Í hverfinu sem ég bý í er frábær veitingastaður. Hann heitir Café Sehnsucht og er staðsettur í fimm mínútna göngufæri frá heimili mínu. Sehnsucht býður upp á ljúffenga evrópska matargerð – allt frá enskum morgunverð á morgnanna upp í „steak tartare“ á kvöldin – allt á viðráðanlegu verði.
Frá því að ég flutti til Kölnar, fyrir um þremur árum, höfum við konan mín verið fastagestir. Í hverjum mánuði uppfærir Sehnsucht matseðilinn sinn, sem gerir það að verkum að við fáum aldrei leið á honum.
Á þeim þremur árum sem við höfum búið í hverfinu og verið fastagestir hefur verð á matseðli Sehnsucht svo gott sem staðið í stað. Mögulega hefur verð á einstökum réttum hækkað smá – en ef svo er þá er sú hækkun talin í krónum en ekki hundruðum króna. Þar af leiðandi höfum við ekki tekið eftir því.
Kínversk verðhjöðnun
Undanfarin ár hafa ruglað talsvert í hagfræðingum. Rétt eins og í Evrópu og Bandaríkjunum hefur atvinnuleysi á á Íslandi verið í algjöru lágmarki, vextir hafa verið lágir og peningastefna seðlabanka hefur verið laus. Samkvæmt stærðfræðimódelum hagfræðinga er þessi þula nákvæmlega sú sem vekur verðbólgudrauginn af værum svefni. Samt sefur hann fast.
Sama hvernig meðalatalið er reiknað, þá hefur verðlag haldist nokkuð lágt undanfarin ár. Til að mynda var meðal verðbólga ár árunum 2015 – 2018 um það bil helmingi lægri en árin fjögur á undan (2011 – 2014), sem samt voru á íslenskan mælikvarða mögur ár í lífi verðbólgudraugsins.
Verðbólgudraugurinn má finna í gögnum Hagstofu Íslands
Hvernig má þetta vera? Það eru að sjálfsögðu hundraðþúsundmilljón útskýringar á því. Og ætla ég að útlista þær allar hér. Djók. Ég ætla bara að tala um einn verðbólgudraugabana: Kína.
Fyrir ekki svo löngu var mikill hluti allskonar drasls – sjónvörp, örbylgjuofnar og lopapeysur – að miklu leyti framleitt á Vesturlöndum. Þeir sem settu saman draslið voru vel þjálfað handverksfólk sem, með hjálp stéttarfélaga, fékk mannsæmandi laun. Undanfarna áratugi hafa þessi störf fært sig frá Vesturlöndum, að miklu leyti til Kína. Þar sem þau eru unnin af ekki eins vel þjálfuðu, og illa launuðu, verkafólki (svo ekki sé minnst á verkabörnin). Allt gera þau þetta í auknu mæli í samstarfi við róbóta.
Lágir vextir, lítið atvinnuleysi og laus peningastefna er amfetamín verðbólgudraugsins; ódýrt kínverskt vinnuafl og róbóta vinir þeirra eru Rohypnol.
Háhælaverðbólgan
Eins og áður sagði eru hundraðþúsundmilljón þættir sem spila hlutverk og hafa áhrif á mælingu verðlags (sem lúðar kalla vísitölu neysluverðs). Til að bæta ofan á það eru svo líka aðrir þættir, sem hafa raunveruleg áhrif á verðlag í okkar daglega lífi, en er með einsdæmum erfitt fyrir hag- og tólfræðinga Hagstofunnar að taka með í reikninginn.
Frábært dæmi um þetta eru gæði, sem einfaldast er að skýra með tölvunni sem þú, kæri lesandi, ert að lesa þessa grein á. Berðu hana saman við tölvuna sem þú hefðir geta keypt þér fyrir sama pening, fyrir tuttugu árum. Eins og þú veist vel, þá var gamla tölvan drasl – í öllu falli ekki sambærileg við ofurtölvuna sem þú átt í dag.
(Ef þú ert ungmenni sem féllst fyrir click-beitinu mínu og ert enn að lesa þetta, vinsamlegast biddu þá mömmu þína – fallega! – um að segja þér hvernig tölvur voru í gamla daga.)
Þessi mikla framþróun á gæðum tölvunnar þýðir að í dag ert þú að fá enn meira fyrir peningana þína en áður. Sem má einnig líta á sem verðlækkun. Og þetta vita hag- og tölfræðingar Hagstofunnar vel. Þetta vita þeir svo vel að þeir gera sitt besta til þess að taka inn í útreikninga sína aukin gæði neysluvara.
Það er miserfitt að taka tillit til gæða í útreikningi vísitölunnar. Fyrir vissar vörur, raftæki eins og sjónvörp, örbylgjuofna og tölvur, er það þokkalega gerlegt. Til eru allskonar mælieiningar sem gefa til kynna gæði. Til dæmis stærð skjásins, geymsluminni harða disksins, vinnsluminni, o.s.frv. Vissulega er engin leið að gera þetta á fullkominn máta, en það er betra en ekkert og fyrir vikið er vísitalan bæði betri og trúverðugri.
Erfiðara er þó að aðlaga vísitöluna gangvart fallandi gæðum. Til að mynda hefur verð á kvenskóm svo gott sem haldist óbreytt frá árinu 2002. Því má segja að háhælaverðbólga hafi mælst engin. Það er þó ekki bara mögulegt, heldur líklegt, að hlutfall lágæða skótaus hafi aukist undanfarin ár. Drasl úr skyndi-tísku verslununum, sem endist oft í minna en ár, er mun algengara í dag en það var fyrir tuttugu árum. Sem þýður það að þó við greiðum jafn margar krónur fyrir kvenskó í dag og við gerðum fyrir 17 árum, þá endast þeir verr og fyrir vikið þurfa notendur þeirra að kaupa oftar skó. Sem þýðir að fyrir hvert tekið skref í skónum borga notendur mögulega meira og háhælaverðbólgan er í raun ekki núll, heldur hærri.
Ef, sem dæmi, biðtími hjá læknum lengjast, þá þarf fólk að lifa lengur með einkennum veikinda. Eftir allt, þegar við förum til læknis erum við ekki að borga fyrir að taka í spaðann á manneskju í hvítum slopp með hlustunarpípu, heldur borgum við (reyndar ríkið að mestu, en það er önnur saga), fyrir að hætta að líða illa, eða verða heilbrigðari. Því má segja það að í staðinn fyrir að borga með peningum fyrir að hætta að líða illa, þá borgum við með tíma okkar. Með öðrum orðum, gæði þjónustunnar er minni í dag ef við þurfum að bíða lengur en áður.
Ef það væri tilfellið að biðtími hefðu lengst – sem það er eflaust einhvers staðar í heilbrigðiskerfinu, en að mér sýnist ekki almennt – þá ætti það að koma fram í verðbólgumælingum, sem er auðvitað ótrúlega erfitt að framkvæma. Og ef þetta er tilfellið í öðrum þjónustu greinum, þá gæti verið að verðbólgan sé í raun hærri en vísitalan segir okkur.
Skammtaverðbólga
Í morgun fór ég á Café Sehnsucht. Það var allt stappað. Sehnsucht var alltaf vinsæll, en fyrsta árið mitt hérna man ég ekki eftir honum fullum. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað, smátt og smátt síðan ég flutti í hverfið. Undanfarið ár er meira að segja orðið erfitt að fá borð á virkum dögum.
Við settumst því niður og biðum í þó nokkurn tíma eftir að vera vísað til borðs. Áður fyrr var veitingastaðurinn mannaður af vel þjálfuðum þjónum á miðjum aldri. Þessa dagana eru meira og minna háskólanemar sem sinna manni. Háskólanemarnir eru fínir, svo sannarlega, en ekki með sömu reynslu og þjálfun eins og fagfólkið sem áður var.
Við sátum í dágóðan tíma áður en þjónninn kom að taka við pöntun, sem var allt í lagi, en hefði ekki gerst fyrir þremur árum. Ég pantaði mér enskan morgunverð og konan mín fjölkornabrauð með spældu eggi og Quark (einhverskonar þýskt skyr). Maturinn tók sinn tíma að koma og þegar hann kom var hann ágætlega útilátinn, en ekki eins vel útilátinn og hann var fyrir þremur árum.
Sjálfur myndi ég gjarnan borga aukalega fyrir það að uppáhaldsstaðurinn minn, sem enn í dag er frábær, héldi sama standard og þegar ég borðaði þar fyrst. Margir væru því þó mótfallnir. Það er mín tilfinning að verðhækkunarfælni verslunarfólks hafi undanfarin ár færst í aukana. Því, þegar kostnaður við reksturinn hækkar – eða vinsældir staðarins aukast – þá bregst verslunarfólk í auknu mæli með því að hækka ekki verð, heldur draga úr gæðum þjónustunnar.
Að sjálfsögðu má það vel vera að ég hafi rangt fyrir mér. Mögulega er þetta líka bara einsdæmi og á ekki við víðar í samfélaginu okkar. En ef ég hef rétt fyrir mér, og ef vandamálið er útbreiddara en við gerum okkur grein fyrir, þá er mögulegt að verðbólgan sé hærri en opinberar tölur gefa til kynna.