Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur tilkynnt það að hún hafi ekki í hyggju að taka upp aðildarviðræður við ESB á nýjan leik og líti svo á að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja. Frá þessu var sagt í kvöld.
Málið var leyndarmál ríkisstjórnarinnar þangað til í kvöld. Það fékk enga þinglega meðferð. Þingið fjallaði ekkert um það, utanríkismálanefnd fjallaði ekki um það, þingflokkar ríkisstjórnarinnar fjölluðu ekki einu sinni um það. Eingöngu ríkisstjórnin fjallaði um það. Það gerði hún á fundi sínum á þriðjudag, en henni þótti ekki taka því að hafa málið á dagskrá fundarins svo einhver gæti mögulega fengið vitneskju um hvað stæði til.
Hvers vegna skyldi þetta vera gert með þessum hætti? Það er augljóst. Ríkisstjórnin veit vel að hún kæmist ekki í gegn um þingið með þetta mál sitt. Hún hefur prófað það áður, og varð ekki ágengt þá. Það eina sem ríkisstjórnin fékk áorkað í það skiptið var að fjölga stuðningsmönnum þess að aðildarviðræðum yrði lokið og þjóðin fengi að kjósa. Í nýlegum skoðanakönnunum kemur í ljós að sá stuðningur hefur síður en svo minnkað. Almenningur vill fá að taka ákvörðun um málið sjálfur, eins og honum hefur ítrekað verið lofað, bæði fyrir síðustu kosningar og í þingsályktunartillögunni þar sem ákveðið var að sækja um aðild. Allt tal um annað er bara útúrsnúningur.
Engin þörf fyrir þingið lengur
Ríkisstjórnin hefur boðað allt þetta ár að þingsályktunartillaga um afturköllun umsóknar yrði lögð fram á þinginu á nýjan leik á þessu þingi. Þannig hefur verið gert ráð fyrir því að fram færi umræða um málið í þinginu. Hún yrði hörð og á meðan yrðu líklega fjölmenn mótmæli fyrir utan, rétt eins og síðast þegar ríkisstjórnin reyndi að slíta aðildarviðræðunum.
En nú hefur ríkisstjórn Íslands dottið niður á aðra og þægilegri lausn fyrir sjálfa sig. Hún telur enga þörf fyrir þingið lengur. Hún sendir bara bréf og segir Evrópusambandinu að hún vilji ekki ganga þar inn og ESB eigi að taka mið af því héðan af. Jafnframt er tekið fram að þessi nýja stefna stjórnvalda „yfirtaki þær skuldbindingar sem gefnar voru í aðildarviðræðum fyrri ríkisstjórnar,“ svo vitnað sé í tilkynningu utanríkisráðuneytisins sem send var fjölmiðlum í kvöld.
En nú hefur ríkisstjórn Íslands dottið niður á aðra og þægilegri lausn fyrir sjálfa sig. Hún telur enga þörf fyrir þingið lengur.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í viðtali við RÚV í kvöld að síðasta ríkisstjórn hefði sótt um aðild að ESB og byggt það á tilmælum frá þinginu. „Það þing er ekki til staðar og ekki sá meirihluti sem var að baki álitinu á sínum tíma. Það er komin ný ríkisstjórn með nýja stefnu,“ sagði hann.
Þarna er margt áhugavert, til að mynda fullkominn misskilningur um það hvernig þjóðþing virka. Ef þessi röksemdafærsla verður notuð frekar erum við í ansi miklu veseni. Þá verður nefnilega hægt að ógilda allar ákvarðanir þings á hverju kjörtímabili fyrir sig um leið og nýtt kjörtímabil hefst. Og segja svo bara „nei sko, það þing sem samþykkti þetta er ekki til staðar og ekki sá meirihluti sem var að baki þessu á sínum tíma.“ Það er augljóst að þetta gengur ekki upp.
Hefur bréfið merkingu?
Í raun er óljóst hvort þetta bréf Gunnars Braga hefur einhverja raunverulega merkingu. Getur hann ákveðið það, gagnvart þinginu og ekki síður gagnvart Evrópusambandinu, að þessi nýja stefna ríkisstjórnarinnar yfirtaki allar skuldbindingar sem áður hafa verið gerðar af íslenskum stjórnvöldum? Getur Evrópusambandið litið á þetta bréf sem viðræðuslit? Því á eftir að svara og það verður spennandi að sjá viðbrögð sambandsins á næstu dögum. Hvernig sem svarið við þessum spurningum verður er allavega ljóst að það er nákvæmlega ekkert stórmannlegt við þessa aðferð ríkisstjórnarinnar við að slíta aðildarviðræðunum. Ekki gagnvart þinginu, ekki gagnvart þjóðinni og ekki gagnvart Evrópu.
Ríkisstjórn sem hefði staðið við að leyfa þjóðinni að kjósa um framhaldið hefði getað borið höfuðið hátt gagnvart þjóð, þingi og Evrópu. Ríkisstjórn sem hefði farið með þingsályktunartillögu í gegnum erfiða umræðu í þinginu og í kjölfar þess slitið viðræðum hefði getað verið sátt þegar hún sendi bréf um afturköllun umsóknar til Evrópu.
Ríkisstjórn sem pukrast með málið og afhendir svo leynibréf um viðræðuslit til þess að reyna að sleppa við það að takast á við þingið og vilja þjóðarinnar er ekkert annað en heigull.