Sennilega er því þannig farið um flesta við áramót að hugleiða atburði og reynslu hins liðna á sama tíma og horft er með eftirvæntingu til þess sem í vændum er. Víst er það einnig þannig að mörg okkar taka slíkum tímamótum með blendnum huga ef til vill sökum persónulegrar reynslu og jafnvel með kvíða gagnvart því ókomna. Þetta er hið mannlega hlutskipti – það sagði enginn að það væri alltaf auðvelt.
Hugtakið „óvissa“ er það sem ég staldra einkum við á þessum tímamótum. Á árinu sem nú er að líða jókst óvissa til mikilla muna í næsta nágrenni okkar og þeirri stöðu mála hafa fylgt og munu fylgja miklar breytingar hér á landi.
Stöldrum fyrst við innrás Rússa í Úkraínu í þeim tilgangi að láta drauma Vladímírs Pútíns um endurreisn keisaradæmis verða að veruleika. Hryllileg ákvörðun þessa valdamanns hefur kostað hundruð þúsunda mannslífa, stökkt sjö milljónum manna á flótta frá heimkynnum sínum, skapað raunverulega hættu á kjarnorkustríði og kallað efnahagslegar hörmungar yfir milljónir heimila. Hún er enn ein áminningin um þær hörmungar sem stjórnmálamenn geta valdið með ákvörðunum sínum og þær eru ekki bundnar við einræðisríki á borð við Rússland. Svart-hvít heimsmynd er ávísun á ógæfu og blind fylgispekt við þau öfl sem hana boða leiðir til hörmunga.
Ánægjulegur samhugur
Hér á landi höfum við góðu heilli verið í færum til að koma Úkraínubúum til hjálpar. Horft yfir árið sem senn er liðið hefur mér þótt sérlega ánægjulegt að verða vitni að þeim samhug sem ríkir gagnvart því verkefni að taka sem best á móti flóttafólki frá Úkraínu. Þann 1. desember voru 2.300 úkraínskir ríkisborgarar skráðir til heimilis á Íslandi. Ég er þess fullviss að Íslendingar munu áfram taka á móti Úkraínufólk af gestrisni. Því miður bendir fátt til þess þegar þetta er skrifað að rússneski einræðisherrann hyggist láta af viðurstyggilegum grimmdarverkum í Úkraínu. Ljóst er að við Íslendingar þurfum áfram að vera tilbúnir til að halda dyrum okkar opnum fyrir þau sem neyðast til að yfirgefa heimaland sitt og híbýli vegna siðleysis og árásargirni rússneska einvaldsins og herafla hans.
Koma flóttafólks frá Úkraínu helst í hendur við mikla fjölgun erlendra ríkisborgara hér á landi á undan liðnum árum. Þann 1. desember 2022 voru erlendir ríkisborgarar 17,7% þeirra sem Ísland byggja. Þetta eru mikil og nánast ótrúleg umskipti. Ég er í hópi þeirra sem fagna fjölbreytni og þeim jákvæðu menningaráhrifum sem innflytjendum fylgja. Á hinn bóginn verður tæpast sagt að samfélagið hafi verið vel undir þessa breytingu búið. Innviðir í landinu eru margir í óviðunandi ástandi og við blasir að mörg grunnkerfa samfélagsins ráða tæpast við að mæta þessum umskiptum. Ónóg fjárfesting í velferð og innviðum gerir þessa þróun um margt erfiðari en hún hefði þurft að vera. Þar verða stjórnvöld að gera betur og um leið sjá til þess að hér sé réttlátt skattkerfi, að hinir tekju- og eignamestu komist ekki hjá því að greiða fyrir velferð og innviði.
Nálgast má ófremdarástand í húsnæðismálum víða um land en einkum á höfuðborgarsvæðinu frá sama sjónarhorni. Atvinnurekendur upplýsa að þá skorti vinnuafl en um leið blasir sú spurning við; hvar á þetta fólk að búa? Við getum ekki, eigum ekki og megum ekki sætta okkur við að gámabyggðir og annars konar bráðabirgðahúsnæði verði viðtekin lausn hér á landi. Það ástand sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði síðustu misserin og einkennst hefur af gríðarlegri hækkun fasteignaverðs er með öllu óþolandi og ekki boðlegt.
Loforð og efndir
Stjórnvöld boða nú skilvirkari og skarpari viðbrögð en oft áður. Í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði sem undirritaðir voru nú í desember hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði og koma til móts við þarfir ólíkra hópi á því sviði. Stefnt er að byggingu 35 þúsund íbúða á næstu tíu árum og sérstakar aðgerðir eru boðaðar til að koma til móts við láglaunafólk og leigjendur. Það er fagnaðarefni að þessi skuldbinding liggi fyrir en ekki verður hjá því komist að minna á að orð og efndir hafa ekki alltaf farið saman þegar aðkoma stjórnvalda að samningum er annars vegar. Þannig eru enn óuppfyllt nokkur þeirra fyrirheita sem stjórnvöld gáfu við gerð lífskjarasamningsins svonefnda árið 2019. Það verður eitt verkefna okkar í forystu verkalýðshreyfingarinnar að þrýsta á forystufólk í samfélaginu um að hrinda þessum áformum í framkvæmd fljótt og vel.
Kjarasamningarnir sem undirritaðir voru nú í desember marka tímamót að því leyti að þeir tryggja samfellu í launahækkunum á milli samningstímabila án þess að keðjan hafi rofnað og þar með stöðvað kaupmáttarbruna síðustu mánaða. Það er fagnaðarefni að loks skuli hafa tekist að tryggja slíka samfellu í gerð kjarasamninga í landinu. Í mínum huga var það góð ákvörðun að semja til skamms tíma við þær aðstæður sem nú ríkja og einkennast af óvissu.
Fálæti íslenskra stjórnvalda
Á hinn bóginn er í mínum huga enginn vafi á því að aðkoma stjórnvalda hefur verið með öllu ófullnægjandi þegar horft er til þeirrar lífskjaraskerðinga sem mikil verðbólga samfara gríðarlegum hækkunum á margvíslegum nauðsynjum hefur valdið. Í nágrannaríkjum okkar og víða á Vesturlöndum fær nú „afkomukreppa” almennings óskerta athygli stjórnmálafólks og fjölmiðla. Gríðarlegar hækkanir á nauðsynjum á borð við orku og matvæli hafa víða skapað ástand sem ekki sér fyrir endann á og ástæða er til að hafa þungar áhyggjur af.
Hér á landi ríkir um margt sambærilegt ástand þótt orkukostnaður hafi vissulega ekki rokið upp á sama veg og í mörgum nágrannalöndum. Á hinn bóginn hafa íslensk stjórnvöld ekki sýnt nægjanlega viðleitni til að milda þau högg sem afkoma almennings hefur orðið fyrir sökum verðbólgu og margvíslegra kostnaðarhækkana. Fjölmiðlar hafa sömuleiðis ekki sýnt málinu nægilegan áhuga. Nú um áramótin ríða yfir miklar hækkanir á nauðsynjum sem koma munu illa við fólkið í landinu og ekki er að efa að víða verður erfitt að láta enda ná saman. Það er með öllu óskiljanlegt að stjórnvöld sýni afkomu almennings þvílíkt fálæti og hleypi athugasemdalaust í gegn jafn miklum hækkunum og raun ber vitni. Á stundum er engu líkara en núverandi ríkisstjórn kunni engin ráð önnur en að hækka álögur og auka skattheimtu. Við þær aðstæður sem nú ríkja verður seint sagt að eðlileg forgangsröðun ráði framgöngu forystufólks í íslenskum stjórnmálum.
Afkomukreppan hér á landi sker sig raunar frá þeirri sem ríkir víðast hvar erlendis þar sem Seðlabanki Íslands hefur hækkað vexti ört og skipulega, sami banki og lofaði nýju framfaraskeiði í sögu þjóðar á grundvelli lágra vaxta. Forystufólk bankans boðar frekari hækkanir takist ekki að ná verðbólgu niður. Háir vextir hafa valdið miklum fjölda fólks þungum búsifjum síðustu misserin og því miður verður þess ekki vart að nokkur vilji sé til að hverfa frá þessari helstefnu. Aftur hljótum við að staldra við fálæti ráðandi afla á sérlega krefjandi tímum.
Ákvarðanir og aðgerðaleysi
Ljóst er að verkalýðshreyfingin mun ekki geta horft aðgerðalaus á yfirgengilegar hækkanir nauðsynja og vaxta. Hún mun leitast við að veita nauðsynlegt aðhald gagnvart versluninni í landinu en ekki síður er mikilvægt að hún láti sig varða ákvarðanir eða aðgerðaleysi stjórnmálafólks, jafnt í ríkisstjórn sem á sveitarstjórnarstigi, þegar yfir ríða hækkanir í formi hvers kyns gjalda og skatta.
Við lifum óvissu- og átakatíma. Í verkalýðshreyfingunni stöndum við frammi fyrir krefjandi verkefnum í upphafi nýs árs. Ég mun hér eftir sem hingað til vera talsmaður samstöðu launafólks og ljóst er að við megum hvergi hvika í sameiginlegri baráttu okkar fyrir bættum kjörum og afkomu almennings við þær aðstæður sem nú ríkja. Við göngum bjartsýn til þeirra verka í þeirri vissu að verkalýðshreyfingin verði áfram helsta afl breytinga og framfara í landinu.
Höfundur er forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Rafiðnaðarsambandsins.