Stefnt er að því að ganga frá ábyrgð og útfærslu „flestra eða allra“ verkefna sóknaráætlunar stjórnvalda í þessum mánuði. Umhverfisráðherra hefur svarað fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum. Svandís bar upp spurningar sínar 7. desember, þegar loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna stóð yfir í París og unnið var að samkomulaginu sem náðist svo í lok ráðstefnunnar. Í svari ráðherra kom fram að ekkert samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila í ferðaþjónustu á Íslandi til þessa.
Svandís var umhverfisráðherra árið 2010 þegar aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum var sett af stað. Sú áætlun er enn í gildi og verður til 2020 þegar skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar renna út. Sóknaráætlun stjórnvalda var svo kynnt í húskynnum Veðurstofunnar í lok nóvember áður en sendinefnd Íslands hélt utan til Parísar. Sóknaráætlunin er hugsuð sem viðbót við aðgerðaáætlunina. Ákveðið var að bíða með frekari útfærslu á eftirfylgni með áætluninni þar til búið væri að fjármagna verkefnin í fjárlögum. Umhverfisráðuneytið mun svo, samkvæmt svari ráðherra, hafa eftirfylgni með verkefnunum 16 í sóknaráætluninni sem lögð verður áhersla á.
Fjölmargir aðilar koma að gerð stefnumörkunar og áætlana í loftslagsmálum hjá umhverfisráðuneytinu. Þar eru hagsmunaaðilar fyrirferðamiklir; Samtök atvinnulífsins og fulltrúar stóriðju og flugfélaga hafa til dæmis reglubundið veitt umsögn um framkvæmd laga um evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir sem Ísland er hluti af í gegnum EES-samstarfið.
Í tengslum við áætlun núverandi stjórnvalda hefur Hafið – öndvegissetur fengið verkefnið að búa til vegvísi um minnkun losunar í sjávarútvegi og drög að slíkum vegvísi liggja þegar fyrir. Hafið er samstarfsverkefni fyrirtækja sem vilja þróa og nýta græna tækni i sjávarútvegi. Bændasamtökin hafa fengið svipað verkefni í landbúnaði en þar er vinnan komin skemmra á veg, segir í svari umhverfisráðherra á Alþingi.
Lítið samráð við ferðaþjónustuna og fyrirtæki í nýsköpun
Ferðaþjónustan hefur ekki átt samstarf um stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda í loftslagsmálum til þessa. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í samtali við Kjarnann að innan geirans hafi reglulega verið litið til loftslagsmálanna þó það hafi ekki verið á formlegum grunni. Hún nefnir fjölda hópferðabíla og bílaleigubíla í því sambandi. Reynt er að draga úr losun þessara ökutækja og í undirbúningi er að leggja til að auknar kvaðir verði settar á losun bílaleigubíla við ráðuneytið. „Ferðaþjónustan á auðvitað mikið undir í þessum málaflokki,“ segir Helga.
Í svari umhverfisráðherra á Alþingi segir að aðeins óformleg samskipti hafi verið milli stjórnvalda og nýsköpunarfyrirtækja um aðgerðir í loftslagsmálum. Oddur Sturluson, verkefnastjóri hjá Icelandic startups, sem rekur meðal annars viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík Energy sem leggur áherslu á nýsköpun í orkuiðnaði, segir nútíma sportafyrirtæki hafa loftslagsmálin í hávegum, hvort sem það er meðvitað eða ekki.
Hvað málaflokkinn varðar þá segir Oddur fyrirtæki í alþjóðlegum verkefnum, sérstaklega í tengslum við málefni Norðurslóða, vera mest áberandi. Flest þeirra eru stofnuð um nýja og hreina orkutækni. Nýsköpun eigi hins vegar ekki aðeins um nýstofnuð fyrirtæki. „Undir nýsköpunarhattinum eru auðvitað ný fyrirtæki en einnig tækifæri fyrir eldri og stærri fyrirtæki til að takast á við þessi verkefni hjá sér. Ég tel brýnt að hvatt sé til nýsköpunar í þessum málum,“ sagði Oddur í samtali við Kjarnann.
Enn óvissa um skuldbindingar Íslands
Ísland sendi loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sameiginlegt markmið með Evrópusambandinu (ESB). Slíkt hafði verið gert áður, til dæmis á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar sem gildir 2020. Eins og Kjarninn greindi frá fyrr í þessum mánuði hefur grundvöllur samstarfsins við ESB ekki verið ákveðinn. Noregur hefur eins og Ísland lýst yfir vilja til að taka þátt í markmiði Evrópusambandsríkja um 40 prósent minni losun árið 2030 miðað við árið 1990.
Í svari umhverfisráðherra segir að ESB hafi „tekið vel í þá málaleitan í bréfi, en ekki hefur verið rætt um hvernig málið verður rætt áfram og hvaða form verður á því.“ Þessi óvissa mun að öllum líkindum skýrast á næstu vikum, samkvæmt svari ráðherra, þegar ríkin ráðast í eftirfylgni við Parísarsamkomulagið. Þess vegna er enn ekki víst hverjar skuldbindingar Íslendinga verða vegna samkomulagsins í París. Íslenskir ráðamenn hafa þó ítrekað fullyrt að losun verði minnkuð um 40 prósent, en aldrei tekið jafn djúpt í árina og til dæmis Norðmenn sem hafa lofað að minnka losun „um að minnsta kosti“ 40 prósent og stefna að kolefnishlutleysi á næstu áratugum.
Samkomulagið í París verður formlega undirritað í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna 22. apríl næstkomandi.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir augljóst að svör ráðherra kalli á framhaldsfyrirspurn. Hvergi komi fram hver áætlunin er og það aðeins rakið hver staðan í málaflokkinum sé núna. „Það er full þörf á aðhaldi með íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að loftslagsmálum,“ segir Svandís og bendir á að það virðist vera sem að frumkvæðið sé ekki hjá stjórnvöldum í málaflokkinum. Ekki sé gott að stefna stjórnvalda í loftslagsmálum sé svo óskýr enda enn óvíst hverjar áherslur íslenskra stjórnvalda séu þegar kemur að viðræðum við ESB.
Spurð hvað henni þætti að betur mætti fara segist Svandís vilja sjá skýrar hvernig eigi að halda á samstarfi stjórnvalda við atvinnulífið, þar sem breytingar þurfa að vera eigi markmið í loftslagsmálum að nást. Þá þykir henni skrýtið að loftslagsmálin séu ekki miðlæg í samgöngumálum á Íslandi, en þar eru mestu tækifærin í minnkun losun Íslendinga sér stað. „Maður hefði búist við að ráðuneytið væri komið lengra,“ segir Svandís.
Hún segir þó ánægjulegt að sjá hversu gott samstarfið sé milli stofnana ríkisins um loftslagsmálin.