Skriðurnar sem féllu í miklu vatnsveðri um síðustu helgi eru sennilega með óbeinum hætti líka afleiðing góðrar sumartíðar norðanlands. Mjög þurrt var um miðbik sumarsins, hlýtt og sólríkt að auki. Þótt engum úrkomumælingum sé til að dreifa í Kinn eða við Skjálfandaflóa lengur vitum við með ágætri vissu að lítið sem ekkert rigndi á þessum slóðum um 10 til 11 vikna skeið.
Síðustu rigninguna að ráði gerði 14. júní, en leysing úr fjöllum náði sennilega víðast að viðhalda jarðvegsraka eitthvað fram í júlí. Mörgum er enn í minni leysingaflóðin t.d. í Eyjafirði fyrstu dagana í júlí. Þau voru vegna snjóbráðnunar til fjalla samfara þurri og hlýrri sunnanátt. Ekkert rigndi þá.
Þurrasti ágúst í um sextíu ár
Þaðan í frá þornaði jarðvegur í brakandi blíðu sem stóð samfellt fram í september. Sjaldan rigndi og þá lítið í hvert sinn. Þornaði jafnskjótt í rót. Á Akureyri var ágúst sá þurrasti í um 60 ár og kom hann í kjölfar júlímánaðar sem aðeins mældi um þriðjung meðalúrkomu. Samtímis var sólríkt og óvenju hlýtt. Þurrkur háði sprettu en ég veit ekki til þess að neinna mælinga á jarðvegsraka sé aflað norðanlands. Eitt af því sem hlýtur að verða bætt úr! Eins að endurvekja mælingar á Sandi með sjálfvirkri veðurstöð en þar gegnt Björgum, sem er ysti bær í Kinn, voru gerðar vandaðar veðurathuganir um 70 ára skeið eða til 2005.
Ólafur Jónsson ræktunarstjóri segir í tveggja binda verki sínu; Skriðuföll og snjóflóð sem út kom 1957:
„Stundum gerir stórfelld úrfelli, er hleypa fram skriðum á stærri eða minni svæðum, einkum eru áköf úrfelli eftir langvarandi þurrka hættuleg. Þurrkurinn hefur gert jarðveginn gljúpan og samhengislausan. Hann gleypir í sig vatnið eins og svampur, og úrkoman er mjög ör, gefst því enginn tími til að seytla gegnum jarðveginn og leita eðlilegra farvega. Jarðvegurinn verður yfirmettaður af vatni niður að föstu bergi og vatnið seytlar eftir því og gerir það vott og sleipt. Leir næst fasta berginu vöknar og getur orðið flugháll og er þá eins og smurning milli ruðningsins og bergsins.“ (Skriðuföll og snjóflóð I, bls. 62).
Skriðurnar kom mönnum í opna skjöldu
Hin þurra tíð verður óhjákvæmilega að skoðast í samhengi við þann fjölda skriða sem féllu í Útkinn og í Náttfaravíkum s.l. sunnudag (3. október). Þótt á Flateyjarskaga séu víða laus jarðlög og ákafar rigningar ekki svo óalgengar, einkum síðla sumars og að hausti, eru skriður í slíkum mæli og nú óþekktar, a.m.k. í seinni tíð. Þær komu heimafólki algerlega í opna skjöldu. Helst að menn staldri við september 1863 til að finna eitthvað sambærilegt. Sjá samantekt Trausta Jónssonar hér.
Um og upp úr miðjum september fór aðeins að rigna norðanlands einn og einn dag. En magnið var fremur lítið og vafalítið langt frá því að bleyta jarðveg að nokkru marki. Kjördagur Alþings var síðan 25. september. Daginn eftir og fram á mánudag snerist til norðanáttar, kólnaði og snjóaði talsvert niður fyrir miðja hlíðar á Flateyjarskaga. Um tíma einnig í byggð. Áætluð úrkoma þessa tvo daga nam tugum millimetra. Víknafjöllin séð frá Húsavík voru alhvít. Og það óvenju snemma þetta haustið!
Þegar tók að rigna af miklum móð seint á föstudag (1. október), bættist bráðnandi snjórinn við rigninguna sem ég hef metið allt að 200-230 mm samanlagt í Víknafjöllin fram á sunnudag.
Hún er því áleitin sú tilgáta að skriðurnar séu samspil þurrkanna fyrr í sumar og ofsarigninganna 1. til 3. október. Næstu vikur og mánuði munu menn skoða þetta ofan í kjölinn og freista þess að fá gleggri mynd af orsökunum, eins og gögn og þekking leyfir.
Nánast ógjörningur að spá skriðum
Skriðuföll eru þess eðlis að þau koma oftast aftan að okkur. Viðbúnaður er því erfiður og viðbrögð markast því af því sem kalla má „eftir á aðgerðum“. Á Seyðisfirði fer nú fram áhugaverð rauntímavöktun á fjölmörgum þáttum sem einir og sér eða saman geta komið af stað frekari hreyfingum lausra jarðefna. Okkar öfluga ofanflóðafólk stendur vaktina og fróðlegt er að fylgjast með. Það yrðu mikil tíðindi ef sú þekking gæti orðið grunnur að getu til að spá aurskriðum eða hættu á þeim, þá á tilteknum stöðum eða ákveðnum farvegum.
Þekkingin á snjóflóðum er að þessu leytinu orðin meiri og öll viðbrögð fumlausari. Líkindaspár eru þannig gefnar út ef hætt er við að snjóflóð geti fallið á tiltekna vegi svo dæmi sé tekið. Í þessu sambandi er þekking heimamanna ómetanlegt og mikilvægt er að heyra í staðkunnugum. Mat þeirra á aðstæðum skiptir miklu í öllum viðbúnaði þegar ástand ofanflóða er yfirvofandi.