Við á Íslandi teljum okkur lifa í hvítri veröld – hvítum raunveruleika. Og þegar við sjáum fréttir frá Bandaríkjunum þá gætu fyrstu viðbrögðin verið þau að þetta ástand snerti okkur ekki. Svart fólk er nefnilega drepið þar í landi án dóms og laga úti á götu af lögreglunni. Það er hrætt og upplifir mikið óöryggi í sínu eigin landi og nú er það búið að fá nóg. Ekki meira, þetta er komið gott. Kerfislægur rasismi verður að stoppa, segir það. Black lives matter – Líf svartra skiptir máli.
Við erum í framhaldinu að verða vitni að hruni bandaríska draumsins – ef hann var þá einhvern tímann til. Michael Moore, kvikmyndagerðarmaður, benti á þetta á Instagramminu sínu í síðustu viku en hann segir að stóra ameríska samfélagstilraunin sé dauð. Hún hafi verið drepin með hné hvítu valdablokkarinnar, hvítum forréttinum og hvítum eignarrétti á fasteignum, auði og vinnuafli launaþræla.
Hann segir að Bandaríkin hafi aldrei verið fögur, allt hafi verið lygi frá byrjun. „Allir skapaðir jafnir.“ Aldrei, segir hann. Moore bendir á að þau hafi aldrei bætt fyrir erfðasyndir þeirra; þrælahald og þjóðarmorð. „Ofbeldið sem við beitum svarta þjóðfélagsþegna er endalaus dagleg upplifun þeirra. Við erum heppin að vera á lífi.“
Já, land hinna frjálsu manna og heimkynni hinna hugrökku.
„Eitthvað er rotið í Danaveldi“
Áður en við Íslendingar klöppum okkur á bakið og upphefjum sjálf okkur fyrir fordómaleysi, jafnrétti og umburðarlyndi þá skulum við staldra við – því þrátt fyrir að ástandið hér á landi sé ekki nærri eins slæmt og í vestan hafs þá er það heldur ekki gott.
Vitnisburðir fólks af erlendum uppruna, hælisleitenda og hörundsdökks fólks sýna það og sanna að margt er „rotið í Danaveldi“. Við sendum hælisleitendur til baka í hörmulegar aðstæður – allt í nafni laga og réttlætis og á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Börn er send í burtu, barnshafandi konur og fjölskyldufólk. Við höfum mýmörg dæmi um það og nú liggur fyrir Alþingi frumvarp Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um breytingu á útlendingalögum sem gerir stjórnvöldum kleift að hafna umsóknum af meiri festu, á skemmri tíma og með minni tilkostnaði en áður.
Það eru þó ekki einungis hælisleitendur sem þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum á Íslandi. Núna, í þessu ástandi, hafa sögur af „hversdagslegum rasisma“ verið áberandi á samfélagsmiðlum. Frásagnir af þessum lúmska rasisma, eins og kona ein af erlendum uppruna orðaði það við mig.
Eitthvað sem oftast er falið er nú að leita út, og það réttilega.
Með leyfi nokkurra einstaklinga birti ég þrjú dæmi um birtingarmyndina hér á landi:
Móðir sem þarf að útskýra fyrir börnunum sínum af hverju þau líta öðruvísi út – „Rasismi er raunverulegur og hann er vandamál“
„Kynþáttahatur á ekki bara við um USA þetta er vandamál um allan heim og líka hér á Íslandi. Veit ekki hversu oft ég hef þurft að útskýra fyrir börnunum mínum að þau séu ekki ættleidd eða keypt þar sem ég fæ þessa spurningu reglulega frá fólki og fyrir framan börnin.
Ég þarf líka að útskýra fyrir þeim að þau megi leika við alla líka hvít börn því það er verið að segja við þau að brún börn eigi að leika saman og brúnir og hvítir eigi ekki að leika saman. Ég þarf líka að segja þeim að þau séu falleg þar sem það hefur verið sagt að þau séu eins og kúkur á litinn. Rasismi er raunverulegur og hann er vandamál!“
Kona sem á kærasta af erlendum uppruna sem þarf að þola öðruvísi viðhorf frá lögreglunni – „Try not to be suspicious“
„Í ljósi nýjustu atburða verð ég að koma eftirfarandi sögu af [kærastanum mínum] á framfæri sem gerðist aðfaranótt föstudags: [Hann] fer út með blöðin á morgnanna hér í 108 og hefur gert í þónokkurn tíma. Þessa nótt er lögreglubíll á sveimi um hverfið og keyrir í átt til [hans]. (Samræða fer fram á ensku)
Lögga: Hvað ertu að gera hérna?
[Hann]: Ég er að fara út með blöðin.
Lögga: Hvaðan kemuru?
[Hann]: Frá Íslandi
Lögga: Ekki held ég það
[Hann]: Fléttu því bara upp.
Lögga (eftir að hafa flett kennitölu upp, segir ekki neitt um það að hann er íslenskur): Try not to be suspicious
[Hann]: Hvað meinarðu?
Lögga: Það var hringt og tilkynnt um grunsamlegan mann.
[Hann]: Ég hef verið að fara með blöðin í þónokkurn tíma, frekar skrýtið að einhver hringi núna (var bara búinn að vera þarna í 5 mínútur).
[Kærastinn minn] sagði þetta hafa verið ekki óvinsamleg samskipti en ég held að ég myndi aldrei lenda í svona. Það hefur einnig verið leitað á vini hans við svipaðar aðstæður en sá vinur er brúnn. Við höfum einnig lent í aðstæðum þar sem lögreglan kom mun verr fram við mig en [hann].“
Kona af erlendum uppruna sem upplifir fordóma á Íslandi – „Hvað er ég eiginlega að gera hér?“
Berenice Barrios Quiñones hefur búið hér á landi í sex ár og í samtali við Kjarnann rifjaði hún upp atvik þar sem hún varð fyrir fordómum hér á landi en það var fyrir um ári síðan þegar hún fór með fjölskyldunni í bakarí í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði. Eiginmaður hennar og eldri sonur brugðu sér frá og var hún ein með yngri syninum þegar gömul kona fór til hins stutta og spurði hann hvar móðir hans væri og hvort það væri í lagi með hann – en þá var hann tveggja og hálfs árs gamall. Litli er líkur föður sínum og segir Berenice að konan hafi efast um að hann væri sonur hennar vegna litarháttar hennar.
Atvik sem þessi segir Berenice særa sig enda sé um að ræða fordóma sem séu rótgrónir í samfélaginu. Þetta sé einungis eitt lítið dæmi af fjölmörgum. „Mér leið mjög illa eftir þetta atvik. Að fólk haldi að ég ræni barni einungis vegna þess að ég lít ekki út eins og það er hræðilegt.“
Berenice segir að þótt þetta atvik hafi verið slæmt þá særi það hana meira þegar fólk sem hún vinnur með eða þekkir hana sýni fordóma, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Öll þessi litlu atvik safnast saman eins og droparnir sem hola steininn, segir hún.
Þá komi iðulega fyrir að hún fái slæma afgreiðslu í búðum og á veitingastöðum vegna þess að hún lítur ekki út fyrir að vera íslensk. „Ég er stundum svo þreytt á þessu. Maðurinn minn segir þá við mig að ég sé sterk kona sem ráði við þetta og ég er sammála því – en þrátt fyrir það þá langar mig svona einu sinni til tvisvar á ári að flytja í burtu. Þá hugsa ég með mér: Hvað er ég eiginlega að gera hér?“
Afstöðuleysi er afstaða með núverandi kerfi
Hvað er þá til ráða? Já, er það ekki eins og margoft hefur verið bent á í þessum mótmælum: Að hlusta og hætta að hrútskýra tilfinningar annarra – og ofan á það að taka afstöðu, því afstöðuleysi er afstaða með núverandi kerfi. Að láta ekki í sér heyra eða fordæma hvernig komið er fram við fólk er afstaða út af fyrir sig.
Því við í forréttindastöðunni í okkar hvíta landi verðum að gera okkur grein fyrir að landið okkar er ekki lengur hvítt. Við erum að vaxa í það að verða fjölmenningarsamfélag – þar sem fólk af erlendum uppruna tekur einsleitnina úr þessu hvíta. Við skulum fagna því og umfaðma nýjan og betri veruleika.
Svo ég tek upp ákall Michael Moore: „Við skulum grípa til aðgerða til að bæta úr þessu núna og um leið og við biðjumst fyrirgefningar og endurlausnar“ og bæti við:
- Hlustum á frásagnir fólks af erlendum uppruna og þeirra sem líta öðruvísi út
- Endurhugsum útlendingastefnuna okkar
- Horfumst í augu við eigin fordóma
- Látum í okkur heyra
- Styðjum fólk sem verður fyrir óréttlæti
Höfundur er blaðamaður.