Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, saman sett af Vinstri grænum. Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, hefur verið mynduð. Í stjórnarsáttmála er samstarf þriggja flokka, sem spanni litróf íslenskra stjórnmála, sagt skapa „jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara.“
Sáttmálinn er sagður leiðarstef stjórnarinnar, sem ætlar að „vaxa til meiri velsældar“ og vera um „efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða“.
Síðast þegar þessir flokkar mynduðu ríkisstjórn sagði í sáttmála þeirra að tilgangur hennar væri að „byggja upp traust í samfélaginu og efla innviði ásamt því að tryggja pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika.“
Nú sé staðan hins vegar önnur og samstarfið sagt snúist um að horfa til framtíðar.
Við lestur nýs stjórnarsáttmála er hins vegar erfitt að ráða í hver sú framtíðarsýn sé.
Sundabraut og andstaða við Evrópusambandið
Þegar Einar Þorsteinsson, stjórnandi Kastljóss, benti Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á það á mánudag að stjórnarsáttmálinn væri opinn fyrir túlkunum og margt í honum væri almennt orðað sagði Katrín að það væri „eðli allra stjórnarsáttmála.“
Það þarf þó ekki að vera þannig, og er sannarlega ekki alltaf svoleiðis. Ný græn, frjálslynd félagshyggjustjórn sem mynduð var í Þýskalandi setti sér til að mynda skýra forgangsröð. Hún ætlar að hækka lágmarkslaun um 25 prósent, setja á afkomutryggingu (eða borgaralaun) fyrir hina verst settu, verða leiðandi í heiminum í loftslagsmálum, færa kosningarétt niður í 16 ár, lögleiða kannabis, taka á móti fleiri flóttamönnum og gera meira fyrir þá og ráðast í stórátak í uppbyggingu á húsnæði á viðráðanlegu verði. Þetta ætlar hún að gera án þess að hækka skatta eða auka skuldir þýska ríkisins.
Fjármálafrumvarpið sem ríkisstjórnin kynnti á miðvikudag staðfesti það svo enn frekar að helsta stefnumál sitjandi ríkisstjórnar er að breyta sem minnstu.
„Andstæðingar“ Vinstri grænna
Í Kastljósinu á mánudag var Katrín spurð um þau mál sem túlkuð hafa verið sem eftirgjöf Vinstri grænna í endurnýjuðu stjórnarsamstarfi. Þar var sérstaklega vísað í að umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytið hafi verið eftirlátið Sjálfstæðisflokki, sem fékk alls 21 stig af 100 mögulegum í mati sem framkvæmt var á vegum Ungra umhverfissinna fyrir stefnu sína í umhverfis- og loftslagsmálum fyrir síðustu kosningar. Til samanburðar fengu Píratar alls 81,2 stig, Vinstri græn fengu 80,3 stig og Viðreisn fékk 76,3 stig.
Að reynt sé að láta sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft mikinn áhuga á umhverfis- og loftslagsmálum áður en að málaflokkurinn varð arðbært viðskiptatækifæri er í besta falli broslegt. Það þarf ekki annað en að lesa ritstjórnarskrif fyrrverandi formanns flokksins til 14 og hálfs árs, og áhrifamanns þar innanbúðar í mörg ár eftir það, í Morgunblaðinu til að sjá að þar fer maður sem beinlínis trúir ekki á tilurð manngerðs loftslagsvanda.
Auk þess var bent á að eitt helsta stefnumál Vinstri grænna, stofnun Miðhálendisþjóðgarðs, er nú orðið að útþynntri og takmarkaðri lausn en sú sem flokkurinn hefur barist fyrir. Þessari gagnrýni svaraði forsætisráðherra meðal annars svona: „Ég heyri þetta auðvitað frá okkar andstæðingum. Það er ekkert nýtt.“
„Andstæðingarnir“ sem gert hafa þessar athugasemdir koma frá vinstra hólfi stjórnmála á Íslandi sem finnst Vinstri græn hafa yfirgefið þá félagshyggju sem flokkurinn segist í orði standa fyrir. Þeir koma úr félagasamtökum eins og Landvernd, sem sagði í yfirlýsingu í vikunni að áform um uppbyggingu vindorkuvera utan rammaáætlunar og áform um að „ganga gegn áliti fagaðila um röðun í flokka rammaáætlunar III“ væru í raun „stríðsyfirlýsing“. Þeir koma úr hópi fólks sem berst fyrir heildarendurskoðun á stjórnarskrá, líkt og Vinstri græn gerðu áður en flokkurinn hóf yfirstandandi stjórnarsamstarf.
Gagnrýnin kemur því úr ranni „vinstri“, „grænna“ og umbótasinnaðra. Það er merkileg yfirlýsing frá formanni Vinstri grænna að það séu andstæðingar flokksins í pólitík í dag.
Bremsa frekar en bensíngjöf
Þessi „andstæðingar“ eru að uppistöðu fólk sem hefur talið Katrínu vera einstakan pólitískan leiðtoga sinnar kynslóðar sem hafi getu, gáfur og skírskotun til að leiða umbreytingarstjórn í íslensku samfélagi þar sem hagsmunir heildar eru settir ofar hagsmunum útvalinna.
Vonbrigði þess stafa af því að Katrín hafi valið að fara ekki þá leið, en þess í stað ákveðið að starfa með áður skilgreindum höfuðandstæðingi sínum í stjórnmálum með það að leiðarljósi að sæti við enda ríkisstjórnarborðsins dugi til að draga úr allra verstu pólitísku hvötum hans. Vera bremsa í stað þess að vera bensíngjöf.
Auðvitað liggur sökin ekki einvörðungu hjá Katrínu eða Vinstri grænum. Hinum stjórnmálaflokkunum sem aðhyllast félagshyggju, kerfisbreytingar og aukið frjálslyndi hefur einfaldlega mistekist að gera sig nægilega aðlaðandi til að sækja nægjanlegt fylgi í kosningum til að skýr valkostur frá miðju til vinstri liggi fyrir. Fyrir vikið hefur ríkt viðvarandi stjórnarkreppa í landinu árum saman sem leitt hefur af sér það pólitíska furðuverk sem sitjandi ríkisstjórn er.
Að því sögðu þá var félagshyggjuvalkosturinn til staðar núna. Hann var bara erfiðari leið. Og hana voru Vinstri græn aldrei tilbúin að fara.
Gagnsæi, aftur
Ein mestu vonbrigðin við stjórnarsáttmála kyrrstöðustjórnarinnar er nær engar líkur eru á því að ráðist verði í nauðsynlegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfi sem einungis 14 prósent þjóðarinnar er ánægt með og tveir af hverjum þremur telja að sé hrein og bein ógn við lýðræðið í landinu.
Í sáttmálanum segir að skipuð verði nefnd til að „kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.“
Þar segir einnig að nefndin eigi að fjalla um „hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins.“
Þetta er merkingarlaust orðasalat.
Nú má rifja upp að nefnd var skipuð á síðasta kjörtímabili, og vinnu hennar hastað eftir að Samherjamálið kom upp í nóvember 2019. Á meðal aðgerða sem átti að grípa til var að auka gagnsæi í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum. Ekkert af þessu gekk eftir á síðasta kjörtímabili. Allar tilraunir til breytinga voru kæfðar. Veiðigjöld eru enn allt of lág, stærstu sjávarútvegsfyrirtækin komast enn upp með að halda á miklu meiri kvóta en andi laga segir til um (tíu stærstu halda á tveimur þriðja hluta hans), fullkomið ógagnsæi ríkir víða um hvar í virðiskeðjunni fyrirtækin taka út hagnað af nýtingu auðlindarinnar og niðurstaðan er sú að í fyrra gerðist það í fyrsta sinn að sjávarútvegur greiddi minna í beina skatta og gjöld en hann greiddi eigendum sínum í arð. Ofurstéttin heldur áfram að vaxa, verða ríkari og áhrifameiri og vaxa inn í aðra geira atvinnulífsins.
Bankasala og einkavæðing innviðaframkvæmda
Áfram á að selja banka þrátt fyrir að könnun sem Gallup gerði fyrr á árinu sýndi að einungis kjósendur eins flokks, Sjálfstæðisflokks, væru fylgjandi sölu Íslandsbanka. Kjósendur allra annarra flokka voru að meirihluta á móti henni. Um 56 prósent landsmanna voru á móti henni og 23 prósent þeirra fylgjandi. Alls sögðust 65 prósent kjósenda Vinstri grænna vera á móti sölunni.
Sérstaklega er tiltekið í stjórnarsáttmálanum að horfa þurfi til þess hvernig megi auka þátttöku lífeyrissjóða í innviðafjárfestingum. Kjarninn greindi frá því um síðustu helgi að sjóðstýringafyrirtækið Summa sé þegar byrjað á vinnu við uppsetningu á slíkum sjóði sem ætli að bjóða lífeyrissjóðum upp á að fjárfesta í hagrænum og félagslegum innviðum á Íslandi. Ávöxtunarkrafan þar á að vera allt að tíu prósent raunávöxtun á meðan að ríkissjóður getur fjármagnað sig á undir eins prósents vöxtum. Ekki þarf að koma á óvart þó aðrir einkafjárfestar muni slæða sér með í þessi verkefni, sem í felst bæði að sækja einkafjármagn til uppbyggingu hagrænna og félagslegra innviða eins og á sviði heilbrigðis, menntunar og menningu.
Auk þess á að ráðast í að sameina Samkeppniseftirlitið öðrum stofnunum, en það eftirlit, sem hefur það hlutverk að koma í veg fyrir fákeppni og einokun með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi á okkar örmarkaði, hefur verið mikill þyrnir í augum hagsmunagæsluaðila stærstu fyrirtækja landsins árum saman.
Eitt stærsta þjóðþrifamál sem við stöndum frammi fyrir er stórfelld sameining sveitarfélaga svo þau sem eftir standi geti ráðið við að bjóða upp á þá þjónustu sem íbúar þeirra þurfa. Svo er ekki í dag og það vita allir sem þetta skoða að þetta viðfangsefni þolir enga frekari bið. Stærsta hindrunin er smákóngaveldi sem kostar milljarða króna á ári og hefur þann eina tilgang að verja eigin völd og afkomu. Í stjórnarsáttmálanum er einungis lagt upp með það að nýta fjárhagslega hvata til að reyna að fá sveitarfélög til að sameinast. Það er fjarri því nóg.
Allar þessar áherslur eru hrein og tær hægri og íhalds-pólitík.
Vald, ekki þjónusta
Samandregið þá hefur verið mynduð ríkisstjórn um það að stjórna, ekki leiða. Ríkisstjórn um vald en ekki þjónustu við almenning.
Hún hefur takmarkaða sameiginlega sýn en ráðherrar hennar ætla að reyna að ná sínu fram í gegnum ráðuneytin sem þeim er falið að stýra. Sumum ráðuneytum virðist hreinlega hafa verið klístrað saman á lokametrum samningaviðræðna með það fyrir augum að koma sérstökum hugðarefnum ákveðinna ráðherraefna undir þeirra stjórn án tillits til þess hversu vel þau hugðarefni passi heildrænt saman innan ráðuneytis. Eða með það fyrir augum að halda verstu pólitísku hvötum ákveðinna ráðherra í skefjum.
Úr verður hrærigrautur á versta tíma. Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir á sviði loftslagsmála, félagshyggju, jafnréttis, vinnumarkaðar, húsnæðismála og vegna tækniframþróunar kalla á skýra stefnu og sterka framtíðarsýn.
Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðist ekki ætla að bjóða upp á það.
Og það er verulega miður.