Opinberum sóttvarnaraðgerðum vegna heimsfaraldurs Covid 19 var aflétt á Íslandi 25. febrúar 2022. Árið hófst því á grímuskyldu og samkomutakmörkunum. Nú rekur maður upp stór augu í hvert skipti sem maður rekst á einhvern með sóttvarnargrímu. Sprittbrúsar eru sjaldséðir. Áminningar um að halda fjarlægð eru horfnar í verslunum og opinberum stofnunum. Fyrir 2020 var það vissa margra að það tæki 5-10 ár að þróa og framleiða bóluefni gegn óþekktri veirusýkingu á borð við óværuna sem orsakaði spænsku veikina. Núna vitum við að það tók 18-24 mánuði að sigrast á Covid veirunni. Kannski byggðist þessi stutti tíma á heppni. Kannski er hægt að stytta hann enn meira með því að fjárfesta í fyrirbyggjandi aðgerðum á sviði rannsókna á sviði bóluefnaþróunar og sýklafræði.
Það er því tækifæri nú, um áramót, að gefa gaum að ýmsu því sem ekki er tengt veiru og viðbrögðum við alheimsfaraldri. Ég get ekki stillt mig um að segja frá stórri hagfræðitilraun sem gerð var í Bretlandi, mestu mistökum ársins og velta upp sjónarmiðum sem snúa að kjarasamningsferlinu á Íslandi.
Misheppnuð hagfræðitilraun
Árin 2012 og 2013 var gerð merkileg tilraun í Kansas fylki í Bandaríkjum Norður Ameríku. Að tillögu þáverandi ríkisstjóra, repúblikanans Sam Brownback ákvað fylkisþingið að lækka efsta tekjuskattsþrepið um 30 prósentustig og afnema tekjuskatt fyrirtækja í ákveðnum greinum. Tilgangurinn, jafn þversagnarkennt og það kann að hljóma, var að styrkja tekjugrundvöll fylkisfjárlaganna! Hugmyndafræðin sótt hagfræðings að nafni Arthur Laffer. Sérfræðingar í fjármálum hins opinbera höfðu lengi gert sér grein fyrir að samhengi skatttekna og skatthlutfalls væri ólínulegt, lágar við lágt skatthlutfall og sömuleiðis ef skatthlutfall væri mjög hátt (90-100%). Það væri því eitthvað skatthlutfall milli 0 og 100% sem gæfi hámarks skatttekjur fyrir sérhvern skattstofn.
Ríkisstjórinn í Kansas varð fórnarlamb þessarar orðræðu: Michael Mazerov og Tracy M. Turner og Brandon Blagg lögðust yfir gögnin og komust að þeirri niðurstöðu að afnám tekjuskatts fyrirtækja hefðu engin áhrif á atvinnustig eða umsvif tveimur árum eftir að tilraunin hófst. Mazerov bendir á að þetta sé ekki eina tilraunin af þessu tagi sem hafi mistekist. Fjöldi ríkisstjóra úr báðum stóru flokkunum hafi gert svipaðar tilraunir og niðurstöður í svipuðum dúr og hér er rakið. Í þeim tilvikum sem skattalækkanir hafa tölfræðilega marktæk jákvæð áhrif á atvinnuþróun eru áhrifin léttvæg og duga því ekki til að fjármagna tekjutap hins opinbera, rétt eins og kennt er í hefðbundnum þjóðhagfræðikennslubókum. Í grófum dráttum má slá því föstu að lækkun skatthlutfalla valdi lækkun skatttekna hins opinbera og kunni að hafa smávægileg jákvæð áhrif á þá starfsemi sem skattheimtan beinist að. Niðurstaðan er ekki algild, heldur háð aðstæðum, skattstofninum og mörgu öðru. Skattheimta sem snýr að arði af staðbundnum auðlindum (fiskur, olía, raforka) er t.d. talin skilvirkari og hagkvæmari en skattheimta sem snýr að vinnuframlagi (tekjuskattar).
Boris Johnson hrökklaðist úr embætti af ástæðum sem óþarft er að fjölyrða um. Liz Truss og Risi Sunak voru meðal þeirra sem börðust um embætti forsætisráðherra í framhaldinu. Sunak hafði meirihluta þingmanna Íhaldsflokksins að baki sér, en Truss náði meirihluta í kosningu meðal meðlima flokksins. Meðal stefnumála var að taka til baka ýmsar þeirra skattahækkana sem Sunak hafði lagt upp með eða fengið samþykktar. Truss náði markmiði sínu, setti saman ríkisstjórn þar sem vinur hennar og vopnabróðir, Kwasi Kwarteng gegndi hlutverki fjármálaráðherra. Fyrsta verkefni Truss gekk reyndar þvert á stefnumið hennar, en það var að auglýsa umtalsverðar útgjöld til niðurgreiðslu á orkureikningi landsmanna.
En síðan var tekið til óspilltra málanna. Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, hokinn af reynslu og þekkingu, var talinn geta orðið óþægur ljár í þúfu og var látinn taka pokann sinn. Síðan lögðu þau Truss og Kwarteng upp svokölluð „Mini-fjárlög“. Það var svosem ekkert „mini“ við hugmyndir þeirra annað en nafnið! Hámark á bónusa bankamanna (uppáfinning hins illa ESB) var fjarlægt, sömuleiðis 45% jaðarskattur á árstekjur yfir GBP150.000 (26 milljónir ISK). Niðurstaðan í „mini-fjárlögunum“ fól í sér ófjármagnaðar skattalækkanir að upphæð 45 milljarðar punda. Í raun voru Liz Truss og Kwasi Kwarteng að veðja á að lækkaðir skattar á þá ríku myndu smám saman örva þá til neyslu og framkvæmda í því mæli að skattalækkunin borgaði sig sjálfa! Kwarteng áætlaði að með þessum aðgerðum næðist að koma hagvextinum í 2,5%.
Glöggir lesendur hafa væntanlega áttað sig á að ríkisstjórinnn í Kansas var þegar búinn að gera tilraunina sem Truss og Kwarteng voru að leggja upp með. Kaupendur og seljendur skuldabréfa breska ríkissjóðsins (Gilts) og kaupendur og seljendur á gjaldeyrismarkaði áttuðu sig sömuleiðis á að hér var að fara af stað tilraun sem var dæmd til að mistakast. Skv. BBC hækkuðu vextir á 30 ára skuldabréfum breska ríkissjóðsins úr um 3,6% að kvöldi fimmtudagsins 22. september í 4,2-4,3% að morgni morgni mánudagsins 26. september. Þ.e.a.s. lántökukostnaður breska ríkissjóðsins hækkaði um 17% á einni helgi! Pundið lækkaði úr 1,10-1,12 dollurum 23. september í 1,05 dollara 26. september. Afleiðing af þessu öllu saman var að vextir á nýjum íbúðalánum hækkaði umtalsvert á sama tíma Englandsbanki neyddist til að kaupa ríkisskuldabréf fyrir 65 milljarða punda til að forða lífeyrissjóðum frá allsherjargjaldþroti.
Eftirleikurinn varð svo sá að Liz Truss fer í sögubækurnar sem sá íbúi Downingstætis 10 sem skemmst hefur setið á valdastóli. Gera má ráð fyrir að nafn hennar lifi lengi í heimsmetabók Guiness og hjá spurningahöfundum Gettu betur og bjórkvölda hinna ýmsu félagasamtaka.
Mistökin
Höfundur stæstu mistaka ársins er efalítið Vladimir Pútín. Á fyrstu dögum ársins 2022 veltu margir fyrir sér hvort styrjöld væri yfirvofandi á landamærum Úkraínu og Rússlands. Hernaðarsérfræðingar og hagfræðingar, ég þar á meðal, töldu að lítil líkindi væru á innrás. Þetta álit byggði á tiltölulega einfaldri röksemdafærslu: Innrás í Úkraínu yrði væntanlega ekki mætt með beinni hernaðarþátttöku NATÓ ríkja. En innrás myndi engu að síður kalla á harkalegar efnahagslegar refsiaðgerðir.
Hvers vegna skal ég láta öðrum fróðari eftir að greina. Kannski taldi Pútín sig ekki eiga annars úrkosti en að dreifa huga landslýðsins í ljósi stöðnunar í efnahagslífinu frá aldamótum á sama tíma og hagvöxtur tók kipp í þeim fyrrum austantjaldsríkjum sem höfðu hallað sér í vesturátt. Hvað um það, augljóst að Pútín og liðið í kringum hann hafði ekki fulla yfirsýn yfir getu eigin herafla og andspyrnuþrek Úkraínumanna. Samkvæmt Financial Times töldu helstu efnahagssérfræðingar í kringum Pútín að efnahagsstarfsemin myndi stöðvast kæmi til víðtækra aðgerða af hálfu umheimsins. Herman Gref, gamall samstarfsmaður hans, fór í gegnum PowerPoint glærurnar á fjölmennum fundi efnahagssérfræðinga og bankamanna nokkrum dögum áður en Pútín lét til skara skríða í Ukraínu. Pútín á að hafa þaggað niður í honum og enginn annar opnaði munninn. Graf er núna „út í kuldanum“. Enn sem komið er hefur tæknikrötunum og óeirðalögreglunni tekist að halda bankakerfinu gangandi og forða því að verstu sviðsmyndir frá PowerPoint fyrirlestri Grafs raungerðust. Engu að síður má draga þá ályktun að heimsbyggðin, og þó sérstaklega rússneska þjóðin, munu súpa seiðið af afleiðingum innrásar Pútíns í ár og áratugi.
Vinnumarkaðslíkanið íslenska
Það er dýrt að standa í samningaþófi. Samningamenn og konur beggja vegna borðs eyða miklum tíma í samningaferlið, tíma sem vel hefði mátt nýta til framleiðslu á söluhæfri vöru og þjónustu. Þá felst einnig kostnaður í þeirri staðreynd að þegar samningar eru lausir opnast gluggi fyrir verkalýðsfélög að boða til verkfalls og fyrir atvinnurekendur að boða verkbann. Þegar samningar eru í gildi eru vinnustöðvanir á vegum verkalýðsfélaga óheimilar nema við sérstakar aðstæður. Af þessum tvennu er eðlilegt að draga þá ályktun að aukin skilvirkni fylgi því að lengja samningstímann sem mest. Enda virðist það ósk bæði atvinnurekenda og launþega að kjarasamningar séu að minnsta kosti til 3ja ára hverju sinni.
Það hefur færst í vöxt að verkalýðsfélög geri kröfu á ríkið um aðkomu að kjarasamningum. Aðkoman hefur verið í formi fjárútláta og/eða lagabreytinga. Einnig í formi breytinga á skattakerfi eða tilfærslukerfi hins opinbera. Jóhannes Karlsson og undirritaður höfum á öðrum vettvangi rakið hvernig aðilar vinnumarkaðarins breyttu uppbyggingu skattakerfisins sér í hag. Árið 1986 voru tollar lækkaðir á bílum sem liður í kjarasamningspakka! Ætla má að ríkisstjórn og ríkisstjórnarmeirihluta á þingi þyki frekar óþægilegt að láta aðila út í bæ segja sér fyrir verkum. En möguleikinn á allsherjarverkfalli er ekki þægileg tilhugsun fyrir þá sem bæði bera ábyrgð á efnahag landsins og eiga endurkjör sitt undir að sá efnahagur þróist bærilega.
Norræna/norska kerfið hefur augljósa kosti fram yfir það íslenska frá sjónarhóli heildarhagsmuna, skilvirkni og stöðugleika þó svo það sé ekki gallalaust frekar en önnur mannanna verk. Kerfi þar sem deiluefni sem snúa að einstökum vinnustöðum og fyrirtækjum er fundinn skilvirkur farvegur einfaldar vinnuna við að ákvarða hina almennu launaþróun. Íslenska vinnumarkaðslíkanið er miklu síður fallið til þess.
Lokaorð
Lýðheilsufræðingar og farsóttarfræðingar segja okkur að Covid-19 sé alls ekki síðasti heimsfaraldurinn. Spurningin sé bara hvers langur tími líði uns næsti faraldur brýst út, 5 ár eða 50 ár? Líklega verða stjórnmálamenn og sóttvarnaryfirvöld betur undirbúin næst enda mikil þekking safnast í þekkingarsarpinn. En munu stjórnmálamenn læra af mistökum Pútíns og Truss? Ég er ekki alveg jafn sannfærður um það. Sömuleiðis þykist ég þess fullviss að langt sé í að viðeigandi endurbætur verði gerðar á vinnumarkaðslíkaninu íslenska.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.