Auglýsing

Það var sérkennilegt að bíða dögum saman eftir því að sá frambjóðandi í bandarísku forsetakosningunum sem er þegar búinn að fá á fimmtu milljón fleiri atkvæði en andstæðingur sinn yrði formlega lýstur nýr forseti. Ástæðan er sú að í sjálfskipaðri vöggu lýðræðisins skiptir fjöldi atkvæða heilt yfir ekki máli heldur hversu marga kjörmenn hver frambjóðandi fær innan ríkjanna 50. 

Þótt Joe Biden hafi loks verið staðfestur sigurvegari kosninganna á laugardag, með yfir 75 milljónir atkvæði á bakvið sig eða 2,8 prósentustigum fleiri en andstæðingur hans í kosningum þar sem fleiri greiddu atkvæði en nokkru sinni áður, stendur eftir að í Bandaríkjunum býr þjóð sem hallast frá miðju til vinstri en býr við kerfi sem er hannað til að ýkja niðurstöður kosninga frá miðju til hægri. 

Vegna þessa þá hefur það gerst fimm sinnum í sögu Bandaríkjanna að forseti hefur verið kosinn án þess að hafa fengið fleiri atkvæði en sá sem bauð sig fram á móti honum. Þrjú þeirra skipta voru á nítjándu öld, slíkt gerðist aldrei á tuttugustu öldinni en hefur gerst tvívegis á þeirri tuttugustu og fyrstu. Bush yngri fékk um hálfri milljón færri atkvæði en Gore árið 2000 en samt 271 kjörmann, sem rétt dugði honum til að vinna kjörmannaráðið. Árið 2016 fékk Donald Trump þremur milljónum atkvæðum minna en Hillary Clinton, en samt 306 kjörmenn kjörna og varð þar með forseti Bandaríkjanna. Ástæðan var sú að Trump vann „Bláa vegginn“ svokallaða, þrjú Miðvesturríki Bandaríkjanna: Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin. Forsetinn fékk samtals um 77 þúsund fleiri atkvæði í þessum þremur ríkjum en Clinton.

Auglýsing
Augljóslega er málefnalegt að gagnrýna svona niðurstöðu út frá lýðræðislegum rökum. Vilji meirihlutans nær ekki að koma fram. Það hafa meira segja verið gerðar tilraunir til að afnema kjörmannaráðsfyrirkomulagið. Árið 1969 samþykkti fulltrúadeild þingsins með yfirgnæfandi meirihluta að breyta stjórnarskrá Bandaríkjanna með þeim hætti að kjörmannaráðið yrði lagt niður og bein kosning forseta yrði tekin upp. Atkvæði féllu þannig að 338 þingmenn úr báðum flokkum voru fylgjandi en 70 á móti. Gallup-könnun sem hafði verið gerð ári áður sýndi að 80 prósent þjóðarinnar voru fylgjandi breytingunni. Richard Nixon, þáverandi forseti, studdi breytinguna. Það gerði Hubert Humphrey, sem hafði tapað fyrir Nixon í forsetakosningum 1968, líka. 

Ástæðan fyrir stuðningi forsetans og mótframbjóðanda hans var sú sama hjá báðum: George Wallace. 

Rasisti reynir að misnota kerfi til að tryggja aðskilnað

Sá var einn þekktasti rasisti og aðskilnaðarsinni bandarískra stjórnmála á síðustu öld. Hann var ríkisstjóri í Alabama og beitti sér af hörku gegn réttindabaráttu svartra og öllum tilraunum til að afnema aðskilnaðarstefnuna í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Flestir muna líkast til eftir Wallace, sem var lengst af frambjóðandi demókrata líkt og margir af hans sauðahúsi á þeim tíma, sem manninum sem stóð í anddyri háskólans í Alabama til að koma í veg fyrir að svartir nemendur fengu að ganga þangað inn. Hann er líka sá sem skipaði ríkislögreglunni í Alabama að stöðva kröfugönguna frá Selmu til Montgomery með valdi.

Wallace bauð sig fram til forseta árið 1968 sem óháður frambjóðandi, gegn Nixon og Humphrey. Hann vissi að sigur væri óhugsandi, en tilgangur Wallace var að nýta sér kjörmannaráðsfyrirkomulagið til áhrifa umfram stuðning. Áætlunin var að vinna nægilega marga kjörmenn til að koma í veg fyrir að hvorugur hinna frambjóðendanna fengi meirihluta, og að ákvörðun um hver yrði forseti myndi þá enda hjá fulltrúadeildinni. Þar vonaðist hann til þess að íhaldssamir Suðurríkjamenn gætu nýtt stöðuna til að semja um að næsti forseti myndi ekki beita sér fyrir frekari afnámi aðskilnaðar milli kynþátta í Suðrinu. „Aðskilnaður nú, aðskilnaður á morgun, aðskilnaður að eilífu,“ voru frægustu orð þessa manns. 

Wallace er síðasti svokallaði þriðji frambjóðandi í forsetakosningum til að vinna kjörmenn. Alls vann hann sigur í fimm ríkjum í Suðrinu og fékk 13,5 prósent allra atkvæða. Áætlun hans gekk hins vegar ekki upp þar sem Nixon náði í meirihluta kjörmanna. 

Kerfi sem vinnur gegn vilja meirihlutans

Til að afnema kjörmannaráðið, og breyta stjórnarskránni þarf aukinn meirihluta atkvæða í báðum deildum þingsins, eða ⅔ þeirra. Í fulltrúadeildinni náðist það með afgerandi hætti. Í öldungadeildinni reyndist fámennur hópur þingmanna úr röðum bæði repúblikana og demókrata, frá Suðurríkjunum og nokkrum minni ríkjum sem kjörmannaráðið tryggði pólitísk áhrif umfram stærð, á móti þessu lýðræðislega risaskrefi. Þeir lögðust í málþóf og tókst að koma í veg fyrir breytinguna.

Síðan að þetta var hefur ekki verið gerð merkjanleg tilraun til að afnema kjörmannakerfið í Bandaríkjunum, þótt umtalsverður meirihluti Bandaríkjamanna sé því enn fylgjandi. 

Fyrir vikið lifir kerfi þar sem atkvæði íbúa Bandaríkjanna í borgum og fjölmennari ríkjum hefur mun minna vægi en atkvæði þeirra sem búa í minni og dreifbýlli ríkjum. Kerfið gerir það líka að verkum að öll áhersla í kosningum er á um tug ríkja, sem teljast til svokallaðra sveifluríkja. Til að vinna forsetakosningar þurfa frambjóðendur að einbeita sér nær einvörðungu að því að sannfæra kjósendur í þeim ríkjum um ágæti sitt, og sníða loforðaflaum sinn að þeirra þörfum. Þorri þjóðarinnar, sem býr í ríkjum þar sem nánast meitlað er í stein hvorn flokkinn meirihluta íbúa ríkisins styður, fær sér sæti í stúkunni á meðan að þetta gengur yfir. Þeir geta hvatt sitt lið áfram, og hallmælt andstæðingnum, en hafa lítil bein áhrif á leikinn.

Þegar forseti vill ekki láta telja öll atkvæði

Nú til dags eru það fyrst og síðast repúblikanar sem vilja viðhalda kjörmannaráðinu. Þeir telja að það tryggi þeim pólitísk áhrif umfram atkvæðafjölda og kosningarnar 2000 og 2016 sýna svart á hvítu að það er rétt. Sú afstaða fékk byr undir báða vængi með tilkomu Trump sem hefur sýnt í orði og á borði að honum er alveg sama um lýðræði. Hans pólitík gengur einungis út á Trump, og það sem hann telur að sé Trump fyrir bestu. Aldrei hefur það verið jafn sýnilegt og síðustu daga þegar hann, og helstu bandamenn sitjandi forseta, hafa beitt sér af öllu afli gegn því að öll atkvæði í kosningunum yrðu talin. Þess vegna töldu margir Bandaríkjamenn að lýðræðið sjálft væri undir í nýliðnum kosningum. 

Biden ætlar að „lækna sál Bandaríkjanna“ og hefur heitið því að lækka hitastigið í ofsafengnum árekstrum andstæðra fylkinga í landi sem hefur líkast til aldrei verið skautaðra. Vonandi tekst honum það og samtímis að leiða saman fólk á grundvelli þess sem það á sameiginlegt, í stað þess að það takist stanslaust á vegna þess sem aðskilur það.

En lýðfræðilegar breytingar í lykilríkjum í „sólbeltinu“ svokallaða gætu líka kallað á að repúblikanar gætu skipt um skoðun gagnvart kjörmannakerfinu sérkennilega í nánustu framtíð. Frjálslyndu fólki og íbúum af öðrum kynþáttum en hinum hvíta hefur fjölgað hratt í ríkjum á borð við Arizona, sem Joe Biden vann nú, og í Texas. Í síðarnefnda ríkinu minnkar forskot repúblikana í hverjum kosningum sem haldnar eru, enda vex íbúafjöldi þess hraðar en í nokkru öðru ríki, aðallega vegna aðflutnings fólks af öðrum kynþáttum en þeim hvíta. Mitt Romney fékk 1,2 milljón fleiri atkvæði en Barack Obama í Texas árið 2012. Trump fékk rúmlega 800 þúsund fleiri atkvæði en Hillary Clinton árið 2016. Í ár stefnir í að Trump fái um 650 þúsund fleiri atkvæði en Biden. 

Haldi þessi þróun áfram er mögulegt að Texas, sem er með næst flesta kjörmenn allra ríkja eða 38, falli demókrötum í skaut annað hvort 2024 eða 2028. Þegar það gerist verður leið repúblikana að sigri í forsetakosningum eftir reglum kjörmannaráðsins, sem fela í sér að það þarf að ná í alls 270 kjörmenn til að vinna, orðin mjög torsótt. 

Því verður að teljast líklegt að aðstæður geti skapast á næstu árum til þess að ræða á ný, af fullri alvöru, lýðræðislegar umbætur á kosningakerfi Bandaríkjanna sem hafi það markmið að öll atkvæði gildi jafn mikið.

Lýðræðisvöntun á Íslandi

Við erum með útgáfu af þeirri stöðu sem er uppi í Bandaríkjunum hér á landi. Hún á sér ekki jafn djúpstæðar rætur í kerfisbundnu ofbeldi og niðurlægingu minnihlutahópa og þar, en snýst samt sem áður um að ákveðinn forréttindahópur sem hefur alltaf ráðið öllu er í heiftúðlegri baráttu gegn því að kerfin breytist í takti við samfélagsgerðina. Kerfi sem færa þessum hópi auð, völd og önnur samfélagsleg áhrif langt umfram stuðning. 

Pólitískir angar hópsins, sem smíðuðu kerfin hans, eru sífellt að minnka að stærð og þurfa að finna skrautlegri leiðir til að fjölga hjólunum undir vagninum svo hann hökti áfram veginn. Hjá þessum hópi snúast stjórnmál að stóru leyti um að ala á hræðslu gagnvart breytingum. Það er oftar en ekki gert á grundvelli hugmyndar um að hópurinn sé sérstakur varðmaður frelsis og sjálfstæðis. 

Þetta er hins vegar sértækt frelsi og sjálfstæði, ekki almennt. Frelsi þeirra til að ráða og hagnast eftir gömlu leiðunum og vilji til að takmarka persónufrelsi annarra vegna þess að það rímar ekki við hugmyndir þeirra um afturhaldssama kjarnamenningu. 

Auglýsing
Ísland gengur ekki lengur í takti við þennan hóp. Að uppistöðu erum við nefnilega frjálslynd þjóð. Því yngri sem landsmenn eru, því frjálslyndari eru þeir. Mikill meirihluti landsmanna er til að mynda fylgjandi rúmum sjálfsákvörðunarrétti kvenna til þungunarrofs og þar er himinn og haf milli yngri og eldri kynslóða í afstöðu. Sömu sögu er að segja um afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju og þegar spurt er um það hlutverk sem trú á að leika í samfélaginu. Eða viðhorfi til innflytjenda.

Þetta frjálslynda fólk er að finna í öllum þrepum samfélagsins, og innan flestra stjórnmálaflokka, meðal annars allra sitjandi stjórnarflokka. Þeir innihalda hins vegar líka sterk íhaldsöfl sem hafa af einhverjum ástæðum meiri áhrif en hinir, þótt fátt bendi til þess að þau gangi í takti við meirihluta þjóðarinnar. Því til stuðnings má nefna að þegar pólitískur guðfaðir þessarra afla tók sér stutt leyfi frá því að fækka lesendum Morgunblaðsins sumarið 2016 til að bjóða sig fram til forseta þá fékk hann 13,7 prósent atkvæða. Þjóðin hafnaði honum með afgerandi hætti, í beinni kosningu.

Andstaðan við uppfærslu

Mikill meirihluti Íslendinga vill breytingar á grunnkerfum, sérstaklega stjórnarskrá. Tekist er á um hversu umfangsmiklar þær eigi að vera og hvort þær eigi að byggja bókstaflega á vinnu stjórnlagaráðs eða ekki. En fyrir liggur að það er yfirgnæfandi vilji til breytinga. 

Í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 sagði til að mynda um 74 prósent þeirra sem kusu að þeir vildu ákvæði í stjórnarskrá sem tryggðu þjóðareign á náttúruauðlindum. Það hefur ekki gerst og til stendur að leggja fram útvatnaða tillögu þess efnis. 

Alls sögðust 58,6 prósent landsmanna að þeir vildu, líkt og meirihluti kjósenda vill í Bandaríkjunum, að atkvæði kjósenda alls staðar að á landinu myndu telja jafnt. Það hefur ekki gerst og vinnu við það ákvæði hefur verið frestað fram á næsta kjörtímabil vegna andstöðu flokka sem hagnast á núverandi fyrirkomulagi. 

Alls sögðust 63,4 prósent að þeir vildu að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekkert hefur verið gert í því. Munurinn á þeim sem vilja þessar grundvallarbreytingar og hinum sem standa á móti hefur aldrei verið meiri.

Þátttaka í ákvörðunum sem varða almenning

Íslendingar líta á frelsi sem víðara hugtak en að í því felist frelsi einstaklingsins til að græða peninga eða sanka að sér völdum, verjast breytingum og segja hvað sem er um hvern sem er hvar sem er án þess að það eigi sér rætur í sannleika eða staðreyndum. Íslendingar eru framfarasinnuð þjóð sem hefur sterka réttlætiskennd og vill vera leiðandi í mannréttindabaráttu á heimsvísu. Þjóð sem vill skilgreina þá baráttu sem jöfnun á tækifærum allra, ekki sem varðstöðu um aukin tækifæri sumra. 

Íslendingar eru 368.363 talsins. Við erum gjörbreytt þjóð frá þeirri sem var á síðustu öld. Þar af eru yfir 50 þúsund erlendir ríkisborgarar og enn fleiri af erlendum uppruna sem hafa þegar hlotið ríkisborgararétt. Við erum allskonar og það er óþolandi að öll þessi flóra þurfi að búa við kerfin sem minnihlutinn ver með kjafti og klóm, með hjálp nytsamlegra sakleysingja sem sannfæra sig um að undirgefni séu nauðsynlegar málamiðlanir.

Lýðræði byggist á þátttöku almennings í þeim ákvörðunum sem hann varða. Valdið í lýðræðinu á sér frumuppsprettu hjá fólkinu. Stjórnmálamennirnir eiga að endurspegla vilja þess. Augljóst er að stjórnmálamenn segja eitt fyrir kosningar en gera annað eftir þær. Það gerist vestan hafs og það gerist hér á landi. Fyrir vikið kemst vilji fólksins ekki að. Því þarf að breyta.

Yfirvofandi breytingar í Bandaríkjunum gefa einhverja von um að það sé þó hægt.

Líka á Íslandi.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari