Arion banki færði verulega varúðarniðurfærslu á lán til erlendra fyrirtækja í þjónustustarfsemi tengdri olíuleit, í kjölfar erfiðleika á þeim markaði, á síðasta ársfjórðungi ársins 2015. Um er að ræða lán sem bankinn veitti norska félaginu Havila Shipping ASA í júlí 2014 upp á 4,5 milljarða króna. Ekki er tilgreint sérstaklega í ársreikningi Arion banka, sem birtur var í gær, um hversu mikið lánið til Havila var fært niður en þar kemur hins vegar fram að hrein virðisbreyting lána var 3,1 milljarður króna á árinu. Í afkomutilkynningu Arion banka kemur fram að niðurfærslurnar séu að mestu vegna lánsins til Havila og á lánum sem bankinn yfirtók frá AFL –sparisjóði á árinu 2015.
Samkvæmt ársreikningi voru lánin sem komu frá AFLi færð niður á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Um þriggja milljarða króna varúðarniðurfærsla var færð á efnahagsreikning bankans á fjórða ársfjórðungi. Sú niðurfærsla er því að mestu leyti vegna lánsins til Havila og ljóst að bankinn reiknar með miklum afföllum vegna þess.
Lánuðu milljarða til Havila á síðustu tveimur árum
Íslenskir bankar hafa ekki verið mikið í þvi að lána til erlendra fyrirtækja frá hruni, enda bundnir í höftum og að langstærstu leyti fjármagnaðir með innlánum almennings sem færðir voru til þeirra með handafli neyðarlaganna haustið 2008.
Í lok árs 2013 barst hins vegar tilkynning um að Íslandsbanki hefði tekið þátt í rúmlega sjö milljarða króna sambankaláni til Havila. Nokkrum mánuðum síðar tilkynnti Arion banki að hann hefði sömuleiðis lánað norska félaginu umtalsverða fjárhæð, um 4,5 milljarða króna. Óljóst er hvað olli því að norskt félag á markaði sem hafði gengið mjög vel árum saman fóru að leita til íslenskra banka til að fá fjármögnun. Vextir eru að jafnaði lægri í Noregi en hérlendis þar sem norskir bankar geta fjármagnað sig á alþjóðamörkuðum á hagstæðari kjörum en íslenskir bankar.
Havila, sem á 27 skip sem þjónusta olíuiðnaðinn í Norðursjó, hefur verið eitt af leiðandi félögum í geiranum á undanförnum árum. Havila rambar nú á barmi gjaldþrots og er í viðræðum við kröfuhafa sína um endurskipulagningu á skuldum. Félagið færði niður virði skipaflota síns fyrr í þessum mánuði um 21 milljarð króna. Það mun birta ársuppgjör sitt í næstu viku og þá kemur í ljós hvernig rekstur þess gekk á síðasta ári.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið úr um 115 dölum á tunnu í tæpa 32 dali frá sumrinu 2014. Til að vinnsla á olíu í Norðursjó borgi sig er talið að verðið þurfi að vera um 60 dalir á tunnu.
Bankarnir vilj ekki upplýsa um tap á lánum
Íslandsbanki birti ársreikning sinn fyrir árið 2015 á þriðjudag. Þar kom fram að bankinn hefði bókað virðisrýrnun á stöðu sína á lánum til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Ljóst er að sú rýrnun snýr að annars vegar að lánum til Havila og hins vegar til íslenska félagsins Fáfnis Offshore. Í reikningnum kom fram að eitt prósent af útlánasafni bankans var til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Alls voru útlán til viðskiptavina 665,7 milljarðar króna um síðustu áramót og því námu lán til geirans tæpum sjö milljörðum króna. Íslandsbanki vill ekki gefa upp hversu mikið bankinn hefur fært umrædd lán niður. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um stöðu Fáfnis og lán íslenskra banka til Havila á síðustu vikum.
Arion banki vill ekki gefa upp hversu mikið bankinn hefur fært niður lán til Havila. Hann tjáir sig ekki um málefni einstakra viðskiptavina. Í ársreikningi hans segir hins vegar: „Arion banki hefur ekki farið varhluta af því ástandi sem nú ríkir á alþjóðlegum olíumarkaði en bankinn hafði lánað nokkra fjárhæð til þjónustufyrirtækja í þessum iðnaði. Heildarumfang þessara lána var innan við 1% af lánum til viðskiptavina og hefur bankinn fært viðeigandi varúðarniðurfærslu vegna þeirra.“
Útrásin í norska olíuiðnaðinn orðin að pólitísku hitamáli
Útrás íslenskra banka í norska olíuiðnaðinn, og sérstaklega fjárfestingar þeirra og íslenskra lífeyrissjóða í Fáfni og Havila, varð að pólitísku máli í gær þegar Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, gerði hana að umtalsefni á Alþingi. Frosti lýsti yfir áhyggjum sínum af þessari útrás. Það sé stefna þessara banka að fara í aðra útrás og fjárfesta erlendis, meðal annars á meðan öll þjóðin sé í höftum. Þá sé ekki verið að dreifa áhættunni heldur þjappa henni saman, „inn í einhvern geira sem við höfum ekkert mikið vit á, norskan olíuiðnað.“
Hann kallaði í kjölfarið eftir því að Íslandsbanka verði sett ný eigendastefna sem takmarki mjög möguleika bankans til þess að fara í útrás til útlanda. Íslandsbanki sé orðinn alfarið ríkisbanki og gera verði við hann nýjan samning um þetta sem fyrst.