Þegar úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík lágu ljós fyrir blasti við að leið Sjálfstæðisflokksins til valda í borginni væri í meira lagi torsótt. Eini raunhæfi möguleiki flokksins á því að komast í meirihluta lá í gegnum samstarf við Framsókn, Flokk fólksins og Viðreisn.
Með ákvörðun Viðreisnar um að beisla sig við Samfylkingu og Pírata í meirihlutaviðræðum varð þó ljóst að ekkert gæti orðið af því samstarfi. Á endanum varð svo átakalítið að lenda samkomulagi þessara þriggja flokka og Framsóknarflokksins um nýtt meirihlutasamstarf í Reykjavík.
Á meðan á viðræðum stóð og eftir að skipan nýs meirihluta hafði verið kynnt heyrðust harmakvein úr ranni sjálfstæðismanna í borginni og víðar. Orð eins og „útilokunarpólitík“ og „þrjóskubandalag“ voru nánast daglegt brauð í fjölmiðlum.
Hildur Björnsdóttir oddviti borgarstjórnarflokksins, fór yfir málin í útvarpsviðtali eftir að búið var að kynna nýjan meirihluta. Hún sagði það „vinnureglu í Sjálfstæðisflokknum að geta starfað með öllum“ og að við myndun nýja meirihlutans hefði verið stunduð „leiðindapólitík“ þar sem samstarf við aðra flokka hefði verið útilokað og bandalög myndu „til að einangra aðra“. „Þetta var svolítið hegðun sem við kennum börnunum okkar að sé ekki æskileg,“ sagði Hildur í viðtalinu.
Í þessu viðtali og öðrum svipuðum fór þó ekki mikið fyrir því að oddviti Sjálfstæðisflokksins ræddi af hverju hún teldi aðra flokka síður vilja vinna með Sjálfstæðisflokknum í borginni. Sjálfstæðismenn hafa almennt ekki rætt þau mál mikið, út á við hið minnsta.
Meira púður hefur verið sett í að gagnrýna Framsóknarflokkinn og Einar Þorsteinsson fyrir að „svíkja loforð um breytingar“ og leyfa „útilokunarflokkunum“ að teyma sig inn í „endurreist meirihlutasamstarf“. Í nafnlausum ristjórnardálki Morgunblaðsins í vikunni var Einar sagður hafa sett „fótinn fyrir þann vilja borgarbúa“ að losna við Dag B. Eggertsson af borgarstjórastóli og með því hefði hann brotið sitt „einasta loforð“.
„Það gleymist seint,“ sagði höfundur Staksteina – varpar þannig ábyrgð á áframhaldandi valdaleysi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á Einar Þorsteinsson og „útilokunarflokkana“ sem mynduðu meirihluta á miðjunni með 55,8 prósent atkvæða að baki sér og 13 af 23 borgarfulltrúum.
Það eru þó nokkrar ástæður fyrir því að Framsókn, Viðreisn og jafnvel fleiri flokkar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft að ná saman við í borginni gátu illa hugsað sér slíkt samstarf.
Í reynd má segja að flokkurinn hafi sjálfur útilokað sig frá meirihlutasamstarfi, bæði með vali sínu á framboðslista og sumum þeim stefnumálum sem flokkurinn setti á oddinn í kosningabaráttunni.
Eins og tveir ólíkir flokkar í skipulags- og samgöngumálum
Fólkið innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er ósamstíga í mörgum lykilmálum sem snerta þróun borgarinnar til framtíðar. Nær ósamrýmanleg sjónarmið hafa til dæmis verið uppi í hópi borgarfulltrúa flokksins um eitt lykilmála í samgöngu- og skipulagsmálum innan borgarinnar til langrar framtíðar, uppbyggingu Borgarlínu og tengdri uppbyggingu húsnæðis.
Hvað þetta mál varðar hafa áherslur verið ansi breytilegar á milli frjálslyndari og íhaldssamari arma flokksins í borginni. Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir fyrrverandi borgarfulltrúi voru þannig nokkuð sér á báti innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er kom að samgöngu- og skipulagsmálum í Reykjavík á síðasta kjörtímabili.
Klofnaði flokkurinn nokkrum sinnum í afstöðu til mála er vörðuðu Borgarlínu og fleiri skipulagsmál, er kosið var um þau í ráðum og nefndum borgarinnar.
Niðurstaðan í prófkjöri flokksins sem haldið var í mars varð á þá leið að Hildur fékk umboð til þess að leiða listann. Hún hefur talað fyrir breyttum ferðavenjum og fjölbreyttum ferðamátum í Reykjavík, en fáir sem eru nálægt hennar línu í skipulags- og samgöngumálum fengu hins vegar brautargengi í prófkjörinu.
Þess í stað röðuðust í næstu sæti listans þau Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason, sem öll eru hluti af íhaldssamari armi flokksins í borginni og á nokkuð annarri línu en Hildur í þessum málum. Eini borgarfulltrúinn utan Hildar sem telst til frjálslyndari arms flokksins er Friðjón R. Friðjónsson.
Nokkuð skýr skil eru þarna á milli er kemur að samgöngu- og skipulagsmálum, og kom það glögglega í ljós í svörum þessa hóps við spurningum frá flokksmönnum, sem birt voru í aðdraganda prófkjörs Sjálfstæðismanna í vetrarlok.
„Borgarlínan mun ekki leysa umferðarvandann þar sem henni er ætlað að taka akreinar frá annarri umferð. Hún er óraunhæf og kostnaður við hana himinhár, auk þess sem allt er á huldu um það hver muni greiða rekstrarkostnað hennar. Hún er því óútfyllt ávísun á borgarbúa og ég mun ekki samþykkja tafagjöld, né aðrar álögur á borgarbúa vegna þessa ævintýris. Borgarlínan er jafnframt tímaskekkja þegar haft er í huga að við stöndum á þröskuldi byltinga í samgöngum og í gerð farartækja. Auk þess er borgarlínan ekki einungis samgöngustefna heldur skipulagsstefna sem ég er alfarið mótfallin,“ sagði Marta Guðjónsdóttir til dæmis í svari sínu við spurningu um hvort hún styddi Borgarlínu eins og verkefnið liti út á teikniborðinu.
Í svari sínu við sömu spurningu sagði Kjartan Magnússon að í stað þess að festa sig í „19. aldar lausnum“ ætti Reykjavíkurborg að horfa til nútíðar og framtíðar, á lausnir eins og snjallstýringu umferðarljósa, sjálfakandi ökutæki og sjálfakandi almenningssamgöngur. Hann sagðist hrifinn af hugmyndum um „léttlínu“ og það sögðust Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir og Björn Gíslason einnig vera.
Hugmyndir um svokallaða „léttlínu“ hafa helst verið settar fram af hópi sem kallar sig Áhugafólk um samgöngur fyrir alla, sem einnig leggur til að minna fé verði sett í bættar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en samgöngusáttmálinn gerir ráð fyrir og þeim mun meira fé í byggingu fjölda nýrra mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu. Þessar hugmyndir hafði Hildur Björnsdóttir áður kallað „metnaðarlausa útgáfu af hinu fyrirhugaða hágæða almenningssamgöngukerfi“ sem Borgarlínan á að verða.
Strax og niðurstöður prófkjörsins hjá Sjálfstæðisflokknum lágu fyrir hermdu heimildir Kjarnans að hópurinn sem studdi Hildi teldi víst að miðað við samsetningu listans yrði erfitt að mynda meirihluta, sökum þeirrar íhaldssömu stefnu sem mörg þeirra sem fengu brautargengi í prófkjörinu standa fyrir, sér í lagi í samgöngu- og skipulagsmálum. Sú stefna á ekki hljómgrunn hjá meirihluta borgarbúa – og ekki í forystusveitum annarra stjórnmálaafla í borginni.
Það hefur komið á daginn – og ekki myndi koma stórkostlega á óvart ef borgarstjórnarflokkurinn myndi á ný klofna í afstöðu sinni til samgöngu- og skipulagsmála borgarinnar á þessu kjörtímabili.
Hornamálun í húsnæðismálum
Þegar horft á málefnin sem Sjálfstæðisflokkurinn tefldi fram í kosningabaráttunni er síðan ljóst að flokkurinn málaði sig út í horn með áherslum sínum í skipulagsmálum, sérstaklega gagnvart samstarfi við Viðreisn.
Sjálfstæðisflokkurinn setti það inn í stefnuskrá sína að víkja ætti alfarið frá frekari þéttingu byggðar í grónum hverfum borgarinnar og sagði að horfa skyldi til þess að byggja meira í jaðri borgarinnar; í Staðarhverfi í Grafarvogi, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi. Einnig talaði flokkurinn fyrir nýjum hverfum að Keldum og í Örfirisey.
Viðreisn lagði eins og aðrir flokkar sem mynduðu síðasta meirihluta töluverða áherslu á þéttingu byggðar. Flokkurinn sagðist vilja hefja uppbygginguna sem framundan er á Ártúnshöfða og ljúka skipulagi Keldnalands, byggja upp samkvæmt skipulagi í Skerjafirðinum og ráðast í uppbyggingu húsnæðis á Skeifusvæðinu, við Kringluna og í Úlfarsárdal, auk þess sem Viðreisn sagði að þéttbýlið á Kjalarnesi mætti stækka, þannig að það gæti borið verslun og nærþjónustu.
Þegar þau stefnumál sem flokkarnir báru fram til kjósenda sinna eru borin saman þarf enginn að undrast það að Viðreisn hafi fremur kosið að halla sér að fyrri samstarfsfélögum í Samfylkingunni og Pírötum og svo að Framsókn, sem útilokaði ekki þéttingu innan gróinna hverfa með sama hætti og Sjálfstæðisflokkurinn.
Framsókn sagðist vilja „þétta byggð þar sem innviðir leyfa og í aukinni sátt við íbúa“ en nefndi enga sérstaka staði innan borgarinnar í því samhengi í stefnuskrá sinni, en talaði þó um „öfluga uppbyggingu í öllum hverfum borgarinnar“. Þetta var hæfilega loðið, eins og reyndar margt annað í stefnu flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.
Eiga málefnin ekki að ráða?
Í lýðræðislegum kosningum bjóða stjórnmálaflokkar fram hugmyndir sínar og stefnu og leggja í dóm kjósenda. Með hlutfallskosningakerfi eins og er við lýði á Íslandi gerist það sjaldan að einn flokkur fái að ráða öllu sjálfur og því þarf oftast að leita samstarfs og einhverra málamiðlana.
Í slíku kerfi er eðlilegt að flokkar leitist við að vinna fremur með flokkum sem þeir eiga málefnalega samleið með en öðrum, svo stefnur þeirra og hugsjónir komist til skila að eins miklu leyti og mögulegt er.
Það sem ætti ekki að teljast eðlilegt er að vera til í að vinna með öllum, alltaf. Og það er hreinlega undarlegt að gera kröfu um að allir séu til í að vinna með þér, þegar stefnurnar eru á skjön. Enn undarlegra að kalla það útilokun.