Fyrsti hraunmolinn fór yfir það hversu varhugavert hálfstorknað hraun getur verið og síðasti hraunmoli lýsti því svo ítarlega hvað gerist ef maður fellur í glóandi hraun.
Í þessum þriðja hraunmola beinum við spjótum okkar að stærð eldgossins í Fagradalsfjalli og setjum það í samhengi við önnur þekkt eldgos hér á landi. Þannig getum við betur skilið við hvað er að etja í núverandi gosi og hvaða ógnarkraftar eru beislaðir í undirdjúpunum á eyjunni okkar fögru.
Rauðglóandi hringleikahús
Það má vel velta upp þeirri spurningu hvort eldgosið í Fagradalsfjalli sé kurteisasta eldgos sögunnar. Gosið er steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu og Keflavíkurflugvelli og þar með stutt fyrir meirihluta Íslendinga og ferðalanga erlendis frá að berja gosið augum – en samt nógu fjarri öllum mannabyggðum og mannvirkjum til að geta talist mikil ógn.
Þegar tugir þúsunda höfðu þegar lagt leið sína í Geldingadali ákvað gosið að tími væri kominn til að láta kvikuna skjóta sér upp á nokkrum stöðum til viðbótar, bara svona til að halda þessu áhugaverðu og spennandi. Og auðvitað þurftu allir að flykkjast aftur á staðinn. Nema hvað! Síðan þá hafa ný gosop verið að opnast, lognast aftur útaf og gígarnir sem eftir standa keppst um hylli brennheitrar kvikunnar. Það hefur verið hrein unun að fylgjast með þessu.
Við spyrjum að leikslokum
Okkar vaska framvarðarsveit í jarðvísindum hefur sannarlega getað nýtt sér vingjarnleika gossins til rannsókna og mælinga og það er aðdáunarvert að sjá hve mikið magn af upplýsingum við höfum núþegar um gosið. Þann 21. apríl sl. birti Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands til að mynda gagnlega samantekt á helstu lykilstærðum elgossins í Fagradalsfjalli. Þar kemur meðal annars fram að frá upphafi gossins sé samanlagt meðalrennsli frá öllum gígunum 5,6 rúmmetra á sekúndu og að hraunflæmið hafi nú náð einum ferkílómetra að stærð.
Hvorugt getur talist mikið eins og sjá má í þessari frábærri samanburðarmynd sem Jarðvísindastofnun Háskólans sendi einnig frá sér á dögunum en í meðfylgjandi grein kemur orðrétt fram: „sem betur fer eru ekki öll eldgos jafnstór og Holuhraun“ sem var með meðalrennsli á bilinu 100-200 m3/s og var stærsta hraungos á Íslandi frá Skaftáreldum 1783.
Sé gosið í Fagradalsfjalli sett í samhengi við gosið í Holuhrauni er hægt að skilja af hverju það fékk í upphafi viðurnefnið „Ræfill“. Munurinn verður enn meira sláandi ef þetta er allt saman skoðað í samhengi við tvö stærstu eldgos sem orðið hafa á Íslandi frá landnámi, Skaftaráeldagosið í Lakagígum og Eldgjárgosið 934. Þó svo öll hin gosin í meðfylgjandi grafi séu lögð saman ná þau samt ekki með tærnar þar sem hin tvö hafa hælana.
Eldgjárgosið var 800 sinnum stærra að flatarmáli en núverandi stærð gossins í Fagradalsfjalli eða álíka stórt og allur Reykjanesskaginn. Raunar þyrfti gosið í Fagradalsfjalli að gjósa samfleytt í 102 ár með sama krafti og nú til að ná sömu rúmkílómetrastærð og Eldgjárgosið!
En í stað þess að henda gys að gosinu í Fagradalsfjalli fyrir smæð sína og ræfilshátt getum við prísað okkur sæla. Gosið er með eindæmum fallegt og aðgengilegt og svo megum við ekki gleyma því að það er bara einn mánuður liðinn. Svo við spyrjum að leikslokum.
Höfundar eru stofnendur og eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal.