Fyrr á þessu ári keyptum við hjónin litla íbúð í Reykjavík. Eins og flestir sem kaupa á höfuðborgarsvæðinu reiddum við okkur á IKEA til að þurfa ekki að sitja á gólfinu og borða KFC í öll mál (íbúðin er í göngufæri).
Við völdum húsgögn á netinu sem okkur þótti passa vel en þegar við mættum í verslunina góðu var aldrei neitt til á lager. „Bölvuð óheppni,“ hugsuðum við og keyptum hluti sem okkur þóttu fínir, þó ekki nákvæmlega það sem við vorum að leita eftir.
Um daginn uppgötvaði ég það að við erum ekki einu Íslendingarnir sem lentu í þessu. Það var á mínum daglega rúnti um Twitter sem ég sá fólk bölva því að aldrei væri það sem það helst óskaði sér til á lager í IKEA.
Hvernig getur á því staðið? Fólk fer með pening upp í Garðabæ (eða er IKEA í Hafnarfirði?). Það býður fyrirtæki sem sérhæfir sig í að láta í té húsgögn fyrir pening og fyrirtækið segir einfaldlega að það vildi gjarnan þennan pening en geti því miður ekki tekið við honum?
Svarið er að sjálfsögðu framboð og eftirspurn. Eða nokkurn veginn.
Framboð í ruglinu
IKEA, eins og flest fyrirtæki nú til dags, reiðir sig á alþjóðlega aðfangakeðju. Þ.e. IKEA kaupir timbur þar sem það er í boði, t.d. í Svíþjóð, sendir það svo til annars lands þar sem launakostnaður er lágur, t.d. Kína, þar sem úr því er búið til borð. Svo er borðinu pakkað saman, sent í eitthvað vöruhús í Evrópu og þaðan siglir svo eitthvað skipafyrirtæki með það til Íslands.
Ef þetta hljómar flókið þá vara ég ykkur við, þessi lýsing er Óla Prik útgáfan af raunveruleikanum.
COVID-19 setti þetta flókna kerfi, sem á einhvern ótrúlegan hátt virkar oftast bara, í klandur. Kína lokaði öllum sínum landamærum. Allskonar sóttvarnarreglur sendu skrifstofufólk í heimavinnu og sendi verkafólk í frí. Allt þetta hægði á framleiðslu, allt frá skógarhöggi upp í húsgagnasmíði. Fyrir vikið fór þetta kerfi í hnút.
Þessar truflanir sendu verð á timbri upp í sínar hæstu hæðir og það hækkaði um 150% í verði milli janúar 2020 og maí 2021. Þetta sést ansi vel á grafinu hér að neðan og er best lýst sem fjallgöngu með Jet Pack.
Mynd: Vísitala mjúkviðarverðs, janúar 2015 til ágúst 2021
Að sama skapi hafa afhendingartímar á vörum og aðföngum lengst umtalsvert og ansi hratt. Ef við skoðum upplýsingar frá Ameríku sést það vel að langflestir innkaupastjórar hafa upplifað lengri afhendingartíma eftir að COVID tók yfir.
Mynd: Vísitala afhendingartíma, janúar 2015 til ágúst 2021
Þegar verð á timbri hækkar og afhendingartímar lengjast þá hækkar kostnaður IKEA við framleiðslu og afhendingu. Þetta ætti alla jafna að leiða til hærra verðs á ýmis konar vörum, í þessu tilfelli timburvörum, sem eru oftast vörurnar sem við viljum úr IKEA. Það er ef við tökum kjötbollurnar út fyrir sviga.
Eftirspurn ekki í neinu rugli
Á sama tíma og kostnaður IKEA hefur farið hækkandi virðist vera sem svo að ekkert logn sé í eftirspurn eftir vörunum þeirra. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefur haldið henni á floti. Því eru Billy, Ivar og Klippan svo gott sem jafn vinsælir í COVID og áður. Ef ekki vinsælli.
Ef heimurinn virkaði nákvæmlega eins og hagfræðimódel þá hefði þessi taktlausi dans neytenda og seljenda átt að þýða eftirfarandi:
- Neytendur vilja kaupa jafn mikið af sömu timburvörum úr IKEA og áður á því verði sem í boði var.
- Kostnaður IKEA við að búa til timburvörur hækkar.
- IKEA hækkar verð í samanburði við kostnaðarhækkun.
- Einhverjir vilja ekki lengur kaupa timburvörur af því þær eru of dýrar – og nota peningana sína í eitthvað annað.
- Þeir sem endilega vilja kaupa timburvörur kaupa þær bara samt en á hærra verði.
Ef markaðurinn hefði virkað eins og í skólabók, þá hefðu ekki verið farnar eins margar fýluferðir í IKEA og þessi skortur á vörum hefði í raun aldrei orðið að veruleika. Við hjónin – og notendur Twitter – hefðum bara nöldrað yfir því hvað allt væri orðið dýrt í IKEA. Þótt IKEA sé auðvitað ekkert einsdæmi, þetta á að sjálfsögðu við alla húsgagnaverslanir, er ég hér bara að nota vinsælustu félagsmiðstöð miðaldra Íslendinga sem dæmi.
En IKEA stærir sig af sanngjörnum verðum og er því mjög illa við að hækka verð. Viðskiptavinir þeirra reiða sig á fyrirsjáanlegt og lágt verð og því er ekki ólíklegt að IKEA velji frekar að græða minna á hverri sölu. Eins og hagfræðingar segja: IKEA verðleggur þannig að skortur myndast.
En horfurnar eru góðar
Svo virðist sem „jet packið“ sem timbrið tók upp á Everest hafi orðið bensínlaust á toppnum. Verð á timbri hefur helmingast frá því að það náði sinni hæstu hæð og svo virðist sem það komi til með að lenda á sama stað og það byrjaði á í ekki svo fjarlægðri framtíð.
Að sama skapi virðist svo vera að afhendingartímar séu að koma aftur niður á jörðina. Þó tekur svo flókið kerfi eins og hið alþjóðlega aðfangakerfi ansi langan tíma að jafna sig eftir annað eins hálstak.
IKEA, og margir aðrir smásalar, ákváðu að halda verðum niðri, ekki hækka þau eins mikið og þeir hefðu getað. Ef IKEA hefði hækkað verð hefði IKEA kannski getað notað þann viðbótar gróða til að hafa áhrif á afhendingartíma (í öllu falli hefði fyrirtækið getað réttlætt að kaupa dýrara timbur). Það kann að hljóma furðulega, en mögulega hefðu fleiri getað keypt þær mublur sem þá langaði í ef IKEA hefði hækkað verð á þeim.
Ef IKEA hefði hækkað verð, óháð því hvort það hefði skilað sér í aukinni framleiðslu, þá hefði það þó allavega sparað okkur sem ekki tímum að borga mikið meira en listaverðið nokkrar fýluferðir. Þá hefðu aðeins þeir sem virkilega hefðu verið til í að borga markaðsverð farið í ferðalag upp í Garðabæ (eða Hafnarfjörð?).
Það að markaðurinn sé að jafna sig eru góðar fréttir fyrir okkur fjölskylduna. Því næsta sumar, þegar við komum aftur heim úr þýsku sveitinni, þá getum við farið á uppáhalds veitingahúsið okkar í Garðabænum (eða Hafnarfirði, hvort er það?), fengið okkur kjötbollur og gripið eina hillu með í leiðinni.