1. Húsnæðisliðurinn langstærstur
Verðbólgan sýnir hversu mikið verðið á dæmigerðum vörum og þjónustu sem heimili landsins neyta hafa hækkað í verði, miðað við sama mánuð ári fyrr. Hagstofan mælir þetta út frá vísitölu neysluverðs, en þar fær hver vöruflokkur mismikið vægi eftir því hversu stór hluti hann er af útgjöldum heimilanna.
Langmesta vægið fær svokallaði húsnæðisliðurinn sem mælir öll húsnæðisgjöld heimilanna, en hann er um þriðjungur vísitölunnar. Þar er innifalið leiguverð húsnæðis og verð á viðhaldi þess, sem og orkukostnaðurinn vegna rafmagns og hita. Einnig er kostnaðurinn við að búa í eigin húsnæði metinn, en sá kostnaður fylgir að einhverju leyti fasteignaverði.
Næststærsti liðurinn í vísitölunni samanstendur svo af mat og drykkjarvörum, en vægi hans er 14,5 prósent. Ferðir og flutningar, sem innihalda rekstur bíla og bensínkostnað þeirra, er svo með tæplega 14 prósenta vægi.
2. Fasteignaverð hefur áhrif
Þar sem húsnæðisliðurinn hefur mikið vægi í neysluverðsvísitölunni hefur fasteignaverð haft töluverð áhrif á verðbólgu í gegnum tíðina, sérstaklega þegar verðhækkanir þar eru miklar. Sú er raunin þessa stundina, en samkvæmt Hagstofu mældist verðbólgan í janúar 5,7 prósent, á meðan hún væri 3,7 prósent ef ekki væri fyrir húsnæðisliðinn.
Húsnæðisliðurinn hefur hins vegar unnið gegn sveiflum í verðbólgunni í sögulegu tilliti, þar sem hann hefur ekki hækkað í takti við aðrar neysluvörur. Ef ekki væri fyrir liðinn hefði verðbólgan á síðustu þremur áratugum sveiflast meira, bæði upp og niður.
3. Húsnæðisliðurinn er mikilvægur hluti af vísitölunni
Þingmenn Framsóknarflokksins og Flokks fólksins hafa nú lagt til að húsnæðisliðurinn yrði fjarlægður úr vísitölu neysluverðs og hafa haldið því fram að hann sé ekki til staðar í verðbólgumælingum annarra landa.
Þetta er hins vegar rangt, önnur lönd mæla einnig kostnaðinn af því að búa í eigin húsnæði, líkt og alþjóðlegir staðlar kveða á um. Aftur á móti eru reikniaðferðirnar til að meta þennan kostnað mismunandi á milli landa, þar sem sum lönd miða við leiguverð og önnur líta fram hjá skammtímasveiflum í fasteignaverði.
4. Gengið býr til sveiflur
Annar stór áhrifaþáttur verðbólgunnar er gengi krónunnar, sem fer eftir trú erlendra fjárfesta og neytenda á íslenska framleiðslu. Eftir því sem krónan er veikari verða erlendir gjaldmiðlar dýrari og þar af leiðandi hækka innfluttar vörur í verði. Þar sem um helmingur af allri neyslu heimilanna er á innfluttum vörum og þjónustu veldur gengisveiking því alla jafna verðbólgu.
Gengisstyrking dregur aftur á móti úr verðbólguþrýstingi, þar sem hún leiðir til þess að innfluttar vörur lækka í verði. Slíkt gerðist á seinni hluta ársins 2016 og fyrri hluta ársins 2017, en þá dró verulega úr innfluttri verðbólgu á meðan gengið styrktist. Ef ekki hefði verið fyrir húsnæðisliðinn hefði verðbólgan verið neikvæð og breyst í verðhjöðnun á þessum tíma.
5. 103 prósenta verðbólga árið 1983
Breytingar í gengi var einmitt drifkraftur óstöðugleika í verðlagi á níunda áratugnum, en þá fór verðbólga í sögulegar hæðir. Í ágúst 1983 mældist verðbólgan í 103 prósentum og hefur hún aldrei verið hærri hérlendis.
Á þessum tíma voru gengisbreytingarnar handstýrðar af stjórnvöldum. Gengið var reglulega látið falla á áttunda og níunda áratugnum til þess að bæta stöðu sjávarútvegsfyrirtækja í landinu, sem hagnast á veikara gengi þar sem fiskurinn varð þá ódýrari í augum útlendinga.
Þessar gengisfellingar leiddu svo til hærra verðs innfluttra vara, en í kjölfar þess kröfðust launþegar hærri launa. Hærri laun þrengdu loks að sjávarútvegsfyrirtækjum, sem leiddi til annarrar gengisfellingar að hálfu stjórnvalda.
Til viðbótar við þessa víxlverkun magnaðist verðbólgan svo enn frekar þar sem verkalýðshreyfingin var óviss um framtíðarverðlag og uppfærði því kröfur sínar með stuttu millibili og tíðum verkföllum. Ekki náðist að binda endi á þennan vítahring fyrr en með Þjóðarsáttinni árið 1990, þegar stjórnvöld, verkalýðsfélög og samtök vinnuveitenda sammæltust um að halda öll að sér höndum til að koma böndum á verðbólguna.
6. Verðtryggingin
Ein afleiðing verðbólguáranna á áttunda áratugnum voru verðtryggð húsnæðislán, sem voru sett á með Ólafslögunum svokölluðu árið 1979. Á þessum tíma höfðu magnast áhyggjur yfir því að verðbólgan væri byrjuð að grafa undan fjármálakerfinu og möguleikum þess til að fjármagna atvinnulíf landsmanna, þar sem lánin svo til brunnu upp í verðbólgunni.
Með verðtryggingunni eru lánin tengd vísitölu neysluverðs og hækka þau því í takt við verðbólgu. Slíkt fyrirkomulag eyðir óvissu bankanna um að virði útlána þeirra hverfi ef verðbólgan er langt umfram væntingar og gátu þeir því boðið upp á lán með lægri vöxtum. Heimilin högnuðust einnig á fyrirkomulaginu, þar sem lægri vextir draga úr greiðslubyrði lánanna.
Verðtrygging er almennari á Íslandi en víðast annars staðar en hún er þó þekkt í mörgum löndum í einhverjum mæli. Það eru helst lönd sem búa við óstöðugan, lítinn gjaldmiðil og mikla verðbólgu sem búa við verðtryggingu í miklum mæli. Segja má að verðtryggingin sé alla jafna hagkvæmari eftir því sem verðbólga og óvissa er meiri.
7. Stórauknar skuldir eftir fjármálahrunið
Í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 versnaði þó skuldastaða heimila sem höfðu tekið verðtryggð húsnæðislán til muna, þar sem verðlag hækkaði hratt vegna gengisbreytinga. Í janúar árið 2009 náði verðbólgan hámarki og mældist þá í 18,6 prósentum, en hún komst ekki niður fyrir tíu prósent fyrr en í október sama ár.
Á sama tíma dróst eftirspurnin eftir nýjum húsnæðislánum hratt saman og stýrivextir voru hækkaðir til þess að koma böndum á verðbólguna. Þetta tvennt leiddi til lægra fasteignaverðs, en samkvæmt Þjóðskrá lækkaði það um 13 prósent á milli októbermánaða 2008 og 2009.
Þessi lækkun, til viðbótar við mikla verðbólgu, leiddi til þess að skuldir vegna verðtryggðra húsnæðislána voru í sumum tilfellum orðnar mun meiri en markaðsvirði fasteignanna sem tekið var lán fyrir.
8. Mun færri sem taka verðtryggð lán núna
Vegna óvissu um verðbólgu og hárra vaxta á húsnæðislánum héldu þó verðtryggð lán vinsældum sínum eftir efnahagsáfallið, en á árunum 2010-2018 var meirihluti útlána bankakerfisins til heimila verðtryggður.
Á síðustu árum hefur þessi staða hins vegar gjörbreyst, en samhliða lækkandi vöxtum á húsnæðislánum hefur ásóknin í óverðtryggð húsnæðislán aukist til muna. Nú eru einungis 30 prósent allra útlána til heimila verðtryggð, og hefur það hlutfall aldrei verið jafnlágt á þessari öld. Þrátt fyrir það er virði útistandandi verðtryggðra húsnæðislána enn töluvert, en samkvæmt Seðlabankanum nam það 906 milljörðum króna í nóvember í fyrra.
9. Margar ástæður fyrir verðbólgunni núna
Eftir að heimsfaraldurinn braust út hefur verðbólga aukist töluvert hérlendis, eða úr tveimur prósentum í tæp sex prósent. Í byrjun faraldursins var hún fyrst og fremst vegna verðhækkana á innfluttum vörum, þar sem gengi krónunnar hafði veikst töluvert. Einnig hækkaði verðið á ýmsum vörum innanlands sem meiri eftirspurn varð eftir vegna faraldursins, líkt og matvöru og raftæki.
Eftir sem leið á faraldurinn fór þó gengið að styrkjast hægt aftur og dró því úr verðhækkunum á ýmsum innfluttum neysluvörum. Hins vegar byrjaði húsnæðisliðurinn að hafa meiri áhrif á verðbólguna, þar sem fasteignaverð hækkaði hratt hérlendis í kjölfar vaxtalækkana Seðlabankans.
Á síðustu mánuðum hefur vægi bensínverðs í verðbólgunni svo aukist töluvert, en heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði mikið í fyrra sökum mikillar eftirspurnar og lítils framboðs af orku.
10. 2,5 prósenta verðbólgumarkmið
Eitt af markmiðum Seðlabankans er að halda stöðugu verðlagi, en frá árinu 2001 hefur bankinn haft það lögbundna markmið að halda verðbólgu í 2,5 prósentum. Mest notaða tæki bankans til að stýra verðlagsþróun eru stýrivextir, sem segja til um kjörin sem bankar landsins geta fjármagnað sig með.
Með hærri stýrivöxtum versna fjármögnunarkjör banka og þurfa þeir því venjulega að hækka vexti á lánunum sem þeir gefa út. Með hærri vöxtum minnkar eftirspurnin eftir nýjum lánum og því dregur venjulega úr virkni í efnahagslífinu vegna þess. Sömuleiðis getur hærra vaxtastig aukið áhuga erlendra fjárfesta á íslensku krónunni, en með því styrkist gengi hennar. Báðir þessir þættir leiða til lægra verðlags, svo viðbúið er að verðbólgan minnki þegar stýrivextir hækka.