Ef þú vilt slá í gegn skaltu reyna að fæðast í janúar

Eikonomics fjallar um umræðu um sanngirni og setur hana í hagfræðilegt samhengi.

Auglýsing

Davíð Snær, athafnamaður, opnaði umræðu á Twitter um daginn þegar hann sendi frá sér eftirfarandi tíst: „Í sinni einföldustu mynd, þá trúa sósíalistar ekki á, að fátækt fólk geti lyft sér upp úr fátækt. Ég hef trú á einstaklingnum og öllu því sem hann hefur fram að færa.“

Í tilefni færslunnar, og með það að markmiði að upplýsa aðeins umræðuna um sanngirni og setja hana í hagfræðilegt samhengi, hef ég ákveðið að birta pistil úr bókinni minni, Eikonomics – hagfræði á mannamáli, sem kom út í apríl fyrr á þessu ári.

Frá því að ég fæddist hefur mér verið sagt að ef ég væri duglegur og ynni vel, menntaði mig og stæði á mínu myndi mér ganga vel í lífinu. Það er vissulega rétt að öllu óbreyttu. En það þýðir þó ekki það að mér – forréttindaplebba sem fæddist inn í millistéttarfjölskyldu – og einstaklingi sem fæddist inn í fátæka fjölskyldu komi til með að ganga jafn vel í lífinu, þó að við leggjum báðir jafn mikið á okkur.

Á lífsleið minni voru fjölmörg tækifæri fyrir mig til að klúðra mínum málum. Þegar ég var sextán ára vann hljómsveitin mín Músíktilraunir og ég ákvað að hætta í menntaskóla og einbeita mér að því að vera ótrúlega svalur plötusnúður. Foreldrar mínir sem voru talsvert þroskaðri en unglingurinn sonur þeirra sáu í hvað stefndi, gripu í stýrið og tóku U-beygju með mig aftur inn á menntabrautina. Ef ég hefði ekki fæðst inn í þau forréttindi að eiga menntaða foreldra, sem áttuðu sig á því hversu mikilvæg menntun væri fyrir framtíðarlífsgæði mín hefði ég mögulega ekki farið aftur í menntaskóla. Það hefði komið í veg fyrir að ég lyki háskólanámi sem hefði þýtt að ég hefði aldrei endað í eins þægilegri stöðu og ég er í dag. Sem er óneitanlega alveg fín og klárlega betri en ég hefði átt kost á ef ég hefði ekki klárað menntaskóla. Það að ég átti efnaða foreldra sem nenntu að hamast í mér og áttuðu sig á mikilvægi menntunar var lykilatriði þess bæta lífsgæði mín. Umhverfið sem hver og einn fæðist inn í skiptir nefnilega máli.

Auglýsing
Fólk sem á menntaða foreldra er líklegra til að sækja sér menntun. Fólk sem á tekjuháa foreldra er líklegra til að verða sjálft tekjuhátt þegar það fullorðnast. Börn glæpamanna eru líklegri til þess að lenda í fangelsum. Því er nokkuð ljóst að dugnaður er ekki alltaf nóg. Stundum þarf fólk líka að fæðast inn í rétt umhverfi.

Inn í hvaða umhverfi þú fæðist er þó ekki allt. Hvenær á árinu þú fæðist inn í umhverfið skiptir líka máli. Sem sagt hvenær mamma þín og pabbi settu Villa Vill á fóninn; kveiktu á kertum og sulluðu í aðeins of miklu ódýru rauðvíni skiptir líka máli. Krakkar sem fæðast fyrr á árinu fá nefnilega viðbótar forskot.

Til að sýna fram á þetta safnaði ég gögnum frá fótboltadeildum Evrópu. Nánar tiltekið fyrstu deildum Þýskalands, Spánar og Ítalíu. Ef deildirnar eru bornar saman kemur í ljós maður er mikið líklegri að finna heimamenn, sem spila í efstu deild heimalands síns, ef þeir eru fæddir í janúar frekar en desember [1].

Hlutfall atvinnumanna í knattspyrnu sem fæddir eru í þeim viðkomandi mánuði

Hver súla sýnir hlutfall atvinnumanna í knattspyrnu, sem fæddir eru í þeim viðkomandi mánuði. Þegar deildirnar eru skoðaðar kemur í ljós að rúmlega 12% atvinnumanna eru fæddir í janúar, en aðeins um 5% í desember. Heimild: Transfermarkt.de og

Með greiningu minni er ég sannarlega ekki að finna upp hjólið. Þetta fyrirbæri hefur verið rannsakað ítarlega og hafa betri vísindamenn nú þegar sýnt fram á þetta úr heimi fótboltans. Á fræðimáli kallast það þegar þeir sem fæðast fyrr á árinu ná forskoti hlutfallsleg aldursáhrif. Forskotið er talið eiga rætur að rekja til þroska okkar þegar við byrjum að stunda íþróttir. Það er að segja, krakkar sem fæðast í janúar eru næstum því ári eldri en krakkar sem fæddir eru í desember en keppa í sama flokki. Þetta leiðir til þess að þegar krakkar hefja þátttöku í íþróttastarfi eru þeir sem fæðast snemma á árinu líklegri til að vera þroskaðri (bæði líkamlega og andlega) en þeir sem fæðast seint á árinu.

Þroskamunurinn leiðir að sjálfsögðu til mismunandi frammistöðu (þeir þroskuðu standa sig betur) og telja fræðimenn að það leiði til einhvers konar „útilokunar“ hinna minna þroskuðu. Orsökin gæti verið sú að þjálfarar séu líklegri til að pæla meira í þeim sem eru eldri, setja þá í betri lið, gefa þeim fleiri tækifæri og hvetja þá til dáða [2]. Athyglin sem þessum þroskaðri krökkum er veitt snemma á lífsleiðinni og tækifærin sem þeim bjóðast hjálpa þeim að verða betri, sem leiðir svo til enn meiri getu. Hinir minna þroskuðu dragast því smám saman aftur úr og eru á endanum líklegri til að gefast upp. Þegar þeir loksins ná jafnöldrum sínum í þroska er það orðið of seint.

Að sjálfsögðu eru til minna þroskaðir einstaklingar sem tekist hefur að fara í gegnum ferlið og að lokum orðið atvinnumenn. Einnig eru til krakkar sem fæðast í desember og eru mjög bráðþroska og ná því fyrr elstu jafnöldrum sínum. Og er það nokkuð merkilegt að það virðist vera sem svo að eftir að þroskaferli leikmanna lýkur – og leikmenn eru farnir að spila sem atvinnumenn – hættir fæðingamánuðurinn að skipta máli. Það er að segja ef marka má verðmat á www.transfermarkt.de, þá hefur fæðingarmánuður engin augljós áhrif á það hversu mikils metnir leikmennirnir eru, í beinhörðum peningum (sem hægt er að nota sem viðmið fyrir gæði) [3].

En sama hvað við reynum eru það pólitískir draumórar að ætla öllum jöfn tækifæri. Það fæðast alltaf einhverjir með silfurskeið í munni og þeir fá aukalíf þegar þeir þykjast ætla að lifa síðustu ár lífs síns á lífeyri sem plötusnúðavinna hefur skapað þeim. Því er oft eina ráðið að endurgreiða þeim sem settur var fóturinn fyrir fyrr á ævinni. Slíkt er í dag gert með stighækkandi skattkerfi, bótum fyrir þá sem allra verst komu út úr happdrætti lífsins (til að mynda þeir sem fæðast með fötlun). Slíkt kerfi er nauðsynlegt, því lífið er ekki sanngjarnt.

Punktar höfundar

[1] Ég safnaði líka gögnum úr ensku deildinni, en sleppti þeim þar sem inntökuárið í Englandi byrjar í september en ekki í janúar eins og í öðrum Evrópuríkjum. Það breytir ekki niðurstöðum greiningarinnar að skilja þá út undan en gerir útskýringuna mun aðgengilegri fyrir lesendur.

[2] Sjálfur spilaði ég fótbolta. Ég er fæddur á miðju árinu og þroskaðist nokkurn veginn á sama hraða og jafnaldrar mínir. Ég var aftur á móti afleitur í fótbolta og var því sendur í markið þar sem ég stóð mig ágætlega (Shell-mótsmeistari í B!). Þegar ég varð þrettán ára hættum við að spila á lítil mörk og fórum í stór mörk. Ég var þá ekki nægilega hávaxinn til að ná upp í stöngina og ef andstæðingar okkar vildu skora var nóg að vippa boltanum bara nógu hátt og þá var enginn séns fyrir mig að bjarga honum frá því að fara í netið. Þar með endaði ferill minn sem markmaður.

[3] Þessi niðurstaða kom mér nokkuð á óvart þegar ég skoðaði gögnin. Eftir að ég hafði unnið mína rannsókn á aldri knattspyrnumanna rakst ég á rannsókn eftir John Doyle og Paul Bottomley (2018), sem byggist á nánast sömu gögnum og svipaðri, en bara betri, aðferð. Rannsókn þeirra sýnir svo gott sem sömu niðurstöður og mín. Aldrei finnur maður ekki neitt upp. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokkiEikonomics