Sjálfbærni er leiðin út úr Covid-krísunni

Að setja stefnu á sjálfbærni er að setja stefnu á meiri lífsgæði, ekki bara fyrir komandi kynslóðir heldur þær sem nú lifa, skrifar umhverfisverkfræðingurinn Snjólaug Ólafsdóttir.

Auglýsing

Þá erum við byrjuð. Byrjuð að stíga út úr vetri fullum af dimmu og veðurviðvörunum, fullum af ótta og einangrun en líka fullum af von og samstöðu. Með hækkandi sól og grænkandi grasi megum við loks sýna okkur og sjá aðra, í hæfilegri fjarlægð með sprittbrúsann á lofti.

Það er margt sem við höfum lært af Covid-19 um sjálfbærni og loftslagslausnir. En hvaða tækifæri gefur þessi tími okkur í sjálfbærni og loftslagsmálum og hvernig notum við þau til að komast sem best út úr Covid-krísunni?

Áður en Covid-19 kom til sögunnar var meira rætt um aðra krísu, loftslagskrísuna og þá gífurlegu breytingu sem þarf að verða á kerfum heimsins til að við leysum hana. Þær breytingar hafa gengið seint og illa og við erum langa vegu frá því að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins á alþjóðavísu. Þó vitum við að það þarf að gera enn betur en samþykkt var í París ef við viljum ekki þurfa að takast á við afleiðingar á fordæmalausum skala. 

Auglýsing

En hvers vegna er þetta svona erfitt? Svarið er ekki einfalt en stór þáttur er hversu kerfin okkar eru flókin og hvað það er erfitt að breyta þeim þegar þau eru í notkun. Það er erfitt að gera við bíl á ferð. En nú hefur það gerst að bíllinn er kominn inn í pit-stop og tækifæri gefst til að gera við það sem þarf áður en hann fer á fulla ferð aftur. Þau sem fylgst hafa með Formúlu 1 vita að munurinn milli sigurs og ósigurs í þeirri keppni er að gera við allt sem farið er að slitna þegar bíllinn kemur inn í pit-stop, svo hann þurfi ekki að stoppa fljótt aftur. Í stoppinu þarf allt að ganga smurt og allir hafa sitt hlutverk til að bílinn komist sem fyrst af stað. 

Þessa dagana er hið opinbera og atvinnulífið í samtali og aðgerðum til að koma bílnum aftur af stað með sem minnstri áhættu. Rætt er um mikilvægi þess að Ísland komi samkeppnishæft, jafnvel með forskot, út úr faraldrinum. Þetta verður best gert með áherslu á sjálfbærni.

Núna er mikilvægt að stefna sé sett í átt að sjálfbærni hjá einstaklingum, atvinnulífinu og hinu opinbera. Stefna að sjálfbærni er eitthvað sem við vitum að þarf að gera, mun vera gert fyrr eða síðar og kemur okkur öllum til góða. Þessi tímapunktur nú er kjörinn fyrir stefnumótun og aðgerðir í sjálfbærni fyrir nokkra hluta sakir. Í fyrsta lagi er eins og áður sagði bíllinn stopp og því rétti tíminn til að gera við það sem þarf. Það sem við áttum í erfiðleikum með þegar allt var á fullu. Í öðru lagi þá sjáum við margt núna sem við gátum ekki séð áður en hann stoppaði. Við höfum séð hvernig kerfin okkar brugðust við þessu áfalli og þar er margt að læra sem nýtist til framtíðar. Í þriðja lagi þá þurfum við á ljósi að halda núna – að vita hvert við stefnum og að við munum öll koma sem best útúr þessu. Að enginn verði skilinn eftir. Munum að sjálfbærni hefur þrjár megin stoðir: umhverfi, samfélag og efnahag. Þessar stoðir þurfa allar að tala saman til að ná sjálfbærni. Þannig munum við setja stefnu á að ná aftur upp efnahagnum með betra samfélag og minna umhverfispor að leiðarljósi. 

Hvernig grípum við þessi tækifæri sem nú birtast okkur?

#1 Kynnumst sjálfum okkur og öðrum

Í krísu sem þessari ýkjast aðstæður okkar og allt verður augljósara og sýnilegra. Það sem var vont verður verra og það sem var gott sannar gildi sitt. Hér eru tækifæri til að læra um okkur sjálf og aðra ef við getum horft á aðstæðurnar hlutlaust. Eins og Attenborough lýsir samskiptum dýra í náttúrunni getum við skoðað okkar viðbrögð og annara af forvitni. Skoðum viðbrögðin við þessum ýktu aðstæðum heimafyrir, á vinnustaðnum og annarsstaðar í samfélaginu. Finnum hvar veikleikarnir liggja en ekki síður hvar styrkleikar okkar eru. Þaðan getum við myndað okkur skoðun á því hvernig við viljum vera, hvernig við viljum hátta rekstrinum okkar og hvernig við viljum hafa samfélagið.

#2 Endurskoðum gamlar venjur

Í hringiðu hversdagsins erum við í rútínu og keyrum ítrekað sama hringinn, vaninn eru djúp hjólför sem erfitt er að komast uppúr. Nú höfum við tækifæri til að breyta frá því sem áður var. Hvað var gert áður af gömlum vana? Hvað gerðirðu eða gerðir ekki sem angraði þig alltaf en vaninn var bara of sterkur? Hvaða breytingar urðu í Covid sem þú vilt halda? Hvað viltu gera betur? 

#3 Styðjum samfélagið sem við viljum sjá

Nú eiga margir um sárt að binda og mörg fyrirtæki berjast í bökkum. Við erum hvött til að styðja við íslenska framleiðslu og ferðaþjónustu. Við getum sannarlega núna lagt okkar af mörkum til samfélagsins með því að kjósa meðvitað hvar við eyðum peningum og tíma. Skoðum hvaða samfélögum við tilheyrum, bæði nærsamfélög og stærri samfélög. Hvar er þörf og hvar getum við lagt okkar af mörkum? Hvaða samfélag vilt þú sjá þegar þessu lýkur og hvað getur þú gert núna til að það verði að veruleika?

#4 Sköpum sjálfbæra framtíð

Margt mun breytast eftir þessa tíma og mikið er talað um að heimaskrifstofur og netfundir verði algengari. Jafnframt að verslun, nám og heilbrigðisþjónusta færist á netið. En hvað fleira? Staðreyndin er sú að það mun breytast sem við viljum að breytist.

Hvernig lítur lífið út hinum megin við Covid? Hvað breytingar urðu á lífi þínu? Á vinnustaðnum? Á samfélaginu? Hvernig notar þú peningana þína öðruvísi en áður? En orku þína og tíma? Nú er tími til að setja stefnuna og gera varanlegar breytingar. Skapa það sem við viljum sjá til framtíðar. Samfélag, vinnustaði og líf sem er þrautseigara, hamingjusamara og betra en áður.

Að setja stefnu á sjálfbærni er að setja stefnu á meiri lífsgæði, ekki bara fyrir komandi kynslóðir heldur þær sem nú lifa. Með slíkri stefnu getum við nýtt þá samheldni og kraft sem við höfum séð að býr í Íslendingum til að komast saman heil út úr þessari krísu, sama hversu djúp hún verður.

Eins erfitt og pit-stoppið er fyrir liðið í heild þá er það stoppið sem sýnir getu þess. Bílstjórinn er ekki lengur stjarnan heldur samhæfing og samvinna liðsins. Það er geta liðsheildarinnar til að vinna saman að sameiginlegu markmiði sem gerir það að verkum að sigur næst.

Höfundur er umhverfisverkfræðingur Ph.D. og stofnandi Andrýmis- sjálfbærniseturs.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Skriður á rannsókn saksóknara og skattayfirvalda á meintum brotum Samherja
Bæði embætti héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóri hafa yfirheyrt stjórnendur Samherja. Embættin hafa fengið aðgang að miklu magni gagna, meðal annars frá fyrrverandi endurskoðanda Samherja og úr rannsókn Seðlabanka Íslands á starfsemi fyrirtækisins.
Kjarninn 23. júní 2021
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar