Um síðustu áramót var ástæða til þess, á þessum vettvangi, að rifja upp hugtök á borð við almannagæði og almannaslæmsku. Skilningur, eða skilningsleysi, á þessum hugtökum hefur ráðið miklu um viðbrögð sóttvarnaryfirvalda við Covid-faraldrinum. Afleiðingar misskilnings eða vísvitandi dreifingu falsfrétta (t.d. forseti sem mælti með inntöku sótthreinsilagar til að drepa veiruna!) koma fram í ógnvænlegum dánartölum, þanng hafa a.m.k. 800.000-900.000 manns látist vegna Covid í Bandaríkum Norður Ameríku. Það jafngildir 800-900 Covid-dauðsföllum á Íslandi, eða 25 falt fleiri en raunin er. Yfirvöld peningamála og ríkisfjármála um allan heim hafa leitað í smiðju Keynes lávarðar, lækkað vexti og opnað fyrir flóðgáttir fjárstuðnings úr ríkissjóði. Margt hefur gengið vel, annað verr, enda vart við öðru að búast þegar djarft er teflt.
Bólusetningar og undanbrögð veirunnar
Þann 29. desember 2020 var fyrsti íslendingurinn bólusettur gegn Covid-19. Margir, undirritaður þar á meðal, töldu bólusetningu vera byrjunina á endinum hvað þessa farsótt áhrærir. Ein forsenda bjartsýninnar af minni hálfu var að dreifing bóluefnis yrði jöfn og góð um alla heimsbyggðina. Sú varð ekki raunin. Þvert á fortölur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, nýttu stóru löndin afl sitt til að stýra dreifingu bóluefnisins sér í hag. Stjórnmálamenn tóku þar fremur mið af eigin skammtíma vinsældum en lokamarkmiðinu, að losna undan oki veirunnar. Fremstu lýðskrumarar hér heima spurðu hvers vegna Íslendingar hefðu ekki gert eins og Bretar og samið um kaup á bóluefni Pfizer utan við samstarf við Evrópusambandið. Gleymdist í öllum hamaganginum að Bretar nýttu sér að hafa fjármagnað, að hluta til, grunnrannsóknirnar og nýjungarnar sem liggja að baki Astra-Zeneca bóluefninu. Ennfremur nýttu þeir sér, ótæpilega, að bóluefnaframleiðsla fer fram innan landamæra Stóra Bretlands og komu á óformlegu útflutningsbanni. Ísland gat að sjálfsögðu ekki beitt slíkum þvingunarúrræðum og hefðu hæglega getað orðið út undan í dreifingaráætlunum framleiðendanna, rétt eins og ríki Afríku. Í byrjun árs var staðan sú að mannkynið hafði tæki til að takast á við veiruna. Veirufræðingar bentu á að það er eðli veira að stökkbreyta sér. Flestar slíkar stökkbreytingar eru óheppilegar fyrir „tegundina“, veiruna. En ein og ein þessara stökkbreytinga gerir hana skæðari. Barátta stökkbreyttu afbrigðanna innbyrðis fylgir lögmáli Darwins um sigur hins hæfasta, þær skæðustu, mest smitandi, „sigra“. Fjöldi stökkbreytinga stendur í réttu hlutfalli við útbreiðslu veirunnar. Mikil útbreiðsla, margar stökkbreytingar. Margar stökkbreytingar auka líkindi á skæðum og erfiðum afbrigðum. Af þessu leiðir að „við erum ekki örugg fyrr en allir eru öruggir“. Eitt er að vita, annað að breyta. Yfir 70% mannfjöldans í hátekjulöndum (USA; UK, o.s.frv.) er bólusettur, en innan við 5% í lágtekjulöndum (Haiti, Chad, Afganistan, sjá einnig heimsyfirlit á mynd 1). Það er því ekki með öllu óvænt að ný skæð afbrigði veirunnar birtist í Brasilíu eða Suður Afríku þar sem hægt gekk að bólusetja í upphafi faraldurs og þar sem illa hefur gengið að ná til hluta mannfjöldans.
Efnahagslegar afleiðingar og viðbrögð
Skuggi efnahagskreppunnar frá 2008 hvíldi yfir og allt um kring í byrjun árs 2020 þegar ljóst var að Covid-19 (sem hét eitthvað allt annað þá) væri ekki enn ein Asíu-flensan. Fólk, fyrirtæki og stjórnvöld sáu fyrir sér hrun efnahagsstarfseminnar. Í apríl 2020 gerðu spáaðilar á Íslandi ráð fyrir að landsframleiðsla drægist saman um allt að 13% á árinu 2020 og að íbúðafjárfesting drægist saman um allt að 25%. Raunin varð sú að samdráttur landsframleiðslu varð 6,6% og íbúðafjárfesting breyttist lítt sem ekkert samanborið við 2019. Það má þakka hinum ýmsu aðgerðum stjórnvalda auk þess sem áhrif veirunnar á efnahagslífið voru mjög frábrugðin áhrifum bankahrunsins. Í bankahruninu hrundi byggingargeirinn og íbúðabyggingar stoppuðu alveg. Þessi staðreynd, auk hræðslu við frátafir byggingarverkamanna frá verkum vegna Covid-veikinda og sóttkvíar kann að hafa dregið úr vilja byggingaraðila til að leggja grunn að nýjum verkum sem gætu komið í sölu 2022 og 2023. Ferða- og veitingagreinarnar hlutu sömu örlög í Covid og byggingageirinn í bankahruninu. En mikilvægur munur er á áhrifum bankahrunsins annars vegar og Covid hins vegar. Í bankahruninu fundu nánast allir hlutar einkageirans fyrir samdrætti. Í Covid náði samdrátturinn til fárra geira. Gylfi Zoega talaði um 90%-10% í þessu sambandi. Að 90% hagkerfisins hafi verið í lagi, en 10% í vanda. Viðbrögð stjórnvalda hafa verið af ýmsum toga. Almennum tækjum á borð við vaxtatæki seðlabanka (eða uppkaup skuldabréfa þar sem vextir voru þegar í námunda við núllið) var beitt í ríku mæli. Sömuleiðis hafa stjórnvöld aukið ríkisútgjöld og dregið úr tekjuöflun. Landfræðileg dreifing þessara viðbragða hefur sama yfirbragð og landfræðileg dreifing bólusetningarþekju, þó með vissum undantekningum, sjá mynd 2.
Afríkuríkin hafa ekki haft mikla burði til að bregðast við með fjármálapólitískum aðgerðum. Reyndar er mældur samdráttur landsframleiðslu í ríkjunum sunnan Sahara aðeins 2% á árinu 2020. Það kann að helgast af umfangi óskráðrar starfsemi á borð við umönnunarstörf, heimilisstörf og fleira. Þar kann samdrátturinn að hafa verið meiri en í hinum skráða hluta. Kína lagði meiri áherslu á að halda veirunni í skefjum en að halda uppi atvinnu og tekjum. Einnig má sjá nokkurn mun eftir samsetningu atvinnulífs. Svíþjóð og Finnland eru augljóslega minna háð ferðamannaiðnaði en Ísland, Noregur, Spánn, Frakkland, Ítalía og Grikkland. Heimshagkerfið er talið hafa minnkað um ríflega 3% árið 2020. Áður en omíkron afbrigði Covid-19 skaut upp kollinum var ætlað að hagkerfi heimsins myndi ná fyrri styrk og ríflega það árið 2021, vaxa um heil 6% og um tæp 5% 2022.
Hvað höfum við lært um heilbrigðisinnviði?
Eins og nefnt var í inngangi skipta heilbrigðisinnviðir miklu máli varðandi þau fjölmörgu úrlausnarefna sem Covid býður upp á. Traust til heilbrigðisyfirvalda er einn þeirra innviða sem jafnan er ekki gefinn gaumur en sem sýnir sig nú að vera lykilatriði. Hér á landi má ætla, útfrá tölum frá Félagsvísindastofnun að 0,4-4% almennings vilji ekki hlýta ráðum sóttvarnaryfirvalda. Á öðrum bæjum má finna dæmi um að þessi tala sé nær 20%. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur af þessu áhyggjur og leggst t.d. gegn skyldubólusetningum með þeim rökum að þær kunni að grafa undan trausti til heilbrigðisyfirvald og efla andstæðinga bólusetninga og auka tiltrú á falsfréttum. Vantraust í formi andstöðu við bólusetningu getur kostað krónur og aura. Minni þátttaka í bólusetningu kallar fram harðari takmarkanir sem koma niður á efnahagsstarfseminni.
Það er fróðlegt að bera myndir 2 og 3 saman. Þrátt fyrir mikila útgjaldaaukningu í ríkjum Mið og Suður Evrópu, Bandaríkja Norður Ameríku og Stóra Bretlands er fjöldi umframdauðsfalla um 260 á hver 100.000 íbúa í USA, 200 í UK, Danmörk 25, Ísland 6 og Svíþjóð um 90.
Ástæða þess að Bandaríkin og Bretland standa illa samanborið við önnur sambærilegar þjóðir felst ekki í aðgengi að bóluefnum, þekkingu á hegðun smitsjúkdóma eða öðrum tæknilegum atriðum. Mistök eða rangar ákvarðanir stjórnvalda skipta miklu eins og þegar hefur verið rakið. Á „heimavettvangi“ getum við metið áhrif stjórnunarmistaka með því að bera saman Ísland, Danmörku og Svíþjóð. Svíar gerðu lítið til að draga úr útbreiðslu farsóttarinnar í upphafi, misstu hana inn á dvalar- og elliheimili og uppskáru umframdauðsföll fjórfalt til tuttugufalt umfram það sem nágrannalöndin urðu fyrir.
Forysta sóttvarnaryfirvalda og almennra stjórnvalda, gæði heilbrigðisinnviða og stöðugleiki í sóttvarnastjórnsýslu eru allt þættir skipta sköpum hvernig til tekst við að verja almenning gegn farsóttarvágestinum. Samspil þessara þátta virðist ekki síður mikilvægt en að gera vel á einhverju einu sviði. Reynsla Svía bendir alla vega til þessa.
Hvað höfum við lært um efnahagsleg viðbrögð?
Neikvæðir lærdómar af fjármálakreppunni 2008 lituðu viðbrögð yfirvalda í upphafi. Götótt atvinnuleysisbótakerfi voru sumstaðar bætt tímabundið, skattgreiðslum lögaðila frestað eða þær felldar niður, rekstrarstyrkir greiddir til fyrirtækja sem gert var að loka. Seðlabankar stóðu einnig fyrir víðtækum aðgerðum. Í fyrstu höfðu bankamennirnir áhyggjur af að lausafjárþurrð kynni að auka á þau vandræði sem þegar voru fram komin. Því voru fyrstu viðbrögðin að auka aðgengi að lausafé. En síðar var gripið til vaxtalækkana og svokallaðrar magnbundinnar íhlutunar. Markmiðið að gera lánsfé til almennings og fyrirtækja ódýrara. Umfang þessara aðgerða kom mörgum á óvart. Við ríkjandi aðstæður virkar peningapólitík svipað og gefa botnlangasjúklingi verkjalyf þegar skurðaðgerðar er þörf. Ágæt sem hluti áætlunar, en gagnslaus sem höfuðúrræði. Hefðbundna kennisetningin er sú að lægri vextir hvetji til frekari fjárfestinga í fastafjármunum, allt annað óbreytt. Samkvæmt hefðbundinni hagfræðikenningu kalla fjárfestingaumsvif síðan á frekari umsvif í einkaneyslu. En í upphafi Covid faraldursins var ekki allt annað óbreytt. Fyrirtæki í 10% hagkerfinu vissu ekki hver eftirspurn eftir vörum þeirra yrði næstu ár. Hvers vegna þá að fjárfesta? Þetta átti t.d. við um verktaka í byggingarbransanum sem mundu vel hrun húsnæðismarkaðarins eftir fjármálakreppu. Fyrirtæki í 90% hagkerfinu voru í betri stöðu, en ekki endilega í fjárfestingahugleiðingum, kannski nýbúin að tæma skrifstofur, biðja fólk að vinna að heiman og biðja viðskiptavini um að nota netið til að eiga við sig viðskipti. En þeir sem versla með verðbréf áttu góða daga. Lokanir vinnustaða og heimavinna jók einnig áhuga margra á að stækka við sig húsnæði. Frá sjónarhóli lánastofnana er lán með veði í íbúðarhúsnæði mun tryggara en lán með veði í verksmiðjuhúsi eða skrifstofuturni. Afleiðingin lágra stýrivaxta og takmarkaðs framboðs á nýjum íbúðum er umfangsmikil hækkun húsnæðisverðs í öllum hinum vestræna heimi og jafnvel víðar. Seðlabankar hafa ýmist hafið vaxtahækkanaferli eða auglýst að til standi að hefja slíkt ferli á árinu 2022. Aðrir hafa gripið til aðgerða á borð við hækkun eiginfjárkröfuhlutfalls við kaup á íbúðarhúsnæði eða aðrar sértækra aðgerða. Fullyrða má að hér á landi hefði farið betur hefði verið gengið aðeins hægar um vaxtalækkanadyrnar og hliðarráðstafanir kynntar fyrr til skjalanna.
Það var ekki bara áhrif Covid á samsetningu húsnæðiseftirspurnar (stærri íbúðir fjær miðborgum) sem kom flatt upp á efnahagssérfræðinga. Eftirspurn eftir þjónustu á borð við veitingahúsamáltíðir eða heilsuræktarheimsóknir datt niður eða var jafnvel bönnuð tímabundið. Margir þurftu að koma sér upp heimaskrifstofu. Almenningur sóttist þess vegna eftir heimaheilsuræktartólum og betri tækjum í eldhúsið, betri tölvum, nýjum heyrnartólum, þægilegri skrifborðsstól: Minni þjónustu, meira af dóti. Þjónusta er framleidd og veitt í nágrenni þjónustuþegans. En dót er framleitt í Kína og nágrenni. Lyftingalóð og hlaupabretti þarf að flytja með gámum. Þessi skyndilega breyting á samsetningu einkaneyslunnar hafði alvarlegar afleiðingar á flutningakerfi heimsins. Tómir gámar söfnuðust upp í Ameríku og Evrópu en gámaskortur umtalsverður í Asíu og vaktakerfi eyrarkalla í Los Angeles og San Fransico var endurskoðað, og hjálpaði lítið.
Í upphafi faraldurs töldu bílaframleiðendur botninn dottinn úr sínum markaði. Töldu að aukin heimavinna og minni ferðalög almennt myndu draga úr bílakaupum. Þeir endurskoðuðu framleiðsluáætlanir og afpöntuðu dýra íhluti á borð við tölvukubba. Tölvukubbaframleiðendur snéru sér að því að framleiða íhluti í leikjatölvur og borðtölvur. Þegar kom í ljós að bílaframleiðendurnir misreiknuðu markaðinn sinn lentu þeir aftarlega í pantanaröðinni. Ekki bætti eldsvoði í stórri tölvukubbaverksmiðju í Japan úr skák. Á heimsmarkaði fyrir olíu hafa svipuð vandamál skotið upp kollinum. Samtök olíuframleiðsluríkja, OPEC+, komu sér saman um framleiðslusamdrátt við upphaf faraldursins, en hafa verið treg til að breyta af þeirri áætlun. Fyrir bragðið hefur olíuverð á spot markaði sveiflast frá því að vera neikvætt í nokkra klukkutíma í apríl 2020 í það að vera nálægt 80 USD tunnan um þessar mundir.
Lærdómurinn af hagrænu viðbrögðunum er margþættur og togar í mismunandi áttir. Sumt gekk vel: auknar atvinnuleysisbætur og rekstrarstyrkir til fyrirtækja sem skipað var að loka hafa vafalítið komið í veg fyrir keðjuverkandi aukningu atvinnuleysis og fjöldagjaldþrot fyrirtækja. Framkvæmd þessara þátta var fálmkenndari á Íslandi en víða annars staðar. Almennt var markmið evrópskra stjórnvalda að viðhalda tengslum launþega og atvinnurekenda þrátt fyrir tímabundna fjarveru launþegans frá vinnustað. En á Íslandi var, auk lokunarstyrkja, boðið upp á uppsagnarstyrki, en þeir síðarnefndu gengu þvert á markmiðið um viðhald ráðningarsambands. Peningastefnan hefur virkað að einhverju marki, en sumar af aukaverkunum peningaþenslunnar kunna að skapa vandamál í framtíðinni. Þá hefur komið í ljós að forsvarsmenn stórra fyrirtækja á borð við bílaframleiðendur og fyrirtækja í flutningastarfsemi hafa átt í vandræðum með að skilja áhrif faraldurs á eigin rekstur.
Breytir Covid samfélögum og grunngerð samfélaga?
Hagfræðingar og hagsögufræðingar hafa lagt talsvert að sér s.l ár að draga lærdóma af bæði Spænsku veikinni (1918-1919) og Svarta dauða, (1347-1352). Farsóttir eða farsóttarkenndir atburðir áttu sinn þátt í falli Rómarveldis og sigri vestur evrópubúa á herveldum frumbyggja Norður og Suður Ameríku. Vegna svarta dauðans fækkaði um 25-40% á vinnumarkaði í Englandi og raunlaun hækkuðu um 100%. Svarti dauði skapaði mikinn hrylling meðan hann gekk yfir. En langtímaáhrifin voru misjöfn og afleiðinganna kann jafnvel að gæta enn í dag í formi misræmisins milli velmegunar norður og vestur Evrópu annars vegar og Suður Evrópu hinsvegar. Velmegun jókst í Englandi og norðurlöndum þar sem hagkerfin náðu jafnvægi við hærri raunlaun en fyrir 1350. Sú varð ekki raunin í syðri hluta Evrópu. Egyptaland er einnig talið hafa farið illa. Vegna fólksfækkunar var ekki lengur hægt að halda flóknu áveitukerfi gangandi sem dró úr framleiðslu, raunlaunum og lífsgæðum. Ásýnd heimsins í dag hefði kannski orðið önnur hefði svarti dauði ekki gengið yfir af þeim ofsa sem hann gerði um miðja 14. öldina. Kannski hefði heimurinn talað saman á ítölsku og spænsku.
Ennþá er allt of snemmt að segja hvort Covid-19 muni breyta valdastrúktúr og tekjudreifingu í heiminum, eða heimstungumálum. En við höfum séð hversu ómarkviss og takmarkandi dreifing bóluefna um heimsins byggðu ból er. Það gefur ekki endilega von um að í þessu baráttuferli gegn veirunni takist okkur að „finna bestu leið allra leiða“, svo orð Birtings séu endurrituð.
Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.