Hatari á sér tvö markmið: Að vinna Eurovision og knésetja kapítalismann. Kapítalistar hafa þó engin áform um það að knésetja Hatara. Fyrirtæki, stór og smá, hafa tekið þessum óvini sínum með opnum örmum. Pizzustaðir bjóða upp á 40% Hataraafslátt, Bónus svínið er komið með grímu og MS (sem reyndar er einokunarfyrirtæki, blessað af ríkinu og þar með óvinur kapítalismans, í liði með Hatara) hefur klætt kókómjólk í Hatarabúning. Meira að segja erlendir veðbankar hafa opnað markað þar sem einstaklingar geta veðjað á gengi Hatara í keppninni.
Hagfræðingar hafa lengi verið spenntir yfir veðbönkum. Sérstaklega hafa þeir gert sér von um að veðbankar geti hjálpað til við að spá fyrir um framtíðina. Því hafa verið þróaðar aðferðir til þess að taka veðmálastuðla og breyta þeim í líkindi. Oft eru þessir útreikningar áreiðanlegir, en þeim mun meiri óvissa sem ríkir um það sem veðjað er á, þeim mun minna upplýsingagildi hafa hin reiknuðu líkindi hagfræðinganna.
Það er erfitt að segja hvort Hatara takist að knésetja kapítalismann. Lítið er til af gögnum og ekkert fordæmi er fyrir því að keppendur Eurovision setji sér það markmið, hvað þá takist það. En kapítalistar í veðbönkunum, geta þó hjálpað okkur að fá betri tilfinningu fyrir því hvernig Hatara á eftir að vegna í hinu markmiðinu sínu: að vinna keppnina.
Til eru ágætis gögn yfir síðustu fjórar keppnir. Þar er hægt að sjá stuðla mismunandi veðbanka fyrir alla keppendur. Þegar gögnin eru skoðuð kemur það í ljós að veðbankar eru góðir í því að spá fyrir um það hverjir eiga eftir að standa sig almennt vel í Eurovison. Til að mynda hafa þeir getað sagt til um 16 af þeim 20 lögum sem komist hafa í topp fimm undanfarin fjögur ár. Veðbankar eru þó ekki eins lunknir við að velja nákvæmlega réttan sigurvegara. Þeir hafa ekki spáð rétt síðan 2015, þegar Svíþjóð vann.
Veðbankar eru einnig mjög góðir í að spá fyrir um það hvaða keppendur eiga eftir að standa sig almennt illa, en gefa sjaldan rétt svar um nákvæmt sæti. Það kemur þó ekki a óvart því veðmálin í þessari keppni virka þannig að bankinn borgar bara ef lagið vinnur. Ef líkurnar á því að lagið vinni eru ómælanlega lágar á slatta af lögum, þá er það einfaldlega ekki þess virði fyrir veðbankana að reikna út nákvæman stuðul. Heldur setja þeir bara háan stuðul sem lokkar að sér hina órökvísu (til dæmis þjóðernissinna) og þá sem elska áhættuna.
Veðbankar spá ágætlega til um fyrstu sætin, en eiga í smá erfiðleikum með röðina (dæmi frá 2015) |
Hvað heldur markaðurinn um Hatara?
Markaðurinn hatar ekki Hatara. Hann elskar Hatara þó ekki heldur. Þegar þetta er skrifað er þeim spáð 6sæti. Það eitt og sér segir það er séns að Hatari nái í topp fimm, ef marka má söguna. Það er þó að öllu ólíklegra að Hatari vinni keppnina. Staðreyndin er sú að síðustu fjögur ár hefur sigurvegari keppninnar ávallt verið í einu af topp þremur sætunum af veðbönkum.
En, ekki er öll nótt úti enn. Samkvæmt stuðlum dagsins eru sigurlíkur Hatara í kringum 4%. Það er ekki svakalega há líkindi, en þau eru ekki eins lág og margir halda. 4% líkindi þýða það að ef Evrovision væri haldin samtímis í 25 víddum þá myndi Hatari vinna eina þeirra. Einnig huggar að vita að þegar Úkraína vann árið 2016 voru líkurnar sem veðbankarnir gáfu þeim í kringum 6%.
Spár veðbanka, í gegnum tíðina
Þó ekki ómögulegt, þá er það ólíklegt að Hatari nái markmiði sínu að vinna Eurovision í ár. Því miður. En, Hatara til huggunar, þá segja þessi gögn ekkert til um það hvort þeir nái hinu markmiðinu sínu: að knésetja kapítalismann. Ef það tekst, þá þarf ég að finna nýja leið til þess að reyna að spá til um Eurovision á næsta ári.
Veðbankar telja það ólíklegt að Hatari muni sigra
* áhugasamir geta lesið meira um greininguna á heimasíðu höfunds: eikonomics.eu