Leiða má líkum að því að sú tilviljun að spírabrúsa rak á land á Vatnsleysuströnd rétt áður en Geirfinnur hvarf, hafi leitt lögregluna í Keflavík að því að bendla hvarf Geirfinns við spírasmygl. Ekkert kom nokkurntíma fram í öllum lögreglurannsóknum á hvarfi Geirfinns sem gaf tilefni til að ætla að hann hafi haft neitt með slík mál að gera. Lögreglan í Keflavík beindi fljótt athygli sinni frá hvarfi Geirfinns og til þess að rannsaka smyglmál. Smygl var síðar upplýst og þar komu engar tengingar fram við Geirfinn. Grunsemdir lögreglunnar í Keflavík um að Klúbbmenn ættu aðild að smyglinu voru á engu byggðar frá upphafi og fengu enga stoð heldur þegar smyglin voru upplýst.
Geirfinnur Einarsson hvarf í Keflavík að kvöldi þriðjudagsins 19. nóvember 1974. Daginn eftir fara eiginkona hans og vinnufélagar að grennslast fyrir um hann og bíll hans finnst. Lögreglu er tilkynnt um þetta og fenginn sporhundur úr Hafnarfirði til að rekja slóð frá bílnum. Ákveðið var að ef Geirfinnur hvorki komi heim né mæti til vinnu á fimmtudagsmorgni, þá skuli vinnuveitandi hans tilkynna hann horfinn og lögregla þar með hefja formlega leit að honum. Það varð úr. Á fimmtudeginum virðist eiga sér stað ósköp venjuleg eftirgrennslan lögreglu við mannshvarf. Á föstudeginum hefur rannsókn lögreglu tekið ákveðna stefnu og út frá henni var síðan unnið. Sú stefna tók mið út frá tvennu: Annað var að ókunnugur maður sem fengið hafði að hringja úr Hafnarbúðinni í Keflavík á þriðjudagskvöldinu hefði hringt í Geirfinn og fengið hann til fundar við sig, hitt var að stefnumótið mætti rekja til smygls á spíra. Hvorug kenningin hafði nokkurt hald, hvorki þá né síðar. Samt var hún rauður þráður í gegnum allt Geirfinnsmálið, frá upphafi til dóms hæstaréttar árið 1980.
Til að skoða hvort og þá hvenær athygli lögreglunnar í Keflavík hafi beinst að grun um að hvarf Geirfinns mætti rekja til smygls á áfengi og að Klúbbmenn komið þar við sögu, þarf að skoða fleira en lögregluskýrslur. Tvær „Leirfinnsrannsóknir“ hafa átt sér stað, báðar að kröfu Magnúsar Leópoldssonar. Aðra framkvæmdi RLR (Rannsóknarlögregla ríkisins) síðla árs 1979 og í hinni var Lára V. Júlíusdóttir settur saksóknari til að rannsaka hvers vegna Magnús var bendlaður við hvarf Geirfinns í Keflavíkurrannsókninni og af hverju hann var handtekinn og sat svo lengi í fangelsi. Lára var skipuð 25. maí 2001 og skilaði skýrslu sinni til dómsmálaráðherra 4. febrúar 2003.
Til heimilda í þessari grein er einkum vitnað í skýrslu L.V.J., gögn í möppu XI Keflavíkurrannsóknin og einnig er vitnað til umfjöllunar í fjölmiðlum.
Spírabrúsar í fjöru
Sunnudaginn 17. nóvember, næst áður en Geirfinnur hvarf, kom hreppstjórinn á Vatnsleysuströnd til yfirvaldsins í Keflavík með spírabrúsa sem rekið hafði á fjöru í hreppnum hans. Þetta var nánast hvalreki, allavega tækifæri til að gera það sem lögreglu- og tollayfirvöld voru ekki búin að gera, að finna smyglara sem hentu spíra út í brúsum við baujur, létu svo sækja hann á smærri bátum og duttu í'ða og hlógu af löggum og tollurum um leið. Fjölmiðlar sögðu líka frá þessum spírabrúsum og sýndu málinu áhuga.
Svo háttaði til að á lögreglustöðinni í Keflavík var heimagangur sem annars starfaði hjá tollinum á Keflavíkurflugvelli, en þurfti auðvitað oft að starfa með lögreglu þegar taka þurfti á smyglurum. Sá hét Kristján Pétursson og var kallaður Kiddi Pé. Hann var mjög einarður tollgæslumaður sem leið hvorki smásmygli né stórfelld tollalagabrot. Starfssvæði tollgæslunnar var ekki bundið við lögregluumdæmi, en ef átti að framkvæma húsleitir eða handtökur þá þurfti atbeina lögreglu til. Í ákafa sínum við að upplýsa tollsvik og smygl rak Kiddi P stundum hornin í yfirmenn sína og lögreglu sem þóttu hann fara heldur yfir strikið.
Við rannsókn Láru V. var tekin skýrsla af John Hill lögreglufulltrúa og þar segir svo: „Nánar um Magnús Leópoldsson segir John að hann hafi jafnvel verið búinn að heyra nafn Magnúsar nefnt áður í sambandi við Klúbbinn, þ.e. í umræðu innan lögreglunnar í Keflavík um smygl á spíra sem átti að tengjast þeim veitingastað. Jafnframt sagði hann að þetta hefði verið mikið áhugamál hjá Hauki Guðmundssyni áður en rannsóknin á hvarfi Geirfinns hófst. Þegar síðan kom í ljós að Geirfinnur hafði verið í Klúbbnum helgina áður en hann hvarf fannst mönnum komin tenging við smyglmálið. John greindi jafnframt frá því að nafn Sigurbjörns Eiríkssonar í Klúbbnum hafi iðulega verið nefnt í sömu andrá og nafn Magnúsar Leópoldssonar. Það var þegar hið ætlaða smygl bar á góma.“
Á balli í Klúbbnum
Í ódagsettri samantekt Hauks Guðmundssonar rannsóknarlögreglumanns, rekur hann sitthvað sem fram hafði komið á fyrstu dögum rannsóknarinnar. Skýrslan ber með sér að vera samsett úr minnispunktum og koma nokkurnveginn í tímaröð. Haukur byrjar á að segja að þegar lögreglurannsókn á hvarfi Geirfinns hófst á fimmtudagsmorgninum hafi verið fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnufélaga hans sem hafði heimsótt hann fyrr um kvöldið sem hann síðar hvarf. Síðan rekur Haukur það sem fram hafi komið í þeim fyrirliggjandi upplýsingum og eru þar aðeins rakin samskipti þeirra í þeirri heimsókn og því er vinnufélaginn skutlaði honum áleiðis að Hafnarbúðinni. Ekkert er þar minnst á að þeir hafi farið í Klúbbinn.
Í samantektinni segist Haukur líka hafa haft tal af eiginkonu Geirfinns kl 14 á fimmtudeginum eftir hvarf hans. Þar hefur hann það m.a. eftir henni að Geirfinnur hafi farið ásamt tveimur vinnufélögum sínum á ball í Klúbbnum á sunnudagskvöldinu áður en hann hvarf, 17. nóvember. Ekkert sérstakt um það, virðist vera að rekja hvað hann hafi gert undanfarið annað en að vinna, koma heim og sofa.
Ekki er ljóst hvenær skýrslan af vinnufélaganum var skrifuð, hún er dagsett fimmtudag 22. nóvember, en þann 22. var föstudagur. Ljóst er samt að efni fyrrihluta skýrslunnar voru fyrirliggjandi upplýsingar á miðvikudagskvöldinu. Í dagbók lögreglunnar í Keflavík er skráð að fyrsta rannsóknartilvik hinnar formlegu rannsóknar var að Haukur hafi farið ásamt öðrum lögreglumanni á fimmtudagsmorgun í grjótnámuna þar sem Geirfinnur vann til að ræða við einhverja vinnufélaga hans þar. Sennilega var skýrslan sjálf síðan kláruð á föstudagskvöld og vinnufélaginn þá undirritað endanlega útgáfu hennar. Þá er Haukur búinn að fá upplýsingar um það að Geirfinnur hafi farið í Klúbbinn á sunnudagskvöldinu og þótti það greinilega nógu áhugavert til að spyrja félaga hans sérstaklega út í það tilvik eitt og sér.
Föstudaginn 22. nóvember er dagsett yfirlýsing frá lögreglunni í Keflavík þar sem lýst er eftir Geirfinni Einarssyni og fylgir með lýsing á útliti hans og klæðnaði. Þar er í framhaldinu raktar tímasetningar á ferðum Geirfinns og einnig ókunnugs símhringjanda í Hafnarbúðinni sem er hvattur til að gefa sig fram.
Frá forsögu að degi þrjú
Kristján Pétursson, deildarstjóri tollgæslunnar, hafði á árinu 1972 verið gerður afturreka með víðtæka aðför að rekstraraðilum veitingastaðarins Klúbbsins í Reykjavík. Það var geymt en ekki gleymt. Kristján var í miklum samskiptum við lögregluna í Keflavík og Haukur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður starfaði þétt með honum. Hann var mjög fljótt fenginn formlega til liðs við lögregluna í Keflavík við rannsóknina á hvarfi Geirfinns.
Þegar komið var með sjórekna spírabrúsa inn á lögreglustöðina á sunnudag 17. nóvember, segir lögreglufulltrúi það hafa vakið mikinn áhuga á lögreglustöðinni og Hauk og Kidda P strax hafa rætt um hugsanlega aðkomu Klúbbsins að því misheppnaða smygli og þar nefnd nöfn bæði Magnúsar Leópoldssonar og Sigurbjarnar Eiríkssonar, framkvæmdastjóra og eiganda Klúbbsins. Hann segir jafnframt að þegar lögreglan frétti að Geirfinnur hafi farið í Klúbbinn að kvöldi þessa sama sunnudags „fannst mönnum komin tenging við smyglmálið.“
Á miðvikudag er byrjað að grennslast fyrir um Geirfinn, bíll hann finnst og leitað út frá honum. Það sama kvöld hefur Haukur greinilega haft tal af vinnufélaga hans um samskipti þeirra fyrr á þriðjudagskvöldinu og ferð Geirfinns til Hafnarbúðarinnar og óskráðar heimildir eru um að hann hafi einnig talað við eiginkonu Geirfinns það kvöld.
Á fimmtudag lýsir lögreglan eftir Geirfinni í útvarpinu. Þá hefur Haukur tal af eiginkonu Geirfinns og segir frá því í samantektarskýrslu, en engin skýrsla er til af því tali sjálfu. Þar hefur Haukur eftir henni að Geirfinnur hafi farið á ball í Klúbbnum á liðnu sunnudagskvöldi ásamt sama vinnufélaga og öðrum til. Eftir það spyr Haukur vinnufélagann í skýrslutöku um hvað sé að frétta úr Klúbbferðinni og þar var raunar ekkert fréttnæmt.
Af skráðum gögnum er ljóst að föstudag 22. nóvember, á þriðja degi frá hvarfi Geirfinns, er lögreglan í Keflavík farin að tengja saman hvarf Geirfinns, smygl á spíra og mögulega aðkomu Klúbbsins að málunum.
Þetta var rétt að byrja.
Leitin mikla að símhringjandanum
Á föstudeginum 22. nóvember er rannsókn lögreglunnar á frumstigi, afskaplega lítið komið af gögnum, en lögreglan samt farin að móta þá stefnu sem rannsóknin tekur. Búið er að hafa tal af einum og öðrum sem engar skýrslur eru af, en um er getið í samantektarskýrslunni, og fyrsta vitnaskýrslan kláruð um kvöldið, sú af vinnufélaganum sem heimsótti Geirfinn á þriðjudagskvöldinu.
Vitni eru að því að Geirfinnur hafi komið inn í Hafnarbúðina uppúr kl 22 á þriðjudagskvöldinu, keypt sígarettupakka, skipst á fáeinum orðum við afgreiðslukonuna sem hann var málkunnugur og farið út skömmu síðar. Sömu vitni eru að því að nokkru seinna hafi ókunnugur karlmaður komið inn og fengið að hringja. Haukur hefur eftir eiginkonu Geirfinns að hann hafi komið heim og fengið símtal og eftir það farið út aftur og horfið. Lögreglan tekur þá stefnu að þessi ókunni símhringjandi hafi hringt í Geirfinn og hvetur hann til að gefa sig fram. Engin gögn styðja þá tilgátu lögreglunnar.
Fjölmiðlar eru farnir að sýna þessu mannshvarfi áhuga og lögreglan ítrekar við hvern þeirra á eftir öðrum að mikilvægt sé að þessi símhringjandi gefi sig fram.
Það var hins vegar ekki fyrr en föstudag 29. nóvember sem Valtýr og Haukur fara saman og taka fyrstu skráðu vitnaskýrslu af vitnunum úr Hafnarbúðinni, löngu eftir að búið er að skýra fjölmiðlum frá atburðarásinni í Hafnarbúðinni og birta mynd af útliti símhringjandans í öllum fjölmiðlum.
Myndir af Magnúsi
Í gögnum Keflavíkurrannsóknarinnar kemur fátt fram um það hvernig teikningar og leirmynd af höfði símhringjandans hafi orðið til, en þar er sagt frá því að hvort tveggja hafi verið gert að undirlagi lögreglunnar og eftir lýsingum sjónarvotta og birtar tvær teikningar og svo myndir af leirhausnum. Í þeim gögnum er lítið gert úr því að sjónarvottarnir hafi ekki verið sáttir við útlit teikninganna eða leirhaussins, en þó að þeim hafi þótt hvorugt alveg nógu líkt manninum.
Það er ekki fyrr en í gögnum Reykjavíkurrannsóknarinnar sem farið er að skoða þennan þátt málsins betur og fram kemur að vitnin og teiknarar og leirmyndarmótandinn hafa öll fengið ýmsar ljósmyndir af mönnum til að styðjast við og að sérstaklega sé afgreiðslukonan, eina vitnið sem sá þennan símhringjanda vel, ósátt við gerð Leirfinns.
Það er vegna ítrekaðra krafna Magnúsar Leópoldssonar um að rannsakað verði hvort notast hafi verið við myndir af honum við mótun Leirfinns, sem sá þáttur málsins hefur verið rannsakaður síðar, fyrst af RLR í lok árs 1979 og svo mun ítarlegar af settum saksóknara Láru V. 2001-2003.
Þar á milli var búið að skrifa í blöð, tímarit og bækur og gera heimildarmyndina Aðför að lögum, þar sem rannsóknaraðferðir lögreglu voru gagnrýndar allt frá upphafi og þó sérstaklega í Reykjavíkurrannsókninni.
Í skýrslu Láru V er fyrsta rannsóknartilvikið hvort og þá af hverju Magnús Leópoldsson hafi verði bendlaður við hvarf Geirfinns frá upphafi og þá sérstaklega með gerð leirhöfuðsins. Þar er rakið hvað komið hefur fram áður og þar til viðbótar tekur hún skýrslur af aðilum málsins í Keflavíkurrannsókninni. Umfjöllun um þennan þátt eru einkum á bls 23-31 í skýrslu LVJ. Fjölmörg vitni bera þar að ljósmynd af Magnúsi hafi verið meðal þeirra ljósmynda sem legið hafi á borði rannsakenda í upphafi og bornar voru fyrir bæði vitni og teiknara og leirmyndarmótara. Um þetta vitna bæði lögreglumenn, afgreiðslukonan í Hafnarbúðinni, teiknarar og leirmyndarsmiðurinn. Fólki ber ekki alveg saman um hver sýndi hverjum hvaða mynd hvenær, en það fer ekkert á milli mála að Haukur bæði sýndi myndir af Magnúsi og sendi aðra lögreglumenn með myndir til teiknara og leirmyndarsmiðs. Þarna segist megin vitnið, afgreiðslukonan úr Hafnarbúðinni, hafa verið „hundelt“ af Hauki og fleirum með myndir af Magnúsi, sem hún staðfastlega hafnaði alltaf. Hún segist líka ekki hafa verið með í ráðum um gerð Leirfinns. Ber hún um þetta m.a. vitni fyrir Sakadómi Reykjavíkur 20. maí 1977.
Fjölmiðlaumfjöllun um Klúbbferð Geirfinns
Í skýrslu LVJ frá bls 34 hefst kafli 1.8 Klúbbferðin svo: „Ljóst er að Klúbburinn tengdist snemma hvarfi Geirfinns í umfjöllun fjölmiðla um málið.“ Hún spyr Valtý um þessa tengingu og hann segir að í skýrslu sinni af eiginkonu Geirfinns: „Virtist líf Geirfinns ósköp eðlilegt og ekkert óeðlilegt kom út úr þeirri athugun og ekkert gaf tilefni til að ætla að Geirfinnur hafi lent í einhverju misjöfnu. Það eina sem gaf tilefni til sérstakrar skoðunar var ferð Geirfinns í Klúbbinn þann 17. nóvember, þ.e. tveimur kvöldum fyrir hvarfið. Vegna þessa var lögð áhersla á að hafa upp á þeim sem kynnu að hafa rætt við Geirfinn í Klúbbnum það kvöld.“ Síðan er haft eftir Hauki að: „Eðli máls samkvæmt var það mál skoðað nánar og lögreglan í Keflavík auglýsti eftir þessum mönnum í fjölmiðlum.“ Þrátt fyrir mikla leit lögreglunnar í Keflavík að þeim sem hefðu hitt Geirfinn í Klúbbnum, beið það lögreglunnar í Reykjavík árið 1976 að ræða í fyrsta sinn við nokkra af þeim mörgu Keflvíkingum sem höfðu verið í Klúbbnum þetta sama kvöld og hitt Geirfinn þar.
Samhliða birtingu myndar af Leirfinni upplýsir lögreglan að Geirfinnur hafi farið á ball í Klúbbnum tveimur kvöldum áður en hann hvarf. Daginn eftir að Leirfinnur er frumsýndur viku eftir hvarf Geirfinns, fjalla dagblöð um mögulega tengingu milli hvarfs Geirfinns og þess að hann hafi farið í Klúbbinn skömmu áður. Þar vekur Lára athygli á frétt í Morgunblaðinu 27. nóvember undir fyrirsögninni „Höfuðkapp lagt á að finna þann sem hringdi“. Vitnar hún þar til þessarra orða í fréttinni: „Þá er vitað, að Geirfinnur fór á dansleik í Klúbbnum á sunnudagskvöldið ásamt kunningjum sínum. Verður kannað hvort einhver hugsanleg tengsl geta verið á milli ferðarinnar þangað og hvarfsins.“ Fleiri blöð eru þann sama dag að tengja þessa Klúbbferð Geirfinns samhliða frétt af þeim stórviðburði að bera fram höfuð eftirlýsts hugsanlegs glæpamanns.
Dagar 4 til 7
Á degi þrjú er lögreglan farin að vinna eftir þeirri tilgátu sinni að smygl á spíra tengist hvarfi Geirfinns í gengum mann sem hafi hringt úr Hafnarbúðinni í Geirfinn og lokkað hann að heiman og að lykillinn á lausninni sé að finna þann mann. Í samræmi við það er mikið kapp lagt á að finna þennan símhringjanda.
Alla helgina biður lögreglan fjölmiðla fyrir skilaboð til símhringjandans að gefa sig fram.
Á mánudegi eru fjölmiðlar upplýstir um að von sé á myndum af hinum eftirlýsta.
Á þriðjudegi er fundur haldin með sérfræðingum hjá Sakadómi Reykjavíkur og hefur Lára það eftir Valtý að á þeim fundi var „Nirði Snæhólm, aðalvarðstjóra hjá rannsóknarlögreglunni í Reykajvík, falið að aðstoða við yfirheyrslur eftir þörfum.“ Eftir þann fund er mynd af leirhöfðinu í sjónvarpinu á þriðjudagskvöld og í öllum dagblöðum á miðvikudag. Samhliða sýningar á leirhöfðinu eru fjölmiðlar upplýstir um að lögregla óski eftir að fá upplýsingar um hverjir hafi hitt Geirfinn á balli sem hann sótti í Klúbbnum tveimur kvöldum áður en hann hvarf.
Þetta var ekki búið.
Leirfinnur eftirlýstur og vitni spurð um Klúbbinn
Myndin af leirhausnum toppaði allt það sem fólk hafði séð í lögreglurannsóknum annars staðar en í bíómyndum. Hún vakti því mikla athygli og nokkrar ábendingar bárust eftir áskoranir lögreglu til almennings þar um. Þær leiddu ekki til neins.
Lögreglan hélt áfram að kalla á ýmsa þá sem þekktu eitthvað til Geirfinns og taka af þeim skýrslur. Allar þær skýrslur voru óundirritaðar af skýrslugjöfunum. Sumir þeirra vita líklega ekki ennþá að skýrsla hafi verið skráð eftir að rætt var við þá, en nokkrir hafa í síðari rannsóknum furðað sig á því hvað eftir þeim var haft þar og hvað ekki.
Meðal þeirra var skýrsla sem Haukur tók 18. desember 1974 af góðum vini Geirfinns sem var fluttur frá Keflavík nokkrum mánuðum áður en Geirfinnur hvarf. Þar er hann spurður almennt um samskipti sín við Geirfinn og þar kemur ekkert sérstakt fram. Skýrslan endar svo á þessu: „Aðspurður sérstaklega kveðst Georg enga hugmynd hafa um hvarf Geirfinns en telur þó hugsanlegt að hann hafi heyrt eitthvað eða séð í Klúbbnum sunnudaginn 17. nóvember s.l.“ Þetta þótti Láru V nógu áhugavert til að kalla þennan skýrslugjafa á sinn fund.
Í skýrslusafni lögreglunnar í Keflavík má sjá nokkur fleiri tilvik þar sem fólk er spurt hvort það telji að einhver tengsl gætu verið milli hvarfs Geirfinns og ballferðar hans í Klúbbinn, eða að vitnin segja upp úr þurru að þau skilji bara ekkert í þessu og að það hljóti eitthvað að hafa gerst í Klúbbnum.
Mögulegur Leirfinnur í rauðum Fíat eða hvítum sendiferðabíl
Eins og þekkt er úr öðrum sakamálarannsóknum, þá bregst fólk misjafnlega öflugt við áskorunum um að koma vísbendingum á framfæri við lögreglu til að hjálpa til við lausn sakamálsins. Meðal ábendinga sem lögreglu bárust voru um rauðan Fíat með grunsamlegum ökumanni á Akureyri og um hvítan Mercedes Benz sendiferðabíl með gluggum sem hafi staðið fyrir utan Hafnarbúðina kl 18:30 daginn sem Geirfinnur hvarf síðar um kvöldið.
Lögreglan hraðlekur upplýsingum í fjölmiðla og þeir segja daglega nýjar fréttir af grunsamlegum mönnum og bílum og að viðamikil gagnasöfnun eigi sér stað með útprentunum úr bifreiðaskrám, ferðum fólks til og frá landinu og passamyndir af öllum karlmönnum á aldrinum 25 – 35 ára. Einnig að sjónarvottar lýsi manninum í hvíta sendiferðabílnum nákvæmlega eins og lýsingunni á Leirfinni. Að vísu koma lýsingar á bílstjóranum fram eftir að búið er að lýsa Leirfinni vel og vandlega í öllum fjölmiðlum. Þá er sagt frá því að lögreglan sé farin að rannsaka spírasmygl eftir ábendingar sem komið hafi fram við leitina að Geirfinni.
Spírarannsókn samhliða Geirfinnsrannsókn
Þeir Haukur, tollarinn Kiddi P og Rúnar Sigurðsson lögreglumaður í Reykjavík, fá aðstöðu á lögreglustöðinni í Reykjavík til að fylgja eftir ábendingum um smylg á spíra og einnig til að taka skýrslur af fólki í Reykjavík vegna rannsóknarinnar á hvarfi Geirfinns. Höfðu þeir þá aðstöðu frá byrjun desember og fram á vorið 1975. Spírarannsóknin var síðar tekin úr höndunum á þeim eftir að Kiddi P þótti hafa farið offari með meint smyglmál af Keflavíkurflugvelli, spíramáið flutt til Sakadóms Reykjavíkur og endaði það með dómi yfir smylgurum á 5 af fossum Eimskipafélagsins, en engin tengsl fundust þar við Geirfinn. Kiddi P var ekki sáttur við að rannsókn hans á meintu smygli af Keflavíkurflugvelli fengist ekki sett í samhengi við hvarf Geirfinns, enda hefði hún átt uppruna á svipuðum slóðum og maðurinn hvarf. Aldrei sýndi hann samt fram á slíkt samhengi.
Valtýr Sigurðsson fógetafulltrúi brá sér í ferð til útlanda um miðjan desember 1974 og virðist lítið sem ekkert koma að Geirfinnsrannsókninni meir, enda þegar hann kom heim hafði þá hin eiginlega rannsókn á hvarfi Geirfinns gufað upp í spíra og eltingum við Klúbbmenn.
Húsleitir tengdar Klúbbnum við leit að bílum
Hinn 13. janúar 1975 sendi lögreglan í Keflavík frá sér yfirlýsingu. Þar segir lögreglan að rétt hafi þótt að kanna ákveðnar ábendingar um að tengsl væru hugsanlega milli hvarfs Geirfinns og áfengis- og tollalagabrota. Þá segir ennfremur að lítilsháttar tenging hafi komið þar í ljós en á þeim fengist fullnægjandi skýring. Ekkert hafi komið fram sem bendi til þess á þessu stigi að Geirfinnur hafi verið þátttakandi í viðkomandi brotum. Ekki lægði þessi yfirlýsing grunsemdirnar í samfélaginu.
Hinn 3. febrúar rita Sigurbjörn og Magnús dómsmálaráðuneytinu bréf vegna þess að síðan í desember hafi gengið þrálátur orðrómur um aðild þeirra að hvarfi Geirfinns og smyglmál. Óska þeir eftir að ráðuneytið hlutist til um að eyða þessum sögusögnum eða láta fara fram rannsókn á sannleiksgildi þeirra.
Þann 10. febrúar 1975 fékk lögreglan í Keflavík lögregluna í Rangárvallasýslu til að gera húsleit þar í sýslu, á býli Sigurbjörns Eiríkssonar eiganda Klúbbsins, að hvíta sendiferðabílnum og fannst hann ekki þar. Um svipað leiti mun lögreglan í Borgarnesi hafa verið fengin til að leita í og við Hreðavatnsskála þar sem faðir Magnúsar Leópoldsonar rak veitingasölu, en ekki er ljóst hvort þar var leitað að Fiatinum eða sendiferðabílnum.
Þann 18. febrúar áréttar lögmaður þeirra fyrra erindi til dómsmálaráðuneytisins og vísar þar til viðbótar í lögregluaðgerðirnar á býli Sigurbjörns og vinnustað föður Magnúsar. Ráðuneytisstjórinn vísaði þessum bréfum til bæjarfógetans í Keflavík. Þar endaði það mál.
Þetta vissum við frá upphafi
Aðalleikarar í Keflavíkurrannsókninni hafa í seinni tíð staðfastlega neitað að hafa verið komnir með Klúbbmenn í sína snöru í Geirfinnsrannsókninni. Nema hvað. Eftir að Magnús, Einar og Valdimar voru handteknir lágu þeir Kiddi P og Haukur ekkert á því að þeir hefðu fyrir löngu verið búnir að finna þessi tengsl og rétt vantað herslumuninn uppá að sanna þau í sinni rannsókn.
Í frétt í Alþýðublaðinu 30. janúar 1976 er fjallað um handtökur þremenninganna og segist ritstjórinn munu birta óstaðfestar fregnir sínar ef lögreglan neiti þeim um upplýsingar. Í frétt um að nú sé Haukur Guðmundsson kominn til liðs við rannsóknarteymið segir: „Lögreglan hafði þó sínar hugmyndir og jafnvel einstaka menn grunaða, og segir sagan að nokkrir þeirra, sem nýverið hafa verið handteknir, hafi þá legið undir grun um að vita meira, en þeir létu í veðri vaka.“ Síðar segir: „Þó var frá upphafi ljóst að hvarf Geirfinns var tengt spíra, þótt það hafi ekki verið staðfest fyrr en nú.“
Í Alþýðublaðinu 7. febrúar 1976 er fjallað um það sem komið hafi fram í sjónvarpsþættinum Kastljósi kvöldið áður. Þar segir Kiddi P frá því að hann hafi unnið að rannsókn á tengslum Geirfinnsmálsins, Klúbbmálsins og spríramálsins. Síðar segir: „Kristján fullyrti ennfremur í þættinum í gær, að við rannsókn sína hefði hann verið kominn með upplýsingar í hendur, sem tengdu fyrrgreind þrjú mál á óvéfengjanlegan hátt.“
Fjölmargar tengingar ...
Fram hefur komið:
- að Kristján Pétursson hjá tollgæslunni og Haukur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður höfðu rætt það á lögreglustöðinni í Keflavík, nokkrum dögum áður en Geirfinnur hvarf að þeir grunuðu Klúbbinn um að eiga aðild að smygli á spíra og fleiru.
- að þegar spíra rak á land á Vatnsleysuströnd sunnudaginn 17. nóvember, færðust grunsemdir um aðild Klúbbsins að smyglinu í aukana og að myndir og nafn Magnúsar Leópoldssonar framkvæmdastjóra Klúbbsins tengdust þar við.
- að þegar Geirfinnur hvarf og upplýst var að hann hefði farið á ball í Klúbbnum sunnudagskvöldið 17. nóvember, hófust grunsemdir lögreglu um að hvarf hans gæti tengst spírasmyglinu.
- að Haukur og fleiri lögreglumenn hafi borið myndir af Magnúsi Leópoldssyni undir bæði vitni og þá sem fengnir voru til að gera eftirmyndir af manni sem var grunaður um að hafa hringt í Geirfinn og narrað hann að heiman hinsta sinni.
- að þegar lögreglan í Keflavík sýndi höfuð Leirfinns lýsti hún samtímis eftir fólki sem gæti veitt upplýsingar um hverja Geirfinnur hafi hitt í Klúbbnum á sunnudagskvöldinu.
- að fjölmörg vitni hafi verið spurð um hvað þau héldu að hefði gerst í Klúbbnum, jafnvel þótt þau hefðu ekki verið þar sjálf.
- að sömu aðilar rannsökuðu hvarf Geirfinns og smygl á spíra og blönduðu þeim rannsóknum saman með margvíslegum hætti.
- að lögreglan í Keflavík fékk lögregluna í Rangárvallasýslu til að gera húsleit á býli Sigurbjörns Eiríkssonar eiganda Klúbbsins í leit að bíl sem átti að hafa sést við Hafnarbúðina og geta tengst hvarfi Geirfinns
- að lögreglan í Keflavík fékk lögregluna í Borgarnesi til að svipast um eftir bílum tengdum Geirfinnsrannsókninni við Hreðarvatnsskálann þar sem faðir Magnúsar Leópoldssonar stundaði veitingarekstur.
- að eftir að Klúbburinn og fleiri voru tengdir inn í Geirfinnsmálið hjá lögreglunni í Reykjavík 1976, sögðu Kiddi P og Haukur sigurreifir frá því að þeir hefðu verið komnir með upplýsingar sem tengdu hvarf Geirfinns við Klúbbinn og spíra, en ekki fengið að klára málið á sínum tíma.
... en samt engin tengsl
Allt þetta kemur fram í skýrslu Láru V. Júlíusdóttur, nema hvað hún virðist ekki hafa lesið Alþýðublaðið eða fylgst með ræðum á Alþingi 1976. Samt tekst henni að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sýni ekki fram á að lögreglan hafi beint rannsókn sinni eða gerð leirhöfuðsins að Magnúsi Leópoldssyni og þar með ekki aðild hans að hvarfi Geirfinns, umfram þær ábendingar sem eðlilegt væri að lögreglan fylgdi eftir.
Síðari tveir liðirnir í rannsókn Láru lúta að því af hverju Magnús Leópoldsson var handtekinn og sat svo lengi í gæsluvarðhaldi. Af öllum þeim sem hún spurði um þau atriði, þá spurði hún aldrei þau sem sakfelld voru fyrir að hafa borið sakir á Magnús eða hina þrjá.
Endurupptökudómur úrskurðaði miðvikudaginn 14. september 2022 í máli nr. 8/2022 að hafna endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur. Það er í stíl við meginstraum íslenska dómskerfisins alla tíð. Um þann straum mun ég fjalla í síðasta pistli mínum.