Auglýsing

Er ekki bara best að við sem sam­fé­lag tökum þá sam­eig­in­legu ákvörðun að skjóta Ingó Veð­urguð, Auðun Lúth­ers­son, Sölva Tryggva, Egil Ein­ars­son, Jón Bald­vin Hanni­bals­son, Aron Einar Gunn­ars­son, Egg­ert Gunn­þór Jóns­son, Gylfa Þór Sig­urðs­son, Kol­bein Sig­þórs­son, Þóri Sæmunds­son, Atla Rafn Sig­urð­ar­son, Jón Pál Eyj­ólfs­son, Ágúst Ólaf Ágústs­son, Kol­bein Ótt­ars­son Proppé, Björn Braga Arn­ars­son og Helga Jóhann­es­son fyrir þær ásak­anir sem komið hafa fram í opin­berri umræðu um meint og ómeint brot þeirra er varða kyn­ferð­is­lega áreitni eða ofbeldi gegn öðru fólki?

Við getum líka bara sett eina eyj­una okkar undir þessa menn – og sent þá í útlegð fjarri manna­byggð­um? Nú eða gengið alla leið og hafið opin­berar aftökur á Lækj­ar­torgi? Fólk getur safn­ast saman og hent tómötum og eggjum í þá áður en öxin fell­ur.

Stutta svarið er auð­vitað nei – og eru þetta frá­leitar hug­myndir sem eng­inn stingur raun­veru­lega upp á. En þessi orð­ræða er iðu­lega notuð gegn þolendum slíkra brota til þögg­unar og hún virk­ar. Umræðu á borð við „á ekki bara að skjóta hann?“ má finna á sam­fé­lags­miðl­um, sem og í opin­berri umræðu. Nýjasta dæmið má sjá í við­tali Stöðvar 2 við Sig­ur­björgu Söru Bergs­dóttur þerapista sem birt­ist um síð­ustu helgi.

„... en þetta er ekki vont fólk“

Sig­ur­björg bendir rétti­lega á að kyn­ferð­is­brot hafi gríð­ar­legar afleið­ingar fyrir fólk. Hins vegar megi ekki gleyma því að orð geti líka verið ofbeldi. „Þá erum við að beita ofbeldi út af öðru ofbeldi. Og það er kannski eitt­hvað sem við þurfum að vara okkur á, að hafa umræð­una í jafn­vægi af því að það eru börn og menn og konur að verða fyrir ofbeldi. Það eru ekki bara kon­ur, það eru ekki bara menn, það er bara fullt af fólki að lenda í þessu og það er það sem er grafal­var­legt og þarf að taka til­lit til,“ sagði hún.

„Fólk hefur tekið líf sitt út af svona. Fólk hefur misst vinnu, fólk hefur misst maka – bara alls konar og er kannski í margra ára bar­áttu við kerf­ið. Svo kannski kemur það í ljós að það var sak­laust allan tím­ann.

Þannig að það er mik­il­vægt að það komi fram að við verðum að vanda okkur að taka allan hring­inn, ekki bara bút úr hon­um. Við þurfum að skoða hlut­ina í réttu sam­hengi og ekki endi­lega gefa okkur alltaf að hlut­irnir séu bara eins og er sagt. Það eru alltaf fleiri hliðar og það er bara ákveðin viska að nálg­ast hluti þannig.“

Hún spyr hvernig sam­fé­lag við viljum vera. „Ég veit það alveg að það er fullt af góðu fólki sem hefur gert ljóta hluti. Það er fullt af fólki sem hefur kannski orðið fyrir ofbeldi, fer svo að beita aðra ofbeldi en þetta er ekki vont fólk. En hvað eigum við að gera við það fólk? Eigum við að finna bara ein­hverja eyju og henda öllum þangað sem hafa gert eitt­hvað og þeir eiga ekki aft­ur­kvæmt? Það er einn val­mögu­leiki. Viljum við það? Eða viljum við að fólk kannski fái hjálp og fái samt bara að vera til eða á bara að aflífa það alveg?“ spurði Sig­ur­björg.

Auglýsing

Áður en við förum yfir þessa orð­ræðu þerapist­ans þá er rétt að geta þess að burt séð frá því hvað kemur stundum fram á sam­fé­lags­miðlum þá gera þeir sem styðja við bakið á þolendum sér fylli­lega grein fyrir því að meint brot þeirra sem nefndir eru hér fyrir ofan eru mis­al­var­leg þó svo að þau séu öll víta­verð.

En þá að ummælum Sig­ur­bjarg­ar.

Í fyrsta lagi er það ekki ofbeldi að greina frá ofbeldi eða tala um það. Auð­vitað er góð regla yfir höfuð að vanda orða­val sitt þegar talað er um mál sem þessi – á því leikur eng­inn vafi. Mörg slík mál eru við­kvæm og geta þau haft víð­tækar afleið­ingar fyrir alla hlut­að­eig­andi. Við getum vel tekið afstöðu með meintum þolendum kyn­ferð­is­brota án þess að við­hafa sær­andi gild­is­hlaðin orð um meinta ger­end­ur.

Og auð­vitað verða karl­menn og börn líka fyrir ofbeldi og heldur eng­inn öðru fram. Það kemur þess­ari sér­stöku umræðu ekki við.

Þolendur ekki síður brenni­merktir

Í öðru lagi hafa þolendur kyn­ferð­is­of­beldis í gegnum árin mátt þola mikla útskúfun og álag í kjöl­far ofbeld­is. Þolendur hafa líka „tekið líf sitt út af svona. Fólk hefur misst vinnu, fólk hefur misst maka – bara alls konar og er kannski í margra ára bar­áttu við kerf­ið.“ Þetta á ekki síður við um þá sem verða fyrir kyn­ferð­is­legu áreiti og ofbeldi en þá sem eru sak­aðir um það.

Á vef­síðu Stíga­móta kemur fram að afleið­ingar kyn­ferð­is­of­beldis hafi oft víð­tæk­ari áhrif á líf brota­þola en þeir gera sér grein fyr­ir.

„Þú getur upp­lifað skömm, sekt­ar­kennd, kvíða, dep­urð, lélega sjálfs­mynd og margt annað sem getur verið að hafa áhrif á sam­skipti þín og sam­bönd sem og almenna líð­an. Líðan okkar í kjöl­far kyn­ferð­is­of­beldis getur haft áhrif á virkni okkar og hvernig okkur gengur að takast á við þau verk­efni sem liggja fyrir okkur í dag­legu lífi.

Við getum verið að upp­lifa erf­ið­leika við tengj­ast öðrum eða hrein­lega að vera innan um annað fólk. Margir brota­þolar eru einnig að upp­lifa áfallastreitu því það að vera beitt kyn­ferð­is­of­beldi er áfall. Það er síðan margt sem spilar inn í það hvernig við tök­umst á við afleið­ingar eins og upp­eldi, fyrri reynsla, stuðn­ing­ur, bak­land og svo fram­veg­is,“ segir á vef Stíga­móta.

Einnig má benda á að þol­andi sem stígur opin­ber­lega fram verður alltaf „sú mann­eskja“ – hann er brenni­merktur fyrir lífs­tíð fyrir eitt­hvað sem gert var á hans hlut.

Í þriðja lagi er ekki hægt að rétt­læta þöggun með því að segja að sumir meintir ger­endur séu sak­laus­ir. Þolendur verða að geta greint frá sinni reynslu án þess að vera sak­aðir um lyg­ar. Og já, fólk getur auð­vitað vandað orða­val sitt vel þegar það tjáir sig á sam­fé­lags­miðlum eða opin­ber­lega um mál sem þessi og verður rétt­læt­ingin fyrir slíkum umfjöll­unum að vera góð.

Það er rétt hjá Sig­ur­björgu þegar hún segir að við eigum að horfa á heild­ar­mynd­ina en þegar hún segir að við þurfum að skoða hlut­ina í „réttu sam­hengi og ekki endi­lega gefa okkur alltaf að hlut­irnir séu bara eins og er sagt“ þá missir hún marks. Ef rétta sam­hengið er að trúa frekar ger­endum þá erum við komin á sama stað og fyrir árið 2017 – fyrir þá vit­und­ar­vakn­ingu sem kom í kjöl­far metoo-­bylgn­anna.

Góða og vonda fólkið

Í fjórða lagi er vert að gera athuga­semd við umræð­una um hið góða og vonda fólk. „Það er fullt af fólki sem hefur kannski orðið fyrir ofbeldi, fer svo að beita aðra ofbeldi en þetta er ekki vont fólk,“ segir Sig­ur­björg. Nú þurfum við að sam­mæl­ast um að draga úr notkun slíkra gild­is­hlað­inna hug­taka um mann­eskjur því þau koma þess­ari umræðu ekki við. Nema til að benda á að gott fólk getur líka gert slæma hluti til þess að kom­ast hjá svo­kall­aðri skrímsla­væð­ingu manna sem beita ofbeldi en hún fælir fólk frá því að taka ábyrgð á gjörðum sínum – og þolendur frá því að segja frá reynslu sinni.

Þetta er tví­hyggja sem skaðar umræð­una með ótví­ræðum hætti. Fólk verður að geta borið ábyrgð á gjörðum sínum hvort sem við teljum það „gott“ eða „vont“. Ábyrgðin fellst í því að við­ur­kenna brot sitt, iðr­ast og taka afleið­ing­unum hverjar svo sem þær eru.

Í fimmta og síð­asta lagi fellur Sig­ur­björg í þann pytt að leggja fram þessar fárán­legu til­lögur að senda fólk sem ger­ist brot­legt á „ein­hverja eyju og henda öllum þangað sem hafa gert eitt­hvað og þeir eiga ekki aft­ur­kvæmt“. „Eða viljum við að fólk kannski fái hjálp og fái samt bara að vera til eða á bara að aflífa það alveg?“ spyr hún.

Eng­inn þol­andi óskar þess að ger­and­inn verði „af­líf­að­ur“ og eng­inn sem styður við þolendur held­ur. Þetta snýst allt um ábyrgð, ábyrgð, ábyrgð!

Orð­ræðan hefur fælandi áhrif

Ef mann­eskja sem er áreitt kyn­ferð­is­lega eða beitt ofbeldi og umræðan er þannig að ger­end­urnir verða þolendur þá hefur það gríð­ar­legan fæl­ing­ar­mátt á að sú hin sama greini frá áreit­inu eða ofbeld­inu.

Ef litið er svo á að það að segja frá sinni reynslu sé ofbeldi þá fælum við þolendur aftur inn í skugg­ann – og það er hrein og klár þögg­un. Þolendur bera ekki ábyrgð á líðan ger­anda kyn­ferð­is­of­beldis og þeir ættu ekki að bera ábyrgð á því hvað ger­ist í fram­hald­inu eftir að þeir segja frá sinni reynslu. Kerfin okkar verða að taka við og þá þurfum við líka almenni­leg kerfi. Kerfi sem þolendur geta treyst og sem almenn­ingur treyst­ir.

Hvað á þá á gera við meinta ger­end­ur?

Ef við ætlum ekki að skjóta þá á færi eða senda þá á eyju, hvað eigum við þá að gera við meinta ger­end­ur? Við gerum ekk­ert við þá nema við krefj­umst þess að þeir taki ábyrgð. Það eru ekki mann­rétt­indi að starfa sem opin­ber per­sóna, eins og lista­maður eða stjórn­mála­mað­ur, og mun almenn­ingur alltaf ákveða í sam­ein­ingu hvort það verði eft­ir­spurn eftir þessum til­teknu aðilum á ný. Eng­inn getur átt heimt­ingu á ákveðnum sess í sam­fé­lag­inu – og verður fólk við það að una.

Þarna erum við komin að mik­il­vægri umræðu og er það rétt hjá Sig­ur­björgu að fólk þurfi hjálp til að takast á við þessa hluti – þolendur jafnt sem ger­end­ur. Með þeim for­sendum auð­vitað að ger­andi vilji leita sér hjálp­ar. Það er ekki síst mik­il­vægt svo fleiri verði ekki fyrir barð­inu á við­kom­andi.

Varð­andi það að eiga „aft­ur­kvæmt“ þá er í sam­fé­lag­inu ara­grúi af ólíku fólki með alls konar reynslu á bak­inu og til þess að það virki þá verðum við auð­vitað að hafa ákveðnar reglur sem við byggjum stöð­ug­leika á. Þessa reglur eru marg­þætt­ar, orð­aðar og óorð­að­ar. Þær lýsa sér í því sið­ferði sem við sam­þykkjum sem og í lögum lands­ins. Eftir þessum reglum verðum við að fara og þegar fólk brýtur þessar regl­ur, brýtur á öðrum þá er óhjá­kvæmi­legt að það verði afleið­ingar af þeim gjörð­um.

Við sam­mælt­umst mörg í kjöl­far metoo-­bylgj­unnar fyrstu að við myndum sem sam­fé­lag búa til nýjan sam­fé­lags­sátt­mála þar sem kyn­ferð­is­legt áreiti og ofbeldi myndi ekki líð­ast. Umræðan hefur farið marga hringi síðan þá og höfum við tekið hvert þroska­skrefið á fætur öðru. Þessi umræða sem nú á sér stað um ger­endur er sárs­auka­full fyrir þolendur en hún er skref í rétta átt. Við endum þá von­andi á góðum stað þar sem í fyrsta lagi slíkt ofbeldi á sér ekki stað og í öðru lagi að tek­ist verði á við svona mál af festu og fag­mennsku. Að búa þannig um hnút­ana að þolendur þyrftu til að mynda ekki að stíga fram í fjöl­miðlum heldur yrðu málin afgreidd af sann­girni og með alla hlut­að­eig­endur í huga.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Guðmundur Hrafn Arngrímsson og Yngvi Ómar Sighvatsson
Kúgaða fólkið!
Kjarninn 1. desember 2021
Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingar verður formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Þórunn eini nefndarformaður stjórnarandstöðunnar
Sjálfstæðisflokkurinn fer með formennsku í þremur af átta fastanefndum þingsins, Framsókn tveimur og VG tveimur. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir verður formaður fjárlaganefndar, eins og Vinstri græn gáfu reyndar óvart út á mánudag.
Kjarninn 1. desember 2021
Í austurvegi
Í austurvegi
Í austurvegi – Fyrsta sendiráð Íslands í Asíu
Kjarninn 1. desember 2021
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið sitt fyrir næsta ár í gær.
Útgjöld vegna barnabóta lækka
Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum ríkisins til barnabóta á næsta ári, þrátt fyrir að fjárhæðir þeirra til hvers einstaklings hækki og skerðingarmörk verði færð ofar. Áætluð útgjöld eru 11 prósentum minni en þau voru í fyrra.
Kjarninn 1. desember 2021
Hreinn Loftsson, lögmaður og annar aðstoðarmaður innanríkisráðherra.
Hreinn Loftsson hættir sem aðstoðarmaður Áslaugar Örnu og ræður sig til Jóns
Jón Gunnarsson tók við sem innanríkisráðherra á sunnudag hefur ákveðið að ráða fyrrverandi aðstoðarmann forvera síns í starfi, Hrein Loftsson, sem aðstoðarmann sinn.
Kjarninn 1. desember 2021
Í samfélaginu á Stöðvarfirði eru ekki allir sáttir með fyrirhugaða útgáfu rekstarleyfis til laxeldis gegnt bæjarstæðinu.
Rúmur fjórðungur íbúa á Stöðvarfirði leggst gegn fyrirhuguðu laxeldi
Matvælastofnun fékk á dögunum sendar undirskriftir um 50 íbúa á Stöðvarfirði sem mótmæla því að Fiskeldi Austfjarða fái útgefið rekstrarleyfi fyrir 7.000 tonna laxeldi í firðinum. Íbúar eru efins um að mörg störf verði til á Stöðvarfirði vegna eldisins.
Kjarninn 1. desember 2021
Þórður Snær Júlíusson
Ríkisstjórn þeirra sem vilja stjórna, ekki leiða
Kjarninn 1. desember 2021
Milljarðar gætu ratað úr fyrirtæki í eigu borgarinnar í ríkissjóð vegna afleiðusamninga við Glitni
Orkuveita Reykjavíkur vildi ekki gera upp afleiðusamninga við Glitni HoldCo vegna þess að hún taldi að félagið hefði framselt samninganna til ríkissjóðs og að það hefði þegar fengið bætur fyrir afglöp endurskoðenda í sátt við PwC.
Kjarninn 1. desember 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari