Fyrsta klippingin sem ég man eftir að hafa farið í var á hárgreiðslustofu í Hraunbæ. Það var svo sem ekkert merkilegt við þessa ferð, nema kannski ósk mín. Ég settist í stólinn og rétti hárgreiðslukonunni körfuboltamynd. Á myndinni var Scottie Pippen. Scottie er með þykkt svart krullað hár, greitt ferkantað upp í loftið, svipað því sem Will Smith sportaði í þáttunum Fresh Prince of Bel-Air.
Hárgreiðslukonan horfði á myndina og leit svo á mig. Þunnt, músabrúnt hár og engar krullur. Hún útskýrði fyrir litla freknufésinu sem ég var að hárið á mér væri svo ólíkt hári Scottie að þetta væri ómögulegt. Ég þóttist skilja það en bað hana samt um að reyna. Hárgreiðslukonan hófst handa. Þegar hún loksins sýndi mér spegilinn var hárið stutt og hún hafði sett í það kíló af geli og föndrað úr hárinu brodda og greitt þá upp í loft. Ég leit í besta falli út eins og Vanilla Ice og í versta falli eins og Lance Bass úr NSYNC, í öllu falli var ég ekkert líkari Scottie Pippen en áður en ég settist í stólinn.
Ég veit ekki nákvæmlega hvað ég borgaði fyrir þessa hárgreiðslu. Ef marka má gögn Hagstofunnar kostaði broddaklippingin mín mig eflaust um 1300 krónur, sem hefur vafalaust verið sanngjarnt á þeim tíma. Þegar ég var að leita að verði á hárgreiðslu á vef Hagstofunnar rak ég mig á aðrar, áhugaverðari, tölfræðilegar upplýsingar: Konur borguðu 21% meira en karlar fyrir klippingu árið 1997, en 56% meira árið 2015. Með öðrum orðum hækkaði bleiki skatturinn um 32 prósentustig.
Það er staðreynd að konur borga oft aukalega fyrir kvenkynsútgáfur af vörum sem eru til fyrir bæði kynin. Augljós dæmi telja ilmvötn og rakvélar. Mér þótti þó 56% verðmunur ansi mikið og hálf ótrúlegur. Því lagði ég í smá leiðangur, í leit af svarinu við spurningunni: Af hverju borga konur meira fyrir klippingu en karlar?
Ef það er tilfellið þá er verðmunurinn ekki bleikur skattur, heldur einfaldlega sanngjörn leið til að rukka fólk fyrir þá þjónustu sem því er veitt. Þar sem langstærsti hluti breytilegs kostnaðar hársnyrta er fórnarkostnaður þeirra – ef hárgreiðslumeistari er að klippa einn kúnna getur hann ekki klippt annan – þarf sú kenning, að það kosti meira að klippa konur, að vera studd með gögnum sem sýna fram á það taki lengri tíma að klippa konur en karla.*
Mynd: Verð á hárgreiðslu og tíminn sem hún tekur
Þar sem nánast engar upplýsingar um þann tíma sem það tekur að klippa kynin er að finna á netinu neyddist ég til þess reiða mig á eigið frumkvæði. Ég skellti mér á ja.is, leitaði að hárgreiðslustofum í Reykjavík og fékk þar lista með 119 hárgreiðslustofum. Ég valdi af handahófi tuttugu stofur af listanum, tók upp símann og byrjaði að hringja. Í fyrstu var ég nokkuð stressaður, mér leið eins og símasölumanni. Fljót lega kom þó í ljós að hárgreiðslustéttin er einhver vinalegasta starfsstétt sem til er og stressið hvarf.
Af þeim þrettán sem svöruðu og höfðu tíma var aðeins ein hárgreiðslustofa sem neitaði að taka þátt í þessari mikilvægu rannsókn minni. Á þessum stofum kostaði karlaklipping að meðaltali 6288 krónur en dömuklipping 7459 krónur, það er 19% meira. Sem gefur til kynna að mögulega hafi kynjabilið á hárgreiðslu eitthvað skroppið saman undanfarin ár. Einnig má vera að Hagstofan telji viðbótarþjónustu, eins og litun og strípur, með í verðútreikningum sínum og konur kaupi meira af slíkri þjónustu en karlar. Það sem er áhugaverðara er að samkvæmt þeim hárgreiðslumeisturum sem ég talaði við tekur það að meðaltali 29 mínútur að klippa karla en 41 mínútu að klippa konur. Sem þýðir að karlar borga um 17% meira fyrir hverja mínútu sem þeir sitja í stólnum. Ég endurtek: karlar borga meira.
Að sjálfsögðu er mikil óvissa í þessum gögnum, þau styðja þó engu að síður við þá kenningu mína að ef samkeppni er virk á þessum markaði sé þessi verðmismunur raunverulega ekki verðmismunun heldur endurspegli einfaldlega fórnarkostnað hárgreiðslufólks.
Af öllum þeim hárgreiðslustofum sem ég hringdi í var aðeins ein hárgreiðslustofa sem rukkaði karla og konur sama verð. Hárgreiðslumeistarinn sem ég ræddi þar við var ekkert að skafa utan af því: Kúnnarnir þeirra vissu hvað þeir vildu og því tæki það þau nákvæmlega sama tíma að klippa konur og karla og það væri þess vegna sem hún rukkaði sama verð fyrir bæði kynin. Þótt undantekningin sanni sjaldnast regluna, þá má samt segja að í þessu tilfelli hafi undantekningin aukið trúverðugleika hennar.
Þegar sölufólk getur augljóslega aðgreint hópa (og samkeppni er takmörkuð) getur það heimtað hærra verð frá þeim hópi sem það telur að geti og hafi vilja til að borga meira.** Dæmi um þetta sér maður úti um allt; miðaldra fólk borgar 470 krónur í strætó á meðan gamalmenni og börn borga 235 krónur. Þess vegna gæti verið að konur geri meiri kröfur til hárgreiðslu sinnar og séu því tilbúnar að borga meira fyrir þá þjónustu en við karlarnir.
Ef hárgreiðslufólk veit að konur og hafa hærri greiðsluvilja en karlar og ef samkeppni um kúnna er takmörkuð (t.d. í gegnum þjónustuaðgreiningu) getur það mismunað konum til að græða meiri pening. Ef þetta er tilfellið þá er það vissulega ósanngjarnt en hegðunin sjálf er ekki vond heldur er hárgreiðslufólk bara að reyna að fá eins mikið borgað fyrir vinnu sína og það getur.
Gögnin sem ég hef undir höndum gefa til kynna að hárgreiðslufólk geri einmitt þetta, aðgreini viðskiptavini sína. Til að mynda er verðskrám nánast alltaf skipt í þrjá hópa: Konur, karla og börn. Ef litið er á kostnaðinn, þá virðist þessi flokkun ekki vera gerð til að pína meira út úr konum, heldur til að einfalda reksturinn og verðskrána, með því að nota kyn til að námunda þann tíma sem tekur að klippa einstaklinga.
Þetta þýðir að konur sem ekki taka langan tíma í stólnum séu þær sem borga mest. En sú kenning gengur bara upp ef þessar konur eru klístraðir viðskiptavinir. Þegar viðskiptavinir eru klístraðir, halda sig við sinn hárgreiðslumeistara þrátt fyrir að geta borgað minna fyrir sömu þjónustu í næsta nágrenni, þá getur hárgreiðslumeistarinn rukkað það fólk meira. Ef hann kærir sig um það.
Í nokkra daga eftir klippinguna 1997 setti tólf ára ég gel í hárið og reyndi eins og ég gat að líta út eins og Scottie Pippen (fréttainnskot: Ég leit ekkert út eins og hann). Þolinmæðin brást á endanum. Lausnin var þó einföld. Einn liðsfélagi Scottie Pippen var kannski ekki með eins flott hár en var bæði betri leikmaður og með hárgreiðslu sem auðvelt var að kópíera sama hversu ömurlegt hár forfeður mínir höfðu gefið mér í arf. Hann var sköllóttur! Ég lét því skafa mig. Það ruglaði mér svo sem enginn við Michael Jordan á eftir en einhverjir óttuðust að ég hefði orðið fyrir einhvers konar kjarnorkueitrun. Sem var þó skárra en að vera líkt við Lance Bass úr NSYNC.
*Ég geri mér grein fyrir því að ástæðan fyrir því að það tekur lengri tíma að klippa konur hefur mögulega að gera með samfélagslega pressu sem sett er á konur og getur því í grunninn leitt til þess að konur eyði meiri tíma í klippingu en þær myndu annars gera. Það er vissulega hugmynd sem hefur með sanngirni að gera. En er langt fyrir utan ramma bókarinnar.
**Það má færa góð rök fyrir því að hárgreiðslumarkaðurinn sé einkasölusamkeppni og viðskiptavinir séu „klístraðir“. Á slíkum mörkuðum hafa seljendur verðlagningarvald og geta rukkað hærri verð.