Í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni sem leið mátti heyra aukinn áhuga á umhverfismálum, hjá svo til öllum flokkum.
Vakning er í umhverfismálum um allan heim, þar sem miklar áskoranir til að vinna gegn mengun og hlýnun jarðar - og umfangsmiklum vistkerfisbreytingum vítt og breytt í náttúrunni henni samhliða - eru almennt taldar mikilvægustu mál stjórnmála þessi misserin.
Ein af mörgum hliðum á þessu stærsta máli samtímans, snýst um það hvernig ríki munu þurfa að aðlaga hagkerfi að breyttum aðstæðum.
Ísland stendur frammi fyrir verulega miklum áskorunum, sem hafa lítið verið rædd á stjórnmálasviðinu, miðað við tilefni.
Aðlögun og fyrirmynd
Eitt mikilvægasta málið, til að aðlaga íslenska hagkerfið að breyttum veruleika, er að leggja meiri áherslu á að byggja upp það sem hefur verið nefnt alþjóðageiri. Það er sá hluti hagkerfisins sem byggir á uppbyggingu alþjóðlegrar þekkingarstarfsemi, svo sem á sviði tækni, rannsókna, heilbrigðishátækni og hugbúnaðar.
Skráning Marel í Euronext kauphöllina í Amsterdam, sem unnið er að þessa dagana, er góð fyrirmynd í þessu efni, en til einföldunar má segja að Marel vinni að því markmiði, að gera matvælaframleiðslu umhverfisvænni með betri nýtingu hráefnis þar sem hátækni er beitt sem helstu vopnum, meðal annars gagnúrvinnslu og hlutanets tækni (Internet of Things).
Þetta alþjóðlega þekkingarfyrirtæki er nú orðið langsamlega stærsta fyrirtæki landsins, sé horft til markaðsvirðis á skráðum markaði og starfsmannafjölda. Starfsmenn eru nú yfir 6 þúsund, eða sem nemur um tvöföldum starfsmannafjölda íslenska fjármálakerfisins.
Það mikilvæga í þessu, er að þarna er komin góð fyrirmynd fyrir íslenskt atvinnulíf: Þetta er hægt að gera, þrátt fyrir allt. Alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki sem getur náð því að verða stórfyrirtæki á alþjóðlegan mælikvarða og haft mikil áhrif til góðs.
Ekki meiri froða
Því miður eru fyrirmyndirnar á Íslandi ekki svo margar og má segja að sá loftbólu-láglaunahagvöxtur sem verið hefur á Íslandi frá árinu 2011 - sem nú er að koðna niður með nokkrum hvelli eftir að íslenska lofbrúin laskaðist með falli WOW air og kyrrsetningu 737 Max véla Boeing - hafi ekki endilega gert íslenska hagkerfinu mikið gagn.
Tölur Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar sýna að vöxturinn í störfum hefur fyrst og fremst verið í láglaunahluta hagkerfisins, í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Á árunum 2015 og fram árið 2018 varð gengi krónunnar gagnvart helstu myntum ískyggilega sterkt, og er ekki hægt að segja annað en að það sé rökrétt að eftirspurnin eftir íslenskri ferðaþjónustu sérstaklega, hafi fallið niður dramatískt.
Stjórnvöld standa frammi fyrir því að velja hvernig verði brugðist við stöðunni sem er uppi. Bráðabirgðatölur Hagstofu Íslands segja að hagvöxtur hafi verið 4,6 prósent í fyrra en nýjasta spá Seðlabanka Íslands gerir nú ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti á árinu.
Á fyrstu þremur mánuðum ársins var hagvöxturinn 1,7 prósent, en frá því í lok mars hefur staðan einkennst af erfiðleikum og áföllum. Mars 2019 verður líklega í framtíðinni eins og lína í sandinum, með falli WOW air og slysinu hörmulega í Eþíópíu, sem leiddi til kyrrsetningar á 737 Max vélunum sem helstu atburðum. Flugbrúin er löskuð eftir.
Hvernig er best að bregðast við?
Augljóst er að þessir atburðir hafa nú þegar haft afgerandi áhrif á efnahagsstefnu stjórnvalda, eins og fram hefur komið í máli bæði forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Líklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn muni nú koma sér saman um að auka enn meira kraftinn í innviðafjárfestingum, og að þær verði í efra bili fyrirliggjandi stefnu sem hefur verið upp á 150 til 300 milljarða til næstu ára litið.
Þessar fjárfestingar eru í vegaframkvæmdum, meðal annars.
Sterk staða ríkissjóðs, í alþjóðlegum samanburði, gerir það mögulegt að vinna á móti samdrættinum með auknum opinberum fjárfestingum, og stór óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans hjálpar einnig til.
En þetta er vandasamt, og líklega verður ríkisstjórnin dæmd fyrst og síðast af því hvernig hún mun bregðast við stöðunni. Víðtækur efnahagssamdráttur er í kortunum og blikur á lofti á fasteignamarkaði, svo dæmi séu tekin.
Styrkjum alþjóðageirann
Í þessum aðgerðum verður að huga að alþjóðageiranum. Auknar fjárfestingar í nýsköpun og rannsóknir, á undanförnum árum, hafa verið gleðiefni, en betur má ef duga skal. Mikilvægt er að hugsað sé til framtíðar þegar kemur að viðspyrnunni.
Í umræðunni um hvernig aðlögunin á hagkerfinu verður, í tengslum við áskoranir í umhverfismálum, verður að horfa til mikillar áhættu sem magnast hefur upp í íslenska hagkerfinu samhliða uppgangi ferðaþjónustunnar.
Áhættunni má skipta í tvo hluta. Annars vegar umhverfisáhætta og síðan gjaldeyrisáhætta.
Eftir að ferðaþjónusta fór upp í rúmlega 40 prósent af gjaldeyristekjum þjóðarbússins þá hefur kerfislægt mikilvægi flugvéla fyrir hagkerfið orðið verulega mikið, svo dæmi sé tekið.
Nær öruggt er að ferðalög með flugi verða dýrari í framtíðinni, vegna þess að mengun frá flugvélum verður dýrari, og það getur dregið verulega úr eftirspurn eftir þjónustu við ferðamenn á Íslandi. Ekki höfum við hraðlestarferðir til að koma fólki til landsins.
Í ljósi þess að þetta er á útflutningshliðinni þá skiptir gengi krónunnar verulega miklu máli, eins og hefur nú sýnt sig.
Ferðaþjónusta er þekkt sveiflugrein, á alþjóðavísu, þar sem öðru hvoru verður aflabrestur í tekjum. En til lengdar verða gæði og verð að fara saman. Það er ekki að annað að sjá en að gengið hafi verið hratt um gleðinnar dýr í fjárfestingum í greininni, á undanförnum árum, enda ráða ekki margir við tugprósenta fall í tekjum.
Líklegt er að fólk muni velja að ferðast sjaldnar í framtíðinni, og að regluverki verði beitt til að þvinga fram þá hegðun. Umhverfið krefst þess. Í þessu felst mikil áhætta fyrir Ísland, eins og gefur að skilja.
Annar verulegur áhættuþáttur, í umhverfislegu tilliti, er íslenska lögsagan. Vistkerfi sjávar er að breytast hratt, samkvæmt rannsóknum, og það getur haft mikil efnahagsleg áhrif á Íslandi. Þetta var meðal annars til umfjöllunar í leiðara Kjarnans 27. febrúar á þessu ári.
Ísland er eina landið heiminum, sem hefur veðsett heimildir til að veiða í lögsögunni fyrir upphæðir sem nema næstum öllu eigin fé í bankakerfinu. Þetta er verulega stórt mál og mikil áhætta sem hefur byggst upp í hagkerfinu vegna þess, og ástæða til þess að gefa þessu meiri gaum. „Af þessum sökum ættu stjórnvöld að stórefla starfsemi Hafrannsóknarstofnunnar og hlusta vel á raddir sem þaðan koma. Að auki ættu stjórnvöld að kanna hvernig megi auka samstarf sérfræðinga sem eru að greina ólíka kerfisáhættuþætti, þegar kemur að íslensku lögsögunni. Virði aflaheimilda er nú á við næstum tvöfalt eigið fé íslenska bankakerfisins, sem er rúmlega 600 milljarðar, sem sýnir hvað er mikið í húfi fyrir hagkerfið. Engin dæmi eru um svona stöðu í heiminum. Höfum vaðið fyrir neðan okkur og gefum þessu gaum,“ sagði meðal annars um þetta í fyrrnefndum leiðara.
Þjóðaröryggi
Orðið þjóðaröryggi kann að kveikja á hugrenningum um lögreglubúninga eða neyðaraðstoð. Þjóðaröryggi er hins vegar réttnefni, þegar kemur að því að greina stöðu íslenska hagkerfisins og þá áskorun sem það stendur frammi fyrir þessi misserin, vegna samdráttar (skammtíma) og síðan umhverfislegra áhættuþátta (til skammtíma og lengri tíma).
Það er þjóðaröryggismál að byggja upp sjálfbært alþjóðlegt hagkerfi, þar sem hugvitið er uppspretta nýrra starfa og tækifæra. Vöxtur sem byggir á tækni og rannsóknum - þekkingariðnaði alþjóðageirans - tryggir betur þjóðaröryggi til lengdar litið. Rökin fyrir uppbyggingu alþjóðageirans eru margvísleg, en það má ekki gera lítið úr þessum þjóðaröryggisventli.
Með sterkum alþjóðageira þá getur landið betur tryggt öryggi sitt til lengdar og unnið gegn sveiflum í öðrum geirum. Alþjóðageirinn og kröftugri uppbygging hans ætti að vera forgangsmál í viðspyrnunni sem nú þarf að eiga sér stað.
Sú vinna er langhlaup, eins og saga Marel sýnir. Hún hófst á rannsóknarstofum í Háskóla Íslands fyrir tæplega 40 árum með þróun á rafeindavogum. Innan veggja háskólana gerast nefnilega hlutirnir - sem svo verða af einhverju stóru og miklu löngu síðar, innan alþjóðageirans, ef stuðningurinn er nægilega mikill.