Sá sem heldur því fram að hann viti hvernig ástandið sem nú varir muni enda, er líklega að ljúga. Ríki eftir ríki hafa gripið til aðgerða sem fyrir skemmstu hefðu þótt óhugsandi til að berjast við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Á örfáum dögum lokuðu Bandaríkin til að mynda landamærum sínum gagnvart Evrópu án fyrirvara og samráðs og Schengen-svæðið lokaði síðan sínum landamærum, eftir að tíu ríki innan þess höfðu látið eina frumforsendu Evrópusamstarfsins, frjálst flæði fólks, lönd og leið í sinni baráttu við vágestinn.
Það sem blasir hins vegar við er að afleiðingarnar verða geigvænlegar. Fyrst þær mannlegu, með útbreiðslu smita og auknum fjölda látinna um heim allan. Síðan, þegar það hefur tekist að hemja útbreiðsluna, hinar miklu efnahagslegu og samfélagslegu afleiðingar þess að halda heilu alþjóðavæddu hagkerfunum meira og minna í sóttkví vikum eða mánuðum saman og hefta ferðafrelsi í heiminum nær algjörlega samhliða.
Í fyrsta sinn á friðartímum í nútímasögunni erum við að horfa á aðstæður þar sem öllum efnahagslegum afleiðingum er ýtt til hliðar – gerðar að tímabundnu aukaatriði – á meðan að háð er stríð til að verja líf fjölda manns.
Þá ákvörðun þarf ekki nokkur einstaklingur með samhygð og mennsku að melta. Hún er bara eðlislæg, sjálfsbjargarviðleitnin. Enda er ekkert frelsi og engin leit að lífshamingjunni án lífsins sjálfs.
Langur feril framundan
í nýrri greiningu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey, sem birt var í upphafi viku, er stillt upp tveimur sviðsmyndum. Önnur gerir ráð fyrir skemmri efnahagslegum samdrætti og gengur út frá því að fjöldi smitaðra í Norður- og Suður-Ameríku og Evrópu nái hámarki um miðjan apríl, en að smit í Asíu verði á áfram í rénun og að smit í Afríku og Eyjálfu verði takmörkuð. Í þessari sviðsmynd er gert ráð fyrir því að veiran liggi að mestu niður yfir sumartímann en þegar hún blossi upp aftur í haust sé viðbúnaður miklu betri og aðstæður orðnar viðráðanlegri. Í þeirri sviðsmynd er reiknað með að það mundi taka fram á fjórða ársfjórðung 2020 fyrir hagkerfi Evrópu og Bandaríkjanna að sjá einhvern vísi að raunverulegum efnahagslegum bata. Mismunandi er svo eftir löndum hversu lengi sá bati yrði að skila sér þangað. Fyrir lönd sem treysta til dæmis á ferðaþjónustu sem arðbærustu stoðina undir efnahagskerfinu sínu myndi hann ekki birtast fyrr en í fyrsta lagi einhvern tímann á næst ári.
Þessi sviðsmynd myndi, samkvæmt greiningu McKinsey, skila því að áhrif á efnahagskerfi heimsins yrðu grafalvarleg, og nálægt þeim sem urðu á árunum 2008 til 2009, þegar alþjóðafjármálakreppan geisaði. Landsframleiðsla í flestum helstu efnahagskrefum myndi dragast verulega saman og efnahagsbatinn ekki hefjast fyrr en á öðrum ársfjórðungi 2021.
Aðrar sviðsmyndir sem teiknaðar hafa verið upp af sérfræðingum, út frá þeim gögnum sem liggja fyrir, telja að sú kreppa sem blasir við eigi sér einungis einhverskonar hliðstæðu í kreppunni miklu sem skall á 1929.
Vert er að taka fram að það er sem stendur ekki hægt að gera neinar spár um nokkurn skapaðan hlut. Það veit enginn hvenær veiran gengur niður eða hvernig samfélögin munu bregðast við efnahagslega þegar það gerist. Hvort alþjóðasamvinna sem áður var meitluð í stein en hefur nú verið algjörlega vikið til hliðar í ljósi neyðar muni verða söm eftir. Allt eru þetta leikur að tölum. En sviðsmyndir, miðað við gefnar forsendur, gefa einhverja mynd af því sem gæti gerst.
Hrun í framboði og eftirspurn
Það sem sem gerir yfirstandandi kreppu einstaka er að við erum að eiga við er hrun í bæði framboði og eftirspurn. Framboðshrunið er, hingað til, að uppistöðu bundið við Asíu, að mestu Kína. Þegar það ríki, annað stærsta efnahagsveldi heimsins og stærsti framleiðandi hans, greip til sinna drastísku aðgerða til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar fyrr á þessu ári þá voru efnahagslegu áhrifin á heiminn gríðarleg. Allt í einu vantaði einn mikilvægasta hlekkinn í framleiðslukeðjunni. Fyrstu tölur um samdrátt í framleiðni í Kína sem birtust í byrjun þessarar viku sýndu að verksmiðjuvirkni þar hefði dregist saman um 13,5 prósent í síðasta mánuði miðað við febrúarmánuð í fyrra. Alls dróst fjárfesting í Kína saman um 25 prósent í febrúar 2020.
Eftirspurnin á stærsta kaupendamarkaði í heimi, Bandaríkjunum, er síðan hrunin. Hún er líka hrunin á öðrum risamarkaði, Evrópu. Og alls staðar annars staðar.
Eins og því hefur verið lýst af sérfræðingum þá virka gömlu leiðirnar til að auka hana ekki núna. Leiðir til að gera peninga ódýra, með því að auka aðgengi að þeim með lækkun vaxta eða meira af lausu fé fyrir banka, og vonast til að með fulla vasa fari neytandinn í verslunarmiðstöðina og kaupi kerfin aftur í gang. Nú má neytandinn í mörgum tilvikum hins vegar ekki fara í verslunarmiðstöðina (vegna útgöngu- eða samkomubanns), hann vill ekki fara þangað (vegna þess að hann er hræddur við að smitast af veiru) og varan sem hann myndi kaupa er ekki til (vegna þess að íhlutir í henni sem er vanalega framleiddir í Kína eru ekki aðgengilegir sem stendur).
Góðar fréttir og verri fréttir
Það komu goðar fréttir í gær, þegar Alma Möller landlæknir greindi frá því að hápunkturinn í veirusmitum og álagi á heilbrigðiskerfið vegna þeirra, er áætlaður um miðjan næsta mánuð. Það að hægt sé að setja fram slíka greiningu gefur tilfinningu um að sérfræðingarnir sem stýra þeim ótrúlegu aðgerðum sem nú eru í framkvæmd séu að sjá fyrir sér einhvern feril, og byggja það meðal annars á upplýsingum frá þeim ríkjum sem eru komin lengra inn í þessar hörmungar, sérstaklega Kína og Ítalíu. En munum að þetta er auðvitað bara sviðsmyndagreining.
Þá verður hins vegar langur vegur enn eftir við að sinna þeim sem enn eru sjúkir og hindra frekari útbreiðslu. Íslendingar eru auðvitað í forréttindastöðu til að takast á við vandann að mörgu leyti, verandi örþjóð á eyju úti í miðju ballarhafi með að uppistöðu eina leið inn í landið, gott almannavarna-, velferðar- og heilbrigðiskerfi, stuttar boðleiðir og hátt menntunarstig sérfræðinga í öllum geirum til að mæta þessum áskorunum.
Við gátum líka farið í mjög umfangsmiklar aðgerðir við að rekja smit, sérstaklega þar sem veiran var upphaflega borin hingað til lands af tveimur hópum íslenskra skíðaferðalanga sem hægt var að kortleggja. Þær rakningaraðgerðir eru líklega hlutfallslega þær umfangsmestu í heimi og með þeim gátum við skipulagt okkur fyrirbyggjandi til að verja viðkvæmustu hópanna. Þannig var hægt að bjarga mannslífum, dreifa álaginu á heilbrigðiskerfið og vonandi komast í gegnum þetta súrrealíska stríð með engum eða mjög fáum dauðsföllum.
Langt í efnahagslega viðsnúninginn
Það þarf samt að segja það upphátt að hér er ekki að fara að koma neinn efnahagslegur viðsnúningur í sumar. Hann kemur ekki í haust og ekki um jólin. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri talaði um sex til tólf mánuði fyrir ferðaþjónustuna við að hefjast handa við upprisu í viðtali í morgun. Þar var Ásgeir varfærin í spámennsku, sem er mjög skiljanlegt stöðu hans vegna.
Hvort viðsnúningurinn geti hafist að einhverju leyti á næsta ári veltur á því hvernig heiminum öllum tekst að eiga við veiruna, hvaða takmarkanir verða á ferðalögum og allri samfélagslegri virkni, eins og t.d. starfsemi veitingastaða og annarra samkomustaða, til að koma í veg fyrir að faraldurinn blossi upp á ný. Mögulega verður fundið bóluefni, en það virðist á fréttum af þeirri leit vera ansi langt í að það sé raunhæft.
Önnur arðbærasta stoðin undir rekstri okkar hagkerfis er sjávarútvegur. Höggið þar er líka svakalegt. Sala á ferskum fiski, sem nam 80 milljörðum króna í fyrra, hefur stöðvast. Engin veitingahús sem selja þann fisk eru einfaldlega opin og skyndilega breytt neysluhegðun vegna aðstæðna lætur fólk sækja í mat með meira geymsluþol.
Atvinnulífið þarf öndunarvél
Við stöndum frammi fyrir aðstæðum þar sem atvinnulífið er eins og sjúklingur sem þarf á öndunarvél að halda. Fái hann ekki það vélræna súrefni mun hvert líffærið á fætur öðru bila og sjúklingurinn á endanum deyja. Ríkið á öndunarvél og nóg af súrefni. Það þarf að setja vélina á sjúklinginn og skeyta engu um hversu lengi hann þurfi að vera í henni. Eina sem skiptir máli er að hann lifi, fyrir samfélagið allt.
Sem stendur eru við hins vegar enn að beita munn við munn aðferðinni. Þær leiðir sem stjórnvöld hafa kynnt, sem felast aðallega í því að fresta helmingi af staðgreiðslu opinberra gjalda um mánuð og leggja fram frumvarp sem boðar að atvinnurekendur geti látið atvinnuleysistryggingasjóð borga 20 til 50 prósent af launum starfsfólks svo lengi sem það taki á sig 20 prósent launalækkun upp að 650 þúsund króna heildarlaunum, og enn meiri eftir það, til 1. júli. Þetta er of lítið, í of skamman tíma og nýtist ekkert þeim fyrirtækjum sem eru einfaldlega tekjulaus núna. Þau geta ekkert borgað 50 til 80 prósent af launum starfsmanna.
Líklega verður öndunarvélinni trillað fram í dag eða á morgun. Vonandi verða þær aðgerðir sem þá verða kynntar af stærðargráðu sem aldrei hefur sést áður. Það þarf að viðhalda venjuleikanum eins og hægt er. Halda fyrirtækjum á lífi, fólki á launum og öllum í húsnæði. Það þarf að tryggja mat og lyf fyrir alla. Þetta eru verkefnin núna. Síðar getum við tekist á um hvernig kerfið á að vera til frambúðar og hvaða dýrmætu lexíur við lærum í þessari lotu.
Leggur til vaxtalaus lán fyrir öll fyrirtæki
Alls konar hugmyndir eru uppi út um allan heim um útfærslur. Flest nágrannaríki okkar á Norðurlöndum hafa stigið inn og boðað aðgerðir þar sem flestir landsmenn verða í raun ríkisstarfsmenn tímabundið, en mæta í sína venjulegu vinnu þegar bönnum lyftir, óháð því hvort þeir hafi eitthvað að gera þar eða ekki. Bandaríkjaforseti vill senda öllum landsmönnum þúsund dollara ávísun og hvetja þá til að eyða henni í neyslu, sem sýnir algjört skilningsleysi hans á vandamálinu.
Andrew Ross Sorkin, pistlahöfundur hjá The New York Times og ritstjóri Dealbook hluta vefs blaðsins, skrifaði eina bestu bók sem skrifuð hefur verið um það tímabil þegar stóru bankarnir á Wall Street riðuðu til falls, á árunum 2007 til 2009, bókina To Big To Fail. Hann gjörþekkir kreppur og hefur sérhæft sig í þeim.
Í gær skrifaði hann skoðanagrein sem birt var í The New York Times. Þar lagði hann til viðbragðaleið, sem hann byggði á samtölum við trúnaðarmenn sem hafa komið að viðbrögðum við öllum helstu fjármálaáföllum sem dunið hafa á heiminum á undanförnum árum og áratugum.
Leiðin sem Sorkin leggur til, eða lausnin eins og hann kallar hana, er eftirfarandi: Stjórnvöld bjóða öllum bandarískum fyrirtækjum, stórum og smáum, verktökum og öðrum einyrkjum, vaxtalaust brúarlán á meðan að krísan stendur yfir. Það verði svo endurgreitt á fimm árum eftir að henni lýkur. Eina skilyrðið fyrir lánunum er að fyrirtækin haldi áfram að veita að minnsta kosti 90 prósent starfsmanna sinna atvinnu á sömu launum og þeir höfðu áður en krísan hófst. Aðgerðirnar ættu einnig að vera afturvirkar, þannig að öllum sem hefur verið sagt upp á síðustu tveimur vikum myndi verða tryggð endurráðning og laun. „Áætlunin myndi halda nánast öllum í vinnu og halda fyrirtækjum, frá flugfélögum til veitingastaða, á lífi án þess að velja sigurvegara og tapara,“ skrifaði Sorkin.
Fallbyssuskotið má ekki geiga
Það að verið sé að fleyta svona hugmyndum í vöggu kapítalismans, Bandaríkjunum, ætti að sýna hversu einstakar aðstæður eru uppi. Eftir áratugi af því að einkavæði arðinn á nú að ríkisvæða allt tapið. Vegna þess að það er eina leiðin til að komast í gegnum stöðuna. Þá þarf að vanda sig mjög við að gæta sanngirni þannig að eignir einhverja fjármagnseigenda, annarra en lífeyrissjóða landsmanna, verði ekki varðar umfram almenning. Þær eignir fara nú aftast í röðina.
Það sem Sorkin leggur til er ein leið. Það er stjórnmálamanna og sérfræðinga Seðlabankans að finna út hvaða leið henti Íslandi en markmiðið verður að vera það sama og hjá Sorkin. Mjög nauðsynlegt er að skapa algjöra, eða að minnsta kosti nær algjöra, samstöðu milli stjórnmálabrota og stofnana um íslensku lausnina.
Ef það tekst ekki, og of lítið verður gert af einhverjum ástæðum, þá er vert að óttast raunverulega um samfélagssáttmálann. Traust milli almennings og stofnana er nú þegar lítið. Ef fallbyssuskotið geigar fer það niður í ekkert.
Gangi öllum sem standa nú í brúnni sem best í þeim verkefnum sem blasa við. Við þurfum öll nauðsynlega á því að halda að þeim takist vel til.