Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu er stærsta stéttarfélag opinberra starfsmanna á Íslandi með um 13 þúsund félaga þannig að fjölmargt gerist á vinnumarkaði sem snertir svo stóran hóp.
Framfærslukrísa almennings
Almenningur hefur fengið að finna fyrir áhrifum hagstjórnarmistaka ríkisstjórnarinnar og seðlabankastjóra á þessu ári. Við skulum minnast þess að almenningur er ekki ábyrgur fyrir hagstjórn landsins, líkt og ríkisstjórnin og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telja. Hann hefur sagt með hrokafullum hætti að almenningur eigi að hætta að eyða peningum á meðan hann sjálfur, í sínum sjálfstæðu störfum, hækkar stýrivexti bankans með þeim afleiðingum að launafólk nær ekki endum saman milli mánaða og kostnaður við rekstur heimilanna hefur aldrei verið meiri.
Seðlabankastjóri hefur haldið því fram að almenningur eigi að herða sultarólina á meðan hans eigin gjörðir hafa leitt til hækkunar vaxta á húsnæðislánum almennings. Fólki var sagt, fyrir ekki svo löngu síðan, að fjárfesta með óverðtryggðum húsnæðislánum. Afborganir þessara lána hafa hækkað með þeim hætti að það getur endað með skelfingu fyrir lántakendur. Ýmislegt bendir til þess að á næstu misserum geti fjöldi lántakenda ekki greitt af sínum húsnæðislánum þegar losnar um frystingu fastra vaxa á þeim. Um leið er ungu fólki á lágum launum gert ómögulegt að eignast þak yfir höfuðið. Seðlabankastjóri leggur enda til að ungt fólk geti bara búið í foreldrahúsum áfram. Þessi ömurlega staða á einnig eftir að bíta fast í millitekjuhópana.
Seðlabankinn er eins og ríki í ríkinu og seðlabankastjóri telur að stéttarfélögin eigi ekki að hlusta eftir háværum kröfum launafólks um kjarabætur. Á sama tíma blasir við að vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar í að verja heimili landsins, ákvarðana hennar um að nýta ekki tekjustofna sína og aðgerða Seðlabanka Íslands, situr stór hluti almennings nú í alvarlegri framfærslukrísu. Hávær krafa er nú uppi um að verkalýðsfélögin þurfi að bregðast við af miklum þunga og ná fram kjarabótum svo almenningur geti gripið til varna í þessu tilbúna ófremdarástandi.
Áróðurinn gegn grunnþjónustunni
Það hefur varla farið fram hjá neinum að Samtök atvinnulífsins og nýfrjálshyggjan halda úti áróðri gegn velferðarkerfinu og beita sér hart gegn starfsfólki sem sinnir grunnþjónustunni. Þetta er gert með áróðri og lýðskrumi af ýmsu tagi, ásamt talnabrellum og útúrsnúningum. Því er haldið stöðugt fram að ríkið og sveitarfélögin leiði launaþróun á vinnumarkaði. Það er alrangt. Vitað er að launafólk á opinberum vinnumarkaði er langtum lægra launað en gengur og gerist á almennum markaði. Margoft hefur verið bent á að sá munur sé að meðaltali milli 16 til 17 prósent.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og kjörnir fulltrúar á Alþingi með fulltingi Samtaka atvinnulífsins halda því einnig fram að opinberum starfsmönnum fjölgi stjórnlaust. Látið er að því liggja að opinberir starfsmenn fái greidd hæstu launin á vinnumarkaðnum. Sá málflutningur er réttur og sléttur áróður gegn velferðarþjónustunni og opinberu starfsfólki. Öflugt heilbrigðiskerfi, menntakerfi, öflug samtrygging og öll sú fjölþætta opinbera þjónusta sem tryggir öryggisnet okkar allra, skapar réttar forsendur fyrir traust og vöxt í samfélagi eins og við viljum sjá það. Launakostnaður sem hlutfall af heildarútgjöldum hefur verið í kringum 31 prósent á undanförnum árum, var 32,8 prósent árið 2019 og stendur nú í 31,8 prósentum miðað við árið 2021. Hlutfallslega hefur opinberum starfsmönnum ekki fjölgað. Árið 2021 voru opinberir starfsmenn 28,2 prósent af starfandi fólki, sem er sama hlutfall og árið 2020 og svipað hlutfall og árið 2014.
Flest launafólk hjá ríkinu starfar í velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfinu. Það er að segja í þeim kerfum sem tryggja velferð og þekkingu og þar með forsendur fyrir kröftugu atvinnulífi. Það hefur margoft komið fram að okkar fámenna þjóð vill traustan samfélagslegan rekstur. Í þeirri framþróun sem samfélagið hefur verið í á undanförnum árum vekur það sérstaka athygli að hlutfall starfsfólks hjá hinu opinbera stendur í stað. Vitað er að álag í opinberum störfum hefur stóraukist og á sama tíma hefur starfsmönnum tekist að endurskipuleggja vinnubrögð og verkferla – en við sjáum einnig veikleikana. Svo hart hefur verið sótt að samfélagslegri grunnþjónustu að víða loga þar rauð viðvörunarljós núna.
Hagstjórn nýfrjálshyggjunnar á stjórnarheimilinu
Það er mikið áhyggjuefni hvernig ríkisstjórnin beitir sér við hagstjórn landsins. Á einhverjum tímapunkti eygði maður einhverja vonarglætu um að félagshyggja ætti upp á pallborðið hjá tveimur af þremur núverandi stjórnarflokkum. Að þeir myndu leggja ofuráherslu á að sameiginlegur auður þjóðarinnar yrði notaður til rekstrar á innviðum samfélagsins. Ég hef sagt áður að sú pólitík kapítalismans sem ríkir á stjórnarheimilinu er andfélagsleg. Þetta er pólitík sérhagsmuna sem hafnar velsæld fyrir alla landsmenn. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur velur að nýta ekki þá tekjustofna sem blasa við til að skapa betra samfélag. Formenn stjórnarflokkanna velja að styrkja ekki innviðina og almannaþjónustuna með því að nýta sjálfsagða tekjumöguleika ríkisins innan fjárlaganna. Tekjumöguleika eins og hátekjuskatt, bankaskatt, hvalrekaskatt og hækkun fjármagnstekjuskatts – svo ekki sé talað um sanngjarnari skattlagningu fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.
Kjarasamningar
Nú á nýju ári renna út flestir kjarasamningar á opinberum vinnumarkaði. Í samfélagi þar sem staðan er sú að hagvöxtur er kominn yfir 7 prósent, atvinnuleysið mælist með lægsta móti og hagnaður fyrirtækja og fjármagnseigenda er í hæstu hæðum, ætti almennt launafólk að getað fagnað ástandinu og góðærinu ef allt væri með felldu. Því er þó aldeilis ekki að heilsa. Almenningur býr við hagstjórn sem kallað hefur fram kaupmáttarhrun. Stéttar- og verkalýðsfélög heyra ákall síns félagsfólks með ágætum og launafólk er orðið langþreytt á að draga alltaf svartapétur. Launafólk kallar á endurheimt og styrkingu kaupmáttar, réttlátari skiptingu þjóðarauðsins, breyttar áherslur í skattheimtu, velferðarsamfélag þar sem hinir efnameiri leggja meira til samfélagsins og jafnræði ríkir meðal landsmanna. Það má öllum vera ljóst að kjarasamningaviðræður í vetur verða mjög viðkvæmar og launagreiðendur verða að stíga mjög ákveðin skref í átt til launafólks ef þeir ætla ekki að hætta á að hér endi allt í bullandi átökum.
Aðförin að verkalýðsfélögum og samtakamætti þeirra
Það er einnig áhugavert hvernig sumir stjórnmálamenn og forsvarsmenn samtaka í atvinnulífinu tala um verkalýðspólitík. Þeir vilja draga úr samtakamætti þeirra og baráttu. Segja að forsvarsmenn verkalýðsfélaga séu að reka sína eigin pólitík með prívatskoðunum. Þetta er auðvitað ekki einungis vanþekking heldur lýðskrum, því hlutverk verkalýðsfélaga felst í því að vinna að og vernda áunnin réttindi launafólks, ásamt að taka varðstöðu með velferðarsamfélaginu og gagnrýna þær ákvarðanir stjórnvalda sem bitna á því.
Núna liggur fyrir frumvarp til laga um félagafrelsi á vinnumarkaði en frumvarpið byggir bæði á misskilningi og rangtúlkunum. Hlutverk verkalýðs- og stéttarfélaga er og hefur verið að vinna að bættum kjörum vinnandi fólks og verja réttindi þeirra, halda á lofti bestu leiðum í uppbyggingu velferðarsamfélagsins og veita launagreiðendum og stjórnvöldum aðhald. Þetta frumvarp er til þess hugsað að þagga niður í kröfum launafólks á vinnumarkaði.
Sjálfstæðisflokkurinn og hans meðreiðarsveinar úr kirkju nýfrjálshyggjunnar vilja ekki sterka verkalýðshreyfingu. Augljóslega. Að auki er þeirri reginvitleysu haldið fram í frumvarpinu að á Íslandi gildi ekki félagafrelsi á vinnumarkaði á meðan það er einfaldlega varið í stjórnarskrá. Það er deginum ljósara að umrætt frumvarp, sem Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekenda taka undir með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, er boðað til þess eins að eyðileggja samtakamátt launafólks.
Húsnæðiskreppa
Íslensk stjórnvöld hafa ekki enn markað sér stefnu til framtíðar varðandi húsnæði fyrir tekjulágt fólk á vinnumarkaði. Við búum núna við alvarlega húsnæðiskreppu sem skapast hefur bæði af alvarlegum mistökum í hagstjórn og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Í stað þess að byggja að hluta upp húsnæðismarkað með skilgreindu félagslegu hlutverki, eins og verkamannabústaðakerfið var, hefur yfirvaldið falið verktökum húsnæðismarkaðinn og þar með tapað þeirri stöðu að geta haft stýrandi áhrif á mikilvægustu hagsmuni almennings. Stjórnlaus húsnæðismarkaður sem ekki lýtur regluverki félagslegs stöðugleika er óskapnaður.
Á undanförnum árum hafa heildarsamtök opinberra starfsmanna innan BSRB, ásamt ASÍ, rekið Bjarg íbúðafélag til að vinna gegn þeirri miklu kreppu á leigumarkaði sem margar fjölskyldur búa við. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Bjarg íbúðafélag hefur sannað sig svo um munar, en betur má ef duga skal. Áfram verður unnið með þessa hugmynda- og aðferðafræði og hún höfð að leiðarljósi hjá Bjargi.
Á sama tíma er nauðsynlegt að stjórnvöld skapi regluverk sem tryggi kaupendum og leigjendum fasteigna festu og öryggi þannig að stjórnleysi og græðgi markaðarins og vísitölutrygging húsnæðislána setji fjölskyldur ekki út á guð og gaddinn. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að snúa af leið nýfrjálshyggjunnar og fara að huga að almenningi af alúð og umhyggju – en ekki þjóna einungis þeim sem eiga fjármagnið.
Hlutverk okkar allra er að standa vörð um velferðina.
Höfundur er formaður Sameykis stéttarfélags í almannaþjónustu.