Samninganefndir skiluðu yfirförnum samningstexta lagalega bindandi loftslagssamkomulags í París í dag. Textinn er enn ekki tilbúinn því enn á eftir að taka afstöðu til fjölmargra álitamála. Það verður gert í svokallaðri ráðherraviku sem hefst á mánudag, þar sem umhverfis- og utanríkisráðherrar aðildarríkjanna setjast að samningaborðinu.
Ráðstefnan hófst síðastliðinn mánudag með fordæmalausum leiðtogafundi 150 ríkja heimsins. Þar voru saman komnir stjórnmálaleiðtogar lang flestra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ávarpaði leiðtogafundinn og sagðist vona að hægt væri að ná samkomulagi á ráðstefnunni. „Áhrif loftslagsbreytinga eru þegar sjáanleg á Íslandi. Jöklarnir okkar bráðna. […] Ísland verður lifandi kennslustofa um áhrif loftslagsbreytinga. Ef ekkert verður að gert mun ísinn á Íslandi hverfa að miklu leyti á næstu 100 árum,“ sagði Sigmundur í erindi sínu.
Sigmundur Davíð nefndi einnig vilja Íslendinga til að miðla þekkingu á virkjun jarðvarma víðar í heiminum. Forsætisráðherra var svo í símaviðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 á fimmtudag þar sem hann sagði það hafa staðið uppúr hversu áhugasamir leiðtogar heimsins væru um virkjun jarðvarma.
Frakkar, sem veita ráðstefnunni forsæti, óskuðu eftir því áður en sendinefndir ríkja heimsins komu saman á mánudaginn að búið væri að útkljá helstu álitamál í samningstextanum áður en vikan væri úti. Samninganefndir voru enn að störfum í gærkvöldi en samningsdrögin sem búið var að rita áður en ráðstefnan hófst eru smekkfull af hornklofum þar sem listuð eru ágreiningsmál eða mismunandi kostir fyrir hvert vandamál fyrir sig.
Flest þróuð ríki heims komu til Parísar með nokkur vel mótuð áhersluatriði. Eitt þeirra er að löggilda markmið allra aðildarríkjanna. Annað er að sannfæra þróunarríki að fjármagnsflæðið muni duga til þess að vanþróuð lönd geti öðlast nýjustu tækni í endurnýjanlegri orkuframleiðslu hratt. Mestur af þessum peningum mun að öllum líkindum koma úr einkageiranum. Þriðja markmiðið er að fylgst verði vel með því hvort markmiðunum sé fylgt eftir.
Ríku löndin hafa þó verið gagnrýnd fyrir að hafa lagt fyrir ráðstefnuna of hófleg markmið svo útlit er fyrir að markmið Sameinuðu þjóðanna um að hlýnun jarðar haldist innan við tvær gráður náist ekki. Á móti er bent á að með átaki aðila á lægra stjórnsýslustigi; borga, sveitarfélaga og fyrirtækja er mögulegt að ná markmiðinu. Stefnumótun ríkjanna verði þá að stuðla að slíku átaki.
Jafnrétti ríkja
Í samninganefndunum hefur einnig verið tekist á um eftirlitskröfur og eftirfylgni með markmiðunum. Vestræn ríki vilja að á fimm ára fresti verði gerð ítarleg úttekt á því hvernig ríkjum heims tekst til við skuldbindingarnar. Þau ríki sem lengst af hafa verið kölluð þróunarríki en eru nú á fleygiferð framávið eru mótfallin svo ítarlegri eftirfylgni. Hér er helst talað um Kína, Indland, Mið-Austurlönd og ríki Suður-Ameríku. Þau vilja heldur að tekin verði umræða um stöðu markmiðanna að einhverjum tíma liðnum, án þess að kvaðir liggi við þeim ríkjum sem standa sig illa.
Veltur þessi umræða helst á jafnréttisrökum og mismunandi sjónarmiðum hvað þau varðar. The Guardian hefur eftir einum fulltrúa sem situr samningsfundina að þetta fjalli um að allir spili samkvæmt sömu reglum á sama leikvelli. „Það er mikilvæg meginregla,“ lætur hann hafa eftir sér. Annar fulltrúi segist ekki vilja kefisvæða of hóflegan metnað. Því sé mikilvægt að gerð verði úttekt á fimm ára fresti.
Þessi tillaga gæti vel orðið það mál sem viðræðurnar í París stranda á. Þegar samskonar viðræður fóru fram í Kaupmannahöfn fyrir sex árum strönduðu viðræður á svipuðu jafnréttismáli milli ríkjanna. Fréttaskýrendur eru þó sammála að búið sé að leysa stærstu vandamál ráðstefnunnar í Kaupmannahöfn með því að óska eftir markmiðum hvers ríkis fyrir sig og snúa þannig valdinu á hvolf.
Eitt þeirra atriða sem samþykkt voru í Kaupmannahöfn var að ríkari lönd heimsins myndu veita þróunarríkjum aðstoð í formi 100 milljarða dollara til ársins 2020. Efnahags- og framfarastofnunin hefur, ásamt öðrum alþjóðastofnunum, sýnt fram á að peningaflæðið sé þegar orðið nægilegt til að hægt sé að uppfylla loforðið árið 2020.
Megnið af þessum peningum munu koma úr einkageiranum auk þess að þróunarsjóðir alþjóðastofnanna muni leggja til fé. Ísland ætlar að leggja fram eina milljón Bandaríkjadala í Græna loftslagssjóðinn. Á gengi dagsins í dag eru það rúmlega 135 milljónir íslenskra króna.
Gagnrýnendur hafa haldið því fram að hluti þessara peninga sem ríki heimsins veita í loftslagssjóði sé tekinn úr öðrum þróunaraðstoðarverkefnum. Útlit er fyrir að peningamálin muni verða annar steinn í götu lagalega bindandi samkomulags á ráðstefnunni í París.
Ítarlega var fjallað um samningshorfur og hvað þarf að gerast svo samningur náist í þættinum Þukl í Hlaðvarpi Kjarnans í síðasta mánuði. Þátturinn er helgaður loftslagsmálum í tengslum við ráðstefnuna. Þar sagði Auður Ingólfsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur, að brjóta þyrfti múrinn milli norðurs og suðurs. Mikilvægt sé að öll ríki heims vinni saman að markmiðinu án þess að gert sé upp á milli ríkra og fátækra landa.
Ráðherravika í næstu viku
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, mun hitta kollega sína frá aðildarlöndum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í París í næstu viku. Þá verður svokölluð ráðherravika ráðstefnunnar og reynt að setja hnúta á lausa enda samkomulagsins. Það er ein ástæða þess að tími samninganefnda var takmarkaður við daginn í dag, því ráðstefnan er nú hálfnuð og mikilvægt að ráðherrarnir fái tíma til umræðu áður en ráðstefnunni lýkur.
Það er hins vegar hætta á því, vegna þess hversu skammur tími er til stefnu, að samkomulag strandi á atriðum eins og samningstextanum sjálfum. Eins og rakið hefur verið þá eru samningsdrögin smekkfull af hornklofum þar sem listuð eru álitamál við setningar og orðalag. Samninganefndunum tókst ekki að að hreinsa alla hornklofana í síðustu viku. Í Kaupmannahöfn varð þetta eitt af þeim vandamálum sem urðu til þess að lagalega bindandi samkomulag náðist ekki.
Hugi Ólafsson, samningamaður Íslands á ráðstefnunni, lýsti því þannig á kynningarfundi um ráðstefnuna í París í síðasta mánuði að varla væri hægt að leggja nokkurn skilning í samningsdrögin vegna allra þessara hornklofa og fyrirvara. Málið væri gríðarlega flókið og snerti svo mörg málefni að þetta væri í raun óhjákvæmilegt.
Ekki er ólíklegt að ráðstefnan dragist eitthvað á langinn. Samkvæmt útgefinni dagskrá á henni að ljúka á föstudaginn eftir tæpa viku. Það eru hins vegar fordæmi fyrir því að ráðstefnulok frestist um hátt í tvo sólarhringa.