15. Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að líta ekki niður á fólk sem talar ekki „rétta“ íslensku og hreykja sér ekki af eigin málfari og málkunnáttu.
Tungumálið er áhrifamikið valdatæki og hægt að misbeita því á margvíslegan hátt til að gera lítið úr fólki. Það er vel þekkt að málfar fólks sem talar ekki samkvæmt málstaðlinum hefur verið notað á þennan hátt: „Það verða til um það dómar í samfélaginu hvað telst fagurt eða ljótt. Og einstaklingarnir eru vegnir og metnir eftir málfari sínu. Sá sem notar vont mál er ófínni, heimskari, eða jafnvel verri maður en sá sem notar gott mál. Sá sem er „ósýktur“ af þágufallssýki getur leyft sér að líta niður á þann sem er „þágufallssjúkur“.“
Sjálft orðið, „þágufallssýki“, er vitanlega mjög gildishlaðið og í blöðum frá undanförnum áratugum má finna fjölmörg dæmi um ótrúlega fordóma gagnvart fólki sem er haldið þessari „sýki“. Í blaði frá 1954 er t.d. hneykslast á málfari og flutningi útvarpsþáttar og klykkt út með því að segja: „Fyrir utan allt annað þjáðist flutningsmaður af magnaðri þágufallssýki. Svona manni ætti ríkisútvarpið ekki að hleypa að, það er blátt áfram skaðlegt máli og mennt.“ Svipuðu máli gegndi um þá málbreytingu sem ýmist var kölluð „flámæli“ eða „hljóðvilla“ – sem eru vitanlega gildishlaðin orð ekki síður en „þágufallssýki“.
Íslensk málfarsumræðu hefur löngum verið þessu marki brennd – full fordæmingar á málfari fólks, með gildishlöðnum orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamál, götumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámælt, gormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík.
Orðbragðið sem var notað um fólk sem tók þátt í málfarslegri umræðu var engu betra. Fólk sem aðhylltist meira frelsi í málfarsefnum var kallað reiðareksmenn, lausungarsinnar og jafnvel fimmta herdeild; en það var ekki heldur saklaust af því að tala um andstæðinga sína sem málfarsfasista, málfarslöggur, málfarsperra, málvendi og máleigendur, og segja þá stunda málveirufræði. Sem betur fer er þessi orðræða að mestu horfin úr dagblöðum en hefur nú færst á netið og veður uppi á Facebook og í athugasemdadálkum vefmiðla.
Orðræða af þessu tagi er ólíðandi og þeim sem viðhafa hana til minnkunar. Hún er móðgandi og særandi – í raun árás á það mál sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði, árás á sjálfsmynd þess. Og hún er sannarlega ekki til þess fallin að efla íslenskuna því að hún gerir fólk óöruggt og fælir það frá að nota málið – ýtir undir málótta. Iðulega virðist tilgangurinn fremur vera að hreykja sér af eigin kunnáttu en leiðbeina öðrum. En það er aldrei vænlegt til árangurs að tala niður til fólks. Íslenska er nefnilega alls konar eins og áður hefur verið lögð áhersla á – og á að vera það.