Miðvikudaginn 10. nóvember síðastliðinn setti framhaldsskólakennarinn Páll Vilhjálmsson, sem titlar sig blaðamann, færslu á bloggsíðu sína. Færslan fjallaði um samsæriskenningu sem staðreynd. Kenninguna hafði hann soðið saman úr mörgum röngum ályktunum. Síðan þá hefur hann skrifað fimm slíkar færslur í viðbót um sama mál.
Í þessum bloggfærslum heldur Páll því fram að lögreglurannsókn standi yfir á tilraunum RÚV og tengdra aðila til að drepa skipstjóra á Akureyri með eitri. Tilgangur glæpsins átti að hafa verið að tryggja að ríkisfréttastofan gæti komist yfir síma hans í viðleitni sinni til að vinna einhverskonar sigur í fjölmiðlastríði sem hún og aðrir vinveittir fjölmiðlar væru að reka gegn Samherja.
Páll hefur ásakað Aðalstein Kjartansson, blaðamann á Stundinni, um að hafa tekið þátt í banatilræðinu. Hann hefur ýjað að því að fráfarandi fréttastjóri RÚV, Rakel Þorbergsdóttir, hafi sagt upp starfi sínu vegna þess að hún sé á leið í afplánun í fangelsi vegna málsins. Hann hefur sagt að starfsmenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans hafi verið yfirheyrðir og að „andleg vanheilsa grunaðra“ hafi verið rannsökuð við lögreglurannsókn málsins.
Sigurinn í fjölmiðlastríðinu sem Páll vísar til eru fréttaskýringar sem birtust á Kjarnanum og í Stundinni í maí síðastliðnum. Þær byggðu á gögnum sem sýndu hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja –„skæruliðadeild Samherja“ – höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum blaðamönnum, listamönnum, stjórnmálamönnum, félagasamtökum og ýmsum öðrum til að hafa af þeim æruna, trúverðugleikann eða lífsviðurværið. Í sumum tilfellum allt þrennt.
Ástæða þess að þetta stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins stóð í þessari vegferð var sú að ofangreint fólk hafði annað hvort flett ofan af því sem Samherji hafði gert eða gagnrýnt framferði fyrirtækisins á opinberum vettvangi.
Ef þú neitar því ekki, þá hlýtur það að vera satt
Um svipað leyti og umfjöllunin birtist kærði starfsmaður Samherja og einn meðlima „skæruliðadeildarinnar“ þjófnað á síma sínum og tölvu til lögreglu. Enginn frá þeim fjölmiðlum sem komu að umræddri umfjöllun hafa verið kallaðir til yfirheyrslu vegna þeirrar kæru, líkt og Páll heldur fram. Enginn fréttamaður eða yfirmaður hjá RÚV – sem tók engan þátt í umfjölluninni – hefur heldur verið yfirheyrður samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Lög um fjölmiðla tryggja svo heimildarmönnum vernd gegn því að verða opinberaðir.
Páll Vilhjálmsson gefur þó ekkert fyrir ofangreint. Þvert á móti hefur hann bætt sífellt í alvarlegar ásakanir sínar eftir því sem bloggfærslur hans um málið hafa orðið fleiri.
Páll hefur svo fundið staðfestingu á að allur þessi hugarburður hans sé sannur í því að engir fjölmiðlar taki upp bloggfærslur hans sem fréttir. Í morgun skrifaði hann: „Ekki verða fréttamálin öllu stærri en þegar ríkisfréttastofa er bendluð við banatilræði og þaulskipulagðan gagnastuld frá manni sem liggur meðvitundarlaus í öndunarvél. Sá sem ekki sér fréttina, tja, hann er ekki blaðamaður heldur hagsmunavörður.“
Brjálaðar samsæriskenningar
Ástæða þess að fjölmiðlar sem starfa á eðlilegum forsendum blaðamennsku taka þetta mál ekki upp eru auðvitað öllu sæmilega áttuðu fólki ljós. Þetta eru brjálaðar samsæriskenningar sem sóma sér vel í hugarheimi QAnon-fólksins í Bandaríkjunum, sem heldur því meðal annars fram að háttsettir demókratar stundi skipulagt barnaníð á nafngreindum pizzastað í Washington-borg.
Vanalega er ekkert tilefni til að bregðast við skrifum Páls Vilhjálmssonar. Skrifin eru að uppistöðu á svo lágu plani og svo léleg að ekkert tilefni er til þess að fóðra skepnuna. Það eitt gefur henni líf. Ef Páll er skilinn einn eftir að drullumalla, þá skvettist drullan bara á hann. Fyrir vikið opinberast Páll fyrir það sem hann er; skítugur maður með rætna bloggsíðu sem hann notar til að ljúga upp á fólk og gera þeim upp meiningar.
Því miður er ekki öllum gefið að leiða Pál hjá sér. Stærsta áskriftardagblað landsins, Morgunblaðið, heldur mikið upp á hann og vitnar ítrekað í lygar og samsæriskenningar hans í nafnlausa níðdálknum Staksteinum og í leiðaraskrifum blaðsins. Á þessu ári einu saman hafa ritstjórar Morgunblaðsins vitnað í skrif Páls á þeim vettvöngum í á þriðja tug skipta. Sú viðurkenning magnar upp skrifin. Margfaldar þann fjölda sem sér þau. Og veitir þeim vigt í huga sumra þeirra sem enn lesa Morgunblaðið og telja það vant að virðingu sinni.
Nú ásakar Páll líka fólk og fjölmiðla um þátttöku í glæp. Auk þess hefur einn meðlima skæruliðadeildarinnar svokölluðu, fyrrverandi fjölmiðlamaður, haft samband við fjölmiðlafólk til að ýta undir þennan málflutning. Sá virðist enn vera í fullu starfi hjá Samherja við að bera út óhróður og lygar um fyrrverandi kollega.
Þess vegna er nauðsynlegt, í þetta eina sinn, að hætta sér út á foraðið og svara alvarlegum ávirðingum Páls.
Órum sleppt lausum í Morgunblaði
Eftir því sem lestur Morgunblaðsins hefur minnkað – hann er nú einungis 8,7 prósent hjá fullorðnum undir fimmtugu og lesendum hefur heilt yfir fækkað um 20 prósent á tæpum tveimur árum – þá hefur valdastaða blaðsins dvínað og efnistök orðið sérkennilegri. Nú virðist áhugi ritstjóra blaðsins aðallega liggja í ást á fjölskyldubílnum, að halda því fram að loftslagsváin sé ekki raunveruleg, að bólusetningar sé einhverskonar svindl og að kollegar í blaðamannastéttinni á Íslandi séu í raun stórhættulegt fólk.
Á mánudag rataði Páll inn í ritstýrt efni þegar hann var viðmælandi í netsjónvarpsþættinum Dagmálum á vefsíðu Morgunblaðsins, sem stýrt var af Eggerti Skúlasyni.
Þótt inntak þáttarins hafi átt að snúast um ólíkar skoðanir Páls og Hönnu Bjargar systur hans á jafnréttismálum var samsæriskenning Páls um glæpsamlegu blaðamennina sem áttu að hafa reynt að drepa skipstjóra til að komast yfir símans hans rædd. „Af hverju tekur þetta engin upp, meira að segja skammar þig enginn fyrir að skrifa þetta,“ spurði Eggert.
Páll fékk svo að rekja kenninguna sína óáreittur. Í um fjóra og hálfa mínútu. Með því að birta þetta efni í umbúðum eðlilegheita, líkt og málflutningur Páls sé viðurkennd þjóðmálaumræða, veitti vefur Morgunblaðsins málflutningi Páls óverðskuldað trúverðugleika.
Staðreyndir eru ekki teygjanlegt hugtak
Til að taka af allan vafa: það er enginn blaðamaður til rannsóknar fyrir að hafa reynt að drepa skipstjóra, né fyrir að stela símanum hans. Þetta er hugarburður og áróður til að reyna að grafa undan þeim blaðamönnum sem komu að umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar um „skæruliðadeildina“ og RÚV fyrir að hafa opinberað Namibíumál Samherja fyrir rúmum tveimur árum.
Þeir sem standa fyrir þeim áróðri eru Páll Vilhjálmsson, sem setur hann fram, og Morgunblaðið, sem magnar hann upp. Skítadreifari „skæruliðadeildarinnar“ hvíslar svo í bakgrunni.
Það er vert að minnast á að ekkert í umfjöllun um „skæruliðadeildina“ hefur verið rengt. Samherji gaf meira að segja út yfirlýsingu þar sem stóð að ljóst væri að stjórnendur félagsins hefðu gengið „of langt“ í viðbrögðum við „neikvæðri umfjöllun um félagið“. Um mánuði síðar, í júní, birtust svo heilsíðuauglýsingar frá Samherja með fyrirsögninni „Við gerðum mistök og biðjumst afsökunar“. Um var að ræða ræða bréf sem fjallaði um starfsemi útgerðarinnar í Namibíu og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, skrifaði undir bréfið.
Staðreyndir eru ekki teygjanlegt hugtak. Það má einfaldlega ekki segja hvað sem er, um hvern sem er, hvar sem bara vegna þess að einhver raðar röngum ályktunum saman í fjarstæðukennda atburðarás. Nauðsynlegt er að finna staðhæfingum sínum stað í raunveruleikanum.
Þar eiga staðhæfingar Páls Vilhjálmssonar engan samastað.
Athugasemd og ósk um leiðréttingu vegna meiðandi og rangra staðhæfinga frá Þorbirni Þórðarsyni lögmanni kl: 9:20 19. nóvember:
„Ég hef aldrei rætt við fjölmiðla um þjófnað á símtæki, ýtt undir málflutning um „þátttöku í glæp“ eða „borið út óhróður um fyrrverandi kollega”. Þá hef ég aldrei verið í samskiptum við Pál Vilhjálmsson, bloggara og kennara við FG. Hvorki í gegnum síma né tölvupóst eða á annan hátt. Ég þekki manninn ekkert og hef aldrei rætt við hann.“
Athugasemd ritstjóra:
Þorbjörn Þórðarson er ekki nefndur á nafn í leiðaranum. Hann er ekki ásakaður um það sem hann gerir athugasemd við né er því haldið fram að Þorbjörn hafi verið í samskiptum við Pál Vilhjálmsson. Leiðarinn byggir á gögnum og staðfestum heimildum. Þorbjörn dregur rangar ályktanir af efni leiðarans og því er ekki tilefni til að leiðrétta neitt í honum.