Eitt andlausasta fjárlagafrumvarp í manna minnum var lagt fram á mánudag. Frumvarpið er svo andlaust að meira að segja leiðarahöfundur Morgunblaðsins, málgagns Sjálfstæðisflokks, sjávarútvegs og pilsfaldarkapítalisma á Íslandi, sagði það ekki frumvarp stöðugleika heldur stöðnunar, sem gerði heimili landsins óstöðugri. Enginn virðist ánægður með frumvarpið nema hluti ráðherra í ríkisstjórninni.
Skilaboðin frá ríkisstjórninni, sem birtust meðal annars í stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana, eru samt sem áður að hér sé meira og minna allt í blóma. Að Íslendingar hafi ekkert með það að kvarta. Flestir hafi það mjög gott og að minnsta kosti miklu betra en margir í útlöndum. Verið sátt með ykkar kökumylsnu og hættið að pæla í feitu köttunum sem éta stóru sneiðarnar.
Það verður einhver að fá að græða í friði. Jafnvel þótt verðbólga og vaxtahækkanir séu að éta upp ráðstöfunartekjur heimilanna.
Það sem er í frumvarpinu
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að hækka allskyns neysluskatta sem venjulegt launafólk greiðir í ríkissjóð. Má þar nefna áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, og kílómetragjald sem öll hækka ríflega á næsta ári.
Þá á að breyta vörugjöldum á ökutækjum og bifreiðagjaldi, aðallega með því að auka gjaldtöku á rafmagns- og tvinnbílum, og sækja þannig hátt í fimm milljarða króna í vasa neytenda.
Hvernig þessar hækkanir eigi að vinna gegn verðbólgu er flestum hulin ráðgáta. Þær rata enda beint út í verðlagið og bitna verst á þeim, sem minnst hafa.
Sá einstaki þáttur sem hefur ráðið mestu um vöxt verðbólgunnar er 48 prósent hækkun á húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á snemma árs 2020. Helsta ástæða þessarar þróunar er að eftirspurn eftir íbúðum hefur verið langt umfram framboð. Þrátt fyrir þessa stöðu er ekkert naglfast um það að auka framboð í frumvarpinu en tillögur þess efnis boðaðar síðar. Í loftinu liggur að þær eigi að verða töfrainnlegg í snúnar kjaraviðræður. Þess í stað gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar í almenna íbúðarkerfinu, mikilvægasta hlekksins í uppbyggingu félagslegs húsnæðis með skaplegu leiguverði, lækki um tvo milljarða króna.
Minnka framlög til flokka um 36 milljónir
Dregið er úr fjárfestingu ríkissjóðs annað árið í röð. Þar munar mestu frestun á fokdýrri viðbyggingu við Stjórnarráðið, sem á að spara 850 milljónir króna á næsta ári. Þetta var ákveðið af sömu ríkisstjórn og var að ræða um það í sumar að kaupa hluta af nýjum höfuðstöðvum Landsbankans, á dýrasta stað í borginni, fyrir sex milljarða króna svo tvö af nú tólf ráðuneytum gætu komið sér þar upp þægilegu heimili. Sú fjölgun ráðuneyta sem ákveðin var í upphafi kjörtímabils til að fleiri innan þingflokka stjórnarflokka geti svalað persónulegum metnaði sínum mun kosta um 1,8 milljarða króna af peningum skattgreiðenda á þessu kjörtímabili, án þess að reiknað sé með fokdýrum húsnæðiskaupum.
Ráðamenn hafa samt sem áður látið sem að þeir séu þó sjálfir, með sínar milljón króna launahækkanir á sex árum og 27 aðstoðarmenn, að ganga fram með góðu fordæmi þegar kemur að því að herða sultarólina. Það verði gert með lækkun á framlagi til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði. Til stendur að lækka það framlag um heilar 36 milljónir króna á ári, og fer framlagið, sem skiptist á níu flokka, þá niður í 692,2 milljónir króna. Til að setja þá tölu í samhengi þá kosta þeir fjórir aðstoðarmenn ráðherra sem bættust við með fjölgun ráðuneyta 86 milljónir króna á ári. Árlegur samdráttur í framlögum til stjórnmálaflokka er því 42 prósent af árlegum kostnaði við þessa fjóra aðstoðarmenn.
Selja banka
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er búið að ákveða að selja 42,5 prósent hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka á næsta ári og reiknað með að fá um 76 milljarða króna fyrir, sem er umtalsvert undir markaðsvirði bankans sem stendur. Þetta kemur mjög á óvart, enda liggur ekki fyrir niðurstaða stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar á því þegar 22,5 prósent hlutur í bankanum var seldur með afslætti í lokuðu útboði til 207 fjárfesta í mars síðastliðnum. Þá hefur heldur ekkert verið gefið upp um niðurstöðu rannsóknar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á ákveðnum þáttum sem tengjast sölunni.
Í yfirlýsingu sem formenn ríkisstjórnarflokkanna, þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson,. fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, sendu sameiginlega frá sér 19. apríl kom fram að ef þörf kæmi fram fyrir frekari rannsóknir þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Seðlabankans liggi fyrir myndi ríkisstjórnin beita sér fyrir slíku á vettvangi Alþingis. Í yfirlýsingunni sagði líka: „Ekki verður ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni.“
Nú virðist hins vegar liggja fyrir að niðurstöður Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlitsins skipti engu máli. Það verði ekkert frekar rannsakað og málið muni ekki hafa neinar frekari afleiðingar. Bjarni er enda þegar búinn að lýsa því yfir að hann hafi ekki áhyggjur af niðurstöðu Ríkisendurskoðunar.
Bankinn verður einfaldlega seldur. Vegna þess að Bjarni vill selja hann.
Það sem er ekki í frumvarpinu
Í febrúar steig Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og menningar- og viðskiptaráðherra, fram og sagði að hún vildi að láta leggja á svokallaðan hvalrekakatt. „Ef það er ofsagróði eða ofurhagnaður hjá einhverjum aðilum, þá eigum við að gera það. Ég er líka á þeirri skoðun að þetta ætti að eiga sér stað varðandi sjávarútveginn. Þar sem við sáum ofurhagnað í einhverjum greinum þá á að skattleggja það.“ Áður hafði hún sagst vilja hækka bankaskatt í ljósi þess að stóru bankarnir þrír: Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki högnuðust um 81,2 milljarða króna á síðasta ári og um 111 milljarða króna á eins og hálfs árs tímabili á tímum þar sem heimsfaraldur geisaði. Hún sagði að allur þingflokkur Framsóknarflokksins stæði á bakvið sig.
Fyrir tæpum mánuði fór fram flokksráðsfundur Vinstri grænna. Þar sagði Katrín Jakobsdóttir að það væri tími til komin að breyta skattlagningu þeirra sem hafi fyrst og fremst fjármagnstekjur á Íslandi, en fjármagnstekjur jukust meira í fyrra en þær hafa gert á einu ári frá bankagóðærisárinu 2007. Alls jukust þær um 65 milljarða króna í fyrra og af þeim 181 milljarði króna sem féll til í slíkar tekjur fór 81 prósent til efstu tekjutíundarinnar. Fyrir vikið hækkuðu ráðstöfunartekjur þessa hóps, sem átti fyrir mest, vel umfram tekjur allra annarra tekjuhópa. Á sama tíma jókst skattbyrði 90 prósent landsmanna á meðan að skattbyrði ríkustu tíu prósentanna dróst saman.
Í kjölfarið, í byrjun september, mætti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna, í Kastljós og sagðist telja að hægt yrði að ráðast í breytingar á veiðigjöldum „fljótlega“. Sama Bjarkey var til viðtals í Speglinum á RÚV á mánudag og sagðist þar hafa talað fyrir því að þrepaskipta fjármagnstekjuskatti.
Samandregið hafa Framsókn og Vinstri græn, sem eru 21 af 38 þingmönnum sem standa á bakvið ríkisstjórnina, því kallað eftir að breiðu bökin, þeir sem högnuðust óeðlilega mikið á kórónuveirufaraldrinum, og stóreignarfólk sem hefur komist upp með að borga miklu minna til samneyslunnar en aðrir, myndu taka á sig auknar byrðar.
Í fjárlagafrumvarpinu eru engar breytingar gerðar á veiðigjaldinu sem lagt er á útgerðir landsins. Bankaskatturinn, sem var lækkaður fyrir tveimur árum án þess að það hefði nein teljandi áhrif á vaxtamun, er áfram sá sami. Ekki stendur til að hækka eða breyta fjármagnstekjuskatti.
Fjármála- og efnahagsráðherra sagði í Kastljósi í vikunni að þetta væri einfaldlega ekki í stjórnarsáttmálanum og því ekki á dagskrá. Málið dautt.
Auknar tekjur fara í greiðslu lána
Bjarna Benediktssyni er tíðrætt um að kaupmáttur hér hafi aukist gríðarlega og að tilgangur fjárlagafrumvarpsins sé að vernda þann ávinning, ásamt því að vinna gegn verðbólgu. Á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að finna kynningu á völdum stærðum í efnahagslífinu.
Þar segir að staða heimilanna hafi „styrkst verulega“ frá byrjun árs 2017. Tekjuaukning á mann umfram verðbólgu hafi verið 60 þúsund krónur á meðalmanninn. Nú eru meðaltöl vafasöm, enda liggur fyrir að sumir hópar hafa hækkað tekjur sínar gríðarlega á þessu tímabili á meðan að aðrir eru áfram sem áður eftirbátar.
En leikum leik Bjarna. Skoðum Meðal-Jón og 60 þúsund króna tekjuaukninguna hans. Og gefum okkur að Meðal-Jón sé með 40 milljón króna óverðtryggt húsnæðislán á breytilegum vöxtum sem hann þarf að greiða af. Samkvæmt tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur greiðslubyrði slíks láns farið úr 152 þúsund krónum í byrjun árs 2021 í 251.600 krónur í ágúst 2022. Á sama tíma hefur kaupmáttur Meðal-Jóns nánast dregist saman vegna verðbólgu. Jón þarf því að borga hundrað þúsund krónum meira af láninu sínu nú en hann þurfti í byrjun síðasta árs án þess að ráðstöfunartekjur hans hafi aukist. Hin aukna greiðslubyrði er búin að éta upp allan viðbótartekjurnar sem Jón hafði fengið vegna skattalækkana og launahækkana frá byrjun árs 2017. Og gott betur.
Segjum að Meðal-Jón sé heppinn í ástum og vel giftur Meðal-Gunnu. Þegar þau leggja saman aukna ráðstöfunarféð sitt frá 2017 er það um 120 þúsund krónur á mánuði. Bara hækkun á greiðslubyrði íbúðalánsins étur upp 100 þúsund krónur af þeirri kaupmáttaraukningu. Og þá á eftir að borga fyrir allt hitt sem hefur hækkað. Svo ekki sé talað um þann aukna kostnað sem fellur til vegna þess að Ísland rekur ekki norrænt velferðarkerfi á borði, heldur bara í orði, t.d. tannréttingar barna eða sálfræðikostnað þeirra. Eða greiðsla fyrir tómstundir og/eða íþróttir á haustönn, þegar frístundarstyrkurinn er uppurinn.
Svo fátt eitt sé nefnt.
Einstaklingshyggjustjórnmál
Upplegg ríkisstjórnarinnar, sem birtist í fjárlagafrumvarpinu, er áfram sem áður það sama og það hefur verið frá því að hún settist að völdum síðla árs 2017.
Skattar hafa verið lækkaðir og ívilnanir auknar, með mestum ávinningi fyrir breiðu bökin. Eftirlit hefur verið veikt með sameiningu eða niðurlagningu mikilvægra eftirlitsstofnana. Félagslegur húsnæðisstuðningur hefur að mestu verið leystur upp og í staðinn er komið skattfrjáls notkun á séreignarsparnaði sem gagnast efnameiri hópum samfélagsins langt um meira en þeim efnaminni.
Kerfin sem festa fáveldið í sjávarútvegi og á fákeppnismörkuðum í sessi eru varin með kjafti og klóm og passað upp á að þau greiði ekki meiri í samneysluna.
Samhliða eru velferðarkerfin veikt kerfisbundið með það að markmiði að veikja tiltrú almennings á því að þau geti sinnt hlutverki sínu. Takist það mun leið einkaaðila inn í velferðarkerfin verða greið. Það þarf ekki aðra sönnun fyrir þessu en forsíðu Fréttablaðsins á þriðjudag, daginn eftir birtingu fjárlagafrumvarpsins, þar sem fyrirsögnin var: „Fjármálaráðherra segir einkarekstur bæta heilbrigðisþjónustuna til muna“.
Kristrún Frostadóttir, verðandi formaður Samfylkingarinnar, hitti naglann ágætlega á höfuðið í viðtali við Kjarnann um síðustu helgi þegar hún sagði: „Þau skilaboð sem ríkisstjórnin er að senda til fólks á Íslandi um að það verði ráðist í almennar skattalækkanir til að auka ráðstöfunartekjur þeirra, en á sama tíma muni grunnþjónustan versna, eru ekki góð skilaboð. Við verðum að losna úr þessu hugarfari að þetta sé barátta hvers fyrir sig. Það er verið að ala á Thatcher-isma, um að það sé ekkert til sem heitir samfélag, heldur bara einstaklingar og fjölskyldur. Um að ríkið gefi fólki meiri tekjur og það finni svo út úr sínum málum, en á sama tíma sé til dæmis heilbrigðiskerfið og önnur velferðarkerfi vanfjármögnuð. Við vitum alveg hvaða hópar líða fyrir þá vanfjármögnun.“
Fjárlagafrumvarpið er staðfesting á því að þessi stefna sem Kristrún lýsir, stefna einstaklingshyggju, er sú sem verið er að reka á Íslandi í dag.