Píratar komu inn í íslensk stjórnmál fyrir nokkrum árum og hafa markað sér sérstöðu. Þeirra meginregla er sú að ef það eru lög og reglur um ákveðið svið, þá skal fara eftir þeim. Annars að fella reglurnar niður. Þetta er á margan hátt traustvekjandi, en virkar stundum dálítið kassalaga.
Stefnu Pírata er lýst í nokkuð löngu máli sem er kostur og galli. Auðvitað er gott að gera góða grein fyrir stefnunni, en gallinn er ef textinn verður of langur til að nokkur vilji lesa hann. Á vefsíðunni er síðan hlekkur á ýtarlegri útfærslu stefnunnar, sem ætti að leyfa textanum í sjálfu stefnuskjalinu að vera styttri og hnitmiðaðri. Og líklegri til að vera lesinn. Þegar smellt er á hlekkinn kemur upp síða sem minnir á handbók gæðakerfis. Góð og traustvekjandi leið, en kassaformið er dálítið áberandi.
Listað er upp hvaða markmið Píratar setja í loftslagsmálum. Það er sett fram skýrt markmið um að dregið sé úr losun um 55% fyrir árið 2030 miðað við 2020 og að landið sé kolefnishlutlaust árið 2035. Hér er skýrt markmið. Það má efast um að það náist, en sé lagt af stað skilar það okkur allavega áleiðis. En það vantar leiðarlýsinguna. Að vísu er eitt markmiðið að gera skýra áætlun um það hvernig markmiðum verði náð. En að mínu mati ættu kjósendur að fá að vita hver leiðin verður.
Fjallað er um mikilvægi þess að tryggja samráð við almenning á öllum stigum stefnumótunar. Í því sambandi verður að gera kröfu um að stjórnmálaflokkar upplýsi hvernig þeir ætla að ná markmiðum. Í þessum kafla eru markmið um t.d. að auka mælingar á útstreymi gróðurhúsalofttegunda og að færa eftirlit frá fyrirtækjum með mengandi starfsemi frá fyrirtækjunum sjálfum til opinberra aðila. Þarna gætir e.t.v. misskilnings um mælingarnar. Í þessum efnum er lítið mælt, en útstreymið metið eftir öðrum leiðum, til dæmis þeim aðföngum sem notuð eru. Tilhneigingin hefur verið undanfarin ár að fela fyrirtækjum eftirlit með starfseminni, m.a. í gegnum vottuð gæða og umhverfisstjórnunarkerfi. Hvort rétt sé að fara til baka er spurning. En þarna kemur líka markmið um að auka fræðslu og umræðu um sjálfbærni og loftslagsmál. Sem er gott mál.
Píratar tala um að ábyrgð í umhverfismálum sé hjá fyrirtækjum en ekki einstaklingum. Það gleymist að mjög mikið af losun gróðurhúsalofttegunda kemur til vegna beinna ákvarðana einstaklinga, til dæmis akstur einkabíla. Fyrirtækin bera vissulega ábyrgð á sínu en við getum ekki fríað einstaklingana. Síðan er í þessu talað um að mennta almenning til að takast á við nýja framtíð. Þarna örlar ofurlítið á leið að marki, og er það vel. Einnig er rætt um að upplýsa um kolefnisspor neysluvara. Það er mikilvæg leið. Almenningur ber síðan ábyrgð á að velja það sem hefur lægst sporið. Nefnt er að kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti fari hækkandi og að tekjum af því verði varið til að auðvelda orkuskipti í samgöngum, það er mjög jákvætt.
Píratar vilja efla stjórnsýsluna þannig að hún ráði við loftslagsmálin. Meðal annars með því að koma á fót Loftslagssetri Íslands. Fljótt á litið myndi slík stofnun sinna að einhverju leyti því sem Umhverfisstofnun gerir í dag. Fyrir nokkrum árum var komin á rekspöl hugmynd um að skipta Umhverfisstofnun upp og stofna sérstaka Þjóðgarðastofnun sem myndi hafa með að gera rekstur á þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Umhverfisstofnun sæi þá um upplýsingasöfnun, leyfisveitingar og eftirlit. Og sem slík eitthvað í líkingu við Loftslagssetrið sem áður er nefnt. Þessi lausn væri einfaldari og myndi spara flækjustig.
Helsta ráð fyrir græna umbreytingu atvinnulífsins er að leggja skatta á mengandi starfsemi og nýta þær tekjur til að styrkja og þróa loftslagsvænar tæknilausnir. Einnig að miða tolla og gjöld á vörum við kolefnisspor. Þetta er vissulega virk verðstýring sem ætti að beina kaupum fólks að vistvænni vörum, en hinu má ekki gleyma, að þetta hækkar að líkindum vöruverð. En það er til fyrirmyndar að skilgreina hvernig tekjum skuli varið. Af sama meiði er að miða tolla við kolefnisspor. Snjallt, en spurning hvort það rími þá við önnur markmið.
Þegar kemur að náttúruvernd vilja Píratar sameina lög og reglur um þjóðgarða og friðlýst svæði í einn lagabálk og að málið heyri undir eina stofnun er mikil framför. Að náttúruvernd falli undir skipulag er góð hugmynd, en spurning hvort þarna sé of stirt kerfi til að geta brugðist við óvæntum aðstæðum. En að öðru leyti er kafli um náttúruvernd góður.
Tillögur Pírata um hringrásarhagkerfi eru virkilega athyglisverðar.
Samantekt
Pólitískt er stefnan vænleg. Kjósendum Pírata líkar væntanlega vel þessi skipulega uppsetta stefna. Margir þættir eru sameiginlegir með stefnu annarra flokka og ætti að nást samhljómur við aðra. Það ætti því að nást að koma einhverjum málum áfram.
Efnahagslega er lítið bent á leiðir. Talað er um gjöld á mengandi starfsemi og framleiðslu, sem síðan nýtast til úrbóta. Það er að mínu mati gott. Tollar og gjöld eftir kolefnisspori er líka athyglisverð hugmynd sem þarf að skoðast miðað við önnur markmið.
Samfélagslega eru ákaflega litlar pælingar. Það er alls ekki ljóst hvaða áhrif stefnan hefur á samfélagið. Þar kemur e.t.v. til þessi trú sem virðist ríkja hjá Pírötum að séu einstaklingarnir forritaðir á réttan hátt muni heildarkerfið virka.
Tæknilega eru ekki sjáanlegar miklar hindranir. Það er jákvætt að gert skuli ráð fyrir því að það þurfi fjármagn til að þróa nýjar tæknilausnir.
Almennt er stefnan góð en vantar talsvert upp á útfærslur.
Höfundur er meðlimur í grasrótarhópi Landverndar í loftslagsmálum.