Það þarf nú að vera eitthvað meira en lítið skrýtinn til að skrifa jákvæða og peppaða grein um árið 2020. Árið þegar allt fór úr skorðum, heimurinn stöðvaðist, landamæri lokuðust, fólk var læst inni, tugmilljónir veiktust og ástvinir dóu.
Já, þetta var ferlegt ár. Alveg agalegt eiginlega. Greinin gæti endað hér.
Og ekki nóg með það, að þegar við skríðum út úr kófinu þegar líður á árið, vofir yfir okkur hamfarahlýnunin, risastór ógn við sjónarrönd. Takist mannkyni ekki að taka skarpa beygju af þeirri braut sem það hefur verið á, er voðinn vís.
Framundan verður að vera áratugur aðgerða, áratugurinn þegar þarf að takast að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um helming, og svo áfram koll af kolli, fram til þess að öldin verður hálfnuð og markmiðin sem við höfum sett okkur, þurfa að vera í höfn.
Til þess að það takist, verður að halda í vonina, trúa á kraftinn í fólkinu, sjá ljósið í gegnum kófið.
Ég hef áður skrifað um hvernig hin ógnarhraða þróun bóluefnis hefur sýnt okkur að það sem dugar þegar þarf að ná raunverulegum árangri frammi fyrir gríðarstórum áskorunum, sé það opið samfélag, góð menntun, fjölbreytni og jöfn tækifæri fólks til að rækta hæfileika sína sem virkar best.
Horfum nú á hvað hefur gerst í baráttunni við loftslagsbreytingarnar á þessu undarlega ári. Aldan sem reis frá stéttinni í Gamla Stan haustið 2018, þegar unglingsstúlka hætti að mæta í skólann og settist alein fyrir utan sænska þinghúsið með verkfallsskilti, náði hámarki ári síðar þegar þessi sama stúlka ávarpaði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og hundskammaði ráðamenn fyrir að tala fagurt en gera fátt.
Greta Thunberg, Lína langsokkur okkar tíma, stefndi til hafs og sigldi á skútu yfir Atlantshafið og aftur til baka til að messa yfir samningafólki á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid sama haust.
En þetta var ekki að ganga upp. Unga fólkið hafði talað, það hafði fylkt liði, safnast á torg og krafist aðgerða, kallað hátt og skýrt á breytingar, en pólitíkin var ekki að fylgja með. Tröllið í Hvíta húsinu ætlaði ekki að spila með, þvert á móti ætlaði það að spilla eins mikið fyrir og mögulegt væri og aðrir gátu skákað í hans skjóli og vikið sér undan ábyrgð.
Og svo kom Covid.
Aðgerðir gegn loftslagsvá eru eitt af fjórum helstu áherslumálum nýrrar ríkisstjórnar Joe Biden. Biden er búinn að stilla upp liðinu, velja fjölbreyttan hóp af reynsluboltum og nýjabrumi og skipa sérstakan loftslags „ráðherra“ til að ná árangri í alþjóðlegum aðgerðum gegn hamfarahlýnun.
Það er ekki víst að allir átti sig á hversu mikil stefnubreytingin er hjá æðstu yfirstjórn þessa voldugasta ríkis heims. Í stað skemmdarvargs er komið samvinnuafl.
Bandaríkin, það ríki sem hefur borið mesta ábyrgð á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, ætlar að vera með í alþjóðasamvinnu, mun ganga aftur til liðs við Parísarsamkomulagið og fjárfesta í stórtækum aðgerðum fyrir loftslagið.
Þetta hef ég verið að fara yfir með nemendum mínum í háskólanámskeiði sem ég bjó til um Loftslagsbreytingar, alþjóðasamninga og græn stjórnmál sem er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
Loftslagsmálin eru í forgangi Bidenstjórnarinnar. Markmiðið er einnig að aðgerðir gegn kórónaveirunni og kreppunni sem hún veldur, muni jafnframt gagnast í baráttunni gegn hamfarahlýnun.
Biden birtir lista af margs kyns aðgerðum til að vinna gegn loftslagsbreytingum, breytingum á orkukerfunum, samgöngunum og massívri fjárfestingu í nýjum grænum störfum
Þýðir það að allt verði gott strax? Að þetta verði skítlétt? Að við getum andað léttar? Nei, alls ekki. En þetta þýðir að viljinn er til staðar til breytinga og viljinn er ekki allt sem þarf, en hann er það sem þarf.
Einna mikilvægast kann að verða að Bandaríkjastjórn hefur metnað til að ná saman þeim ríkjum sem blása mestum gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, til að reyna að finna samstöðu, tengja við sameiginlega hagsmuni og grípa til aðgerða.
Samvinna gegn loftslagsvá geta orðið eitt stærsta samstarfsverkefni Bandaríkjanna með Evrópusambandinu sem hefur haldið uppi kyndlinum. Græni sáttmáli Evrópu var eitt af stórtíðindum ársins, styrkur græningja hefur verið að aukast og aðrir flokkar fylgt með kröfunni úr evrópskum samfélögum um nýjar áherslur og stefnubreytingu.
Loftslagsmálin verða einnig leið til samvinnu nýrrar Bandaríkjastjórnar við land sem á í sögulegum hremmingum þessa dagana, Bretland.
Stjórn Borisar Johnson vildi liggja réttu megin við Trump og talaði fjálglega um fríverslunarsamning, klórþveginn kjúkling fyrir únsur af haggisi, þotur fyrir þotuhreyfla. Nú eru breyttir tímar og í stað Trump sem hataði Evrópusambandið og elskaði Brexit, er mættur Evrópusinnaður Bandaríkjaforseti, stoltur af írskum uppruna og enn Evrópusinnaðri utanríkisráðherra, alinn upp í París.
Brexit-bandalag er úr sögunni og besta leiðin til samstarfs nú er að vinna saman að loftslagsmálum í aðdraganda 26. Loftslagsráðstefnunnar í Glasgow næsta haust þar sem Bretar verða að sýna lit og taka forystu.
Svona geta nú veður skipast skjótt í lofti. Þegar Boris Johnson þurfti að skipta um umræðuefni frá afleitri Covid-frammistöðu og vildi sækja fram, kom hann fram með tillögur að grænni byltingu, fjárfestingu í grænum innviðum, orku og umhverfi, 12 milljarða punda og 250 þúsund störf. Hann vildi sýna að hann skildi hvað klukkan sló.
Og loftslagsmálin verða einnig nýtt samstarfsverkefni fyrir Bandaríkin og Kína, því þessi tvö ríki, hverra valdakapp mun lita áratugina framundan, verða að vinna saman til að koma böndum á útblástur, og til að fjárfesta í grænni framtíð.
Það sem verður drífandi fyrir samskipti þessara stórvelda samtímans, verður líka spennandi fyrir samskipti Íslands og Bandaríkjanna. Stjórnarskipti í Bandaríkjunum eru í öllu tilliti góðar fréttir fyrir Ísland og önnur ríki sem treysta á alþjóðakerfið og alþjóðalög. Hér eru ný tækifæri í sjónmáli.
Samvinna stórveldisins í vestri og okkar hér í norðri gæti orðið söguleg. Í stað tækifærissamvinnu við Trumpista kemur raunhæft samstarf um mest aðkallandi mál samtímans. Ekki er nema ár síðan nýi loftslagsráðherrann, John Kerry var hér á landi að tala um loftslagsmál í samhengi Norðurslóða.
Í nýjum áherslum Bandaríkjanna á loftslagsmál felst raunverulegt tækifæri til þess að efla samskiptin, bæði tvíhliða og í samhengi norðurslóða. Það eru frábærar fréttir fyrir Ísland og Norðurslóðir ef Bandaríkin ætla að beita sínu afli í þágu aðgerða í loftslagsmálum, því okkar heimshluti og málefni hafsins eru augljóslega hluti af því. Hér er nýtt og konkret samstarfssvið ef rétt verður á málum haldið.
Samvinna við Bandaríkin um loftslagsaðgerðir gæti búið til ný tækifæri hér á landi, störf við rannsóknir og þróun, og ný spennandi verkefni eins og Carbfix sem í upphafi var vísindasamstarf bandarískra, íslenskra og franskra háskóla og íslensks orkufyrirtækis. Ísland getur með snjöllum samstarfsverkefnum og framsýnum samningum orðið sýnidæmi um aðgerðir í loftslagsmálum og hvernig hin græna framtíð getur litið úr.
Árið 2021 eru 70 liðin frá undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og 80 ár frá því bandarískir hermenn komu hingað til lands að verja landið gegn öxulveldum nasismans. Varnarsamningurinn hefur síðan verið grundvallarstoð í utanríkis- og öryggismálum Íslands. Samhengi þess samnings var kalda stríðið, spenna, átök og kapphlaup stórveldanna, öryggis- og varnarmál.
Nú er samhengið annað. Umhverfis- og loftslagsmál eru grundvallarmál dagsins, þau mál sem hafa úrslitaáhrif á framtíðina og á alla aðra málaflokka – efnahag, öryggi, mannréttindi o.s.frv. Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eru öryggismál okkar tíma.
Hvernig væri að Íslendingar kæmu fram með tillögu að því að gera Loftslags- og umhverfissamning Íslands og Bandaríkjanna? Ný stoð í samskiptunum, ný vídd á pari við varnarsamninginn. Samningurinn gæti kveðið á um fjölþætt samstarf; rannsóknarsamvinnu háskóla og vísindafólks, aukin viðskipti og grænar fjárfestingar, nemendaskipti; nýsköpun og sprotar, sjálfbær ferðamennska, jarðvarmi, Carbfix og þannig má áfram telja.
...
2020 hefur verið ólíkt öllum árum sem við höfum lifað. Forsendur hafa breyst, það sem ekki var mögulegt, er allt í einu veruleikinn. Stóra spurningin er hvernig unnið verður úr. Mun veirukófið leiða til hugarfarsbreytingar og nýrrar stefnu fyrir heiminn? Vöknum við og ákveðum að nýta reynsluna til að skapa betri framtíð. Að viðbrögð gegn veirunni verði jafnframt aðgerðir fyrir opin samfélög, jöfn tækifæri, meiri fjölbreytni, betra loftslag. Í því mun leyndardómur ársins 2021 liggja.
Höfundur kennir alþjóðastjórnmál í Háskóla Íslands.