Fyrir nokkrum mánuðum sprakk allt á fuglaforritinu Twitter. Einhver póstaði þar einkunn sem hún fékk og kveikti þar með í Lumbruskógi. Fullt af fólki setti hjörtu í komment, margir óskuðu henni til hamingju á meðan aðrir urðu alveg brjálaðir yfir þessu monti – einkunnasmánun.
Sjálfur hef ég ekki mikla skoðun á því sem fólk gerir á samfélagsmiðlum svo lengi sem það skaðar ekki aðra notendur forritanna. Þó þótti mér áhugavert að pæla aðeins í því hvaða áhrif góðar einkunnir hafa á velgengni fólks í lífinu. Sérstaklega, hverju skilar góð einkunn þeim sem fékk hana aftur í vasann seinna? Er góð fjárfesting að hanga á hlöðunni dag og nótt eða er allt yfir fimm bara ógreidd yfirvinna?
Könnunin í Lumbruskógi
Ég útbjó stutta könnun og bað notendur fuglaforritsins um að svara henni. Könnunin spurði fólk hvernig því hefði gengið á mismunandi menntastigum og hversu há laun þau eru með í dag. Ég lofaði svo þessu ágæta fólki að gera skil á niðurstöðum könnunarinnar hér á Kjarnanum.
Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir, betra er seint en aldrei. Vona ég.
Rúmlega 300 einstaklingar svöruðu spurningunum og eftir létta hreinsun gagnanna voru tæplega 300 svör sem ég gat notað við greininguna.
Notendur Twitter eru almennt forréttinda fólk, eins og mig grunaði reyndar alltaf. Þeir sem svöruðu spurningalistanum mínum voru almennt með heildarlaun langt yfir miðgildi almennings, íbúar Lumbruskógs þéna á bilinu 40 til 100% meira en almenningur.
Það er eiginlega alveg magnað. Og minnir mann á þá góðu staðreynd að Twitter endurspeglar raunhagkerfið illa.
Rannsóknarspurningin: Græða íbúar Lumbruskógs á því að leggja meira á sig?
Góðar einkunnir geta bæði verið orsök framtíðar velgengni eða einfaldlega afleiðing annarra hæfileika sem endurspegla sig bæði í betri einkunnum og betri frammistöðu á atvinnumarkaði.
Það er að segja, fólk sem er almennt duglegt og vel gefið er líklegra til að fá hærri einkunnir. Þannig má það vel vera að þeir sem standi sig vel í námi hefðu alltaf fengið hærri laun seinna á lífsleiðinni. Þetta fólk er kannski þannig gert að allt sem það snertir breytist í gull. Hærri laun væru þá ekki afleiðing góðra einkunna, heldur eitthvað annað í skapgerð eða blóði fólks sem leiðir til bæði betri einkunna og hærri launa.
Góðar einkunnir geta þó einnig þýtt það að fólk sem stóð sig vel í skóla hafi annað hvort fengið betra starf við útskrift og þannig komist hærra upp tekjustigann fyrr eða hafi einfaldlega orðið betri í sínu fagi og aukin framleiðni endurspegli sig í launum seinna.
Þessi greining svarar því ekki alveg þeirri spurningu hvort það borgi sig að leggja meira á sig, frekar svarar hún því hvort laun endurspegli einkunnir.
Háskólanám skiptir máli, meðaleinkunn ekki endilega
Til að skoða áhrif einkunna í háskóla á laun reiknaði ég út laun íbúa Lumbruskógs og bar þau saman við meðallaun almennings í landinu. Ég tók laun almennings samkvæmt Hagstofu fyrir hvern aldurshóp (20-24, 25-29 o.s.frv.) og reiknaði hversu mikið meira fuglarnir sem luku háskólanámi fá greitt. Myndin að neðan sýnir þennan fuglabónus. Unglingar á Twitter eru almennt með rúmlega helmingi hærri laun en almennir unglingar, aðrir aldurshópar þéna almennt 40 til 60% meira en jafnaldrar þeirra sem ekki eru á fuglaforritinu og ekki svöruðu könnuninni.
Háskólanám er einfaldlega starfsnám. Það sem maður lærir í háskóla er oftast undirstaða þess sem maður gerir eftir að maður útskrifast. Ég lærði hagfræði, ég vinn við hagfræði. Ef fyrri kenningin á að standa – hærri einkunnir leiða til meiri framleiðni og/eða betra starfs snemma – þá ættum við að sjá það í gögnunum.
En svo er ekki. Þeir sem stóðu sig sæmilega í háskóla þéna í dag mjög svipað þeim sem dúxuðu. Kannski er allt yfir fimm í háskóla bara ólaunuð yfirvinna. Grafið að neðan sýnir þrjá kassa, hver þeirra inniheldur dreifingu 75% svarenda og svarta línan í miðju kassana merkir miðgildi hvers hóps. Eins og sjá má þá er takmarkaður mælanlegur munur á þeim launabónus sem þessir Twitter notendur fá, sama hvort þeir voru með sæmilega einkunnir, mjög góðar einkunnir eða dúxuðu.
Menntaskóli og grunnskóli
Menntaskóla og grunnskólastigið er þó ögn áhugaverðara. Eins og áður sagði, ef góðar einkunnir skila sér í betri störfum eða meiri framleiðni þarf að vera tenging á milli þess sem maður lærir og vinnur svo við seinna. Ef einkunnir einfaldlega endurspegla náttúrulega getu, áunna getu eða önnur forréttindi, þá ættu einkunnir í háskóla ekki að endurspegla sig í hærri launum á vinnumarkaði, eins gögnin á undan gefa einmitt til kynna.
Ef einkunnir eru merki um getu, gáfur og forréttindi þá hefði maður samt haldið að einhver fylgni væri á milli velgengni á grunnskólastiginu og framtíðarlauna. Sérhæfingar í grunnskóla (og menntaskóla) er nefnilega svo gott sem engin. Árangur nemenda á þessum árum ætti þó að endurspegla einhverskonar í gáfur og getu, þó marga fyrirvara megi setja svið slíka fullyrðingu.
Þessa kenningu styðja gögnin. Það er greinilegt samband milli einkunna á grunnskólastigi og launa seinna í lífinu. Það skiptir reyndar ekki máli hvort maður dúxi eða standi sig mjög vel en það munar talsverðu á því að standa sig illa og mjög vel.
Eða kannski ekki. Vandamálið við að lýta svona á þetta er að maður er ekki alveg að bera saman epli og epli. Flestir sem standa sig illa í grunnskóla enda skólagöngu sína annað hvort þar eða í menntaskóla. Þeir fara þannig á mis við sérhæfingu í framhaldsnámi sem skilar sér í hærri launum óháð einkunnum ef marka má fyrri greiningu þessa pistils. Þegar einstaklingar sem ekki luku háskólanámi eru teknir úr greiningunni dregur talsvert úr launabónus þeirra sem stóðu sig vel í grunnskóla. Hann nánast þurrkast út.
Hvað lærum við af þessu öllu saman?
Það borgar sig alltaf að vera duglegur. Það gefur einfaldlega sálinni að gera hlutina vel. Og þeir sem standa sig vel í grunnskóla í dag munu líklega einn daginn ganga um með troðnari vasa en þeir sem stóðu sig illa. Það er þó ekki endilega út af því að þeir stóðu sig vel í grunnskóla og háskóla.
Það er út af því að þeir eru líklegri til að eyða lengri tíma í skóla og þeir sem eyða lengri tíma í skóla fá hærri laun þegar þeir hætta að læra og byrja að vinna. Ef marka má fuglaforritið þá borgar það sig ekkert sérstaklega að dúxa í háskóla. Það skilar sér allavega ekki í mælanlega hærri launum.
Ég hefði kannski mátt vita það áður en ég eyddi öllum mínum stundum á bókasafninu. Þó kannski ekki, þær voru margar mjög skemmtilegar og er ég betri selskapur í matarboðum en ég væri annars.