7. Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að kynna sér hefðir málsins sem best og taka mið af þeim, án þess að láta þær hefta eðlilega tjáningu.
Tungumálið er samskiptatæki – gerir okkur kleift að miðla upplýsingum milli fólks og menningu milli kynslóða. Til að það þjóni þessum tilgangi er mikilvægt að í því ríki festa – að notendur málsins geti treyst því að aðrir noti málið á um það bil sama hátt, í samræmi við íslenska málhefð. Framburður, beygingar, orðaröð, merking, föst orðasambönd – allt eru þetta þættir sem sæmilegt samkomulag verður að vera um meðal málnotenda. Að öðrum kosti er hætt við að úr verði misskilningur eða skilningsleysi og þar með hættir málið að geta gegnt hlutverki sínu.
Þess vegna þurfum við að leggja áherslu á að börn tileinki sér hefðir málsins sem best á máltökuskeiði, með því að tala sem mest við þau, lesa fyrir þau og með þeim, láta þeim í té efni á íslensku til að hlusta og horfa á. En tileinkun hefða heldur áfram eftir máltökuskeiðið – þótt festa sé komin á málkerfið sjálft höldum við áfram á unglingsárum og fram eftir aldri, raunar alla ævi, að læra ný orð og ný orðasambönd og átta okkur á ýmsum venjum og blæbrigðum í notkun orða, viðeigandi málsniði o.s.frv.
Þótt hefðirnar séu mikilvægar þýðir það ekki að þær séu óbreytanlegar, eða við eigum að láta þær njörva okkur niður. Hefð er eðli málsins samkvæmt samkomulagsatriði. Ef málsamfélagið kemur sér saman um að breyta hefð þá breytist hún. Þetta er auðvitað dálítið erfitt viðfangs vegna þess að um þetta „samkomulag“ eru aldrei greidd atkvæði og það er hvergi skráð. En ef hópur málnotenda er farinn að beita málinu á einhvern annan hátt en áður hefur tíðkast – beygja orð öðruvísi, nota orð í annarri merkingu en áður, o.s.frv. – þá er orðin til ný hefð, ný málvenja.
Fyrri hefð er samt enn í fullu gildi enda er ekkert því til fyrirstöðu að mismunandi hefðir – mismunandi málvenjur – séu uppi í málsamfélaginu á sama tíma. Það er ekkert að því að hópur fólks segi mig langar en annar hópur mér langar, eða hópur fólks segi vegna byggingar hússins en annar hópur vegna byggingu hússins, o.s.frv. Vissulega geta orðið árekstrar milli hefða, og einhver misskilningur getur skapast stöku sinnum. En fólk sem notar málið samkvæmt nýju hefðinni kannast oftast við þá eldri, og notendur þeirrar eldri átta sig oftast á þeirri nýju þegar hún fer að breiðast út – þótt vissulega sé ekki víst að þeir felli sig við hana.
Meginatriðið er að mismunandi málhefðir geta lifað hlið við hlið langtímum saman án þess að það valdi vandkvæðum. Hefðirnar eru vissulega mikilvægar og almennt séð æskilegt að halda í þær. En ef þær eru farnar að hefta eðlilega tjáningu, þrengja svigrúm okkar til að nota málið á lifandi hátt þannig að það þjóni samfélaginu, þá eru þær orðnar til bölvunar. Það er ekkert að því að breyta málstaðlinum og gefa úreltar hefðir upp á bátinn.