Þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974 hvarf Geirfinnur Einarsson í Keflavík. Tvö vitni sáu hann síðast ganga út úr Hafnarbúðinni í Keflavík nokkru eftir klukkan tíu um kvöldið. Eiginkona hans vitnar um að hann hafi komið heim og skömmu síðar horfið frá heimili sínu. Með honum hvarf sannleikurinn og lygasagan um Geirfinnsmálið hófst.
Til að leita sannleika um það hvað varð um Geirfinn, þarf að byrja á byrjuninni. Skoða þarf hvarf Geirfinns eins og komið sé að því frá upphafi, þar sem ekkert er satt nema það sé sannreynt. Við upphaf rannsóknar er enginn saklaus og enginn sekur, allt þarf að rannsaka og allt er véfengt uns það er staðreynt. Algengustu mistök við rannsóknir eru að gefa sér hvað þurfi ekki að rannsaka og næst algengustu mistökin eru að gefa sér hvað rannsóknin muni leiða í ljós. Frá upphafi og til enda Geirfinnsmálsins féll lögreglan á báðum þessum prófum.
Grundvallaratriði leitar
Í upphafi leitar að horfinni manneskju liggur heimurinn allur undir. Upphafspunkturinn er þar sem síðast er talið að hinn horfni hafi verið og þaðan liggja leitarlínur í 360° og mætast hinum megin á hnettinum. Þetta er auðvitað allt of stórt leitarsvæði, svo til þess að ná árangri þarf að beita markvissum aðferðum til að þrengja leitina að líkindum. Mikilvægur þáttur í því er að finna það sem ekki er. Ef leitað er ummerkja og leitin er vandleg og finnur ekki ummerki, þá er það mikilvæg niðurstaða, sem strax þrengir leitarsvæðið sem eftir er. Þetta er gjörólíkt því að finna ekki neitt, sem er afleiðing þess að leita ekki eða illa.
Ef hinn horfni eða vísbendingar um hann finnast ekki, þá fer leitin víðar og þá fara jafnvel að vakna grunsemdir sem beinast að einhverjum tilteknum sem gætu átt sök að hvarfi hans. Það að leita á heimili horfinnar manneskju, barns eða fullorðins, og að kanna hagi fjölskyldumeðlima, er skiljanlega viðkvæmt mál. En þess þarf samt. Reynslan sýnir að þegar líður á árangurslausa leit, þá beinist oft grunur að þeim sem næstir stóðu hinum horfna, fjölskyldu og vinum. Slíkur grunur kemur ekki endilega fyrst og fremst frá lögreglu, heldur frá utanaðkomandi fólki. Þá geta aðstandendur þakkað fyrir að góð lögreglurannsókn hafi leitt í ljós að ekkert benti til sektar þeirra.
Algengstu ástæður í morðsögum, bæði sönnum og skálduðum, eru ást eða auður og þeim fylgja afbrýðissemi eða völd. Frakkar segja Cherchez la femme (leitið konunnar), en Ameríkanar segja Follow the money (fylgið peningunum). Keflavíkurlögreglan var á amerísku línunni og leitaði ávinnings af glæpastarfsemi, en skildi líklega lítið í frönsku og sleppti því alveg konunni.
Höfuðpaurar Keflavíkurlögreglunnar við rannsóknina á hvarfi Geirfinns, þeir Valtýr Sigurðsson fógetafulltrúi og Haukur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður, hafa margsinnis haldið því fram að engin rannsókn á mannshvarfi hafi verið jafn víðtæk og leit þeirra að Geirfinni. Víðtæk var hún, en vönduð var hún ekki. Sumt sem átti að rannsaka var ekki rannsakað, sumt sem var rannsakað var ekki skráð, sumt sem var skráð var ekki haft rétt eftir, niðurstöður voru ekki dregnar af þeim víðtækum rannsóknum sem þó fóru fram.
Fólkið
Geirfinnur Einarsson var fæddur og uppalinn í Vopnafirði og flutti 17 ára suður til Keflavíkur, þar sem hann síðar kynntist eiginkonu sinni Guðnýju Sigurðardóttur. Þau bjuggu síðast að Brekkubraut 15 í Keflavík, en þar höfðu þau keypt sér sína fyrstu íbúð á neðri hæð í tvíbýlishúsi. Hann vann á vinnuvélum og hafði í nokkur ár unnið við virkjanaframkvæmdir á hálendinu, fyrst við Búrfell og síðan í Sigöldu. Nú vann hann hjá Ellert Skúlasyni verktaka í grjótnámu nærri Sandgerði við að moka stórgrýti upp á vörubíla sem sturtuðu því í nýjan hafnargarð fyrir Sandgerðishöfn.
Guðný, kona Geirfinns, hafði alltaf átt heima í Njarðvík eða Keflavík og þar bjuggu móðir hennar og stjúpi og hluti systkina hennar. Þau Geirfinnur og Guðný hófu að draga sig saman þar sem þau unnu bæði í frystihúsi, hún þá 14 ára og hann 20. Þau eignuðust dreng þegar Guðný var 15 ára og hún gekk inn í hlutverk móður og húsmóður og hann vann fyrir fjölskyldu sinni. Þau giftu sig daginn eftir að hún varð 16 ára og eignuðust dóttur fimm árum síðar. Þegar Geirfinnur hvarf, var sonur þeirra 10 ára síðan í ágúst og dóttirin varð 5 ára í janúar á eftir.
Yngri bróðir Geirfinns kom síðar suður til hans og unnu þeir um tíma saman og bjuggu á verbúð. Þegar hér er komið sögu hafði bróðirinn stofnað til fjölskyldu og bjó í Hafnarfirði. Aðra fjölskyldumeðlimi átti Geirfinnur ekki á Suðvesturhorninu, en ættingja á Norðausturlandi.
Þriðjudagur
Á þriðjudagsmorgun fór Geirfinnur til vinnu sinnar í grjótnámunni við Sandgerði, en hann og Þórður vinnufélagi hans unnu báðir við ámokstur og skiptust á yfir daginn, annar byrjaði fyrst á morgnana og hinn lauk síðasta ámokstrinum. Geirfinnur byrjaði fyrr þennan dag og var búinn fyrr, eða um klukkan þrjú. Frá þessu hafa vinnufélagar hans sagt. Ekki er vitað hvernig Geirfinnur fór heim frá vinnu þann dag eða hvenær hann kom heim til sín, en vitað er að hann var ekki á eigin bíl.
Næst er kona hans ein til frásagnar um að hún hafi komið heim um klukkan sex og taldi að Geirfinnur hafi þá verið nýkominn heim. Ekki kemur fram af hverju hún taldi svo vera. Hún segist hafa eldað kvöldmat og vaskað upp á eftir, en síðan hafi hún farið til vinkonu sinnar um klukkan átta. Hún sagðist næst hafa komið heim aftur skömmu fyrir klukkan tíu og Geirfinnur þá verið að tygja sig til brottfarar með Þórði vinnufélaga sínum. Hún segist hafa beðið hann um að kaupa fyrir sig sígarettupakka í leiðinni.
Því næst er frásögn vinnufélagans, Þórðar, sem segist hafa komið í heimsókn til Geirfinns rétt fyrir klukkan níu um kvöldið og spurt hann hvort hann væri ekki til í að skreppa með sér í bíó, en Geirfinnur mælst undan því. Þeir hafi síðan setið saman að spjalli þar til klukkan að verða tíu, en þá hafi Þórður búið sig til heimferðar og Geirfinnur falast eftir að fá far með honum áleiðis að Hafnarbúðinni, þar sem Þórður hafi sett hann út á Vatnsnesvegi um klukkan tíu.
Loks er frásögn eiginkonunnar um að Geirfinnur hafi komið heim og fengið símtal rétt á eftir, sem varð til þess að hann fór út aftur og að því sinni á bíl þeirra. Segir hún að sonur þeirra hafi svarað símanum og kallað í pabba sinn að það væri síminn til hans. Einnig segist hún hafa heyrt hann segja eitthvað á þá leið að hann væri búinn að koma og að hann kæmi þá aftur.
Skýrslutökur í skralli
Mikilvægasta skýrslan um fyrstu atvik rannsóknarinnar á hvarfi Geirfinns eru í ódagsettri samantektarskýrslu sem undirrituð er af Hauki Guðmundssyni rannsóknarlögreglumanni. Miðað við það hvað er rakið í henni og hvað ekki, virðist hún byggð á minnispunktum sem hafi verið skráðir á misjöfnum tíma, en verið lokið sennilega á mánudag eða þriðjudag eftir að Geirfinnur hvarf.
Samantektarskýrslan hefst á því að segja að á fimmtudagsmorgninum 21. nóvember hafi Ellert Skúlason, vinnuveitandi Geirfinns, hringt í Hauk og tilkynnt að Geirfinnur væri horfinn og þar með hafi lögreglurannsóknin hafist. Samt segir í næstu setningu að „þá lá fyrir skýrsla af Þórði“ vinnufélaga hans, sjá skýrslu nr. 1, og síðan er rakið það sem fram kemur í fyrri huta skýrslunnar af honum, um það sem þeim Geirfinni fór á milli á þriðjudagskvöldinu.
Vitað er að strax á miðvikudeginum var byrjað að grennslast fyrir um hvað orðið hefði af Geirfinni og búið að hringja á lögreglustöðina til að gá hvort lögreglan hefði einhverjar upplýsingar um hann. Um kvöldið hafði Ellert, sem var í björgunarsveitinni Stakki, farið ásamt formanni sveitarinnar og þeir fundið bíl Geirfinns og fengið sporhund til að rekja slóðir frá honum. Um þetta var lögreglunni kunnugt og hafði þá talað við eiginkonu Geirfinns það sama kvöld. Það er því nokkuð skrýtið að lögreglan skuli síðar halda því fram að þeir hafi ekkert vitað um hvarf Geirfinns fyrr en á fimmtudagsmorgninum.
Engin skýrsla var tekin af tilkynnandanum, en lögreglan hefur greinilega haft snör handtök því strax kl 09:30 var lesin tilkynning í útvarpinu þar sem lögreglan í Keflavík lýsti eftir Geirfinni með lýsingu á klæðnaði hans og var sú tilkynning endurtekin í hádeginu. Næsta verk lögreglunnar var að Haukur fór við annan mann í grjótnámuna til að tala við vinnufélaga Geirfinns, en engin skýrsla er til um það við hverja var talað þar og ekkert haft eftir þeim.
Skýrslan af Þórði er dagsett föstudag 21. nóvember, en á föstudegi var kominn 22. nóvember. Reyndar er á reiki hvenær og hvernig sú skýrsla varð til, en hún er undirrituð bæði af Þórði og af Hauki. Í samantektarskýrslunni rekur Haukur frásögn Þórðar af samskiptum hans og Geirfinns á þriðjudagskvöldinu og er sú frásögn í samræmi við það sem fram kemur í skýrslunni. Í seinni hluta skýrslunnar af Þórði er búið að bæta því við að Þórður er spurður um för þeirra félaga við þriðja mann þar sem þeir fóru að skemmta sér í Klúbbnum á sunnudagskvöldinu næst á undan. Er þar mikið spurt um það hverja Geirfinnur gæti hafa hitt þar og hvort þar hafi eitthvað grunsamlegt skeð, en svo var ekki. Ekki er minnst á það í samantektinni hvað Þóður sagði um Klúbbferðina, svo líklega var búturinn um skýrslu Þórðar saminn áður en síðari hluti efnis hennar varð til. Fyrri hlutinn gæti hafa komið fram í námuferð lögreglunnar á fimmtudagsmorgninum eða í samtali við Þórð á miðvikudagskvöldi, en lögreglan vissi ekkert um ferðina í Klúbbinn fyrr en eiginkonan sagði frá henni eftir hádegi á fimmtudag. Líklega var skýrslan af Þórði kláruð á föstudag.
Engin bein skýrsla er til af eiginkonunni um atburði þriðjudagsins. Frásögn hennar um atburði þess dags er eingöngu rakin í áðurnefndri samantektarskýrslu, þar sem Haukur segir frá því hvað hún hafi sagt honum þegar hann fór heim til hennar klukkan 14 á fimmtudeginum. Þegar þeir Valtýr og Haukur taka síðan einu lögregluskýrsluna sem til er af henni, viku seinna, þá er hún ekkert spurð út í atburði dagsins sem Geirfinnur hvarf. Þegar Njörður Snæhólm, þá aðalvarðstjóri rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík, kallar eiginkonuna í apríl 1976 til að staðfesta skýrsluna sem var óundirrituð, þá spurði hann hana um nokkur atriði í viðbót, samt ekkert um atburði dagsins sem Geirfinnur hvarf. Hann taldi hins vegar upp alla þá sem lögreglan hafði í varðhaldi grunaða um að hafa banað Geirfinni eða jafnvel Guðmundi og hún þekkti engan þeirra.
Í fyrstu frásögnum eiginkonunnar er ekkert minnst á það hvar börn þeirra voru þetta kvöld, fyrr en hún segir að sonur þeirra hafi svarað í símann þegar hringt var í pabba hans um kvöldið og líka að hann hafi spurt pabba sinn hvort hann mætti fara með honum þegar hann fór út með Þórði. Hvergi í rannsókninni, hvorki fyrr né síðar, kemur fram hvenær drengurinn fékk að vita að faðir hans væri horfinn eða hvað það eiginlega þýddi að faðir hans væri horfinn.
Þessi tímasetning skiptir máli, af því í huga barns sem er rétt orðið 10 ára, eru tímasetningar ekki alveg á hreinu. Þannig er ekki hægt að slá því föstu að símhringing sem drengurinn svaraði hafi átt sér stað á þriðjudagskvöldinu en ekki t.d. kvöldið áður. Drengurinn er aðeins spurður um þetta símtal, ekki um það hvar hann hafi verið fyrr um kvöldið eða hvað pabbi hans hafi gert eftir símtalið. Hann er aldrei spurður um hvað hann hafi yfir höfuð séð og heyrt á heimilinu annað en þetta símtal. Hann er þráspurður um símtalið, fyrst í Keflavíkurrannsókninni og svo ítrekað í Reykjavíkurrannsókninni og loks fyrir sakadómi, og endurtekur sömu stuttu söguna um karlmann sem hafði ráma rödd. Það kemur oftar en einu sinni fram, að þegar drengurinn var spurður af lögreglu þá var hann lasinn og rúmliggjandi. Hins vegar kemur ekkert fram um að neinum hafi dottið í hug að vanlíðan barnsins stafaði af öðru en líkamlegum kvillum.
Aldrei var tekin skýrsla af nágrönnum Geirfinns, sem bjuggu á efri hæðinni í tvíbýlishúsi þeirra. Þar bjuggu hjón með nokkur börn frá 11 ára og uppfyrir tvítugt. Það á auðvitað að vera skylduverkefni við rannsókn á mannshvarfi að spyrja næstu nágranna hvers þeir hafi orðið varir. Það á alveg við þótt enginn grunur sé um að hvarfið stafi af saknæmu athæfi, hvað þá þegar lögreglan hafði sterkan grun um slíkt. Í samantektarskýrslunni er haft eftir eiginkonunni að eftir kvöldmatinn hafi Geirfinnur komið fram í eldhús og spurt hana af hverju hún væri að öskra eins og einhver væri að drepa hana, en hún kannaðist ekki við neitt öskur. Þetta þótti nógu áhugavert til að skrá það niður, en ekki til að spyrja nágrannana hvort þeir hafi heyrt eitthvert öskur og þá hvenær. Það er vissulega til ein skýrsla þar sem Haukur segist hafa haft tal af frúnni á efri hæðinni og hún borið nágrönnum sínum í neðri hæðinni góða sögu. Þar er hún ekki spurð um neitt sem gerst hafi á neðri hæðinni eða mannaferðir þangað fyrr eða síðar. Reyndar er full ástæða til að ætla að þessi skýrsla hafi aldrei verið tekin, bara skrifuð.
Engar vettvangsrannsóknir
Í allri rannsókn lögreglunnar í Keflavík eru engar ljósmyndir og ekki eitt fingrafar.
Í Keflavíkurrannsókninni er gengið út frá því að Geirfinnur hafi horfið frá þeim stað sem bíll hans fannst á, fyrir utan Járn og skip, verslun kaupfélagsins, um 100 metra frá Hafnarbúðinni. Leit sporhunds frá bílnum, var að frumkvæði björgunarsveitarinnar, áður en lögreglan var farin að rannsaka málið sem líklegt sakamál. Ekki er vitað til að nein önnur vettvangsrannsókn hafi farið fram í nágrenni þess staðar. Þar stóð bíllinn þangað til lögreglan sótti hann klukkan 18:10 á fimmtudag og fór með hann inn á slökkvistöðina til rannsóknar.
Skýrslan um rannsóknina á bílnum er stutt og allsendis ófullnægjandi. Þar segir að reynt hafi verið að taka fingraför af bílnum að utan og innan án árangurs. Ekki kemur fram af hverju það var árangurslaust, hvort það var af því bíllinn hafði verið þrifinn svo vel eða af því lögreglumennirnir kunnu ekki að taka fingraför. Síðan segir bara að ekkert hafi fundist í bílnum sem bent geti til þess hvað varð um manninn. Ekki er getið um neitt sem fundist hafi í bílnum, en listi yfir allt slíkt er hluti þeirra gagna sem síðar gætu rennt stoðum undir eða undan því hvort þar hafi verið neitt það sem máli skiptir. Þess má geta að löngu síðar fabúleraði Kristján Pétursson tollvörður um eitthvað sem fundist hafi í bílnum.
Ekki er getið um km stöðu bílsins eða magn eldsneytis á honum. Ekki kemur fram hvort bíllinn hafi verið læstur eða ólæstur og hvort lyklarnir hafi verið í honum. Heimildir eru fyrir því að hann hafi verið ólæstur og lyklarnir í svissinum allan tímann. Ekki er heldur ótvírætt af öðrum gögnum hvar bíllinn stóð og hvort hann var færður eitthvað til áður en lögreglan sótti hann. Engin ljósmynd er til af bílnum sem sýnir hvar hann stóð nákvæmlega. Misræmi er milli blaðaljósmynda þar sem öðrum bíl er stillt upp til að sýna hvar bíllinn fannst og lýsingar sjónarvotta af því hvar þeir sáu bílinn. Þá kemur heldur ekki fram hvernig bíllinn var fluttur á slökkvistöðina, en líklega var honum bara ekið þangað. Svo er sagt í skýrslunni að eftir skoðunina á bílnum hafi hann verið fluttur á lögreglustöðina, en ekkert er til um af hverju hann fór þangað eða hversu lengi hann var þar. Á lögreglustöðinni var ekki aðstaða til að geyma bílinn innanhúss.
Við nánari skoðun á þessu atriði er alls ekki víst að „kvöld þetta“ hafi verið þriðjudagskvöldið sem Geirfinnur hvarf, heldur bendir ýmislegt til þess að það gæti hafa verið á miðvikudagskvöldið, en þá stóð bíllinn svo sannarlega þarna, því það er kvöldið sem leitað var með sporhundi út frá bílnum. Enn og aftur kemur ekki fram hvenær Haukur talaði við mennina og hvort þeim var þá ljóst að Geirfinnur hafi horfið á þriðjudagskvöldinu, en almenn vitneskja um að hann væri horfinn varð ekki fyrr en á fimmtudag eftir að lýst var eftir honum. Því er eðlilegt að margir hafi talið hann hafa horfið kvöldið áður, á miðvikudagskvöld, enda var Geirfinnur ekkert horfinn á þriðjudag, þá var hann í vinnu og í samskiptum við fjölda fólks.
Engin vettvangsrannsókn fór fram í Hafnarbúðinni og auðvitað engin fingrafaraleit þar. Til er grunnmynd af Hafnarbúðinni þar sem inn eru færð borð sem gestir sátu við, afgreiðsluborð, búðarkassinn og hvar síminn var. Einnig eru til ljósmyndir úr Hafnarbúðinni sem sýna m.a. þennan síma, en til að komast að honum þurfti að ganga innarlega í búðina og að vegg við dyr þar. Inn á teikninguna eru færð númer og skráð við þau hver hafi gengið, staðið eða setið hvar.
Engin vettvangsrannsókn fór fram á heimili Geirfinns. Þar er líka til grunnmynd af íbúðinni og inn á hana er fært hvar síminn stóð þegar Geirfinnur talaði við hinn dularfulla símhringjanda og hvar kona hans stóð þegar hún heyrði hann tala í símann. Lögreglan rannsakaði ekkert á heimilinu, en fól eiginkonunni að finna til þau skjöl og gögn sem þeir óskuðu eftir. Áður en Valtýr fór með skjalasafnið í ferðatösku til ríkissaksóknara í byrjun janúar 1976, fékk eiginkonan að fara í gegnum hrúguna og vinsa úr persónuleg skjöl.
Engin fingraför eru til af Geirfinni, en hægt hefði átt að vera að ná þeim af heimili hans. Fingraför hins horfna hefðu getað komið sér vel ef svo hefði farið að fundist hefði einhver vettvangur sem ástæða hefði þótt til að vita hvort hinn horfni hefði komið á. Eins gætu þau nýst ef síðar hefði þurft að bera kennsl á lík.
Liður 3. Hjúskaparbrot
Í samantektarskýrslunni segir Haukur frá því að hann hafi haft tal af eiginkonunni klukkan 14 á fimmtudag og einnig að hann sé búinn að tala við afgreiðslukonuna í Hafnarbúðinni og unglingsstúlku sem þar var stödd. Eftir afgreiðslukonunni og unglingsstúlkunni hefur hann upplýsingar um komu Geirfinns í Hafnarbúðina og um komu ókunnugs manns sem kom inn rétt eftir að Geirfinnur fór og fékk að hringja. Hefur hann eftir þeim lýsingu á útliti og klæðnaði símhringjandans, afgreiðslukonan var með ítarlegari lýsingu en stúlkan, en stúlkan sagðist loks taka undir lýsingu afgreiðslukonunnar.
Hefur hann síðan eftir eiginkonunni ýmislegt um samskipti þeirra hjóna og um það að Geirfinnur hafi farið ásamt tveimur vinum sínum í Klúbbinn á næst liðnu sunnudagskvöldi, eftir að hafa farið með þeim í bíó í Keflavík fyrr um kvöldið. Hann hefur hins vegar ekkert eftir eiginkonunni um það hvað hún gerði þetta sama sunnudagskvöld. Hann hefur heldur ekki eftir henni að hún sagði honum þá frá því að hún ætti í virku ástarsambandi við annan mann framhjá sínum horfna eiginmanni. Má ætla að elskhuginn og eiginmaðurinn hafi mæst á Reykjanesbrautinni þetta kvöld.
Að kvöldi mánudags 25. nóvember, kl 23:00, tekur Valtýr skýrslu af Svanberg þeim sem átti í ástarsambandi við eiginkonu Geirfinns. Svanberg mætti á lögreglustöðina og skýrslan af honum er vélrituð á ritvél Hauks, svo líklega er hún tekin inni á skrifstofu Hauks. Sjálfur hélt Svanberg að hann hefði verið að tala við Hauk, en hann þekkti hvorugan mannanna í útliti á þessum tíma. Haukur hefur staðfastlega sagt að hann hafi aldrei talað við eða séð þennan Svanberg. Margoft er búið að tala við Hauk um þetta mál á þeim árum sem síðan eru liðin. Þar hefur hann m.a. verið spurður af hverju hann hafi ekki talað við Svanberg og þá svarað því til að hann hafi ekki þurft þess af því Valtýr hafi verið búinn að segja honum að Njörður Snæhólm væri búinn að gera það í Reykjavík. Það má vel vera rétt þótt engin skjöl séu til um það. En hitt er skjalfest að Valtýr tók skýrslu af Svanberg og að Haukur kom þar hvergi nærri.
Í skýrslunni er farið fimlega í kringum það að segja berum orðum hvert samband Svanbergs og eiginkonunnar hafi verið. Með góðum vilja má skilja hvort heldur er að þau hafi bara átt sameiginlega vini eða að þau hafi verið í nánara sambandi en svo. Í skýrslunni er sagt svo frá að hann hafi komið til Keflavíkur á sunnudagskvöldinu til að hitta nafngreinda vinkonu sína og að þangað hafi eiginkona Geirfinns komið og þau setið að sumbli fram eftir nóttu. Eiginkonan hafi skotist heim til að taka á móti eiginmanni sínum um klukkan 2 og komið svo aftur til vinkonunnar og ekki farið þaðan fyrr en langt var liðið að morgni. Þá hafi Svanberg lagt sig á eldhúsbekk og sofið þar til morguns klukkan 10, verið síðan eitthvað að þvælast um í Keflavík og farið aftur til vinkonunnar um kvöldið. Þangað hafi eiginkonan komið og verið það kvöld og farið síðan heim til sín. Þá segist hann hafa ætlað heim til Reykjavíkur en verið orðinn of bensínlítill og misst af opnun bensínstöðva og endað á því að fá að gista heima hjá frænda sínum í Keflavík og farið þaðan á þriðjudagsmorgun í tíma í háskólanum og ekki komið til Keflavíkur aftur og alls ekki verið þar á þriðjudagskvöld. Engin skýrsla er til um það hvort og þá hvernig eða hver hafi leitað staðfestingar á fjarvistarsönnun viðhalds eiginkonunnar kvöldið sem eiginmaður hennar hvarf. Bæði Valtýr og Haukur hafa svarað síðari spurningum þar um að þeir hafi vitað það af því bara.
Næst var tekin skýrsla af Svanberg í Reykjavík síðla árs 1976 og þá sagði hann frá því berum orðum að hann hefði átt í ástarsambandi við eiginkonu Geirfinns og að það hefði staðið frá því um mitt sumar. Þá sagði hann líka frá því að þegar hann kom til Keflavíkur á leið í skýrslutökuna hjá lögreglu, hafi hann fyrst hitt vinkonuna á sjoppu og þau rætt saman þar áður en hann fór á lögreglustöðina og að síðan hafi þau talað saman líka á eftir.
Það er ekki fyrr en á fimmtudag 28. nóvember sem tekin er formleg skýrsla af eiginkonu hins horfna manns, 9 dögum eftir hvarf hans. Þá fara þeir Valtýr og Haukur heim til hennar með segulbandstæki og hljóðrita skýrslutöku af henni. Sú skýrsla er síðan vélrituð upp, en ekki er vitað hvenær það var gert eða hver samdi hana. Sú skýrsla er ekki orðrétt uppskrift af því sem fram fór, heldur er búið að endursegja hana og hún fram sett í 12 tölusettum liðum.
Þriðji liðurinn ber yfirskriftina Hjúskaparbrot. Þar segir eiginkonan frá því að hún hafi átt í ástarsambandi við Svanberg frá því þau hittust fyrst í Garðabæ hjá vinkonu hennar, sem var frænka Svanbergs, um mitt sumar sama ár. Hafi þau hittst oft, ýmist heima hjá honum í Reykjavík, eða frænku hans, eða heima hjá eiginkonunni að Geirfinni fjarverandi eða heima hjá bestu vinkonunni í Keflavík. Einnig segir hún frá öðrum tilvikum undir þessum lið um hjúskaparbrot. Flestir hinir liðir skýrslunnar eru um hvernig þau kynntust, um samskipti þeirra, fjármál þeirra, vini og kunningja, heilsufar og hegðun Geirfinns og loks er 12. liðurinn Kynferðislegar tilhneigingar og kynferðissamband þeirra hjóna. Þarna er í fyrsta sinn ýjað að því að eitthvað gætu kynhneigingar Geirfinns verið afsökun fyrir framhjáhaldi konu hans eða jafnvel hafa leitt hann á þá glapstigu sem ullu hvarfi hans. Ekkert kom fram fyrr eða síðar sem renndi stoðum undir slíkar vangaveltur, en þetta áhugamál Kidda P og fleiri varð samt lífseigt. Það finnst m.a. í endurminningum Kidda P, sem eru reyndar alveg mögnuð samsuða af allskonar dylgjum, en það er önnur saga.
Það verður að teljast mjög skrýtin ráðstöfun að taka ekki fyrr formlega skýrslu af eiginkonu hins horfna manns. Skýrslurnar sjálfar eru jafnvel enn undarlegari. Þá er það vítavert að rannsaka ekki hvort framhjáhald eiginkonu horfins manns hafi átt einhvern þátt í hvarfi hans og að rannsaka ekki þátt viðhalds hennar, ekki síst þar sem aldrei kom fram nein skynsamleg skýring á því af hverju maðurinn hvarf. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera að trúa eigin tröllasögum um stórhættulega glæpamenn, svo hægt sé að yfirsjást nærtækari skýringar.
Með þessu er ég alls ekki að saka eiginkonu Geirfinns eða ástmann hennar um að bera nokkra sök á því að Geirfinnur hvarf. Það bara átti að rannsaka þennan þátt af mikilli alvöru. Það er engin heiðarleg skýring á því af hverju það var ekki gert.
Vitni í málum eru ekki öll í sömu stöðu hvað varðar áreiðanleika og það hefur ekkert með heiðarleika þeirra að gera. Í því efni skiptir máli hvort fleiri en einn bera óháðir um það sama og hvort vitni eru tengd eða ótengd málsaðilum. Þess vegna er það sem að í lögum eru tengdir aðilar undanþegnir vitnaskyldu og að í góðu verklagi á að taka vitnisburði þeirra með fyrirvara og sannreyna þá.
Síðbúnar vitnaskýrslur
Eftir að lögreglan hefur ákveðið á föstudag að símhringjandinn úr Hafnarbúðinni sé lykillinn að lausninni er ráðist strax í það að vinna gleggri lýsingu á þessum manni. Um helgina er afgreiðslukonan send til Reykjavíkur til að vinna með lögreglu að því að raða saman borðum til að búa til andlitsmynd, tveir teiknarar eru fengnir til að rissa upp myndir eftir lýsingu kvennanna og einnig ljósmyndum sem lögreglan lét þá hafa. Annar teiknaranna hófst handa við að móta höfuð hins grunaða í leir, þar sem líklegt væri að vitnin ættu auðveldar með að átta sig á útliti manns í þrívídd en tvívídd. Afgreiðslukonan og unglingsstúlkan voru látnar skoða þúsundir mynda, passamyndir af karlmönnum yngri en 35 ára sem áttu vegabréf eða ökuskírteini og ýmsar ljósmyndir af völdum einstaklingum. Leirhöfuðið var sýnt í sjónvarpi á þriðjudagskvöld 26. nóvember og í öllum blöðum daginn eftir og þá fyrst var birt lýsing á útliti og klæðnaði þessa símhringjanda, sem eftir þetta var kallaður Leirfinnur. Af þessu er ljóst að lögreglan lagði mjög mikla áherslu á að finna þennan tiltekna mann, strax í upphafi rannsóknarinnar og það án þess hún hefði neitt fyrir sér í því að hann hefði hringt í Geirfinn.
Það er samt ekki fyrr en á föstudag 29. nóvember sem þeir Valtýr og Haukur heimsækja fyrst afgreiðslukonuna og síðan unglingsstúlkuna, með segulbandið, til að taka fyrstu formlegu skýrslurnar af þeim. Eins og fyrri daginn, eru skýrslurnar síðan vélritaðar eftir endursögn en ekki beint af upprunalegu upptökunum. Hvorugt vitnanna undirritar skýrslurnar og eins og eiginkonan höfðu þær aldrei lesið hvað eftir þeim var haft að skýrslutökunni lokinni. Samt endar skýrslan af stúlkunni á orðunum Upplesið og staðfest rétt. Þá var ekki búið að skrifa neitt til að lesa upp, heldur aðeins að hjóðrita og aldrei að staðfesta.
Vinnubrögðin við þessar skýrslutökur eru alveg stórundarleg. Fyrir það fyrsta að taka ekki strax formlegar skýrslur af lykilvitnum sem bæði eru þær sem síðast er vitað að sáu Geirfinn og þær einu sem sáu manninn sem lögreglan lýsti eftir. Síðan það að taka skýrslur upp á segulband og láta það ekki koma fram í skriflegu útgáfunni að þar sé búið að umorða allt sem fram kom í vitnisburði þeirra. Skýrslurnar eru líka allar settar þannig upp að það er ekki einu sinni gert ráð fyrir að vitnin undirriti. Þær hefjast á því að „Við undirritaðir“ hafi farið á fund vitnanna, þetta eru í raun þeirra skýrslur af framburði vitnanna en ekki skýrslur vitnanna með vitnisburði sínum.
Sveigt framjá sumum
Í Keflavíkurrannsókninni var aldrei tekin skýrsla af, eða svo mikið sem minnst á að talað hafi verið við, bestu vinkonu eiginkonu Geirfinns. Þær voru nánast samlokur á þessum tíma. Vinkonan var barnsmóðir bróður eiginkonunnar og hún skildi fljótt við hann og flutti inn til Geirfinns og konu hans með barnið lítið. Á þessum tíma bjuggu þær ekki lengur saman en samgangur þeirra í milli var mjög mikill, þær voru heimagangar hvor hjá annarri, pössuðu börn hvor annarar og voru trúnaðarvinkonur. Þessi vinkona vissi um samband Svanbergs við eiginkonuna og skaut oft skjólshúsi yfir ástarfundi þeirra eða hafði milligöngu um boð milli þeirra. Ef einhver vissi allt um hagi eiginkonu Geirfinns og þar með nær allt um hans hagi líka, þá var það þessi vinkona. Samt tók Keflavíkurlögreglan aldrei skýrslu af henni, þótt langt væri seilst í að hafa tal af ýmsum sem stóðu þeim fjær.
Það var heldur aldrei tekin nein skýrsla af neinum í fjölskyldu eiginkonunnar, sem bjó þó nærri þeim, ekki bóður hennar sem var jafnframt vinur Geirfinns, ekki móður hennar sem stundum passaði börn hennar. Það var tekinn svo stór sveigur framhjá þeim sem næstir stóðu fjölskyldu og heimili Geirfinns og á svo mikilli fart að skrensförin sjást langar leiðir.
Klúbbglæponar Kidda P
Eins og ég hef rakið ítarlega í fyrri grein í Kjarnanum, þá voru Magnús Leópoldsson framkvæmdastjóri veitingastaðarins Klúbbsins og Sigurbjörn Eiríksson eigandi Klúbbsins grunaðir af Kristjáni Péturssyni, sem kallaður var Kiddi P, um að stunda smygl og annað misferli með áfengi. Kiddi P var hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli og tók sitt hlutverk mjög alvarlega í stóru sem smáu. Vitnisburðir eru um það að þegar spírabrúsa rak á land á Vatnsleysuströnd helgina fyrir hvarf Geirfinns hafi heldur betur hitnað í þeim grunsemdum og þeir óvinir númer eitt þegar verið bendlaðir við smyglið. Það sem verra er, þá tókst einhvern veginn að flækja hvarf Geirfinns inn í þetta smyglsamsæri og afvegaleiða rannsóknina á hvarfi hans inn í þráhyggju um að þar stæðu smyglarar að baki.
Vitnisburðir eru einnig um það að Haukur hafi borið myndir af Magnúsi Leópoldssyni undir afgreiðslukonuna í Hafnarbúðinni strax í upphafi og sent myndir af honum til bæði teiknara og leirmótara. Afgreiðslukonan hafnaði staðfastlega að bendla Magnús við Leirfinn.
Tvær Leirfinnsrannsóknir fóru fram, eftir mikla baráttu Magnúsar Leópoldssonar við að fá upplýst hvort og af hverju hann hafi verið bendlaður við Leirfinn frá upphafi og síðar verið handtekinn og setið lengi í einangrun grunaður af rannsóknarlögreglunni í Reykjavík um aðild að morði á Geirfinni. Í fyrri rannsókninni var lögreglunni falið að rannsaka lögregluna og fann ekkert misjafnt þar. Í síðari rannsókninni var Lára V. Júlíusdóttir settur saksóknari og stýrði ítarlegri rannsókn á árunum 2001 til 2003. Það tók Magnús nokkur ár að þrýsta þeirri rannsókn í gegnum stjórnkerfið í andstöðu við dómskerfið.
Ríkey og Valtýr þekktust frá uppvaxtarárum sínum á Siglufirði, þar sem bræður hennar voru í vinahópi Valtýs. Í fyrri leirfinnsrannsókninni sagði Ríkey frá því að lögreglan hefði látið hana hafa ljósmyndir af Magnúsi Leópoldssyni, en í rannsókninni hjá Láru kannaðist hún ekkert við þetta og endurtók það sem Valtýr sagði í Mogganum að hún hefði sagt honum þremur árum áður. Þetta þótti Láru undarlegt en lét þar við sitja og tók skýrsluna hjá sér framyfir þá fyrri og komst að þeirri niðurstöðu að það væru engar sannanir fyrir því að myndir af Magnúsi hafi verið hafðað til hliðsjónar við mótun Leirfinns.
Valtýr var afar snúinn þegar hann var kallaður fyrir í rannsókn Láru og fann þessari rannsókn allt til foráttu. Krafðist hann þess að fá réttarstöðu grunaðs manns í rannsókninni og þar með rétt til að þurfa ekki að tjá sig um sakarefni. Honum var hins vegar svo mikið í mun að komast að því hvað Lára væri eiginlega að gera að hann féllst á að koma í skýrslutöku hjá henni. Sem maður með réttarstöðu grunaðra hefur hann líka væntanlega fengið skýrslu Láru á lokastigi til að geta gætt andmælaréttar síns við það sem þar kom fram. Allavega trommaði hann upp í fjölmiðlum daginn fyrir afhendingu skýrslunnar og gaf þeim sína útgáfu af því hvað í þessari löngu skýrslu væri að finna bitastætt. Stutta útgáfan hans var að þar kæmi fram að lögreglan í Keflavík væri alsaklaus af því að hafa nokkurntíma dregið Magnús Leópoldsson inn í að vera grunaður um saknæmt athæfi vegna hvarfs Geirfinns. Þessu gat enginn andæft þá, því skýrslan var ekki orðin opinber.
Falsaðar lögregluskýrslur
Við rannsókn á skýrslum lögreglunnar í Keflavík sést að þær eru skrifaðar á mismunandi ritvélar og hverjar þeirra eru skrifaðar á hvaða ritvélar og stílbrigði hjá bæði riturum og höfundum. Vitað er að margar skýrslur voru vélritaðar af ritara á fógetakontórnum þar sem Valtýr vann. Ritarar höfðu mjög skýrar verkreglur, þær skrifuðu eftir innlestri á segulband og breyttu aldrei orði án samráðs við höfundinn. Þetta gilti um alla ritara allsstaðar, dómsritara, læknaritara og einkaritara lögmanna og ýmissa stjórnenda. Það er af og frá að halda að ritarinn á fógetakontórnum hafi umritað samtöl af segulböndum og fært þau í ritmál á skýrsluformi. Það er því næsta víst að ritarinn hafi fengið upplestur á segulbandi sem hún vélritaði orðrétt. Á þessum skýrslum sést líka að þær eru vélritaðar í belg og biðu og varla sett í þær greinaskil. Undir hverja þeirra er síðan vélrituð lína og undir hana vélritað nafn skráðs skýrsluhöfundar, ýmist Hauks Guðmundssonar eða bæði hans og Valtýs.
Aldrei hefur verið upplýst hver samdi hvaða skýrslu og hver las inn hvaða skýrslu af þeim sem ritari fógetans vélritaði. Hitt er vitað að hún var starfsmaður Valtýs en ekki Hauks. Það sést líka á skýrslum hver munurinn er á framsetningu Hauks og Valtýs þar sem Valtýr er öllu skipulagðari og fótafimari á svelli frásagnarlistarinnar.
Gróft dæmi um hreina fölsun á skýrslu er skýrslan af Jóni Grímssyni. Sú skýrsla er merkt Hauki Guðmundssyni, Haukur hefur sjálfur sagt að hann hafi aldrei talað við þennan Jón og óvíst hvenær hann vissi að skýrsla af honum væri merkt sér. Hann lætur sig samt hafa það, eins og fleira.
Sama dag og lögreglan í Keflavík frumsýndi Leirfinni með flenniathygli í öllum fjölmiðlum, var lögreglumaður á þeirra vegum, Skarphéðinn Njálsson, við rannsóknarstörf við Sigöldu. Þar tók hann skýrslu af manni sem hafði unnið lengi með Geirfinni bæði í Búrfell og Sigöldu og verið herbergisfélagi hans í vinnubúðum. Sá sagði frá því að hann væri nú nýkominn upp í Sigöldu eftir að hafa verið á nokkurra vikna drykkjutúr í Reykjavík. Sagði hann að vinnufélagi hans hefði komið til Reykjavíkur og sótt hann. Hefði félaginn þurft að fara fyrst til Keflavíkur á þriðjudagskvöldinu 19. nóvember til að sækja bíl sem ættingjar hans höfðu komið í skjól hjá frænku hans í Keflavík og svo keyrt hann upp í Sigöldu daginn eftir. Lögreglumaðurinn kallaði þennan Keflavíkurfara fyrir sig og var langt kominn með að taka af honum skýrslu þegar þeir þurftu að rjúka út til bjargar mönnum sem lent höfðu í vinnuslysi. Frá þessu slysi er sagt í fréttum og það gerðist sama dag og Leirfinnur var frumsýndur, viku eftir hvarf Geirfinns.
Keflavíkurfarinn hét Jón Grímsson. Hann fór til Keflavíkur klæddur brúnum leðurjakka sem samsvaraði lýsingunni á jakka Leirfinns og fannst lýsingin á Leirfinni eiga við sig. Í skýrslunni af honum nafngreinir hann konuna sem hann sótti bílinn til og heimilisfang hennar. Lögreglan spurði konuna aldrei og enn síður var verið að sýna þessari erfiðu afgreiðslukonu í Hafnarbúðinni þennan eina sjálfboðaliða í hutverkið. Mörgum árum seinna tók Reynir Traustason viðtal við Jón Grímsson og þar sagði hann frá þessari lífsreynslu sinni. Í framhaldi af því birtust viðtöl við hann í DV þar sem hann lýsti því yfir að í helgarfríi skömmu síðar hafi sjálfur Njörður Snæhólm komið heim til hans og látið hann klæðast jakkanum og síðan lýst því yfir að það væri ekki réttur brúnn litur á jakkanum. Þá bar Jón á móti veigamiklum atriðum í lögregluskýrslunni og sérstaklega því að í skýrslunni var hann sagður hafa farið inn á Aðalstöðina til að hringja í konuna til að vísa sér til vegar, en hann er viss um að hann hafi farið inn á mun stærri stað, eins og Hafnarbúðin var, en afgreiðsla Aðalstöðvarinnar var pínulítil.
Þarna yfirsést Láru alveg að meint fyrri skýrsla Jóns er ekki skýrsla sem hann gaf, heldur uppspuni lögreglunnar með blöndu af sannleikskornum, útúrsnúningum og blekkingum. Skýrslan í safni lögreglunnar í Keflavík er ódagsett og óstaðsett og hvorki kemur þar fram að Skarphéðinn hafi rætt við Jón í Sigöldu né að Njörður hafi rætt við hann í Reykjavík. Af einhverjum ástæðum virðist Lára ekki heldur hafa vitað af þessarri Sigölduför Skarphéðins, því hún spyr lögregluna í Rangárvallasýslu um skýrslutökuna þar, sem lögreglan kannast ekki við, enda var skýrslan tekin af lögreglumanni frá Keflavík. Reyndar er hvorki til tangur né tetur af margra daga rannsóknarvinnu Skarphéðins við bæði Sigöldu og Búrfell. Það eru heldur engin gögn til hjá lögreglu um rannsóknarvinnu Njarðar Snæhólm fyrir lögregluna í Keflavík vegna hvarfs Geirfinns, annað en það að á fundi í Sakadómi Reykjavíkur með Keflavíkurlögreglunni, daginn sem Leirfinnur var frumsýndur, var ákveðið að Njörður yrði tengiliður við Keflavíkurlögregluna og þeim innan handar við verkefni og skýrslutökur í Reykjavík.
Flón eða fól
Rannsókn lögreglunnar í Keflavík á hvarfi Geirfinns Einarssonar er sambland af fúski við rannsókn, þráhyggju um málsatvik og yfirhylmingum, undir stjórn þáverandi fógetafulltrúa Valtýs Sigurðssonar. Með þessum vinnubrögðum tókst lögreglunni í Keflavík að týna manninum sem þeir áttu að finna.