Nú er yfirstandandi hátíð ljóss og friðar og uppskeruhátíð ofbeldismanna. Þolendur og börn eru mörg einangruð inni á heimilinu með geranda sínum og flestir aðrir snúa athygli sinni að sínum bálki. Vinnustaðir eru margir lokaðir og fólk fer í frí frá daglegu amstri. Bjargráðin hverfa og griðastaðir loka. Hætta skapast. Þetta er veruleiki margra yfir hátíðarnar og lögregluútköllin eiga eftir að taka mið af því.
Þetta er líka hátíð meðvirkninnar þar sem þolendur kynferðisbrota liggja undir sleitulausu áreiti um að mæta í fjölskylduveislur þar sem gerandi þeirra situr prúður og þiggur sáttur syndaaflausn sína í formi sinnuleysis fjöldans. Gerendameðvirknin dillar sér. Afvegaleiðingin felst í því að áherslan og athyglin er á viðbragð þolandans en ekki brot gerandans. „Æji – amma þín á nú ekki langt eftir, það eru nú jólin, hann er svo góður við foreldra sína, hún er nú hætt að drekka, ætlar þú ekki að leyfa honum að hitta börnin sín um jólin? Batnandi mönnum er best að lifa, það er betra að fyrirgefa, – fyrir þig.“ Okkur er talin trú um að himnaríki taki ekki á móti heimtufrekum hryssum.
Óyrta krafan um flekklausa ásýnd á samfélagsmiðlum er ráðandi. Gleðisnauða brosið á jólamyndinni er orðið að skilyrtu viðbragði í hegðun einstaklinga sem eru þjakaðir af undirgefni gagnvart fölskum loforðum hömlulausrar hamingju og sjúkum samanburði við aðra. Heiður hússins er í veði. Öllu er stillt upp. Skaðleg jákvæðni kemur upp í hugann og gagnrýnni hugsun er skipað til náða. Við seljum heiminum stillu á meðan undir liggur stormur sem án efa leysist úr læðingi þetta sama kvöld. Þetta er mikilfengleg hátíð meðvirkninnar á mörgum sviðum sem ofbeldi nýtur góðs af.
Skilgreiningar á heimilisofbeldi
Mýtan um heimilisofbeldi er mynd af sauðdrukknum karlmanni með tilfinningatregðu sem gengur í skrokk á konu sinni fyrir framan börn þeirra sem gráta sáran og biðja pabba að hætta. Ofbeldishegðun er hinsvegar fjölbreyttari og lúmskari en marga grunar. Heimilisofbeldi er einnig kallað ofbeldi í nánum samböndum. Ofbeldi í nánum samböndum vísar til ofbeldis sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn. Þetta getur t.d. verið maki, barn, foreldri, barnsmóðir, barnsfaðir eða systkini. Maki getur átt við núverandi eða fyrrverandi eiginmann/eiginkonu, kærustu/kærasta eða sambúðaraðila.
Heimilisofbeldi er samt sem áður skilgreint sem kynbundið ofbeldi, en það er ofbeldi sem er beint gegn þolanda vegna kynferðis viðkomandi eða ofbeldi þar sem yfirgnæfandi meirihluti þolenda er af tilteknu kyni. Bæði erlend og innlend tölfræði hefur sýnt okkur að konur og börn eru í yfirgnæfandi meirihluta þolenda og gerendur eru í yfirgnæfandi meirihluti karlmenn. Það skal tekið fram að kolklikkaðar kuntur og aðrir femínistar komu ekkert að gerð þeirrar staðreyndar. Rannsóknir og tölfræði bera þar alla sök. Staðreyndafælnir eru hvattir til að leita sér uppljómunar langt frá rými hugrekkis og radda þolenda. Þið fælið frá og valdið skaða. Geðþóttaskoðanir ykkar eru aumkunarverðar og til marks um að gerendameðvirkni er samfélagslegt mein sem étur gagnrýna hugsun upp til agna og hrækir henni síðan í átt að þolendum. Ykkar er einnig skömmin.
Ólíkar birtingarmyndir heimilisofbeldis
Heimilisofbeldi/ofbeldi í nánum samböndum getur verið líkamlegt, andlegt, fjárhagslegt, stafrænt og kynferðislegt. Allt þetta hefur skaðlegar afleiðingar fyrir þolandann og sú alvarlegasta er þegar annar aðilinn myrðir maka sinn. Það hefur gerst oftar en einu sinni á Íslandi. Eftirfarandi dæmi eru rituð til að minna þig á að þú átt betra skilið, og er einnig góður leiðarvísir sem nákomnir geta haft bak við eyrað ef ykkur grunar að verið sé að beita einhvern sem þið þekkið ofbeldi. Heimilisofbeldi er samfélagsmein sem við upprætum ekki nema með því að þekkja það og tala um það. Stofnanir viðhafast ekkert ef þær vita ekkert. Við erum öll lögbundnir tilkynningaraðilar þegar kemur að því að tryggja öryggi barna á sínu eigin heimili, óháð því hvar við sjálf búum.
Dæmi um líkamlegt ofbeldi í nánum samböndum:
- Þegar gerandi beitir frelsissviptingu.
- Þegar gerandi kemur í veg fyrir næringu, lyfjatökur eða skerðir svefn.
- Þegar gerandi sýnir ógnandi hegðun, brýtur hluti eða kýlir í veggi.
- Þegar gerandi meiðir þig með t.d. hnífi, belti, barefli eða byssu.
- Þegar gerandi kýlir, lemur, bítur, klórar, slær, hrindir, sparkar, drekkir, kæfir, eða tekur þig kverkataki.
Dæmi um andlegt ofbeldi í nánum samböndum:
- Þegar gerandi uppnefnir þig og gerir lítið úr þér.
- Þegar gerandi öskrar á þig og niðurlægir þig viljandi fyrir framan aðra.
- Þegar gerandi einangrar þig frá fjölskyldu og vinum.
- Þegar gerandi segir þér í hverju þú átt að vera eða hvernig þú átt að haga þér.
- Þegar gerandi notar hegðun þína sem afsökun fyrir ofbeldi eða óheilbrigðri hegðun, afvegaleiðir staðreyndir máls og tekur enga ábyrgð.
- Þegar gerandi sakar þig um framhjáhald og fyllist afbrýðisemi yfir samskiptum þínum við annað fólk.
- Þegar gerandi ofsækir þig.
- Þegar gerandi hótar að fremja sjálfsvíg til að koma í veg fyrir ákveðna hegðun, eins og til dæmis að þú slítir sambandinu.
- Þegar gerandi beitir gaslýsingu í samskiptum. Lætur þig efast um upplifanir þínar og tilfinningar þannig að þú heldur jafnvel að þú sért að ímynda þér ofbeldið sem þú verður fyrir. Þannig verður auðveldara að stjórna þér og stilla upp samkvæmt heimsmynd gerandans.
Fjárhagslegt ofbeldi í nánum samböndum:
- Þegar gerandi meinar þér að vinna.
- Þegar gerandi tekur launin af þér eða stýrir allri umsýslu peninga á heimilinu.
- Þegar gerandi skammtar þér peninga.
- Þegar gerandi skráir skuldir á þig en eignir á sig.
- Þegar gerandi heldur upplýsingum um stöðu fjármála frá þér og gerir þig þannig fjárhagslega háða/n sér.
- Þegar gerandi ráðstafar sameiginlegum fjármunum í hluti og ráðfærir sig ekki við þig. Hér getur verið um að ræða áfengi/fíkniefni eða dýrir munir.
Stafrænt ofbeldi í nánum samböndum:
- Þegar gerandi segir þér til um hvern þú megir og megir ekki vingast við á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
- Þegar gerandi sendir þér neikvæð, lítillækkandi og jafnvel ógnandi skilaboð.
- Þegar gerandi notast við samfélagsmiðla eða aðrar tæknilausnir til þess að athuga stöðugt hvað þú ert að gera og með hverjum.
- Þegar gerandi stelur eða heimtar að fá lykilorðin þín að t.d. samfélagsmiðlum.
- Þegar gerandi sendir endalaus skilaboð og lætur þér líða eins og þú getir ekki verið án símans af ótta við að vera refsað.
- Þegar gerandi lítur reglulega í gegnum símann þinn, skoðar myndirnar þínar, skilaboð sem þú hefur fengið og símtöl sem þú hefur hringt, jafnvel þegar þú sérð ekki til.
- Þegar gerandi notar einhvers konar tækni (t.d. GPS í bíl eða á síma) til þess að fylgjast með þér
- Þegar gerandi þykist vera einhver annar en hann er á samfélagsmiðlum til þess að fylgjast með þér eða spjallar við þig undir gervi prófíl eða prófil annarra.
Kynferðislegt ofbeldi í nánum samböndum:
- Þegar gerandi neyðir eða þvingar þig til kynmaka.
- Þegar gerandi suðar og tuðar í þér um kynlíf.
- Þegar gerandi beitir líkamlegu ofbeldi áður, á meðan eða eftir kynlíf. Stundum réttlætir gerandi ofbeldi út frá BDSM væddri hegðun í kynlífi en skeytir engu um þær samskiptareglur og mörk sem þar gilda og eru grunnstoð.
- Þegar gerandi ætlast til eða neyðir þig til þátttöku til kynferðislegra athafna með öðrum en maka.
- Þegar gerandi snertir þig kynferðislega eða er með kynferðislegar athugasemdir gegn þínum vilja.
- Þegar gerandi beitir klámvæddri hegðun í kynlífi gegn þínum vilja.
- Þegar gerandi þvingar þig til að taka þátt í vændi.
- Þegar gerandi nýtir stafrænt kynferðislegt ofbeldi til að valdbeita þig. Myndefni og annað er oft notað gegn þér þegar þú dirfist að valdeflast eða setja mörk.
- Þegar gerandi notar siðlausa samskiptatækni (gaslýsing), s.s. upplifun þín í kynlífi er afvegaleidd og jafnvel sögð röng.
- Þegar gerandi notar kúgunaraðferðir, t.d. að kynferðislegt áhugaleysi þitt endurspegli höfnun í sambandi og er það notað gegn þér til að knýja fram kynlíf.
- Þegar gerandi sakar þig stanslaust um framhjáhald.
- Þegar gerandi ber samlíf ykkar saman við samlíf annarra para til að ná vilja sínum fram..
- Þegar gerandi notar tilfinningalega fjarlægð á þann hátt að þú upplifir þig tilneydda/n til að stunda kynlíf til að forðast skapgerðarbresti geranda og til að upplifa nánd í eigin sambandi.
Hann getur ekki hafa gert þetta, hann var svo ljúfur sem barn
Afstaða fólks gegn kynbundu ofbeldi á Íslandi hefur lengi verið lýsandi fyrir hugrænar skekkjur fjöldans, samkenndarskort og einhvern undarlegan ótta. Staðreyndafælnin er áþreifanleg. Athugasemdir á samfélagsmiðlum, löggjöf, viðhorf þeirra sem völdin hafa og viðhorf sjálfskipaðra sérfræðinga eru meiðandi. Meðhöndlun brotaþola kynferðisofbeldis í réttarkerfinu er siðuðu samfélagi til skammar. Tíðni kynferðisofbeldis á Íslandi er eitthvað sem sumir eiga erfitt með að kyngja. Kröfurnar sem gerðar eru á réttlætisgöngu þolenda eru óraunhæfar en í samræmi við óþroskaðar óskir og væntingar fólks um fallegan heim þar sem enginn skuggi fellur.
Það er flókið og erfitt fyrir foreldra og aðra ástvini þegar einhver sem þú hefur átt þátt í að ala upp, elskar skilyrðislaust og deilir hafsjó af fallegum minningum með, gerir eitthvað svo siðlaust og illt að þolendurnir eru í kjölfarið verr útsettir en aðrir fyrir ýmsum alvarlegum heilsufarsbrestum það sem eftir er. Það er vitað mál að siðferðislegur stigsmunur er á eðli kynferðisafbrota en afleiðingarnar skerða alltaf lífsgæði þolenda á einhvern hátt, og oftast alvarlega. Sú staðreynd er óboðleg og alvarlega á skjön við lágmarks mannréttindi í samfélagi siðaðra manna. Þrátt fyrir það virðumst við félagslega samþykkja tilvist þessara mannréttindabrota í formi bæði aðgerða- og sinnuleysis og sendum þolendum þau skilaboð að reynsla þeirra sé óþægileg afheyrnar, sérstaklega um jólin. Almennt er gerð sú óskráða krafa að þolendur beri harm sinn í hljóði – bognir og beygðir, en taki þátt í öllum fagnaði þessa síðustu daga árs. Í þeirri mynd er þetta hátíð veruleikafirringar með fallegum dúk á borði.
Óþægileiki staðreynda
Margreynd, sannreynd og gagnreynd tölfræði um kynbundin ofbeldisverk virðast alltaf koma illa við þá sem einungis taka mið af eigin hugmyndum við skoðanamótun og einnig þá sem almennt virðist vera illa við konur. Í þennan hóp eru líka komnar konur og það er bæði mannfræðilega og sálfræðilega áhugavert að fylgjast með hegðun þeirra þegar kemur að meðvirkni og velvilja í garð geranda. Skoðanamótun þeirra virðist vera byggð á þeirri einföldu venjuvæddu upplifun að hafa séð meinta menn títt í fjölmiðlum, hlustað á þá í útvarpinu eða í hlaðvarpsþáttum eða farið á tónleika með þeim. Þær þekktu mæður þeirra og ömmur, og þar af leiðandi á heiður húsa þeirra ekki að hljóta hnekki. Þessir menn kenndu jafnvel sumum þeirra eða sátu á þingi. Þær eiga góðar minningar um gilda menn og rísa því hnakkreistar upp á afturlappirnar, fullar af heift þegar þessar stúlkur voga sér að skemma heimsmynd þeirra með (að þeirra mati) seinkomnu væli eða kjökri. „Heldur þú að maður hafi farið að grenja í hvert skipti sem einhver strauk mér á balli eða reyndi að komast upp á mig?!“ segja þær og reyna þar með að gjaldfella sársauka kynsystra sinna sem stórar viðhorfsbreytingar skilja að.
Menningarleg afstæðishyggja hefur kennt mér að hópar gera það sem þeir þurfa að gera til að lifa af í sínu umhverfi hverju sinni. Kannski var á þeirra tíma lífsbjörgin að segja sársaukanum að snauta sér. Sögulegt samhengi bankar á dyrnar og minnir okkur á að óskráð og óútskýranleg réttindi eins kyns yfir öðru, þögnin og heiður húsa réðu ríkjum áður. Við vitum hinsvegar í dag að óháð hörku hlýða afleiðingar áfalla ekki harðorðri skipun.
Á sama tíma og þessar gerendameðvirku konur styðja sögulega úrelt viðhorf, er körlum kennt að hraðspóla yfir tilfinningar sínar, gagnrýna þá sem dirfast að valdeflast og upphefja þar með úrelta ímynd karlmennskunnar þar sem gengið er út frá því að tilfinningar og tjáning sé sammerkt með gjaldþroti sjálfsmyndar þeirra. Svona eyðileggur skaðleg karlmennska strákana okkar og blindar blessaðar kerlingarnar sem virðast oft skála grimmt við skriftir á samfélagsmiðlum. Áfallamiðuð nálgun fær ekki hljómgrunn hjá geðþóttaskoðunum röklausra og meðvirkra sem neita að lifa í oft ljótum heimi. Staðreyndafælnin er áþreifanleg og Incel-deild Íslands fagnar ákaft nýjum meðfærilegum meðlimum óháð kyni. Það er kannski einhver framför í heimi sem ávallt sér í gegnum skökk og kynjuð gleraugu.
Það er skrýtin tilfinning að búa í landi sem gerir sig út fyrir að vera bæði upplýst og laust við skaðlega íhaldssemi en virðist á sama tíma eiga erfitt með að samþykkja staðreyndir. Um 70% þeirra sem koma á Stígamót urðu fyrir kynferðisofbeldi á barnsaldri. Fólk er að koma stundum áratugum eftir brot. Þessir einstaklingar endurspegla ekki mannýgan múg í mannorðsmeiðingarham sem heimtar gerendaslaufun. Þetta fólk er oft of illa farið, oftar en ekki af hálfu þeirra sem áttu að vernda það. Þetta eru fullorðnu börnin okkar. Ég hélt að óháð öllu værum við allavega þjóð sem fylkti sér að baki barna sem beitt hafa verið hinum ófyrirgefanlega glæp. Svo virðist ekki vera.
Meðvirkni í garð gerenda er skaðleg sálarheill þolenda
Ofbeldishegðun sem hefur fengið að þrífast í friði er loksins að líta dagsins ljós. Nýfallinn dómur Jóns Baldvins, útvarpsþættir um Skeggja Ásbjarnarson kennara í Laugarnesskóla, eltihrellahegðun Jesú og mislukkuð endurkoma Auðuns inn í íslenskt tónlistarlíf virðist segja að loks séu einhverjar afleiðingar við slæmri hegðun óháð frægðarstalli eða sannfæringarkrafti. Þeir eru ekki ósnertanlegir lengur. Þetta er líka frábær tími til að vera gerandi í bata. Samtök eins og Heimilisfriður og Taktu skrefið bjóða framúrskarandi aðstoð þungavigtarfagfólks, fræðslu og stuðning til þeirra sem vilja hætta að meiða aðra eða hafa áhyggjur af hegðun sinni. Það er samt þetta þráláta vandamál með að viðurkenna sök og sjá alvarleika afleiðinga hegðunar sinnar. Við þurfum að muna að takmarkalaus trú á ágæti einstaklings sem hefur sýnt af sér ofbeldishegðun án tilrauna til bata, iðrunar og bættrar hegðunar er óraunhæf vænting. Við erum ekki komin sérstaklega langt í breyttu viðhorfi þolendum til bata. Við erum jú þjóðin sem, þar til fyrir stuttu, samþykkti með bæði aðgerða- og sinnuleysi að nauðganir á Þjóðhátíð væru bara óhjákvæmilegur fylgifiskur hópamyndunar hérlendis.
Fólk er samt farið að rýna í persónuleikaeinkenni gerenda og sjá samnefnara. Það er fagnaðarefni. Við erum farin að kalla hlutina réttum nöfnum og erum orðin óhræddari við að setja mörk. Margar konur eru hættar sjúklegum samanburði og samkeppni og farnar að berjast saman. Á sama tíma er gerendameðvirknin enn áþreifanleg og skaðleg í samfélagi okkar. Geðlæknir hleypur til varna fyrir misskilda ástsjúka menn og minnir almenning á að stúlkubarnið var nú orðið lögríða, gamalreyndir tónlistarmenn taka mynd í kirkju með ofbeldismanni til að votta syndaaflausn og einhver Jón Jónsson úti í bæ ákveður að endurkoma manns sem bara misskildi ofbeldishegðun sína sé tímabær. Þolendur eru ekki fengnir til álitsgjafar varðandi hvort upprisa og endurkoma gerenda sé tímabær. Við virðumst ekki einu sinni velta því fyrir okkur hvernig þeim líður með alla þessa umfjöllun sem þær oft og tíðum neyðast til að taka þátt í til að vara aðrar við. Ekki er dómskerfið að standa vörð um þessar stúlkur eða fullorðnu börnin okkar sem leita nú í auknum mæli til Stígamóta.
Til ykkar sem hafa upplifað heimilisofbeldi og/eða kynferðisofbeldi og kvíðið tilætlunarsemi náinna ættingja um jólin
Ykkur ber engin skylda til að sækja þessi jólaboð eða nýársfögnuði þótt amma sé á lokametrunum eða mamma verði annars sár. Þetta eru bara nokkrir dagar á ári. Hægt er að rækta tengsl alla daga ársins og það er alltaf hægt að sjóða hangikjötskepp. Ef fólk hefur ekki staðfest tilvist sársauka ykkar eða staðreynd brota ykkar er kominn tími til að skoða umhverfið og viðurkenna hverjir eru nærandi, hverjir eru særandi og hverjir eru tæmandi - og raða upp á nýtt. Réttlát rýmisósk ykkar fyrir bata fer ekki vel í þá sem hafa hagnast á því að eiga ótakmarkað aðgengi að ykkur. Setjið þetta fólk í frí. Það má nefnilega alltaf taka sér frí frá fólki óháð blóðtengslum, sameiginlegri sögu eða afmælishátíð frelsishetju syndara.
Margskonar skerðing á lífsgæðum og geðheilsu fylgir því að verða fyrir heimilisofbeldi og/eða kynferðisofbeldi. Glassúr, glimmer og gerendameðvirkni getur aukið á þessa vanlíðan þolenda. Þetta er ekki endilega tíminn til að fyrirgefa siðleysi og brot, bara af því að það eru jólin. Sumt er ekki hægt að fyrirgefa. Það þarf ekki að fyrirgefa. Bati þinn byggir ekki á fyrirgefningu synda annarra. Þú ert ekki Jesúbarnið. Þú ert manneskja sem hefur hlotið skaða í grimmum heimi. Biblíuvæddar dyggðir eiga ekki að stýra batasögu þolenda.
Jólunum fylgir oft sú óyrta krafa að allar deilur og öll heimsins mál séu sett í jólapakkann sem enginn opnar, innst undir tréð. Það er ekki rökrétt né hollt og takmarkar samkennd gagnvart náunga okkar. Það verður maki laminn um jólin, það verður barn beitt ofbeldi og einhverjum verður nauðgað. Í stað þess að rækta veruleikafirringu um jólin og snúa blindu auga í átt að ógn og óréttlæti, verðum við að halda áfram að tala um ofbeldi því það fer ekki í jólafrí. Aukin samfélagsleg vitund um eðli og afleiðingar ofbeldis og forvarnir á alltaf erindi í umræðuna, alla daga. Afmælispartý Jesús Krists og staurblind fjölskylduhollusta skyldu ekki fá færi á því að kæfa staðreyndir með hátíðlegum blæ, eilífum anda og amen. Dagar líða, þessir líka. Sársauki þinn þarf pláss og réttlát reiði þín líka. Farðu vel með þig þessa dagana og settu geðheilbrigði þitt í forgang. Þín batasaga er það sem skiptir máli, ekki fýla annara yfir því að þú setur mörk.
Höfundur er ráðgjafi hjá Stígamótum.