Ágrip
Í þessari grein, eru færð rök fyrir því að ofbeldi gagnvart dýrum eigi sér stað í dýrahaldi til manneldis og við veiðar á dýrum. Greininni er ætlað að ná til frambjóðenda og neytenda og vekja þá til umhugsunar. Ærin verkefni eru framundan hjá nýju þingi og ég get ekki annað en vonað að skilningur ríki fyrir þessum ábendingum í von um að útrýma megi hinni leyndu þjáningu búfjár, sjávarfangs og villtra dýra á og við Ísland. Ég hef spurt sjálfan mig gagnrýnna spurninga á meðan á skrifunum stóð og reyndar í öllum dýraverndarskrifum mínum. Ég hef bókstaflega sett mig í sæti þeirra sem ég tel að myndu gagnrýna skrif mín. Niðurstaða mín er hins vegar alltaf sú sama. Ég er sannfærður um að gagnrýni mín sé réttmæt enda hef ég víða komið við í dýraverndarbarráttu minni.
Áskorun og hvatning til dýravina og áhrifavalda
Ég vil byrja þessa grein, eins og þá fyrri, frá s.l. sunnudegi, að skora á alla dýraverndarsinna, að leggjast á eitt með áróðri á þeim miðlum, sem þeir hafa tileinkað sér eða með öðrum hætti og ganga á forystumenn stjórnmálaflokka í framboði til alþingiskosninga og frambjóðendur í barráttusætum með spurningum um hvað þeir hyggist leggja af mörkum í þágu dýraverndar nái þeir kjöri. Ég er sannfærður um að margir bregðast við þessu ákalli því allir sem ég hef talað við sl. 10 ár, í minni dýraverndarbarráttu, skilgreina sig dýravini og er það vel. Núna er kjörið tækifæri að tala máli þeirra.
Frá landnámi til nútímamanna
Á 9. öld var Ísland numið. Óhjákvæmilegt var fyrir landnámsmenn og þá sem á eftir fylgdu að treysta á búfé og sjávarfang sér til lífsviðurværis. Í aldir var þetta þannig og skiljanlega.
Fáar, ef nokkrar, af forsendum fyrri alda manna fyrir notkun á búfé og sjávarfangi eru fyrir hendi í dag. Framboð á mat, þar sem dýrum er ekki fórnað, er nóg og er það óumdeilt. Samt heldur hefðin áfram, nú sem venja og það sem aldrei fyrr enda ræður nautn meira för en næring. Því verður nefnilega ekki hafnað að vel matreitt dýrahold er, fyrir marga gómsætt svo eftir er munað. Það sama á við um þá sem vanið hafa sig á matreiðslu með öðrum hráefnum en dýraafurðum. Og ekki er ólíklegt að slík næring mannslíkamanum vinveittari en dýraát.
Búfjáreldi og veiðar á villtum dýrum er dekkað sem trygging fyrir matvælaöryggi og hollri útivist. Ekki er nokkur fótur fyrir matvælatryggingunni lengur og rök veiðimanna um heilsusamlega útivist eru notuð til að draga athygli frá því fjandsamlega athæfi þeirra að fella varnarlaus dýr, sem aldrei eiga séns gegn höglum, riffilskotum og önglum.
Því er ekki ósanngjarnt að varpa því hér fram hvort ekki sé eðlilegt að íhuga að draga úr eldi, veiðum og neyslu dýra og þeirra afurða og draga þar með úr hinni leyndu þjáningu dýra. Ávinningurinn er a.m.k. þríþættur þ.m.t. ávinningur fyrir dýrin. Dregið er úr útblæstri sem dýraeldi og veiðum fylgir auk þess sem yfirgnæfandi líkur eru á bættari lýðheilsu. - Til umhugsunar fyrir komandi þing og neytendur.
Lög um velferð dýra - dýraverndarlögin
Í réttarríki þar sem siðferði er sagt fljúga með himinskautum eins og á Íslandi þótti fyrir áratug rétt að bregðast við nútímakröfum um Norræn viðmið í þágu dýranna og vernda þau meira en áður hafði tíðkast áður en þeim er fórnað til vægast sagt skrautlegrar, jafnvel óhóflegrar neyslu mannsins á þeim. Gera þeim lífið sæmilega bærilegt hjá hinum góða manni á ofurskömmum líftíma þeirra í eldi, samanborið við eðlilegan lífaldur og áður en hoggið er á lífsanda þeirra. Alþingi tók sig því til einhverju fyrir 2014, eftir pressu á þingheim úr öllum áttum og henti fram skilmerkilegum texta um það hverjar skyldur mannsins eru gagnvart hinum skammlífu fórnarlömbunum sem neytendur rífa úr kælum og henda sundurbútuðum á diska sína reglulega. Það eru lög um velferð dýra.
Í fyrstu grein laga um velferð dýra nr. 15/2013 er ritað:
Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
Auk laganna um velferð dýra eru í gildi fjöldi reglugerða, sem fjalla með ennþá ítarlegri hætti og í smáatriðum hvernig ber að bera sig að við að tryggja velferð einstakra dýrategunda.
Þessa grein hefði ég aldrei átt að þurfa að skrifa
Ef ofangreindu lagaákvæði og öðrum lögum um dýravernd væri fylgt af dýrahöldurum ,Matvælastofnun (MAST) sem eftirlitsaðila og ráðherrunum báðum í landbúnaðar og umhverfismálum, sem æðsta vald í framkvæmd laganna, væri ég ekki að skrifa þessa grein. Það er því miður pottþétt að svo er ekki og það vekur verulega undrun og svakaleg vonbrigði núna 10 árum eftir að nýju dýraverndarlögin tóku gildi. Þáverandi landbúnaðarráðherra Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon lofaði þá að engin afsláttur yrði veittur á velferð dýra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu.
Þetta hefur klikkað illa og farið verulega úr böndunum. - Svo mikið um stefnu VG um að velferð dýra skuli höfðu í forgrunni skv. stefnuskrá þeirra.
Dæmi: Sunna Ósk Logadóttir fjallar um það í ítarlegri fréttaskýringu í Kjarnanum, 15. sept., s.l. hvernig meðferð varphænsna er háttað á Íslandi. Fyrirsögnin er: Skaði á bringubeinum varphæna „býsna algengur“ á Íslandi
,,Ganga má út frá því að 85 prósent varphæna hér á landi séu með sprungið eða brotið bringubein rétt eins og frænkur þeirra á dönskum eggjabúum".
Er þetta og að ein hæna skuli verpa 300 eggjum á ári boðlegt í ljósi skýrra fyrirmæla 1. gr. laga um velferð dýra? Þetta er landbúnaðarráðherra, MAST og dýrahöldurum til háborinnar skammar, móðgun við neytendur og lítilsvirðandi framkoma við dýr.
En af hverju gerist þetta ítrekað? Þetta gerist af því að hér er ennþá stundað „intensive factory farming“ í eggjabisnessnum. „Brutal“ aðferð við að hámarka afköst við sem minnstar aðstæður og með sem minnstum tilkostnaði - þvert á skýr fyrirmæli laga um velferð dýra.
Þetta gerist líka vegna eftirfarandi. Ef við förum í goggunarröð íslensks stjórnarfars þá er það þannig, þrátt fyrir eftirlitsskyldu Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu, þá koma sárasjaldan fyrirspurnir frá þingmönnum til ráðherra um hvort velferð dýra sé með einhverju móti ógnað á Íslandi. Þá virðist svo sem MAST ráði ekki við eftirlitið og dýrahaldarar séu sinnulausir. Aðrar skýringar er ekki hægt að finna og það er ekki boðlegur málflutningur hjá eftirlitsdýralækni MAST sbr. fréttaskýringu Sunnu, þegar Brigitte Brugger, sérgreinadýralæknir í heilbrigði og velferð alifugla segir: þetta bara gerist, því miður.
Það var akkúrat hlutverk nýju laganna að útrýma þessu en þetta staðfestir að starfsmenn MAST og dýrahaldarar hreinlega skilja ekki lögin þó MAST setji sig í það hásæti, alla daga, að túlka lögin og eigi að framkvæma eftirlit. Þá þegar það er gert er það eftir hentugleika og reynt er að stuða hagsmunaaðila sem minnst. Það er þekkt Ella! Hvað var MAST lengi að loka Brúneggjabúinu? Það tók heilan helv ... áratug.
Sama gamla sagan endurtekur sig ennþá eins og fréttaskýring Sunnu vitnar um.
Frambjóðendur steinsofandi
Og um leið og þessar fréttir berast með áberandi hætti á nokkrum vönduðum miðlum, líta frambjóðendur undan, minnast ekki á málið né dýravernd, þora ekki að standa upp og vekja máls á þessu og mótmæla. Þeir eru hreinlega hræddir við að tapa fylgi. Aðra skýringu er ekki hægt að finna nema algert áhugaleysi en því trúi ég ekki. Þingmenn og frambjóðendur hljóta að vera dýravinir og fréttirnar hljóta að vekja verulega undrun þeirra. Þó er engin flokkur með dýravernd í stefnuskrá sinni utan VG.
Já og ef þetta er ennþá svona hjá varphænsnum þá spyr maður sig auðvitað að því hvernig er þetta hjá öðru búfé. Aðstæður í íslensku búfjárhaldi hafa sætt mikilli gagnrýni undanfarin ár. Sú umræða hófst kringum 2010 þegar dýralæknir vakti athygli á geldingum grísa án deyfingar og í kjölfarið hófst umræða um varphænsni, aðbúnað svína o.fl. Umræðan hefur sem sagt staðið linnulaust síðan með einungis takmörkuðum úrbótum en þó nýjum lögum, sem framkvæmdavaldið og margir dýrahaldarar virðast hafa sett upp í hillu þar sem þau safna ryki.
Til að þreyta ekki lesendur ætla ég ekki að tíunda allt búfjárhald en varpa ljósi á það sem mér þykir brýnast að bæta úr og koma með skynsamlega lausn, í lokin, sem vel er framkvæmanleg á Íslandi og neytendur tækju fagnandi. Það er lífrænt eldi og vottun. Sunna blm. á Kjarnanum er búin að reifa varphænsnahaldið og en ég ætla að halda áfram umfjöllun minni um mesta viðbjóðinn, að mínu mati, sem er blóðmeraiðnaðurinn, drepa á hreindýraveiðum, hákarlaveiðum og fiskeldi. Allt saman dýrahald þar sem ég fullyrði að dýr þjást vegna þess að lögum um velferð dýra er ekki fylgt.
Blóðmeraiðnaðurinn
Lög um velferð dýra gilda um allt búfé þ.m.t. hross. Líklega er blóðmeraiðaðurinn sá iðnaður, sem er flokkaður sem búfjárhald, sem síðast hefur verið upplýst um í hvað felst enda hafa þeir sem stunda þennan iðnað farið með veggjum, vilja alls ekki opinbera um hvað ræðir. Öll umræða angrar þá út í eitt og þeir bregðast við með heift eins og í ljós kom fyrir tveimur árum þegar evrópsk dýraverndarsamtök sóttu Ísland heim í þeim tilgangi að rannsaka meðferð á blóðmerum. Var þeim mjög illa tekið, þeir í bókstaflegri merki reknir í burt frá þeim svæðum þar sem blóðtaka fór fram og þeim var veitt ógnandi eftirför. Um þetta skrifaði ég ítarlega grein hér í Kjarnanum janúar 2020. Fékk hún svakalega lestur og hörð viðbrögð frá dýravinum og þeim sem stunda iðnaðinn. Leyndin yfir þessu blóðmeraníði er svo mikil að höfundur sjálfur uppgötvaði ekki þessa óhugnariðju þrátt að vera viss um að hafa velt hverjum steini og lagt stund á ítarlegar rannsóknir á búfjárhaldi í tengslum við skrif um réttaráhrif og framkvæmd dýraverndarlaga vegna meistararitgerðar í lögfræði á árunum 2009 til 2011.
En dýravinir kunna krók á móti bragði og létu ekki blóðmeraklíkuna slá sig útaf laginu. Seinni hluta þessa hausts verður þessi viðbjóður þó opinberaður rækilega en miklu viðbótarmyndefni m.a. í formi kvikmynda hefur verið safnað undanfarnar vikur af háþróuðu teymi, sem mun opinbera hrottaskapinn í nálægð, þegar blóðmerar eru þvingaðar í ofsahræðslukasti inn í bása til blóðtöku, bundnar með snöru um makkann með mann haldandi á priki á eftir sér. - og það undir ,,eftirliti" dýralæknis, sem ætlað er að gæta alls velsæmis í samræmi við lög um velferð dýra. Líklegt er að Íslendingum öllum og Evrópubúum verði brugðið. Jafnvel Færeyingum líka!
Stjórnvöld sátu hjá
Sú ömurlega staðreynd stendur eftir að íslensk stjórnvöld gerðu ekkert á síðustu tveimur árum til að skoða málið þegar upplýst var um það bæði af mér og þingmanni Samfylkingarinnar, Ágústi Ólafi Ágústssyni. Fullt af frambjóðendum núna hafa því vitað af þessu lengi en þora ekki eða hafa ekki áhuga á að vekja máls á þessu, sem verkefni fyrir komandi þing að útrýma. Það finnst mér glataðir þingmenn og frambjóðendur.
Fyrir lá að þessi iðnaður var á mjög gráu svæði gagnvart lögum um velferð dýra. Fagráði MAST tókst ekki að finna ákvæði í lögum um velferð dýra en klíndi þessu undir reglugerð um vísindarannsóknir á dýrum. Formaður Fagráðsins er fálkaorðuhafinn, Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir, m.a. fyrir framlag sitt til velferðar dýra. Blóðtakan, 25 lítrar á örstuttum tíma frá hverri meri, á auðvitað ekkert skylt við slíkar rannsóknir og í raun er enga heimild að finna í reglugerðinni fyrir þeirri linnulausu aðför að blóðmerum og á sér stað yfir sumartímann fram á haust.
Reglugerðin lýsir í 1. gr. eftirfarandi tilgangi: Tilgangur reglugerðarinnar er að stuðla að takmörkun á notkun dýra í vísinda- og menntunarskyni, stuðla að velferð og virðingu fyrir dýr sem notuð eru í slíkum tilgangi, og að tryggja að dýr sem notuð eru í slíkum tilgangi séu ekki látin sæta óþarfa álagi.
Ég fullyrði sem lögfræðingur með prýðilegt vald á lögskýringum að það er algerlega glórulaust, að heimila blóðmeraiðnaðinn með rökstuðningi í þetta ákvæði og að slíkt skuli gert sé hreint siðleysi og refsivert brot á lögum um velferð dýra. Blóðmeraiðnaðinn er ekki hægt að heimila með vísan í nokkur íslensk lög. Aukinheldur er blóðtakan engin vísindatilraun heldur hreinn liffæraþjófnaður sem Ísteka og slatti af íslenskum blóðmeraeigendum auk dýralækna hagnast verulega á enda hefur fjöldi blóðmera aldrei verið meir en nú þetta árið.
Þáttur Dýraverndarsambands Íslands
Eitt það allra dapurlegasta við þetta allt er að fulltrúi Dýraverndarsambands Íslands í Fagráðinu, dr. Ólafur Dýrmundsson, riddarakrosshafi fálkaorðunnar og fyrrverandi ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands, lagði blessun sína yfir þetta. Þá er það með ólíkindum að heimspekingur og kennari í siðfræði, tilnefndur af Siðfræðistofnun HÍ skuli hafa látið þetta renna í gegn líka. Já slíkur fræðimaður situr í Fagráðinu en það lýsir því einfaldlega hversu íslenska háskólasamfélagið er skammt á veg komið í öllu sem varðar siðferði í dýrarétti á sama tíma og það er orðin kennslugrein í Norrænum háskólum hvert við sækjum gjarnan hugmyndir.
Í stuttu máli felst þetta í blóðmeraiðnaðinum: úr fylfullum merum eru sognir allt að 25 lítrar af blóði til að vinna úr því hormón sem heitir PMSG. Það er notað til að örva frjósemi í svínaeldi. Semsagt í eldi þar sem velferð dýra er líka ógnað. Folöldin eru send í sláturhús. Kunnugir segja að með þessu sé gengið svo á þolmörk meranna að óafsakanlegt er. Þetta sé úr öllu samhengi við skýrar meginreglur laga um velferð dýra enda fellt af brjálæði undir reglugerð um vísindarannsóknir á dýrum.
Merar eru víða um land haldnar úti allt árið í þeim eina tilgang að gera þær fylfullar svo hægt sé að taka frá þeim blóð. Folöld sem fæðast eru send í sláturhús. Ljósmynd: höfundur.
Einnig má spyrja í hvaða aðstöðu þessir menn sem halda blóðmerar eru varðandi fóðrun og skjól, einkum á veturna. Gríðarlegur fjöldi blóðmera eru í útigangi allt árið skammt austan við Selfoss og á þeim slóðum hefur vanfóðrun, vatnsleysi og skortur á skjóli sætt gagnrýni undanfarin ár.
Af hverju ríkisstjórnin tók þetta mál ekki til skoðunar þá er vakin var athygli á því er mörgum hulin ráðgáta nema ef vera skyldi vegna ítaka Framsóknarflokksins þar. Það er með öllu óskiljanlegt að formaður þess flokks, dýralæknir, skuli fella sig við svona aðför að merum og folöldum þeirra og minnir hreinlega á þau viðhorf sem voru við lýði hér á öldum áður að dýr væru skynlausar verur, tilfinningalausir hlutir.
Loðdýraeldi hefur verið stundað á Íslandi í langan tíma, því miður. Það er til að þjóna sérvitrum tískusnobburum. Í því felst að villt dýr, minkar, eru haldnir í smáum búrum, árum saman. Þegar þeir hafa náð ákveðinni stærð eru þeir aflífaðir með útblæstri og flegnir. Skinnin eru send á uppboð erlendis. Vart þarf að útskýra að eðli minka er að ráfa um í náttúrunni þar sem hvergi eru landamæri. Eftirspurn eftir minkaskinnum hefur verið mjög lítil undanfarin misseri. Svo lítil að loðdýraiðnaðurinn á Íslandi stóð mjög illa skv. fréttum. Hvað gerist þá? Jú ríkið styrkti 10 aðila í þessum iðnaði um 80. milljónir á síðasta ári skv. Bændablaðinu 9. júlí á því ári. Þessi sóun á almannafé til framleiðslu á vöru fyrir tískuiðnaðinn hefði nægt til að gera sitthvað í þágu heilbrigðiskerfisins þá ekki væri bara nema til að bæta við nokkrum hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Enn þess í stað voru nokkrir bændur í úreldum búskap styrktir svo um munaði. Líklegt að þessir svokölluðu bændur hafi átt greiða leið í ríkissjóð í gegnum vin sinn Sigurð Inga dýralæknis í ríkisstjórn, sem nú er á lokametrunum sem samgönguráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.
Hreindýrskúadráp frá kálfum þeirra, mjólkurframleiðsla, hákarla og fiskveiðar, fisk- og sauðfjáreldi
Allt eru þetta atriði sem næsta þing þarf nauðsynlega að taka til skoðunar. Hreindýrskúadrápið frá ungviði á spena og „arrogance“ núverandi umhverfisráðherra á gagnrýni í þeim efnum fór ég yfir í síðustu grein og þarfnast það ekki meiri umfjöllunar.
Mjólkurframleiðsla með því linnulausa álagi á mjólkurkýr, sem eru sæddar ár eftir ár í þeim eina tilganga að framleiða mjólk getur ekki staðist lög um velferð dýra. Kýr þurfa hvíld og væri þetta gert af meðlimum Hundaræktarfélags Íslands yrði þeim vikið úr því félagi fyrir að brjóta lög þess félags um að tíkur skuli fá hvíld á milli þess sem ræktað er undan þeim.
Hákarlaveiðar, fiskveiðar og veiðar á stöng fela í sé mikið ofbeldi gegn dýrum. Hákarlarnir bíta á stóran öngul og eru svo klst. saman að eyja baráttu við dauðann.
Fiskveiðiaðferðir í sjávarútvegi hafa lítið breyst í tímans rás en í þeim felst kvalarfullur dauðdagi fyrir fiskana sem hreinlega kremjast til dauða í stórvirkum veiðafærum útgerðarinnar. Ömurlegast af öllu í þeim efnum finnst mér meðferð hrognkelsa. Þau eru kviðskorin til að ná í hrognin og er svo hent lifandi í sjó aftur. Hvernig getur nokkur maður hagað sér þannig?
Upplýst hefur verið um það nýlega hvaða skaða fiskar í fiskeldi geta orðið fyrir. Það er ekki boðlegt að mínu mati að hálf andlitslaus fiskar fái að svamla um í þeim netagirðingum sem komið hefur verið upp og að þeir verði fyrir yfir höfuð fyrir því líkamstjóni sem upplýst hefur verið um.
Í sauðfjáreldi er stundaður sá búskapur sem mér finnst skástur af öllu hefðbundnu búfjáreldi. Ríkið má til með að koma til móts við bændur með rannsóknum á því hvernig fyrirbyggja má endurtekin riðutilfelli. Kunnugir segja mér að líklega séu til aðferðir sem beita má til að fækka eða útrýma riðu svo ekki komi til þess að fella þurfi þúsundir fjár nánast reglulega útaf riðu. Það gengur ekki lengur að einn bóndi þurfi að horfa upp á lífsviðurværi sitt sent í sláturhús vegna ógnar sem máske er hægt að útrýma. Ekkert hefur verið aðhafst í þeim efnum fyrr en nú, að mér skilst, að rannsóknir eru á byrjunarstigi skv. fréttum þegar þetta er skrifað.
Verkefni næstu ríkisstjórnar
Eins og ég gat um í síðasta pistli væri það ósk mín að alvöru dýraverndarsinnar tækju sæti ráðherra í báðum þeim ráðuneytum, sem fara með málefni dýraverndar. Það er Atvinnu og nýsköpunarráðuneytið og Umhverfisráðuneytið. Ég geri líka þá kröfu að næsta ríkisstjórn beiti sér meira í málefnum dýraverndar búfjár, sjávardýra allra og veiða á villtum dýrum. Ég er orðinn langþreyttur á athyglis- og áhugaleysi þeirra ráðherra, sem vermt hafa sæti þessara ráðuneyta, á málefnum dýraverndar og takmarkalausri þjónustugleði þeirra við þá sem hagsmuni hafa af því að ala og fella dýr til neyslu.
Lífræn vottun
Ég sagðist í upphafi ætla að koma með tillögu að bættara búfjáreldi.
Mjög líklegt er að þau skilyrði sem fram koma í 1. gr. laga um velferð dýra séu einmitt uppfyllt í lífrænu eldi ásamt mörgu öðru. Þrátt fyrir að vörur með slíka vottun kunni að vera dýrari vegna verðmætaaukningar í framleiðslu þá er ég handviss um að neytendur væru fljótir að aðlaga sig að því því ávinningurinn er margfaldur fyrir menn, dýr og umhverfi.
Lokaorð
Í næstu og síðustu grein minni um dýravernd, að sinni, í þessum hlutaskiptu skrifum mun ég draga skrifin saman og fjalla auk þess um þau áhrif sem áhrifavaldar og dýraverndarsinnar geta haft á stjórnvöld til að tryggja að dýravernd sé stöðugt mallandi í umræðunni. Þau skrif koma líklega ekki fyrr en eftir kosningar og ég lýt svo á að þau gætu verið gott veganesti inn í næstu fjögur fyrir þá er kjörnir verða, falli þau í góðan jarðveg og heppnist vel.
Það er nefnilega mjög mikilvægt að veita komandi þingi og ráðherrum málaflokkanna aðhald og það gerist ekki nema reglulegum skrifum í þeim tilgangi að halda stjórnvöldum við efnið.
Höfundur er dýraréttarlögfræðingur.