Ég segi stundum þegar aðgerðir í loftslagsmálum ber á góma, að við getum í það minnsta ekki borðað okkur út úr vandanum. Þó að þorri hinna meðvituðu Evrópubúa hættu að borða dýraafurðir og gerðust Vegan myndi það ekki valda þeim straumhvörfum sem að ýmsir halda eða í það minnsta óska sér. Sama dag og skýrsla IPCC kom út tvítaði hinn þekkti loftslagsvísindamaður Michael E. Mann að kjötneysla bæri ábyrgð á ekki nema 3% af kolefnislosuninni, en jarðefnaeldsneyti 67%. Hann átti við held ég nautakjöt (beef), en tók fram að vissulega skiptu litlu sneiðarnar í kolefnislosunar-kökunni líka miklu máli þegar kemur að nauðsynlegum samdrætti.
Með þessu er ég ekki að gera lítið úr tengingu fæðuvals í baráttunni við hlýnun jarðar, en það þarf bara svo miklu meira til. Rauður þráður í nýlegri bók Michael E. Mann; The New Climate War er sá að stóru alþjóða fyrirtækin í vinnslu olíu, gass og kola vilja gjarnan stýra umræðunni á þann veg að fólk ásaki sig sjálft og fyrir lifnaðarhætti sína. Og sökin er þá líka stjórnvalda sem af veikum mætti reyna uppfylla áætlanir sínar um samdrátt í losun. Á meðan athyglin er ekki á stórfyrirtækjunum geta þau bara haldið áfram að moka og dæla úr jörðu og mótað almenningsálitið sér í vil.
Stórtæk orkuskipti þurfa að eiga sér stað á næstu 10-20 árum eigi það að takast að fletja út koltvísýringsaukninguna í lofthjúpi jarðar. Svo ekki sé talað um að ná að beina línuritinu niður á við. Raforkuframleiðslan stendur undir ekki minna en þriðjungi losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Og samgöngur hátt í 20%. Breytt landnotkun, landbúnaður (þar með sjávarútvegur) er með um 25%. Skiptir gríðarmiklu máli, en jarðefnaeldsneyti kemur þar minna við sögu.
En hingað heim. Það veldur óhjákvæmilega samviskubiti hjá okkur flestum að heyra stöðugt þá staðreynd endurtekna að Ísland mengi mest í Evrópu þegar horft er á losun koltvísýrings á mann. Þá verður að hafa í huga að álverin þrjú og Járnblendið á Grundartanga sem standa undir 35-40% af heildinni koma okkur efst á þennan vafasama lista. Stóriðjan fellur hins vegar undir viðskipti ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið) og telst því ekki á beinni ábyrgð stjórnvalda.
Stóra áskorunin hér á næstu árum felst í orkuskiptum í samgöngum á landi og á sjó og í fiskiskipum. En þó útgerðin hafi dregið umtalsvert úr kaupum á olíu síðustu 20-30 árin standa fiskveiðar samt enn undir rúmlega 10% allrar árlegrar losunar. Áætlað hefur verið að rafvæðing alls bílaflotans þyrfti raforku sem samsvarar rúmlega Hrauneyjafossvirkjun, en orkugeta hennar er 1.300 GWh (210 MW). Ef fiskiskipaflotinn yrði “fræðilega” rafvæddur í einni hendingu þyrfti aðra eins virkjun.
Rafeldsneyti á fleygiferð
Á síðustu vikum og mánuðum hef ég fregnað af ekki færri en fjórum áformum sem öll snúa að því að þróa rafeldsneyti með framleiðslu þess í huga á skip eða farartæki. Með rafeldsneyti er átt við orkubera eins og vetni, metanól eða ammoníak.
- Alþjóðlegt fyrirtæki, H2V, hefur samið við HS Orku um aðstöðu undir metanólframleiðslu við Reykjanesvirkjun og 30MW afl úr jarðhitavirkjun.
- Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbon Recycling hefur hafið samstarf við Kísilver Elkem á Grundartanga um þróun á framleiðslu á metanóli. CO2 frá verksmiðjunni verður hráefni í vinnsluna. Ávinningurinn er því tvöfaldur í raun.
- Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam hafa undirritað samstarfssamning um þróun á vetnisframleiðslu og flutningsfyrirkomulagi þess til Hollands á markað á meginlandinu. Áætlað er að aflþörf til þessa geti numið 200-500 MW.
- Þá var í sumar undirrituð viljayfirlýsing um grænan orkugarð á Reyðarfirði þar sem þróa á leiðir til framleiðslu á rafeldsneyti með vetni. Fjarðarbyggð á beina aðild, en danskt nýsköpunarfyrirtæki (CIP) kemur að verkefninu ásamt Landsvirkjun. Áhersla er m.a. á orkuskipti í skipaflutningum.
Kröfur auknar á Ísland?
Í sjálfu sér þarf ekki hlutfallslega mikla aukningu í raforkuframleiðslu með vatnsafli, jarðhita eða jafnvel vindi til að ná fram orkuskiptum hér innanlands. Ég ætla hér að leyfa mér að spá því að innan fárra ára verði í loftslagssamvinnu á vettvangi S.þ. þrýst á ríki sem búa ríkulega yfir endurnýjanlegum orkugjöfum að þau leggi fram drjúgan skerf til orkuskiptanna á heimsvísu. Ísland og fleiri ríki við N-Atlantshafið verða þar á meðal, ekki síst vegna mikilla möguleika á beislun vindsins. Þar verði ekki síst horft til landgrunnsins, en tækni við fljótandi vindgarða fleygir fram. En ekki síður til jarðhitans og frekari nýtingu vatnsafls þar sem tæknin er þekkt og vel viðráðanleg.
En auðvitað koma upp hagsmunaárekstrar og ólík sjónarmið í umræðunni. Hvort vega þyngra rök umhverfis- og náttúruverndar sem beitt er gegn virkjunum og ekki síður vindmyllum eða þá aðgerðir í loftslagsmálum? Í Noregi hafa þegar orðið átök í nokkrum umhverfisverndarsamtökum vegna þessa, einkum út af vindorkunni. Norðmenn flytja mikla orku úr landi sem kemur á margan hátt í stað jarðefnaeldsneytis. Þeir eru líka stórir í olíunni eða það er önnur saga.
Og hvar standa stjórnmálin í þessum mikilvægu málum hér á landi? Þögnin er í raun allsráðandi, fæstir þora fyrir sig litla líf að minnast á orkumálin og alls ekki að setja þau í samhengi við aðgerðir í loftslagsmálum, nema á mjög almennum nótum. Stjórnmálaflokkarnir komast ekki hjá því á næstu mánuðum og árum að svara því hvar og hvernig eigi að afla orku til ávinnings fyrir loftslagið. Auðveldast er eins og hingað til að benda bara á Rammaáætlun sem er löngu strönduð uppi á skeri. Fáir leggja í að nefna vindorkuna sem kost af ótta við fyrirsjáanleg viðbrögð. En stjórnmálin þurfa framtíðarsýn og þor til að fylgja henni eftir. Alþjóðlegar skuldbindingar reka á eftir okkur eins og oftast, en gæti líka fært okkur efnahagslegan ávinning, rétt eins og binding koltvísýrings í bergi í stórum stíl, sem mögulega er handan við hornið.
Eða eins og Landvernd segir í harðorðri yfirlýsingu eftir birtingu vísindaskýrslunnar, að þá verður ekki liðinn lengur seinagangur, frestun og ábyrgðarleysi í loftslagsmálunum.
Höfundur er veðurfræðingur og ritstjóri Bliku.