að veiða hvali, í formi aukinna líkinda á því að hryðjuverk verði framin. Það er að segja, ef hvalveiðar fela í sér aukna hryðjuverkaógn, þá dregur það úr þeim ábata sem hvalveiðar hafa í för með sér.

Ekki er mikið kjöt á kaflanum og draga höfundar rannsóknarinnar þá niðurstöðu að áhættan sé til en lítil og pæla svo ekkert meira í því. Því bætir þessi kafli engu við greininguna, en með honum gaf Hagfræðistofnun færi á sér, sem náttúruverndarinnar hafa nýtt sér til að gagnrýna skýrsluna.

Hvað hefði þessi skýrsla átt að segja?

Að öllu jöfnu er þessi skýrsla ágæt. Hún er skýr og reynir ekki að fela forsendur né draga úr þeirri óvissu sem útreikningum hennar fylgja. Hún átti svo sannarlega hvorki skilið þá trylltu gagnrýni né ofsafengna lof sem hún fékk. Það hefði þó svo mátt bæta skýrsluna og með því kannski losna aðeins við þá ýktu umræðu sem fylgdi henni.

Það fyrsta sem vantar í skýrsluna er í það minnsta einhver umræða, eða tilraun, til þess að meta verðmæti verndunar. Til að mynda hef ég óbeit á hvalveiðum (af tilfinningalegum, órökvísum ástæðum: hvalir > beljur), það væri því mikils virði fyrir mig, og mína líka, ef við hættum að slátra þessum undrafögru risum hafsins. Fullt af fólki er á sama máli og er því verndum líklega mikils virði fyrir samfélagið í heild sinni. Hagfræðingar, sérstaklega umhverfishagfræðingar, búa yfir tólum og tækjum til þess bæði að pæla í og mæla þennan bata. Og að þeim sé ekki beitt að einhverju leyti í slíkri skýrslu dregur hana vissulega niður.

Í öðru lagi, þá byggja útreikningar skýrslunnar og ráðgjöf hennar aðallega á því að drepa um 16 þúsund afræningja (hvali). Þessir útreikningarnir gefa sér það að hvalir hafi einungis neikvæð áhrif á aðra stofna. En eins og skýrslan bendir heiðarlega á er er samspil hvala og fiska alls ekki skýrt, því ber að taka útreikningum með fyrirvara. Edda Elísabet Magnúsdóttir, aðjúnkt í líffræði, lagði einnig áherslu á þetta í sinni gagnrýni og benti á að það gæti meira að segja verið að hvalkúkur hjálpi öðrum stofnum að vaxa of dafna. Því hefði verið ráðlegt ef Hagfræðistofnun hefði gert tilraun til þess að reikna óvissuna. Það er að segja, þeir hefðu kannski getað hringt í kollega sína, líffræðingana, og reynt að komast til botns á þeirri óvissu sem fylgir forsendum sínum og reiknað svo út batann út frá nokkrum sviðsmyndum.

Í þriðja lagi mætti Hagfræðistofnun reyna að gera efnið sitt aðgengilegra fyrir almenning, sérstaklega þegar það snertir svona marga og varðar svo viðkvæmt málefni. Til að mynda gæti stofnunin gefið út ótæknilega samantekt. Það er nokkrar blaðsíður sem útskýrir hvað var gert og hver var niðurstaðan, á máli sem hinir óhagfræðimenntuðu skilja vel.

Skýrslan er ágæt. Hún er heiðarleg tilraun heiðarlegra hagfræðinga til að reyna að magnfæra eitthvað sem er ótrúlega erfitt að magnfæra. Og það er hið besta mál. Skýrslan er ekki samsæri og heldur eru niðurstöður hennar ekki heilagar kýr. Skýrslan var ritrýnd af tveimur hlutlausum hagfræðingum, eins og venjan er. Kannski næst þegar Hagfræðistofnun skrifar um svo flókið málefni, sem að miklu leyti tengist líffræði, þá ættu þeir kannski að láta einn hagfræðing og einn líffræðing ritrýna skýrsluna, í stað tveggja hagfræðinga. Það gæti sparað smá drama.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiEikonomics