Er ekki bara best að við sem samfélag tökum þá sameiginlegu ákvörðun að skjóta Ingó Veðurguð, Auðun Lúthersson, Sölva Tryggva, Egil Einarsson, Jón Baldvin Hannibalsson, Aron Einar Gunnarsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Gylfa Þór Sigurðsson, Kolbein Sigþórsson, Þóri Sæmundsson, Atla Rafn Sigurðarson, Jón Pál Eyjólfsson, Ágúst Ólaf Ágústsson, Kolbein Óttarsson Proppé, Björn Braga Arnarsson og Helga Jóhannesson fyrir þær ásakanir sem komið hafa fram í opinberri umræðu um meint og ómeint brot þeirra er varða kynferðislega áreitni eða ofbeldi gegn öðru fólki?
Við getum líka bara sett eina eyjuna okkar undir þessa menn – og sent þá í útlegð fjarri mannabyggðum? Nú eða gengið alla leið og hafið opinberar aftökur á Lækjartorgi? Fólk getur safnast saman og hent tómötum og eggjum í þá áður en öxin fellur.
Stutta svarið er auðvitað nei – og eru þetta fráleitar hugmyndir sem enginn stingur raunverulega upp á. En þessi orðræða er iðulega notuð gegn þolendum slíkra brota til þöggunar og hún virkar. Umræðu á borð við „á ekki bara að skjóta hann?“ má finna á samfélagsmiðlum, sem og í opinberri umræðu. Nýjasta dæmið má sjá í viðtali Stöðvar 2 við Sigurbjörgu Söru Bergsdóttur þerapista sem birtist um síðustu helgi.
„... en þetta er ekki vont fólk“
Sigurbjörg bendir réttilega á að kynferðisbrot hafi gríðarlegar afleiðingar fyrir fólk. Hins vegar megi ekki gleyma því að orð geti líka verið ofbeldi. „Þá erum við að beita ofbeldi út af öðru ofbeldi. Og það er kannski eitthvað sem við þurfum að vara okkur á, að hafa umræðuna í jafnvægi af því að það eru börn og menn og konur að verða fyrir ofbeldi. Það eru ekki bara konur, það eru ekki bara menn, það er bara fullt af fólki að lenda í þessu og það er það sem er grafalvarlegt og þarf að taka tillit til,“ sagði hún.
„Fólk hefur tekið líf sitt út af svona. Fólk hefur misst vinnu, fólk hefur misst maka – bara alls konar og er kannski í margra ára baráttu við kerfið. Svo kannski kemur það í ljós að það var saklaust allan tímann.
Þannig að það er mikilvægt að það komi fram að við verðum að vanda okkur að taka allan hringinn, ekki bara bút úr honum. Við þurfum að skoða hlutina í réttu samhengi og ekki endilega gefa okkur alltaf að hlutirnir séu bara eins og er sagt. Það eru alltaf fleiri hliðar og það er bara ákveðin viska að nálgast hluti þannig.“
Hún spyr hvernig samfélag við viljum vera. „Ég veit það alveg að það er fullt af góðu fólki sem hefur gert ljóta hluti. Það er fullt af fólki sem hefur kannski orðið fyrir ofbeldi, fer svo að beita aðra ofbeldi en þetta er ekki vont fólk. En hvað eigum við að gera við það fólk? Eigum við að finna bara einhverja eyju og henda öllum þangað sem hafa gert eitthvað og þeir eiga ekki afturkvæmt? Það er einn valmöguleiki. Viljum við það? Eða viljum við að fólk kannski fái hjálp og fái samt bara að vera til eða á bara að aflífa það alveg?“ spurði Sigurbjörg.
Áður en við förum yfir þessa orðræðu þerapistans þá er rétt að geta þess að burt séð frá því hvað kemur stundum fram á samfélagsmiðlum þá gera þeir sem styðja við bakið á þolendum sér fyllilega grein fyrir því að meint brot þeirra sem nefndir eru hér fyrir ofan eru misalvarleg þó svo að þau séu öll vítaverð.
En þá að ummælum Sigurbjargar.
Í fyrsta lagi er það ekki ofbeldi að greina frá ofbeldi eða tala um það. Auðvitað er góð regla yfir höfuð að vanda orðaval sitt þegar talað er um mál sem þessi – á því leikur enginn vafi. Mörg slík mál eru viðkvæm og geta þau haft víðtækar afleiðingar fyrir alla hlutaðeigandi. Við getum vel tekið afstöðu með meintum þolendum kynferðisbrota án þess að viðhafa særandi gildishlaðin orð um meinta gerendur.
Og auðvitað verða karlmenn og börn líka fyrir ofbeldi og heldur enginn öðru fram. Það kemur þessari sérstöku umræðu ekki við.
Þolendur ekki síður brennimerktir
Í öðru lagi hafa þolendur kynferðisofbeldis í gegnum árin mátt þola mikla útskúfun og álag í kjölfar ofbeldis. Þolendur hafa líka „tekið líf sitt út af svona. Fólk hefur misst vinnu, fólk hefur misst maka – bara alls konar og er kannski í margra ára baráttu við kerfið.“ Þetta á ekki síður við um þá sem verða fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi en þá sem eru sakaðir um það.
Á vefsíðu Stígamóta kemur fram að afleiðingar kynferðisofbeldis hafi oft víðtækari áhrif á líf brotaþola en þeir gera sér grein fyrir.
„Þú getur upplifað skömm, sektarkennd, kvíða, depurð, lélega sjálfsmynd og margt annað sem getur verið að hafa áhrif á samskipti þín og sambönd sem og almenna líðan. Líðan okkar í kjölfar kynferðisofbeldis getur haft áhrif á virkni okkar og hvernig okkur gengur að takast á við þau verkefni sem liggja fyrir okkur í daglegu lífi.
Við getum verið að upplifa erfiðleika við tengjast öðrum eða hreinlega að vera innan um annað fólk. Margir brotaþolar eru einnig að upplifa áfallastreitu því það að vera beitt kynferðisofbeldi er áfall. Það er síðan margt sem spilar inn í það hvernig við tökumst á við afleiðingar eins og uppeldi, fyrri reynsla, stuðningur, bakland og svo framvegis,“ segir á vef Stígamóta.
Einnig má benda á að þolandi sem stígur opinberlega fram verður alltaf „sú manneskja“ – hann er brennimerktur fyrir lífstíð fyrir eitthvað sem gert var á hans hlut.
Í þriðja lagi er ekki hægt að réttlæta þöggun með því að segja að sumir meintir gerendur séu saklausir. Þolendur verða að geta greint frá sinni reynslu án þess að vera sakaðir um lygar. Og já, fólk getur auðvitað vandað orðaval sitt vel þegar það tjáir sig á samfélagsmiðlum eða opinberlega um mál sem þessi og verður réttlætingin fyrir slíkum umfjöllunum að vera góð.
Það er rétt hjá Sigurbjörgu þegar hún segir að við eigum að horfa á heildarmyndina en þegar hún segir að við þurfum að skoða hlutina í „réttu samhengi og ekki endilega gefa okkur alltaf að hlutirnir séu bara eins og er sagt“ þá missir hún marks. Ef rétta samhengið er að trúa frekar gerendum þá erum við komin á sama stað og fyrir árið 2017 – fyrir þá vitundarvakningu sem kom í kjölfar metoo-bylgnanna.
Góða og vonda fólkið
Í fjórða lagi er vert að gera athugasemd við umræðuna um hið góða og vonda fólk. „Það er fullt af fólki sem hefur kannski orðið fyrir ofbeldi, fer svo að beita aðra ofbeldi en þetta er ekki vont fólk,“ segir Sigurbjörg. Nú þurfum við að sammælast um að draga úr notkun slíkra gildishlaðinna hugtaka um manneskjur því þau koma þessari umræðu ekki við. Nema til að benda á að gott fólk getur líka gert slæma hluti til þess að komast hjá svokallaðri skrímslavæðingu manna sem beita ofbeldi en hún fælir fólk frá því að taka ábyrgð á gjörðum sínum – og þolendur frá því að segja frá reynslu sinni.
Þetta er tvíhyggja sem skaðar umræðuna með ótvíræðum hætti. Fólk verður að geta borið ábyrgð á gjörðum sínum hvort sem við teljum það „gott“ eða „vont“. Ábyrgðin fellst í því að viðurkenna brot sitt, iðrast og taka afleiðingunum hverjar svo sem þær eru.
Í fimmta og síðasta lagi fellur Sigurbjörg í þann pytt að leggja fram þessar fáránlegu tillögur að senda fólk sem gerist brotlegt á „einhverja eyju og henda öllum þangað sem hafa gert eitthvað og þeir eiga ekki afturkvæmt“. „Eða viljum við að fólk kannski fái hjálp og fái samt bara að vera til eða á bara að aflífa það alveg?“ spyr hún.
Enginn þolandi óskar þess að gerandinn verði „aflífaður“ og enginn sem styður við þolendur heldur. Þetta snýst allt um ábyrgð, ábyrgð, ábyrgð!
Orðræðan hefur fælandi áhrif
Ef manneskja sem er áreitt kynferðislega eða beitt ofbeldi og umræðan er þannig að gerendurnir verða þolendur þá hefur það gríðarlegan fælingarmátt á að sú hin sama greini frá áreitinu eða ofbeldinu.
Ef litið er svo á að það að segja frá sinni reynslu sé ofbeldi þá fælum við þolendur aftur inn í skuggann – og það er hrein og klár þöggun. Þolendur bera ekki ábyrgð á líðan geranda kynferðisofbeldis og þeir ættu ekki að bera ábyrgð á því hvað gerist í framhaldinu eftir að þeir segja frá sinni reynslu. Kerfin okkar verða að taka við og þá þurfum við líka almennileg kerfi. Kerfi sem þolendur geta treyst og sem almenningur treystir.
Hvað á þá á gera við meinta gerendur?
Ef við ætlum ekki að skjóta þá á færi eða senda þá á eyju, hvað eigum við þá að gera við meinta gerendur? Við gerum ekkert við þá nema við krefjumst þess að þeir taki ábyrgð. Það eru ekki mannréttindi að starfa sem opinber persóna, eins og listamaður eða stjórnmálamaður, og mun almenningur alltaf ákveða í sameiningu hvort það verði eftirspurn eftir þessum tilteknu aðilum á ný. Enginn getur átt heimtingu á ákveðnum sess í samfélaginu – og verður fólk við það að una.
Þarna erum við komin að mikilvægri umræðu og er það rétt hjá Sigurbjörgu að fólk þurfi hjálp til að takast á við þessa hluti – þolendur jafnt sem gerendur. Með þeim forsendum auðvitað að gerandi vilji leita sér hjálpar. Það er ekki síst mikilvægt svo fleiri verði ekki fyrir barðinu á viðkomandi.
Varðandi það að eiga „afturkvæmt“ þá er í samfélaginu aragrúi af ólíku fólki með alls konar reynslu á bakinu og til þess að það virki þá verðum við auðvitað að hafa ákveðnar reglur sem við byggjum stöðugleika á. Þessa reglur eru margþættar, orðaðar og óorðaðar. Þær lýsa sér í því siðferði sem við samþykkjum sem og í lögum landsins. Eftir þessum reglum verðum við að fara og þegar fólk brýtur þessar reglur, brýtur á öðrum þá er óhjákvæmilegt að það verði afleiðingar af þeim gjörðum.
Við sammæltumst mörg í kjölfar metoo-bylgjunnar fyrstu að við myndum sem samfélag búa til nýjan samfélagssáttmála þar sem kynferðislegt áreiti og ofbeldi myndi ekki líðast. Umræðan hefur farið marga hringi síðan þá og höfum við tekið hvert þroskaskrefið á fætur öðru. Þessi umræða sem nú á sér stað um gerendur er sársaukafull fyrir þolendur en hún er skref í rétta átt. Við endum þá vonandi á góðum stað þar sem í fyrsta lagi slíkt ofbeldi á sér ekki stað og í öðru lagi að tekist verði á við svona mál af festu og fagmennsku. Að búa þannig um hnútana að þolendur þyrftu til að mynda ekki að stíga fram í fjölmiðlum heldur yrðu málin afgreidd af sanngirni og með alla hlutaðeigendur í huga.