Sú staða sem nú er komin upp í kjaramálum kemur engum sem fylgst hefur með þeim undanfarin ár á óvart. Það hefur blasað við lengi að verkföll, með tilheyrandi allsherjarskaða fyrir samfélagið allt, væru lang líklegasta niðurstaðan. Hóparnir sem eru að eiga samtal eru ekki að tala sama tungumálið. Annar vill verja stöðugleika sem hinn telur að sé rót þeirra lífskjara sem umbjóðendum þeirra er skammtað. Annar ver kerfi sem hinn telur að sé beygt til að virka fyrst og síðast fyrir útvalda, en skilji stóra hópa eftir.
Efnahagskerfið er að kólna. Á því er enginn vafi. Lítið þarf út af að bregða til að það verði samdráttur í ár. Spár gera til að mynda ráð fyrir því að heildarsætaframboð til Íslands muni minnka um 800 þúsund frá því sem var í fyrra, eða um tíu prósent. Það þarf ekkert að vera hagfræðingur til að reikna gróflega út hversu víðtækar afleiðingar á alla anga ferðaþjónustunnar það mun hafa.
Og verkföll eða hærri launahækkanir en atvinnulífið ber munu líkast til leiða af sér atvinnuleysi og hærri vexti. Ef verðbólgan tekur hressilega við sér á sama tíma vegna lækkandi gengi krónu, sem er sannarlega ekki ólíklegt að gerist þegar innlendir og erlendir fjármagnseigendur fara að færa peninganna sína út úr íslenska krónurússíbananum í enn meira magni og í raunverulegan stöðugleika annarra mynta þar til að næsta uppsveifla hefst, þá mun þorri launafólks gjalda fyrir það með kaupmáttarrýrnun og hærri lánum. Við skulum nefnilega muna að 77 prósent heildarskulda heimila eru verðtryggðar.
Veisluborðið er hlaðið en það sitja ekki allir við það
Hvernig komumst við á þennan stað? Allar hagstærðir benda til þess að hlutirnir gangi svo vel. Það hefur verið blússandi hagvöxtur sjö ár í röð. Kaupmáttur launa hefur stóraukist á örfáum árum. Skuldastaða ríkissjóðs og heimila hefur tekið algjörum stakkaskiptum og heilbrigðari en nokkru sinni áður. Við sem samfélag erum með jákvæða eignastöðu við útlönd. Búið er að leysa úr flestum stóru efnahagslegu úrlausnarefnum bankahrunsins með jákvæðum hætti. Landsframleiðsla hefur aldrei mælst hærri. Tekjujöfnuður mælist mjög mikill í öllum samanburði. Út frá hagstærðum hefur staðan aldrei verið betri. Veisluborðið er að svigna undan skrauttertum og öðrum efnahagslegum kræsingum.
Nei, allt ofangreint er afleiðing. Viðbragð, ekki orsök. Hér hafa verið teknar pólitískar ákvarðanir sem hafa leitt af sér þessa stöðu. Þetta stríð. Og það sem blasir við okkur í dag er birtingarmynd þess.
Pólitískar ákvarðanir um að gefa sumum pening
Það er staðreynd að teknar voru stórpólitískar ákvarðanir hér eftir hrun um að hjálpa þeim sem áttu fasteign með peningum úr ríkissjóði, á sama tíma og byrðar jukust á þá sem áttu ekki kost á að eignast slíkar. Skýrasta birtingarmynd þess var Leiðréttingin. Í henni fólst annars vegar að færa 72 milljarða króna til eigenda fasteigna, að mestu til tekjuhærri og eignarmeiri hópa samfélagsins. Hins vegar fólst í henni að heimila þeim sem safna séreignasparnaði að nota hann skattfrjálst til að greiða niður höfuðstól lána sinna. Þeir sem nýta úrræðið eru fyrst og síðast tekjuhærri hluti þjóðarinnar. Fyrir um ári síðan höfðu atvinnurekendur ráðstafað á milli 15 til 16 milljarða króna inn á höfuðstól þeirra sem nýttu úrræðið. Um tæra launaviðbót er að ræða fyrir þann hóp. Og ríkið var á sama tíma búið að gefa eftir á bilinu 12 til 13 milljarða króna í skattgreiðslur til þessa sama hóps.
Samhliða því að ríkissjóður var að gefa þessum hópi peninga bötnuðu vaxtakjör gríðarlega, verðbólga var sögulega lág í mörg ár og ruðningsáhrif af ferðaþjónustu tvöfaldaði fasteignaverð. Eignafólkið, bæði stóreignafólkið í fjármagnseignastéttinni sem á milljarða, og stór hluti millistéttarinnar, hefur mokgrætt á þessu ástandi. Kaupmáttur þessa fólks hefur stóraukist og lífskjör þess batnað.
Pólitískar ákvarðanir um að skerða lífsgæði sumra
Á hinum enda húsnæðismarkaðarins er staðan allt önnur og verri. Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélag landsins, hefur árum saman ekki tryggt nægjanlegt framboð af íbúðum sem eftirspurn er eftir, þ.e. minni íbúðir fyrir tekjulægri einstaklinga. Þess í stað er offramboð á lúxusíbúðum í borginni. Höfuðborgin hefur þó reynt að gera sitt til að auka framboð á félagslegu húsnæði en er nánast eitt í að draga þann vagn. Það liggur ljóst fyrir að sveitarfélög eins og Seltjarnarnes og Garðabær vilja einfaldlega ekkert fá fólk sem býr í slíku húsnæði í nærsamfélagið sitt. Þau ætla ekki að leggja neitt að mörkum. Þetta eru allt pólitískar ákvarðanir sem hafa gert stöðu þeirra sem eiga ekki húsnæði og hafa minni ráðstöfunartekjur, verri.
Birtingarmyndir þess eru nokkrar. Til dæmis hefur leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu tvöfaldast á rúmlega átta árum. Á síðustu tveimur árum hefur það hækkað um meira en 30 prósent. Í könnun sem gerð var fyrir Íbúðalánasjóð í fyrra kom fram að þriðji hver leigjandi borgi meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir þeirra geta safnað sér sparifé vegna hás leigukostnaðar. Einungis 14 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar.
Þetta var hópurinn sem ríkissjóður valdi að gera ekkert fyrir eftir hrunið, og hefur haldið áfram að gera lítið fyrir síðastliðinn ár. Hópurinn sem var skilinn eftir. Hópurinn sem er núna að rísa upp og krefjast réttlætis og leiðréttingar á kjörum sínum.
Pólitískar ákvarðanir um að gera ekkert
Þá eru auðvitað ótaldar launahækkanir hálaunafólks. Þar ber fyrst að nefna hækkun launa þingmanna, og annarra helstu ráðamanna, í einu kasti á kjördag 2016 um rúmlega 44 prósent. Það var pólitísk ákvörðun að vinda ekki ofan af þeim launahækkunum þrátt fyrir að ráðamönnum hafi verið gert það mjög ljóst að ef það yrði ekki gert þá myndi það hafa gríðarleg áhrif á nú yfirstandandi kjarasamninga.
Næst koma þær ákvarðanir að færa vald yfir launum ríkisforstjóra til pólitískt skipaðra stjórna ríkisfyrirtækja sem ákváðu, þvert á tilmæli, að hækka þau laun um tugi prósenta. Fyrir hefur legið lengi að annað hvort þyrfti að trekkja þetta til baka ef það ætti ekki að hafa gríðarleg áhrif á nú yfirstandandi kjarasamninga.
Að síðustu verður að taka sérstaklega út ákvarðanir um laun þeirra sem stýra tveimur ríkisbönkum. Það er nánast vítavert að enginn hafi haft dug til að átta sig á afleiðingum þess að bankastjóri banka sem færðist yfir í ríkiseigu myndi áfram vera með í kringum fimm milljónir króna á mánuði í laun þrátt fyrir það, sem leiddi af sér að hinn ríkisbankastjórinn var hækkaður í launum um 82 prósent svo hann yrði samanburðarhæfur við þann fyrsta. Það er ótrúlegt að enginn hafi skynjað hvaða gríðarlegu viðbótaráhrif þessi hegðun myndi hafa á kjarabaráttuna, ekki bara vegna þess að launin eru allt of há og hækkanirnar úr öllum takti við raunveruleikann, heldur líka vegna þess að hvernig venjulegt fólk upplifir banka. Hvað það telur þá standa fyrir. Kannanir sýna nefnilega að meginþorri landsmanna treystir ekki bönkum og telja að þeir séu sjálftökufyrirbæri sem séu fyrst og síðast til fyrir fólkið sem vinnur í þeim. Að þeir séu spilltir og að þeir níðist á fólkinu sem þeir eigi að þjónusta, svo að starfsfólkið í bönkunum geti greitt sér hærri laun.
Pólitík er list hins gerlega
Það hefur myndast stéttaskipting á Íslandi. Um það er enginn vafi. Við erum með mjög ríka fjármagnseigendastétt sem hagnast meðal annars mjög á pólitískum ákvörðunartöku. Nægir þar að nefna til dæmis þá sem fá að nýta auðlindir þjóðar án hæfilegs afgjalds sem mæla nú auð sinn í hundruð milljarða króna, eða þá sem hafa fengið að færa peninganna sína inn og út úr krónuhagkerfinu til sanka að sér gengishagnaði og virðisaukningu í boði opinberra aðila.
Við erum með lágstétt láglaunafólks, einstæðinga, hluta lífeyrisþega og öryrkja sem nær ekki endum saman í velmegunarsamfélaginu. Og þar á milli erum við síðan með stóra millistétt sem hefur líka verið klofin í tvennt; í þá sem á fasteignir og og þá sem hefur ekki haft tök á því að eignast slíkar.
Niðurstaðan er togstreita milli stétta sem á sér fá fordæmi hérlendis, og birtist meðal annars í því sem nýir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar kalla stéttastríð.
Það er ekki ómögulegt að það takist að höggva á hnútinn í tíma, þótt það sé ólíklegt. Það reynir á stjórnmálakænsku ráðamanna, sérstaklega Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar, við að reyna það. Líklegt verður að teljast að lokaútspilið sem kynnt var í vikunni sé ekki jafn endanlegt og gefið var til kynna. Stjórnmál eru enda list hins gerlega og það hefði ekki verið klókt að spila öllum trompunum út í einu. Það verður að minnsta kosti að vona það.
Þrátt fyrir allt tal um að stjórnvöld eigi einungis að koma að lausn þessara mála með strásykri þegar búið sé að baka pönnukökuna þá blasir við að enginn önnur lausn er til staðar en einhverskonar þjóðarsátt, með ráðamenn í aðalhlutverki. Aðilar vinnumarkaðarins náðu því ekki. Þeim viðræðum var slitið í gær. Það eru verkföll í spilunum á allra næstu vikum.
Það er nefnilega þannig að allt sem hefur orsakað þessa stöðu eru afleiðing af pólitískum ákvörðunum sem mótað hafa samfélagið okkar, og fóðrað stéttastríðið. Þeim má snúa við með nýjum ákvörðunum.
Ákvörðunum sem gætu til að mynda verið byggðar á ráðleggingum Gylfa Zoega, prófessors í hagfræði, sem settar voru fram í skýrslu sem hann vann fyrir ríkisstjórnina í fyrrasumar. Þar sagði hann að við gerð kjarasamninga verði að taka tillit til fleiri þátta sem hafa áhrif á lífsgæði en launahækkana. Mörg tækifæri séu „til að bæta lífskjör því þau ákvarðast ekki aðeins af launum og neyslu heldur einnig t.d. húsnæðiskostnaði, vaxtarstigi og frítíma. Þannig gefist tækifæri til að bæta lífskjör án þess að skerða samkeppnishæfni útflutningsatvinnugreinanna, t.d. með því að lækka kostnað í bankakerfinu, bæta útreikning húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs sem notuð er til verðtryggingar, gera áætlun um að koma upp ódýru húsnæði fyrir yngri kynslóðir, breytingu á tekjuskattskerfinu í þágu lægri tekju hópa og styttingu eða aukinn sveigjanleika vinnutíma.“
Nú er boltinn kyrfilega hjá ríkisstjórninni. Hún verður að finna þjóðarsáttina og tryggja framgang hennar. Skorti hana getu eða dug til þess þá á hún ekki erindi. Og niðurstaðan verður tap fyrir okkur flest öll.