Stýrivextir voru hækkaðir í gær. Þeir eru nú 2,75 prósent. Í sögulegu samhengi er það ekki hátt. Þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir vorið 2019 voru þeir til að mynda 4,5 prósent og þegar kórónuveirufaraldurinn skall á snemma árs 2020 voru þeir á nákvæmlega sama stað og þeir eru í dag, 2,75 prósent.
Ástæðan fyrir skörpum vaxtahækkunum undanfarið – þeir hafa hækkað um heil tvö prósentustig frá því í maí í fyrra – er öllum augljós. Verðbólga hefur hækkað langt umfram spár og er nú 5,7 prósent. Hluti hennar er innflutt og ómögulegt fyrir okkur að hafa áhrif á. En hluti er heimatilbúinn. Þar vigtar þróun húsnæðisverðs mest, enda væri verðbólgan 3,7 prósent án hennar.
Það er vert að velta því fyrir sér á þessum tímapunkti hvernig til hafi tekist í baráttunni við efnahagslegar afleiðingar faraldursins. Hvað hafi verið gert rétt, hvað hefði átt að gera betur og hvaða afleiðingar þetta hefur allt saman haft.
Síðast en ekki síst þarf að skoða hvernig á að takast á við þær afleiðingar.
Það sem stjórnvöld gerðu
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á ákváðu ríkisstjórnin og Seðlabankinn að grípa til ýmissa örvunaraðgerða. Ríkisstjórnin lækkaði til að mynda bankaskatt þannig að hann skilaði rúmum sex milljörðum krónum minni tekjum í ríkissjóð á árinu 2020. Í fyrra hefði gamla skattprósentan skilað svipuðum viðbótartekjum og í ár bendir allt til þess að eftirgefnar tekjur vegna lækkunar skattsins verði enn hærri. Þarna er um að ræða hátt í 20 milljarða króna sem ríkið eftirlét bönkum til ráðstöfunar í stað þess að nýta þá til annarra samfélagslegra verka. Stjórnvöld hafa auk þess ýtt fast á eftirspurnarhliðina með skattaafsláttum, skattalækkunum, innleiðingu hlutdeildarlána og framlengingu á nýtingu skattfrjáls séreignarsparnaðar til að borga niður íbúðalán.
Seðlabankinn afnam hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka, sem jók útlánagetu banka um mörg hundruð milljarða króna. Samhliða því lækkaði hann stýrivexti skarpt, að endingu niður í 0,75 prósent. Yfirlýstur tilgangur var að bankarnir væru í betri færum til að hjálpa fyrirtækjum í vanda með ódýrt lánsfé og að auka ráðstöfunarfé heimila svo einkaneysla gæti fyllt upp í gatið sem skapaðist þegar ferðaþjónustan hvarf á einni nóttu.
Raunveruleikinn varð allt annar.
Heimilin skuldsetja sig
Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír; Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, græddu um 30 milljarða króna samanlagt á árinu 2020. Í fyrra græddu þeir yfir 80 milljarða króna. Þetta gerðu þeir með því að stórauka hagnað af vaxtatekjum, aðallega vegna þess að heimili landsins skuldsettu sig um 450 nýja milljarða króna til viðbótar við það sem þau skulduðu áður, til að kaupa sér þak yfir höfuðið. Vaxtamunur banka lækkaði ekki sem neinu nemur í þessu ástandi þótt verulegt svigrúm hafi verið til þess. Hann er enn miklu hærri en í hinum Norðurlöndunum.
Hins vegar juku bankarnir þóknanatekjur sínar, sem meðal annars eru greiddar fyrir milligöngu þeirra á hlutabréfamarkaði. Frá því um miðjan mars 2020 og fram að síðustu áramótum hækkaði úrvalsvísitala Kauphallar Íslands um 114 prósent. Í fyrra hækkuðu bréf í öllum félögum sem skráð eru á aðalmarkað.
Ákvörðun bankanna að nota svigrúmið sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn færði þeim í að dæla peningum í íbúðalán spilaði stóra rullu í því að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 27 prósent á tveimur árum, sem leiddi aftur til þess að verðbólga hækkaði skarpt.
Afleiðingin: aukin verðbólga
Nú er verðbólgan, líkt og áður sagði, 5,7 prósent. Verðbólguhorfur hafa versnað hratt og Seðlabankinn gerir ráð fyrir að það taki langan tíma fyrir hana að hjaðna. Fyrir utan það að verðbólga rýrir virði peninganna sem fólk er með í vasanum eða á bankareikningum – vörur og þjónusta verður dýrari en ráðstöfunarféð stendur í stað – þá hefur hún gríðarleg áhrif á afborganir íbúðalána. Þær hækka um mörg hundruð þúsund krónur á ári í mörgum tilvikum.
Þeir sem eru með verðtryggð lán borga verðbólguna ofan á vextina sína. Verðtryggð lán íslenskra heimila voru um eitt þúsund milljarðar króna í lok september síðastliðins. Lágu vextirnir og stóraukið framboð af lánsfé frá bönkum gerðu það að verkum að heimilin flykktust í óverðtryggð lán. Alls var heildarumfang slíkra lána 1.130 milljarðar króna í lok september í fyrra og um 700 milljarðar króna af óverðtryggðum lánum voru með breytilega vexti, eða 62 prósent þeirra. Það þýðir að þegar Seðlabankinn hækkar stýrivexti, og lánalánveitendur hækka í kjölfarið íbúðalánavexti í takti við það, þá annað hvort hækka afborganir þeirra sem eru með slík lán umtalsvert eða sá hluti þeirra sem fer í að greiða vexti frekar en að greiða niður lánið dregst saman.
Það má vel vera að samanlagt hreint eigið fé heimila í landinu hafi aukist vegna þessara aðgerða, en það er alveg á hreinu að staða lægri tekjuhópa, þeirra sem eru ekki á eignamarkaði eða spenntu sig verulega til að komast inn á hann, hefur versnað gríðarlega fyrir vikið.
Nauðsyn þess að sýna auðmýkt
Allt ofangreint er tilkomið vegna ákvarðana stjórnvalda og Seðlabanka Íslands. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri brást samt sem áður ókvæða við þegar hann var spurður í gær hvort bankinn hefði ekki valdið verðhækkunum á húsnæðismarkaði með þeim ákvörðunum sem hann tók 2020. Hann sakaði þá sem beindu sök að Seðlabankanum um minnisleysi og að aðgerðirnar hefðu skilað góðum árangri við að verja kaupmátt og atvinnusköpun með því að lækka vexti og kaupa gjaldeyri fyrir 200 milljarða króna á tveimur árum til að verja krónuna frá falli. Hann hefði reyndar mátt bæta við að þær hafi skilað gríðarlega góðum árangri fyrir fjármagnseigendur, en sleppti að minnast á það. Komum betur að því síðar.
En það útilokar ekki að þessar aðgerðir hafi haft aðrar afleiðingar. Ein þeirra afleiðinga er augljóslega sú að húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega sem leitt hefur af sér mikla og viðvarandi verðbólgu. Um það þarf vart að deila og hrokafullt viðmót seðlabankastjóra við eðlilegum spurningum þar um er ekki stórmannlegt, né til þess gert að auka traust. Menn í jafn áhrifamiklum stöðum verða að geta sýnt auðmýkt þegar um ræðir afleiðingar ákvarðana sem hafa bein áhrif á lífsgæði fjölda fólks.
Bankarnir hlægja alla leiðina í bankann
Kerfislega mikilvægu viðskiptabankarnir þrír bera mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Þeir hafa, með ákvörðunum sínum, hagnast gríðarlega á stóraukinni skuldsetningu heimila.
Þegar sveiflujöfnunaraukinn var afnuminn vorið 2020 brýndi Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans í yfirlýsingu sinni fyrir bönkunum að þeir myndu taka tillit til þeirrar miklu óvissu sem uppi var í þjóðarbúskapnum við ákvörðun um útgreiðslu arðs og endurkaup á eigin hlutabréfum á komandi misserum.
Fallið var frá þessari hvatningu síðar á árinu 2020. Fyrir vikið greiðir Arion banki, eini kerfislega mikilvægi bankinn sem ríkið á ekki ráðandi hlut í, 58 milljarða króna til hluthafa sinna í formi arðs og endurkaupa á eigin bréfum á árunum 2021 og 2022. Bankinn hefur áform um að skila um 30 milljörðum krónum í viðbót til hluthafa í nánustu framtíð. Samanlagt gera það allt að 88 milljarðar króna. Arion hefur nú tekið upp bónuskerfi til að verðlauna starfsmenn sína fyrir þessa galdramennsku. Kostnaður við það var 1,6 milljarðar króna í fyrra. Starfsmenn fá líka kauprétt á bréfum í bankanum á verði sem er helmingur af markaðsvirði bankans í dag.
Þótt Arion banki sé leiðandi í arðgreiðslum og endurkaupum þá er það gegnumgangandi fyrirbæri hjá félögum sem skráð eru í Kauphöllina.
Nánast öll þeirra starfa einungis á Íslandi og hafa tekjur sínar af því að selja íslenskum heimilum og fyrirtækjum vörur eða þjónustu, stundum lögbundna. Þau starfa á fákeppnis- eða einokunarmörkuðum sem oftast nær er skipt upp á milli þriggja til fjögurra fyrirtækja og eru varin fyrir erlendri samkeppni með sveiflukenndri krónu.
Peningarnir sem frúin í Hamborg gaf
Kauphöllin tekur ekki lengur saman upplýsingar um hversu mikið félög skráð á markaði greiða samtals í arð eða nota til að kaupa eigin bréf til baka, og skila þannig fjármunum til hluthafa sinna. Innherji, undirvefur á Vísi sem fjallar um viðskipti, tók hins vegar saman upplýsingar um það skömmu fyrir áramót og samkvæmt þeirri úttekt greiddu félög skráð í Kauphöll meira en 80 milljarða króna út í arð og í endurkaup á eigin bréfum á síðasta ári. Það er aukning upp á tæplega 50 milljarða króna milli ára.
Í sömu úttekt kom einnig fram að sennilegt sé að arðgreiðslur og endurkaup aukist gríðarlega á árinu 2022 og verði á bilinu 150 til 200 milljarðar króna.
Það þýðir að á tveimur árum hefur félögunum sem skráð eru í markað ekki dottið neitt betra í hug að gera við peningana sína en að skila þeim til hluthafa. Engin vaxtatækifæri sem vert er að nýta, fjárfestingar til að ráðast í fyrir þetta fé, ekkert verð á vörum eða þjónustu sem vert er að lækka.
Bara græða á Covid og eignasölu og skila seðlunum til hluthafa.
Hlutverk stjórnvalda
En hvernig á þá að takast á við þessa stöðu? Þá staðreynd að viðkvæmustu hóparnir, þeir sem eru með lág laun, eru á leigumarkaði eða þurftu að spenna sig mjög til að komast inn á fokdýran húsnæðismarkað (aðallega ungt fólk), fóru verst efnahagslega út úr faraldrinum en þeir sem áttu fjármagn og eignir fyrir mokgræddu á þessu ástandi?
Um þetta ætti pólitíska umræðan að snúast. Hvernig eigi að bregðast við.
Það sem þarf að gera
Ein augljós leið er að skattleggja ávinninginn af kreppuaðgerðunum og nota ávinninginn til að „hjálpa ákveðnum hópum sem fara illa út úr þeirri þróun sem er að eiga sér stað“.
Hér þarf ekkert verið að finna upp hjólið. Í Bretlandi er Verkamannaflokkurinn til að mynda að kalla eftir svokölluðum hvalrekaskatti (e. windfall tax) á orku- og olíufyrirtæki sem hafa hagnast gríðarlega á hækkun á vörum sínum sem rekja má til afleiðinga faraldursins. Spánn hefur þegar ákveðið að leggja slíkan skatt á orkufyrirtæki.
Ríkisstjórn Tony Blair lagði á slíkan skatt seint á tíunda áratug síðust aldar. Hann lagðist þá á fyrirtæki sem ríkisstjórnir Íhaldsflokksins höfðu einkavætt frá árinu 1979 á grundvelli þess að þau hefðu verið seld á undirverði. Þar var um að ræða orkufyrirtæki, veitufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki og rekstraraðila flugvalla. Íhaldsflokkurinn lagði sambærilegan skatt á banka árið 1981 á grundvelli þess að þeir hefðu hagnast óhóflega á háum stýrivöxtum. Sama ríkisstjórn setti síðar sérstakan skatt á olíufyrirtæki og slík sem starfa í Norðursjó greiða raunar öll mun hærri skatta en önnur fyrirtæki í Bretlandi.
Hugmyndin á bak við þessar leiðir er að skattleggja hagnað fyrirtækja sem varð að uppistöðu ekki til vegna hugvits, metnaðar eða útsjónarsemi, heldur vegna heppni eða afleiðinga af aðgerðum stjórnvalda.
Á Íslandi er skýrasta dæmið um fyrirtæki sem hægt væri að leggja slíkan skatt á bankar, sem fengu aukið svigrúm vegna þess að spár gerðu ráð fyrir að þeir myndu tapa peningum fram á árið 2022 hið minnsta, en högnuðust í staðinn um vel yfir 100 milljarða króna á tveimur árum. Annað dæmi er sjávarútvegur, sem borgar eigendum sínum meira í arð en hann greiðir í sameiginlega sjóði fyrir að nýta sameign þjóðarinnar. Svo væri auðvitað hægt væri að skattleggja arðgreiðslur og endurkaup á hlutabréfum sérstaklega.
Afrakstur þeirrar skattlagningar gætu stjórnvöld notað til að sinna sínu hlutverki í gangverkinu. Að mæta ójafnri tekjuskiptingu og ójafnri eignaskiptingu.
Þannig gætu þau tekist á við afleiðingar ákvarðana sinna.