Fyrirhugaðar endurbætur Stakksbergs ehf. á kísilverksmiðjunni í Helguvík eru að mati Skipulagsstofnunar líklegar til að fækka tilvikum sem ljósbogaofn er stöðvaður og stytta tíma sem hann keyrir á skertu afli. Þá eru áform um að losa útblástur um skorsteina en ekki um rjáfur síuhúss, sem bætt var við vegna aðfinnslu Umhverfisstofnunar, líkleg til að leiða til mun betri dreifingar útblástursefna, stöðugri reksturs verksmiðjunnar og stuðla að bættum loftgæðum frá því sem áður var.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar á endanlegri matsskýrslu Stakksbergs. Stofnunin telur líkur á að íbúar í nágrenninu komi til með að verða varir við lykt frá starfseminni en tíðni tilvika og styrkur lyktar verði minni en á fyrri rekstrartíma. „Að því gefnu að innleiðing endurbóta verði farsæl“ telur stofnunin að áhrif við rekstur 1. áfanga kísilversins á loftgæði, þ.e. eins ljósbogaofns, verði „nokkuð neikvæð“ en áhrif fullrar framleiðslu fjögurra ofna líkt og stefnt er að „talsvert neikvæð“.
Matsskýrslan var lögð fram í byrjun síðasta sumars og álit Skipulagsstofnunar var birt á gamlársdag. Þar með er mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna lokið og Stakksberg, sem er í eigu Arion banka, getur undirbúið næstu skref á þeirri vegferð að gera endurbætur á verksmiðjunni, endurræsa hana og stækka. Yfirlýst markmið bankans er svo að selja kísilverið.
Hönnun verksmiðjunnar hefur verið breytt frá því að Stakksberg lagði fram tillögu að matsáætlun árið 2019 og frummatsskýrslu árið 2020 og rúmast nú allar nýjar byggingar innan heimilda gildandi deiliskipulags að mati félagsins.
Kísilverksmiðjan í Helguvík er þyrnir í augum margra íbúa Reykjanesbæjar sem og bæjarstjórnar sem ítrekað hefur lýst yfir andstöðu sinni við endurræsingu hennar. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Kjarnann árið 2020 að nýtt deiliskipulag væri forsenda þess að enduruppbyggingin í Helguvík gæti átt sér stað og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefði vald til að hafna eða samþykkja tillögu að deiliskipulagi. Í desember síðastliðnum sögðust bæjarfulltrúar sem Kjarninn ræddi við enn á þeirri skoðun að ekki ætti að hefja rekstur versins á ný.
353 athugasemdir
Frummatsskýrsla Stakksbergs var lögð fram árið 2020 og fór þá í hefðbundið auglýsingaferli hjá Skipulagsstofnun. Auk umsagna stofnanna bárust fjölmargar athugasemdir frá einstaklingum og félagasamtökum um áformin sem þar voru kynnt eða 353 talsins. Langflestar voru þær frá íbúum Reykjanesbæjar og á einn veg: Þeir vilja verksmiðjuna burt.
Skýringarnar eru augljósar. Reynsla þeirra af kísilveri skammt frá íbúabyggð var slæm.
Kísilverksmiðja Sameinaðs Sílikons hf. í Helguvík var gangsett árið 2016 en þá hafði fyrsti áfangi verið reistur með einum ljósbogaofni. Á meðan hún var í rekstri urðu íbúar í nágrenninu varir við ólykt, reyk og fundu fyrir óþægindum sem Skipulagsstofnun telur að rekja megi til þess að ítrekað þurfti að stöðva ofninn sem varð til þess að hann var oft keyrður á lágu afli.
Umhverfisstofnun gerði ítrekað athugasemdir við reksturinn sem ekki var brugðist við með fullnægjandi hætti. 1. september 2017, tæpu ári eftir að verið var ræst, stöðvaði Umhverfisstofnun því reksturinn. Í framhaldi af því vann Sameinað Sílikon hf. að áætlun um umbætur. Þær urðu ekki að veruleika og fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2018. Í kjölfarið eignaðist Arion banki eignir þrotabúsins.
Ári síðar lagði dótturfélag bankans, Stakksberg, fram matsáætlun að endurbótum, stækkun og endurræsingu verksmiðjunnar. Stefnt er að verksmiðju með fjórum ljósbogaofnum, eins og þeim ofni sem þegar er uppsettur, og allt að 100.000 tonna framleiðslugetu á kísli á ári. Byggja á verksmiðjuna upp í fjórum áföngum.
Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir endurbótum á þeirri verksmiðju sem hefur þegar risið. Þær byggja meðal annars á úrbótaáætlun Sameinaðs Sílikons hf. auk skilyrða sem Umhverfisstofnun setti við samþykkt hennar. Sem dæmi er nú fyrirhugað að reisa 52 metra háan skorstein í stað þess að útblástur fari út um rjáfur síuhúss. Þá er fyrirhugað að skipta um fóðringu í ofni og setja upp nýtt rykhreinsivirki. Jafnframt er í úrbótaáætlun lögð áhersla á þjálfun starfsfólks.
Í öðrum áfanga yrði núverandi ofnhús stækkað en nýtt byggt fyrir þann þriðja og fjórða. Annar áfangi myndi samnýta skorstein með þeim fyrsta en gert er ráð fyrir að byggja samskonar skorstein fyrir síðari áfanga. Hverjum ofni sem myndi bætast við fylgja ýmis mannvirki, eins og síuhús og kælivirki. Nokkur ár geta liðið á milli áfanga en Stakksberg áformar að reisa annan áfanga þegar stöðugleiki er kominn á rekstur þess fyrsta. Segir félagið að staða á mörkuðum og möguleikar á fjármögnun muni ráða því hvenær verði ráðist í þriðja og fjórða áfanga.
Helmingi meira af kolum þarf
Efni sem losna við kísilframleiðslu eru helst brennisteinsdíoxíð (SO2), köfnunarefnisoxíð (NOx), kolmónoxíð (CO), svifryk (PM10/2,5) og PAH-efni. Einnig eru losaðir þungmálmar og rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC). Í háum styrk geta mörg þessara efna haft áhrif á slímhúð og öndunarfæri.
Framleiðslan veldur einnig losun koldíoxíðs vegna bruna á eldsneyti af jarðefnauppruna sem nemur allt að 100.000 tonnum á ári miðað við einn ljósbogaofn og allt að 400.000 tonnum á ári miðað við fjóra ofna. Í matsskýrslu Stakksbergs til Skipulagsstofnunar síðasta vor var rangt farið með magn kola sem þarf til starfseminnar. Í henni sagði að ársnotkun yrði um 80.000 tonn á ári fyrir fullbyggða verksmiðju en ráðgerð notkun væri hins vegar um 155.000 tonn á ári. Jafnframt munu berast um tvö kíló af kvikasilfri frá fullbyggðri verksmiðju en ekki 1,5 kíló. Stakksberg kom sjálft þessum leiðréttingum á framfæri við stofnunina.
Segir mat Stakksberg „sannfærandi“
Skipulagsstofnun þykir mat Stakksbergs á dreifingu og styrk helstu mengunarefna „sannfærandi“ og telur að við stöðugan rekstur „megi gera ráð fyrir“ að styrkur efnanna verði undir viðmiðunarmörkum.
Losun rokgjarnra lífrænna efna (VOC-efna) og áhrif þeirra á loftgæði eru þó óvissuþáttur, bendir stofnunin á. Talið er að VOC-efni hafi orsakað þá lyktarmengun og óþægindi sem íbúar fundu fyrir á fyrri rekstrartíma en „ekki liggur fyrir í hve miklum styrk einstök VOC-efni valda lyktarmengun“.
Fyrirhugaðar endurbætur á verksmiðjunni eru „líklegar til að draga úr losun VOC-efna og bæta dreifingu þeirra,“ segir í álitinu. „Fyrirliggjandi gögn benda eindregið til þess að styrkur VOC-efna lækki umtalsvert við rekstur 1. áfanga samanborið við fyrri rekstrartíma.“ Að því gefnu að innleiðing endurbóta verði farsæl telur Skipulagsstofnun að áhrif við rekstur eins ljósbogaofns á loftgæði verði nokkuð neikvæð og að áhrif fullrar framleiðslu geti verið talsvert neikvæð.
Áhyggjur íbúanna
Í fjölda athugasemda almennings við frummatsskýrslu Stakksbergs komu fram áhyggjur af áhrifum á lykt og heilsu með vísan til fyrri rekstrartíma. Að mati Skipulagsstofnunar eru líkur á að fólk komi til með að hafa áhyggjur af áhrifum starfseminnar á heilsufar sitt í ljósi fyrri reynslu. „Slíkar áhyggjur geta vaknað óháð því hvort um raunveruleg áhrif á heilsu sé um að ræða,“ segir í álitinu. „Í ljósi nálægðar við þéttbýlið, og ekki síður forsögunnar, er mikilvægt að upplýsingar um loftgæði verði aðgengilegar og vel haldið utan um kvartanir vegna lyktarmengunar.“
Stakksberg hyggst halda úti vefsíðu með niðurstöðum vöktunar og upplýsingum um frávik. Einnig verður þar hægt að leggja fram nafnlausar ábendingar um lyktarmengun sem fylgt verður eftir með mælingum á VOC-efnum.
Mannvirki verði meira áberandi en myndir gefa til kynna
Auk framangreindra áhrifa telur Skipulagsstofnun að helstu áhrif kísilverksmiðjunnar muni felast í áhrifum á landslag og ásýnd sem og loftslagsáhrifum. Með breyttri hönnun 1. áfanga með háum skorsteini verður hún meira áberandi. Við uppbyggingu frekari áfanga á hún eftir að verða enn sýnilegri frá þéttbýli og þjóðveginum frá Leifsstöð. Að mati Skipulagsstofnunar koma ljósmyndir í matsskýrslu ekki fyllilega til skila umfangi mannvirkja og að þau verði meira áberandi en myndirnar gefa til kynna. Skipulagsstofnun telur því að fullbyggð verksmiðja komi til með að hafa verulega neikvæð áhrif á landslag og ásýnd.
Losun jafngildir 11 prósent af heildarlosnun Íslands
Starfsemi verksmiðjunnar fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir og losun verksmiðjunnar á gróðurhúsalofttegundum er því ekki losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Starfsemin mun engu að síður losa mikið af gróðurhúsalofttegundum eða um 520 kt CO2-ígildi á ári miðað við fulla framleiðslu sem jafngildir um 11 prósent af heildarlosun Íslands árið 2019.
Vegna óvissu um áhrif losunar VOC-efna á loftgæði og samfélag telur Skipulagsstofnun að eingöngu eigi að veita heimild fyrir 1. áfanga verksmiðjunnar. Heimild fyrir uppbyggingu og rekstri síðari áfangi verði veitt þegar reynsla er komin á rekstur eins ljósbogaofns.
Byggingar rúmast innan deiliskipulags
Margt fór úrskeiðis í rekstri kísilversins á árunum 2016-17. Vandræðin byrjuðu þó áður en kveikt var á ljósbogaofninum. Er byggingarnar í Helguvík risu kom í ljós að þær samræmdust ekki því deiliskipulagi sem auglýst hafði verið og kynnt almenningi m.a. í íbúakosningu. Húsin voru hærri og meiri um sig en leyfilegt var og þá voru hlutar þeirra utan byggingarreitsins að mati Skipulagsstofnunar.
Stakksberg óskaði eftir því við Reykjanesbæ að deiliskipulaginu yrði breytt til samræmis við byggingar sem þegar hefðu verið byggðar og að sú vinna færi fram á sama tíma og unnið væri að mati á umhverfisáhrifum. Drög að skipulags- og matslýsingu voru send á Reykjanesbæ í september 2018 og í janúar 2019 samþykkti bærinn að Stakksberg gæti hafið vinnu við undirbúning skipulagsbreytingar.
Á fundi í júní 2019 taldi umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar ekki tímabært að auglýsa tillögu að deiliskipulagsbreytingu fyrr en mati á umhverfisáhrifum væri lokið. „Áformaðar endurbætur á kísilverksmiðjunni rúmast hins vegar alveg innan gildandi deiliskipulags og kalla þær því einar og sér ekki á breytingu á skipulaginu,“ segir í matsskýrslu Stakksbergs, en þetta er breyting frá því á fyrri stigum umhverfismatsins. „Eingöngu þarf því að breyta deiliskipulagi til að samræma það núverandi mannvirkjum sem reist voru á grundvelli byggingarleyfa útgefnum af Reykjanesbæ, í samræmi við framangreindar athugasemdir Skipulagsstofnunar.“
Í skýrslunni kemur einnig fram að þótt ný mannvirki verði í samræmi við gildandi deiliskipulag þurfi að breyta því fyrir útgáfu leyfa til endurbóta á sumum núverandi mannvirkjum. „Sú breyting verður kynnt og færi gefin á gerð athugasemda í samræmi við ákvæði skipulagslaga,“ segir Stakksberg í skýrslunni.
Nú þegar mati á umhverfisáhrifum hinna fyrirhuguðu framkvæmda er lokið mun félagið sækja um byggingarleyfi fyrir ný mannvirki og endurskoðun á starfsleyfi verður auglýst.