Árið 2022 hófst á rökréttu framhaldi þess árs sem kvaddi að því leyti að fyrstu vikur og mánuðir ársins urðu einir þeir stærstu í COVID-fárinu öllu sem stýrt hefur flestu í okkar veruleika síðustu ár. Það var nokkuð umdeilt hjá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að taka þá ákvörðun að halda skólum að fullu opnum og í raun þar með hleypa veirunni á fulla ferð með það að leiðarljósi að ná því hjarðónæmi sem horft var til að tækist. Enn á ný mætti íslenska skólakerfið þeirri áskorun þó þar hafi farið líklega sú stærsta í öllum faraldrinum. Enda ansi stór hópur nemenda, kennara og annars starfsfólks skólanna sem veiktist af veirunni á þessu tímabili með öllu því raski sem að sjálfsögðu fylgdi. Áfram var þó aldan stigin í ólgusjónum með því æðruleysi og hugrekki sem einkenndi störf íslenskra kennara í gegnum faraldurinn. Ég veit að heimsbyggðin tók eftir því framtaki og í raun þeirri dirfsku sem fylgdi því að leiða skólastarf í heimsfaraldri. Það er algerlega á hreinu að það gerði enginn betur á heimsvísu en íslenskir kennarar og vert að hrósa þeim enn á ný fyrir það!
Það verður auðvitað ekki litið framhjá því að svo langt tímabil, eða um þrjú skólaár hefði að einhverju leyti hafði áhrif á nám, annað væri einfaldlega óhugsandi. Hætta á þekkingargapi er mikil í slíkum aðstæðum þar sem endalaust er verið að færa til í áætlunum og stökkva til þegar breytingar verða í umhverfinu og laga kennsluaðferðir og námsumhverfi eftir síbreytilegum þörfum. Nemendur og kennarar voru sumir oft og lengi frá vegna veirunnar og það gefur auga leið að slíkt ástand hefur áhrif. Mikilvægt er að koma til móts við þá staðreynd innan skólakerfisins á þann hátt að nemendur fái það nám sem þeim ber og vinni gapið upp.
Áhrif innrásar Rússa á skólasamfélagið
Þegar veiruhrammurinn sleppti af okkur takinu breyttist heimsmynd okkar af völdum innrásar Rússa í Úkraínu. Skyndilega var skollið á allsherjarstríð milli tveggja þjóða í Evrópu miðri. Það var svo sannarlega von mín að slík átök væru að baki og að mannkynið hefði í raun lært af þeim hremmingum og viðbjóði sem stríð hafa fært en því miður er svo ekki. Grimmd innrásarhers Pútíns jafnast á við þau grimmdarverk sem við höfum hryllt okkur við þegar við heyrum frásagnir af þeim, lesum um þær eða sjáum myndefni, heimildir eða leiknar myndir sem birta dauða, pyndingar og áföll af ólíku tagi. Ekki bara þeirra sem klæðast hermannabúningum með byssu á öxl, heldur enn fremur á meðal almennra borgara sem verða fyrir illsku innrásarhersins.
Í starfi mínu fæ ég að kynnast verkum úkraínskra kennara og þeim viðbrögðum sem nágrannar landsins hafa gripið til svo að hægt sé að koma til móts við börn í þeim hörmungum. Bæði þau sem mæta í skólana sína í Úkraínu, sem sumir eru illa farnir eftir árásir, vitandi það að með engum fyrirvara verði þau mögulega að flýja í kjallara skólahússins eða í nágrenni þess ef að rússneski björninn ákveður að velja skólann þeirra sem skotmark. Svo líka þau sem hafa flúið landið sitt með mæðrum sínum, eða jafnvel ein, til að halda lífi. Við Íslendingar höfum fengið það hlutverk að taka á móti mörgum þessara barna og það er einfaldlega skylda okkar sem þjóð sem þekkir sem betur fer lítið af þeim hörmungum sem stríð valda, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma til móts við þessi börn. Það eru svo sannarlega nágrannar Úkraínu að gera þar sem tugþúsundir barna hafa leitað í skjól sem þau vona að verði tímabundið á meðan ofríkisdraumar valdhafa í Moskvu ráða þar ríkjum. Kennarar í nágrannaríkjum hika enda ekki við að benda okkur sem vestar búum á það að rússneski björninn sé ekkert að gera óvart, hann leiti í úrelta stjórnarhætti herraríkisins sem landið áður var og horfi til fleiri voðaverka hjá öðrum löndum ef ekki verði hann stoppaður af. Vonandi sér fyrir enda hörmunganna á nýju ári!
Sveitarstjórnarkosningar og áhrif þeirra á yngstu skólastigin
Árið 2022 innihélt sveitarstjórnarkosningar en á þeim vettvangi eru teknar ákvarðanir sem varða tvö yngstu skólastigin, leik- og grunnskólastigið. Málaflokkurinn er risavaxinn hluti útgjalda sveitarfélaganna og segja má að umræðan um hugmyndafræði og útfærslupælingar varðandi skólastarf hafi verið nokkur, þó ég persónulega hefði viljað sjá umræðuna fara lengra og dýpra. Hún var einfaldlega svolítið frasakennd og í raun hver að apa upp eftir öðrum. Áheit um að efla ákveðna þætti án útskýringa á því hvernig árangrinum yrði náð, fyrirsagnaumræða um leikskóla frá tólf mánaða aldri fyrir öll börn, aukna sérfræðiþjónustu við skólastigin og oft klifað á að efla metnaðarfullt skólastarf.
Kosningarnar gengu yfir og haustið kom ... en með svipuðum verkum og við höfum áður séð. Auðvitað breytist lítið á þremur mánuðum. Væntingar voru að ekki yrði bara farið í að segja hlutina heldur horf frekari til langtímalausna. Það er auðvitað hið besta mál og auðvitað það sem þarf en þá hefði að mínu mati einmitt verið gott að fá þá umræðu líka fyrir kosningar. Skoða til dæmis það hvort að við sem samfélag erum í alvöru á því að börnum sé fyrir bestu að vera átta klukkustundir utan heimilis alla virka daga frá tólf mánaða aldri. Eða er það til þess fallið að skila börnum sem bestum lífsgæðum? Skoða, hvað grunnskólana varðar, hvort brýnasta verkefnið sé ekki það að börn og kennarar upplifi skólana sína sem örugga vinnustaði þar sem þeim eru fengnar þær bjargir sem óskað er eftir frekar en að upp sé slegið fyrirsögnum sem ætlað er að rífa niður það starf sem skilar börnunum okkar út í lífið.
Þessi börn koma svo upp í framhaldsskóla sem hefur á síðustu árum gjörbreyst. Þar má horfa til tveggja stórra þátta; annars vegar er það nú þannig að nær 100 prósent nemenda mæta haustið eftir tíunda bekk inn í framhaldsskólana. Langstærsti hlutinn er tilbúinn að mæta þeim kröfum sem til þeirra eru þar gerðar. Þó er það svo að margir þeirra sem fengu öfluga aðstoð við námið sitt í grunnskólanum verða af því á næsta skólastigi, þar sem því miður hefur ekki tekist að yfirfæra stuðninginn upp á næsta skólastig. Auðvitað þarf að taka umræðu um samræmingu skólastiganna en það þýðir ekki að við eigum að loka augunum fyrir því að kveðja nemendur að vori úr grunnskóla sem við vitum að munu ekki ráða við framhaldsskólanám á þeim nótum sem nú er unnið og löngu tímabært að styrkja stoðkerfin þar!
Hin breytan er svo stytting framhaldsskólans, sem lagt var upp með fyrir nokkrum árum, að færa viðmiðið úr fjórum árum í þrjú (þó að vissulega það hafi verið hægt áður og enn sé ekkert mál að vera fjögur ár að klára) og keyra námið hraðar áfram. Hugmyndin var að nemendur yrðu þá fyrr komnir í frekara nám eða út á vinnumarkaðinn en hvar stöndum við í dag? Var þessi breyting til góðs? Er ekki kominn tími til að skoða það hvort námið er eins uppbyggjandi og það var og hvort líðan nemenda sé betri, eða jafnvel verri? Tilfinningin er að þriggja ára námið hafi kallað á meira námsálag á kostnað félagslegra þátta (þó auðvitað COVID hafi líka haft þar áhrif). Það er að sjálfsögðu mikilvægur hluti, hinn félagslegi þroski, sem síðtáningar fá aðstoð við í framhaldsskólanum sínum, hvort sem er sem virkir leiðtogar eða þátttakendur í félagsstarfi. Námið skiptir máli, en það gera líka leikklúbbarnir, kórastarfið, félagslegu klúbbarnir og skemmtanirnar sem tengjast framhaldsskólanum. Þar er líka á ferð menntun! Við skulum vera óhrædd við að rýna þessa aðgerð til gagns.
Á haustdögum hófst víðtækt samráð leitt af mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, þar sem ætlunin er búa til heildstæða skólaþjónustu sem leiða á málefni nemenda frá innkomu í leikskóla til útskriftar í framhaldsskóla. Verkefnið er sannarlega stórt og á sama tíma göfugt og löngu tímabært að taka það samtal á dýptina hvernig við sem samfélag getum styrkt námsumhverfi barna og tryggt þeim þá farsæld sem fylgir gæðamenntun. Verkefnið og vinnan heldur áfram á næsta ári og hugurinn til góðra verka er mikill. Hann er alltaf mikilvægur en orðum þurfa svo að fylgja aðgerðir – það eru þær sem telja!
Kjör, kaup og kröfur til kennara
Árslok hafa svo einkennst af kjarasamningagerð með öllu því sem henni fylgir. Árið hefur verið erfitt fyrir hagsæld samfélagsins okkar, verðbólga á ferð og vaxtastig stöðugt hækkað. Heimilin hafa fundið fyrir því og það hittir að venju fyrir efnaminnsta fólkið okkar og enn á ný sér ungt fólk greiðslubyrði vegna sjálfsagðra hluta eins og húsnæðiskaupa fjúka upp. Einhvern veginn er okkur ekki að takast að höndla þá ótemju sem lítið hagkerfi eins og okkar er og þær hagsveiflur sem fylgja því. Kjarasamningar verða þá oft til þess að draga úr kaupmáttarhruni, redda því sem reddað verður, frekar en að fara á undan og leiða hið efnahagslega verkefni. Þeir samningar sem undirritaðir voru eru einmitt slíkir samningar og virðast koma að miklu leyti til móts við kaupmáttarbrunann á árinu og því sem virðist framundan. Um er að ræða samninga á hinum almenna markaði og nú er sá opinberi framundan. Þar verður ekki horft til slíkra kjara enda nú kominn tími á að efndur verði sá samningur sem undirritaður var árið 2016, samningur sem þýddi jöfnun lífeyrisréttinda milli markaða, og dró úr ákveðnum réttindum opinberra starfsmanna þá þegar, en staðfesti að launakjör yrðu jöfnuð. Nú sex árum seinna hefur samkomulagið ekki enn verið efnt og við það verður ekki unað lengur. Það er auðvitað þannig að opinberir starfsmenn þekkja ábyrgð sína á efnahagslegri framvindu samfélagsins en það misrétti sem ríkt hefur í launasetningu er einfaldlega óþolandi og verður ekki unað við lengur.
Það er nefnilega ekki nóg að hampa sem dæmi kennurum sem halda uppi besta skólastarfi í sögulegum heimsfaraldri, nú eða gera kröfur um gæðastarf með börnum þar sem þau finna farsæld í námi sínu og þroskist á fjölbreyttan hátt. Allur árangur sem við náum í skólakerfinu byggir á frammistöðu kennarans í stofunni með nemendum sínum. Starfsumhverfið byggist á virðingu fyrir verkefninu og starfskjörin verða að vera í samræmi við þá ábyrgð sem honum er falin.
Á næsta ári er komið að því að við sem samfélag stígum það skref að lyfta skólastarfi á þann stall sem því ber og tryggja kennurum það sem þarf til að árangur þess verði enn betri en nú. Stór þáttur í því er að staðið verði við loforðið frá 2016 um jöfnun launa milli markaða – þar er að finna allan þann metnað sem þarf til að byggja verkefnið á.
Megi árið 2023 verða okkur öllum gjöfult – takk fyrir árið 2022!
Höfundur er formaður Kennarasambands Íslands.