Stjórnvöld tóku mikilvæga ákvörðun nú í sumar þegar þau „opnuðu“ landið fyrir ferðamönnum eftir að ferðalög höfðu legið niðri síðan COVID faraldurinn hófst í mars á þessu ári. Hér verða færð rök fyrir því að stjórnvöld hafi með ákvörðun sinni gert mistök með því að ofmeta kosti þess að opna landið og vanmeta þá hættu sem slík opnun skapaði fyrir efnahagslífið.
Stóra stundin
Í júní var ákveðið að opna landið fyrir erlendum sem innlendum ferðamönnum og skima á landamærum til þess að draga úr líkum þess að farsóttin bærist aftur til landsins.
Ýmis rök voru færð fyrir opnuninni, sum skynsamlegri en önnur. Sum voru rökleysur eins og „það gengur ekki að hafa landið lokað“ eða „efnahagslífið nær sér ekki á strik í lokuðu landi“. Talsmenn ferðaþjónustu héldu uppi mjög öflugum málflutningi um að opnun væri bráðnauðsynleg, ella blasti (réttilega í mörgum tilvikum) við gjaldþrot fyrirtækja, en minna fór fyrir umræðu um hætturnar sem fælust í opnuninni. Engan málsvara var að finna fyrir þá sem mestu hafa að tapa ef veiran tekur að dreifa sér um samfélagið að nýju; nemendur í framhaldsskólum og háskólum, eldri kynslóðina, starfsfólk og viðskiptavini í þjónustugeiranum sem er stærsti hluti efnahagslífsins, og almenning sem var mikið létt þegar sóttin hafði verið kveðin niður í júní.
Stjórnvöld töldu sig standa frammi fyrir þremur kostum. Í fyrsta lagi væri unnt að hafa öflugar sóttvarnir á landamærum, t.d. með því að krefjast þess að allir sem koma til landsins séu 14 daga í sóttkví. Í öðru lagi væri unnt að opna landið eins og Evrópulöndin hafa flest valið að gera og í þriðja lagi væri hægt að fara þá leið sem valin var að skima við landamæri til þess að minnka hættuna á að farsóttin kæmi aftur til landsins.
Sóttvarnarlæknir hafði áður lagt mat á þær leiðir sem mögulegar væru við opnun landsins og mælt með skimun á landamærum. Svo virðist sem stjórnvöld hafi með þessari ákvörðun talið sig geta styrkt stöðu ferðaþjónustu án þess að fórna sjónarmiðum um sóttvarnir.
Ofmetinn ábati af opnun
Það er ekki rétt að það hafi verið nauðsynlegt fyrir efnahagslífið að opna fyrir flæði ferðamanna. Önnur eyríki hafa kosið að vernda eigið efnahagslíf og þjóðfélög með öflugum sóttvörnum á landamærum og efnahagur landsins hefur verið framar vonum undanfarnar vikur þótt fáir erlendir ferðamenn væru.
Landamæri Nýja Sjálands eru, svo dæmi sé tekið, lokuð enn þann dag í dag. Þeir sem fá leyfi til þess að koma til landsins þurfa að dvelja í 14 daga í sóttkví undir eftirliti og taka síðan próf áður en þeim er hleypt út í samfélagið. Taiwan bannar allar ferðir ferðamanna og þeir sem koma til landsins þurfa að vera 14 daga í sóttkví. Öllum erlendum ríkisborgurum er bannað að koma til Hong Kong. Suður Kórea (eins konar eyland vegna þess að landamæri við Norður Kóreu eru lokuð) krefst þess að allir sem koma til landsins taki próf og séu í sóttkví í 14 daga. Einnig leyfir Kanada einungis eigin borgurum að koma til landsins auk farandverkamanna og erlendra stúdenta og er 14 daga sóttkví ófrávíkjanleg. Finnland bannar komu allra erlendra ríkisborgara sem eru ekki með dvalarleyfi í Finnlandi og er einnig krafist 14 daga sóttkvíar fyrir þá sem mega koma til landsins.
En hvað um efnahagslegu afleiðingarnar af því að hafa áfram öflugar sóttvarnir við landamærin? Á það var bent í vor að í umfjöllun um hagræn áhrif faraldursins hefði oft gleymst að taka tillit til þess að Íslendingar vörðu um 200 milljörðum króna á ferðalögum erlendis árið 2019. Nú þegar þeir gætu síður farið utan myndu þeir verja þessum milljörðum innan lands. Í sumar hefur glögglega komið í ljós hvert þessir peningar hafa farið. Iðnaðarmenn og verktakar, verslun og þjónusta og jafnvel ferðaþjónusta úti á landi hafa fundið fyrir mikilli eftirspurn. Peningunum sem áður var eitt á Strikinu í Kaupmannahöfn, í London eða á sólarströndum er nú varið á Laugavegi, í Kringlunni, í byggingavöruverslunum, til þess að gera upp og viðhalda húsnæði, til þess að byggja sumarbústaði, kaupa hjólhýsi og aðrar tómstundavörur og þannig mætti lengi telja. Hótel hafa verið uppbókuð úti á landi og veitingahús full af Íslendingum. Það er kaldhæðnislegt að opnun landsins hefur með því að mögulega valda annarri bylgju farsóttar valdið ferðaþjónustu skaða.
Áhrif brotthvarfs erlendra ferðamanna eru þó að öllum líkindum meiri en áhrif aukinnar innlendrar eftirspurnar Íslendinga. Þess vegna hafa vextir Seðlabankans verið lækkaðir í 1% og hafa raunvextir, mismunur nafnvaxta og verðbólgu, ekki verið jafnlágir um áratugaskeið. Tilgangur vaxtalækkunar var að létta greiðslubyrði fyrirtækja og heimila, örva innlenda eftirspurn fyrirtækja og setja gólf undir fasteignamarkaðinn og hefur lækkunin haft tilætluð áhrif. Ríkisstjórnin hefur sömuleiðis aukið útgjöld um rúmlega 300 milljarða sem kemur beint inn í innlenda eftirspurn. Sjálfvirkir sveiflujafnarar ríkisfjármálanna eru einnig að verki og koma fram í minni skatttekjum og hækkun greiðslu atvinnuleysisbóta sem hvort tveggja örvar innlenda eftirspurn.
Í sumar hefur atvinnuleysi verið lægra en búist var við á vormánuðum (skv. Hagstofunni var atvinnuleysi 3,5% í júní á þessu ári en 3,2% í júní 2019 og skv. Vinnumálastofnun var það 7.3% í júli en var 3,4% í júlí í fyrra) og síðasta verðbólgumæling var 3% sem bendir til þess að eftirspurn sé þó nokkur í hagkerfinu.
Skortur á hagfræðilegri greiningu
Við undirbúning ákvörðunar um opnun landsins í júní var ekki gerð heildstæð athugun á efnahagslegum áhrifum opnunarinnar.
Útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar var um 370 milljarðar árið 2019 á meðan verðmæti innfluttrar ferðaþjónustu voru um 200 milljarðar skv. Hagstofunni. En þá er ekki tekið tillit til þess að útflutningur ferðaþjónustu kallar á innflutning margvíslegra aðfanga svo sem matvæla og eldsneytis. Einnig er líklegt að hluti launa þeirra 8000 erlendu ríkisborgara sem unnu við ferðaþjónustu sé sendur úr landi. Auðvitað er einnig ljóst að hluti af þeirri innlendu eftirspurn sem myndaðist í sumar lekur út úr hagkerfi í formi innflutnings á margvíslegum vörum sem keyptar eru í verslunum.
Hagsmunir ýmissa þjóðfélagshópa sem verða illa úti í farsótt, svo sem nemenda í skólakerfinu sem hugsanlega verða fyrir óbætanlegum skaða, voru ekki teknir með í reikninginn. Það er ekki til neinn „framkvæmdastjóri samtaka framhaldsskólanemenda“ sem birtist í fjölmiðlum á hverjum degi.
Lokaorð
Stjórnvöld á Íslandi hafa löngum látið stjórnast af ráðandi atvinnugreinum. Með því að opna landið í sumar var hættunni boðið heim að önnur bylgja faraldursins lamaði þjóðlíf og efnahagslíf. Sérstaða Íslands hefur fólgist í því undanfarna mánuði að hér hefur líf fólks verið næsta eðlilegt á meðan grímuklæddar þjóðir í nágrenninu glíma við það illleysanlega vandamál hversu mikið eigi að aflétta sóttvörnum innan lands til þess að efla efnahag þótt smitum fari fjölgangi.
Hér á landi er mögulegt að lágmarka líkurnar á því að farsóttin komi aftur til landsins með öflugum sóttvörnum við landamæri eins og mörg sambærileg eyríki hafa ákveðið að gera, líf fólks hefur undanfarnar vikur verið næsta eðlilegt og bjartsýni aukist. Með ákvörðunum sínum um opnun landsins hafa stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efnahag landsins einnig stefnt í hættu.
Á það hefur verið bent að þótt eftirlit á landamærum væri hert þá væri ekki hægt að koma í veg fyrir að veiran kæmi til landsins aftur svo lengi sem faraldur geisar erlendis. En er ekki nær að bæta þær „stíflur“ sem leka frekar en að rífa þær?
Höfundur er prófessor í hagfræði og situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Þær skoðanir og ályktanir sem koma fram í greininni endurspegla ekki viðhorf annarra nefndarmanna. Greinin birtist fyrst í Vísbendingu 7. ágúst 2020.