Ó, fagra veröld
Benedikt Jóhannesson, fyrsti formaður Viðreisnar og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, skrifar um stöðu stjórnmálanna. Hann fer yfir stríð í Evrópu, fylgisþróun flokka, áherslur á kerfi, valdabaráttu í Sjálfstæðisflokknum, veika stjórnarandstöðu og ríkisstjórn sem leiðir ágreiningsmál hjá sér, enda afrek hennar fyrst og síðast það að sitja.
Fimbulkuldi og farsóttir, stríð og stéttabarátta, hungursneyð og hitabylgjur. Hættulegir einræðisherrar festa sig í sessi í Rússlandi og Kína og réttindi kvenna eru fótum troðin í Afganistan og Íran. Erfitt er að verjast þeirri hugsun að heimurinn sé verri núna en fyrir ári.
Á sama tíma er það helsta áhyggjuefnið á Íslandi hvort ferðaglaðir landar taki myndir af tánum á sér á Tenerife. Hér er hagvöxtur góður og atvinnuleysi lítið. Að vísu reyndust íbúar landsins tíu þúsundum færri en Hagstofan hafði áður sagt okkur, en góðu fréttirnar eru þær að hún var búin að telja þá fyrir jól og gat tekið sér frí milli jóla og nýárs. Spekingar útvarpsins veltu því fyrir sér nú á aðfangadag hvort árið 2007 væri runnið upp aftur.
Hvert ætli þessi staða leiði okkur á komandi ári? Mun upp rísa árið 2008, eða verður það einfaldlega venjulegt 2023 með sínum sorgum og gleði?
Annar stóru flokkanna?
Fylgi í skoðanakönnunum er fallvalt. Yfirleitt eru Sjálfstæðismenn með 20 til 25%, aðrir flokkar sveiflast stundum upp og svo yfirleitt niður aftur. Nema þeir hangi niðri. Í nýjustu könnun Gallups voru tveir flokkar með rúmlega 20% fylgi, Sjálfstæðisflokkur með 24% og Samfylking 21%. Svo skemmtilega vill til að báðir flokkarnir héldu flokksþing nokkrum vikum áður. Í báðum flokkum var formannskjör, en reyndar með aðeins mismunandi hætti.
Í Samfylkingunni var formannsstaðan laus eftir að Logi Einarsson taldi sig hafa staðið sína plikt nógu lengi. Kristrún Frostadóttir hagfræðingur var ein í kjöri og óhætt er að segja að hún hafi slegið í gegn. Ég kynntist Kristrúnu lítillega þegar hún var varaformaður efnahagsnefndar Viðreisnar. Hún kom ágætlega fyrir og ég held að hún hafi lagt sitt af mörkum til þess að styðja við frjálslynda og ábyrga stefnu flokksins í efnahagsmálum.
Eftir formannskjörið var Kristrún spurð út í stefnu flokksins gagnvart Evrópusambandinu sagði hún mikilvægt að forgangsraða og sameina jafnaðarfólk utan um kjarna húsnæðismála, heilbrigðismála og innviðauppbyggingu áður en farið er í umræðu um Evrópusambandið. Það vakti athygli að formaðurinn skyldi taka Evrópusambandsaðild til hliðar, nú þegar skoðanakannanir sýna ítrekað að stærsti hluti þjóðarinnar vill fulla aðild eða 55% þeirra sem afstöðu tóku í síðustu könnun.
Í ræðu sinni á landsfundinum sagði Kristrún meðal annars að búið væri að taka 50 milljarða úr velferðarkerfinu. Ekki er ljóst hvernig sú tala er fengin eða í hvað hún ætti að fara, en þegar spurt var hvernig flokkurinn ætlaði að breyta þessu í ljósi áherslna á velferðarkerfið sagði Kristrún flokkinn leggja áhersla á að efnahagsmálastefnan standi undir velferðarkerfinu. Kerfið verði sett í fyrsta sæti.
Þetta er því miður viðkvæði margra stjórnmálamanna í gömlu flokkunum. Hvort sem litið er á fiskveiðikerfið, landbúnaðarkerfið, heilbrigðiskerfið þá er það kerfið, kerfið, kerfið sem er í fyrsta sæti - ekki fólkið. Þetta minnir mig reyndar á að það þegar ég hlýddi á ræður þingmanna úr Samfylkingu og VG fjölluðu þær oftar en ekki um það að meiri peninga vantaði í þetta eða hitt kerfið. Það kann að hafa verið rétt, en aldrei ræddu þeir um ákveðin verkefni sem kostuðu eitthvað ákveðið, heldur aðeins eitt: Meiri peninga.
Eftir landsfundinn stendur þetta: „Samfylkingin mun ekki setja aðild að Evrópusambandinu fram sem forgangsmál.“ Kannski er Samfylkingin með þessu að færa sig að Sjálfstæðisflokknum, Kristrún vildi ekki útiloka samvinnu við hann.
Baráttan um völdin
Stefnubreytingunni var sannarlega fagnað á landsfundi Sjálfstæðismanna. Þar bar það eitt til tíðinda að Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- og auðlindaráðherra skoraði formanninn á hólm og vildi sjálfur taka við keflinu. Ekki er beinlínis hægt að segja að Guðlaugur hafi viljað leiða flokkinn, því hann lagði áherslu á að „áherslur Sjálfstæðisflokksins eigi að koma frá grasrótinni.“
Slík sjónarmið heyrast stundum, en sýna á hvílíkum villigötum stjórnmálin eru nú á dögum. Stjórnmálaflokkar eiga auðvitað að fylgja ákveðinni stefnu – til þess eru þeir. Hlutverk foringjans er fyrst og fremst að fylkja fólki á bak við þá stefnu og leiða hana til sigurs.
Ég þekki þá Guðlaug Þór og Bjarna ágætlega og hef unnið náið með báðum. Guðlaugur er duglegur og metnaðarfullur. Ég hef aldrei reynt hann að ódrengskap við mig. Bjarna fylgdist ég með úr nálægð þegar við sátum saman í ríkisstjórn og það leyndi sér ekki að hann bar höfuð og herðar yfir samflokksmenn sína þar og á Alþingi. Við vorum auðvitað ekki sammála um öll mál eins og vel er þekkt, en fundum ágætar lausnir, held ég. Mér fannst reyndar hann hefði getað haldið betri aga á þingflokknum. Það er nauðsynlegt þegar meirihlutinn er knappur.
Það var athyglisvert að fylgjast með því í aðdraganda formannskosninganna að sumir spekingar af vinstri vængnum töldu að Guðlaugur Þór væri sérstakur boðberi víðsýnni stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þeir hinir sömu hafa líklega ekki vitað að hann var arkitektinn að því að flokkurinn taldi sig ekki lengur eiga heima með Kristilegum demókrötum í Þýskalandi og hefðbundnum hægriflokkum á Norðurlöndum heldur gekk í sveit með Lögum og réttlæti, öfgahægriflokknum sem stjórnar Póllandi og öðrum slíkum flokkum, einn hægriflokka á Norðurlöndum. Ekki er lengur getið um aðildina á heimasíðu flokksins sem sýnir vissa sómatilfinningu.
Niðurstaðan var sú að þvert á spár margra vann Bjarni yfirburðasigur. Margir þeirra sem ég talaði við töldu víst að Guðlaugur hefði ekki farið af stað nema telja sér sigur vísan. Hugsanlega hefur fylgi hans minnkað á fundinum. Ljóst er að samstarf þeirra tveggja verður ekki nánara.
Aðrar fréttir bárust ekki af fundinum. Ekki var sagt frá einni einustu ályktun landsfundar í fréttum og í fyrstu skoðanakönnunum eftir landsfund stóð fylgi flokksins nokkurn veginn í stað.
Landsfundur Sjálfstæðismanna breytti því engu. Það er þó meira en hægt er að segja um Samfylkinguna sem skilaði minna en engu, því hún dró í land með sín fyrri áherslumál.
Nýtt pólitískt landslag?
Fyrir fimm árum spáði ég því að samstarf núverandi stjórnarflokka myndi fyrst og fremst verða bandalag um stöðnun. Ég reyndist sannspár. Þegar litið er um öxl yrðu flestir í vandræðum með að nefna eitt einasta framfaramál stjórnarinnar. Afrek hennar er að sitja. Reglulega koma upp atvik af ýmsu tagi sem valda óróa í samfélaginu, en ekki er að sjá að það haggi ró formanna flokkanna sem samstarfið leiða. Límið sem heldur stjórninni saman, fyrir utan auðvitað seglana sem í ráðherrastólunum eru, er hve lagin þau virðast vera, Bjarni og Katrín, að leiða ágreiningsmál hjá sér.
Hvert málið rekur annað þar sem vitað er að ræðustóll Alþingis hefði verið upptekinn vikum saman af þeim Katrínu og Svandísi Svavarsdóttur, sem hefðu krafist afsagnar allra sem að þeim málum hefðu komið, væru þær ekki í ríkisstjórninni sjálfar, en þegja nú þunnu hljóði.
Og þó. Hinn viðkunnanlegi forsætisráðherra hefur náð býsna miklum hæfileikum í því að setja upp íhugulan svip og segja: „Þetta mál krefst þess auðvitað að við lærum af því og endurskoðum verkferla.“ Þessi setning virkar svo vel, að í gamla daga hefði ráðherrann á endanum gengið undir nafninu Katrín hin lærða.
Þó að erfitt sé, jafnvel ómögulegt, að benda á aðra samsetningu á ríkisstjórn meðan Alþingi er eins skipað og nú er, verður ekki hjá því komist að benda á hættuna sem getur fylgt því að sitja of lengi í valdastöðum. Valdhroki (hybris eða hubris á erlendum tungum) er algengur fylgifiskur þess að hafa náð svo langt að telja sig yfir lög og reglur hafinn. Foringjar safna um sig jámönnum og þola enga gagnrýni. Sjálfur hef ég séð þetta einkenni á mörgu ágætu fólki sem breyttist við það að ná háu embætti. Flestir lagast þegar þeir missa hnossið sem hrokanum olli, en þó ekki allir. Hægt er að nefna fjölmörg dæmi um slíkt dramb, til dæmis í stöðuveitingum, þegar þeir hæfustu eru augljóslega sniðgengnir, stundum vegna þess að ráðherrar óttast að hæft fólk geti skyggt á þá sjálfa, en oftar til þess að hygla flokksgæðingum. Þetta er þó ekkert nýtt.
Annað alvarlegra dæmi kom upp rétt fyrir jól þegar forsætisráðherra ákvað að útdeila tugmilljónum til einstaklings vegna gamals afbrotamáls. Ég átta mig vel á því að um málið sjálft eru skiptar skoðanir, en það er einmitt kjarni málsins. Til þess að leysa úr ágreiningsmálum af þessu tagi höfum við dómstóla. Allir læra um þrískiptingu valds í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Málið er alvarlegt því dómsvaldið hafa fyrri ráðherrar ekki sölsað undir sig, þótt eflaust hafi þá oft langað til þess. Enginn áhrifamanna, sem ætti að benda á hið hættulega fordæmi sem með þessu er skapað, þorir að ræða þetta prinsipp af ótta við holskeflu fordóma.
Betri kostur?
Almennt er stjórnarandstaðan veik og sundruð sem eðlilegt er, því í henni eru fimm flokkar og enginn fjölmennur. Alþingi er veikara en ella vegna þess að þar vantar sérfræðinga af ýmsu tagi, eins og til dæmis raunvísindafólk og fólk með reynslu úr atvinnulífinu. Eins og staðan er í dag eru engar líkur á því að nýr meirihluti gæti myndast á Alþingi nema að undangengnum kosningum. Það sem verra er að í þingsölum vantar aðhald sem vigt er í, ekki bara upphlaup út af smámálum, upphlaup sem áður voru sérgrein VG.
Meðal annars þess vegna hefur ríkisstjórnin yfirburðastöðu. Ekki að þar sé alltaf skilningur á hagfræðilögmálum. Nefna má aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að bregðast við verðhækkunum. Margar þeirra stuðla einmitt að verðbólgu. Afar lítill skilningur virðist líka vera á því á Alþingi hvers vegna Seðlabankinn hækkar meginvexti.
Hagfræðikenningar ganga út á það að með vaxtahækkunum er þrengt að kaupmætti, fólk verður því að draga úr neyslu, eftirspurn minnkar og verðbólgan í kjölfarið. Því er gersamlega út í hött að krefjast þess að ríkið veiti bætur vegna vaxtahækkana, því að með því er ráðist að markmiði þeirra. Hér á landi og reyndar víðast um hinn vestræna heim eru raunvextir nú neikvæðir, það er peningar á bankabókum sem eru á meginvöxtum Seðlabankans verða stöðugt verðminni í verðbólgunni. Hér á landi bera bankareikningar flestra litla sem enga vexti sem þýðir að í 10% verðbólgu fljóta verðmæti hratt frá þeim sem eiga peninga til þeirra sem skulda.
Hallinn heldur áfram í góðærinu
Í góðri efnahagsstjórn er ábyrgur ríkisrekstur eitt af meginráðunum til þess að stuðla að stöðugleika. Þegar stofnað var til núverandi samstarfs var ljóst að afgjaldið yrði meðal annars það að auka yrði ríkisútgjöld. Sjálfstæðismenn létu það yfir sig ganga því stjórnin tók við góðu búi, skuldir höfðu minnkað mikið og afgangur var á ríkissjóði. Ef allt gengi áfram sinn vanagang var ekki víst að stöðunni yrði teflt í tvísýnu. En því miður hækkuðu útgjöldin mun hraðar er tekjurnar og strax árið 2019 hófst tapið á ríkissjóði. Eftir Covid hafa hallarekstursárin komið á færibandi. Þrátt fyrir að atvinnuleysi sé nú lítið og ferðamannafjöldi verði svipaður og fyrir farsótt er búist við áframhaldandi halla næstu tvö ár. Gleymum því ekki að það eru útgjöldin en ekki tekjurnar sem ákveða hinar raunverulegu álögur á almenning. Viðvarandi halli á ríkissjóði er skattlagning á komandi kynslóðir.
Í því sambandi má segja að einu athyglisverðu tillögurnar sem ég minnist frá Alþingi nú í haust komu frá Þorbjörgu S. Gunnlaugsdóttur, fulltrúa Viðreisnar í fjárlaganefnd, sem lagði til að halli ríkissjóðs á komandi ári yrði minnkaður um 20 milljarða króna. Ekki stórt skref, en í rétta átt.
Heimsveldi hins illa?
Illska Pútíns Rússlandsforseta hefur sett heiminn á hliðina. Hann hefur með tilgangslausu stríði í Úkraínu fórnað lífum og spillt lífskjörum alþýðu fólks, bæði hjá sínum þegnum og almenningi víða um heim, á sama tíma og vopnaframleiðendur og olíusalar maka krókinn. Ungir Rússar og málaliðar þeirra fá skipun um að meiða, deyða og nauðga. Eyðileggja sem mest. Enginn veit markmiðið, enda er það eitt í dag og annað á morgun. Einn dag á að brjóta „nasistana“ á bak aftur, annan að sameina tvær þjóðir, sem í raun eru ein að hans sögn, eða bjarga Úkraínumönnum úr klóm Vesturveldanna. Eða bara hefna þess að Úkraínumenn leyfa sér að gefast ekki upp.
Heimsbyggðin er fórnarlamb valdhroka Pútíns. Hann sölsar undir sig auð og þolir engum að mótmæla sér. Þeir sleppa best sem fara í fangelsi. Aðrir deyja af sjaldgæfum sjúkdómum eða detta út um glugga í háhýsum. Rússum er því vorkunn að þora ekki að mótmæla. Enginn gerir það nema einu sinni.
Ég er ánægður með að íslenskir alþingismenn hafa allir sem einn tekið stöðu með úkraínsku þjóðinni. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur látið rödd Íslands hljóma skýrt gegn ranglætinu og yfirganginum. Á sama tíma er skelfilegt að sjá fólk á Íslandi, fólk sem er hvorki kjánar né illa innrætt að því að vitað sé, bera í bætifláka fyrir illmennið. Það kemur kannski ekki á óvart að gamlir kommar segi að innrásin sé NATO að kenna, því þjóðum Austur-Evrópu hafi verið hleypt inn í bandalagið. Rökum er snúið við að gömlum sið. Sá sem vill verja sig gegn hættunni, sem nú blasir við öllum, er sökudólgurinn. Svona voru gömlu kommarnir heilaþvegnir í áratugi. En þegar fólk, sem hefur áður stutt frelsi og rétt einstaklinga talar svona, verður manni illt. Maður skilur hvernig sögurnar um umskiptinga urðu til.
Kútur lítill, mömmusveinn
Á hádegi á föstudegi í júlí leiddi stolt móðir Lizu, litla fjögra ára stelpu, yfir Sigurtorg í Vinnytsia, suðvestur af Kænugarði, borg sem var fjarri framlínunni og hafði enga hernaðarlega þýðingu. Stelpukrílið ýtti bangsanum sínum í bleikri kerru á undan sér, ákvað að taka hann með sér í talkennslu í Lego-klúbbnum. Allt í einu heyrðist hljóð sem Liza litla hafði aldrei heyrt áður og á aldrei eftir að heyra aftur. Loftvarnarflautur gullu og sprengja klauf loftið.
Pútín gat matast stoltur við langa borðið sitt þetta kvöld því að skeytið náði bæði Lizu og bangsanum. Kannski voru ekki allir liðsmenn hans jafnhreyknir, hafi þeir heyrt af þessu afreki yfirhöfuð. Þeir gætu tekið undir með hermanninum í snilldarljóði Kristjáns frá Djúpalæk um Slysaskot í Palestínu. Ég skipti Breta út fyrir Rússa og setti inn Úkraínu fyrir Palestínu. Boðskapur Kristjáns endurómar.
SLYSASKOT Í [ÚKRAÍNU]
Lítil stúlka. Lítil stúlka.
Lítil svarteygð, dökkhærð stúlka
liggur skotin.
Dimmrautt blóð í hrokknu hári.
Höfuðkúpan brotin.
Ég er [Rússi], dagsins djarfi
dáti, suður í [Úkraínu],
en er kvöldar klökkur, einn,
kútur lítill, mömmusveinn.
Mín synd var stór. Ó, systir mín.
Svarið get ég, feilskot var það.
Eins og hnífur hjartað skar það,
hjarta mitt, ó, systir mín,
fyrirgefðu, fyrirgefðu,
anginn litli, anginn minn.
Ég ætlaði að skjóta hann pabba þinn.
Lestu meira um árið 2022:
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
4. janúar 2023Árið þegar hugrekkið minnti á mikilvægi sitt
-
3. janúar 2023Orku- og veitumál í brennidepli
-
3. janúar 2023Stöndum vörð um velferðarsamfélagið
-
2. janúar 2023Farsælt starf er gefandi
-
2. janúar 2023Framtíðin kemur ekki af sjálfu sér
-
2. janúar 2023Loftslagsannáll 2022
-
2. janúar 2023Nýársheiti og hvernig skal brjóta þau
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
1. janúar 2023Það er bara eitt kyn – Mannkyn